Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 56 . mál.


Sþ.

56. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðist svo:
    Af öllum fasteignum hér á landi sem eigendaskipti verða að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs skal greiða skatt eftir lögum þessum án tillits til þess hvar aðilar að ráðstöfuninni eru búsettir.

2. gr.

    Við bætist ný grein er verði 25. gr., svohljóðandi:
    Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á erfðafjárskatti erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi löggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sömu eignum bæði á Íslandi og erlendis.
    Enn fremur er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga um gagnkvæm upplýsingaskipti og um innheimtu erfðafjárskatts við önnur ríki.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að undanförnu hefur verið unnið að gerð samnings milli Norðurlanda til þess að komast hjá tvísköttun arfs og gjafafjár. Var samningur um þetta efni undirritaður af hálfu ríkisstjórna landanna í Helsinki 12. september 1989, með fyrirvara um gildistöku eftir fullgildingu samningsins í hverju aðildarríkjanna.
    Í gildandi lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, er ekki lagaheimild til þess fyrir ríkisstjórnina að gera skuldbindandi samning um þessi efni, svo sem er t.d. í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með áorðnum breytingum. Er því sýnt að ríkisstjórnin getur ekki fullgilt samninginn án atbeina Alþingis. Í stað þess að leggja samninginn fram til umfjöllunar á Alþingi er sú leið farin í frumvarpi þessu að leggja til að ríkisstjórnin fái heimild til að gera slíka samninga án atbeina Alþingis hverju sinni, enda eru víða um heim í gildi slíkir samningar og ekki ólíklegt að Ísland muni síðar gera slíka samninga við aðrar þjóðir en Norðurlandaþjóðirnar.
    Í 2. mgr. 1. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, er ákvæði um fasteignir til að komast hjá tvísköttun. Ákvæðið felur í sér að Ísland gefur alltaf eftir rétt til skattlagningar fasteignar samkvæmt lögunum, ef búi er skipt erlendis og greiða verður af henni skatt í búskiptaríkinu. Þetta er harla óvenjulegt ákvæði, en var á sínum tíma sett í lög vegna tvísköttunartilvika sem upp höfðu komið í tíð eldri erfðafjárskattslaga og oft á tíðum leitt til óheyrilegrar skattinnheimtu. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur gefið út staðalfyrirmynd að tvísköttunarsamningi varðandi erfðafé og er þar ráðgert að skattlagningarrétturinn verði hjá því ríki þar sem viðkomandi fasteign er án tillits til þess hvar búskipti fara fram. Er ákvæði Norðurlandasamningsins um erfðafjárskatt af fasteignum í samræmi við þessa fyrirmynd.
    Stefnt er að því að aðildarríki Norðurlandasamningsins fullgildi tvísköttunarsamninginn um erfðafjárskatt þannig að honum verði beitt um dánarbú þeirra sem falla frá 1. jan. 1990 og síðar. Þykir því rétt að breyta 2. mgr. 1. gr. núgildandi erfðafjárskattslaga miðað við sömu tímamörk, en þau lagarök, sem bjuggu að baki núgildandi reglu um fasteignir, þykja ekki lengur eiga við þegar fyrir hendi er að tvísköttunarsamningur við aðrar Norðurlandaþjóðir tekur gildi.
    Að öðru leyti þykja ákvæði frumvarpsins ekki þurfa skýringar við.