Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 174 . mál.


Nd.

722. Nefndarálit



um frv. til l. um grunnskóla.

Frá 2. minni hl. menntamálanefndar.



     Frumvarpið var afgreitt til nefndarinnar 4. desember 1990 en var tekið fyrst fyrir til umfjöllunar 11. febrúar 1991. Síðan var það rætt stuttlega á tveimur fundum en skyndilega afgreitt úr nefndinni 20. febrúar sl., þrátt fyrir bókuð andmæli fulltrúa sjálfstæðismanna.
     Við hljótum að lýsa furðu okkar á slíkum vinnubrögðum þar sem að okkar mati var eftir mikil efnisleg vinna við frumvarpið því að hér er um mjög yfirgripsmikið mál að ræða og afar mikilvægt á þjóðfélagslega vísu. Með því að málsmeðferð er með þessum hætti gerir ríkisstjórnin greinilega ekki ráð fyrir samráði við ákveðna stjórnmálaflokka. Slíkt hlýtur að renna stoðum undir þann grun að ríkisstjórnin, og þá einkum menntamálaráðherra, hafi takmarkaðan áhuga á raunverulegum framgangi þessa máls en markmiðið sé öllu fremur að koma frumvarpinu til endanlegrar afgreiðslu fyrir þinglok sem nú eru mjög skammt undan, enda alþingiskosningar á næsta leiti.
     Sjálfstæði skóla er ein aðalforsenda þess að hinu innra starfi þeirra verði sinnt með þeim hætti sem aðalnámsskrá grunnskóla og krafa samtímans gera ráð fyrir. Með tilliti til þessarar staðreyndar og ekki síður með tilliti til laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, hefði mátt ætla að við gerð nýs grunnskólafrumvarps yrði fyrst og fremst tekið mið af þessu og kappkostað að draga sem mest úr miðstýringu í skólakerfinu, færa grunnskólamálefnin enn frekar til sveitarfélaganna og einfalda þannig málsmeðferð og ákvarðanatökur í því augnamiði að styrkja og efla stjórn einstakra skóla. En svo er því miður ekki háttað í fyrirliggjandi grunnskólafrumvarpi. Að vísu segir í athugasemdum með frumvarpinu að eitt aðaleinkenni þess sé valddreifing en annað kemur í ljós þegar grannt er skoðað. Valddreifingin svokallaða virðist þannig fyrst og fremst vera fólgin í því að færa verkefni frá aðalskrifstofu menntamálaráðuneytis til fræðsluskrifstofa. Nú vita allir sem vilja vita að hlutverk fræðsluskrifstofa breyttist með lögum nr. 87/1989 og eru þær nú hreinlega útibú frá ráðuneyti. Það getur því naumast talist valddreifing að færa verkefni frá einni skrifstofu ráðuneytisins til annarrar.
     Á það bera að leggja áherslu að skólastjórnendur og kennarar hafa í flestum tilvikum besta þekkingu á því hvaða leiðir ber að fara í skólastarfi. Meginhlutverk menntamálaráðuneytisins á að vera að leggja stjórnendum og kennurum til upplýsingar en ekki að stjórna störfum þeirra. Ráðuneytið á fyrst og fremst að tengjast heildarstefnumótun og eftirlitshlutverki, enda í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað á Norðurlöndum. Fyrirliggjandi frumvarp er ekki í samræmi við þessi sjónarmið.
     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að vikulegur kennslutími 6 8 ára nemenda sé lengdur úr 22 stundum í 25. Hins vegar er ekki kveðið nákvæmlega á um skiptistundir fyrir þennan aldurshóp í frumvarpinu, en það er nauðsynlegt til þess að unnt hefði verið að leggja kapp á skapandi starf ef ætlunin væri að lengja daglega skólaveru yngstu barnanna. Þá kemur það mjög á óvart að kennslustundamagnið í heild skuli minnkað fyrir 2. 10. bekk samkvæmt frumvarpinu miðað við núgildandi lög, þrátt fyrir verulega aukinn kostnað.
     Í fyrirliggjandi frumvarpi virðist valdsvið skólastjóra skert og ekki er kveðið nægilega skýrt á um áhrif foreldra. Dregið er úr frelsi nemenda og kennara til að velja námsgögn og ákvæði frumvarpsins um einkaskóla og skólagjöld eru allt of fortakslaus. Framkvæmd þessa ákvæðis gæti komið alfarið í veg fyrir starfsemi einkaskóla. Grunnskólafrumvarpinu fylgir engin kostnaðaráætlun en ætla má að með því séu sveitarfélögunum lagðar verulegar fjárhagsbyrðar á herðar sem nemi jafnvel 7 8 milljörðum kr.
     Hér hafa verið nefnd nokkur þeirra atriða sem verulega þýðingu hafa og ekki hefur verið tekið tillit til við afgreiðslu frumvarpsins. Það er enn fremur ljóst að frumvarpið þarf að taka miklu skýrar á öllu samráði við sveitarfélögin því að án samráðs við þau er hæpið að nokkuð verði úr þeim framkvæmdum sem fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir. Löggjafarvaldið hlýtur að verða að taka mið af því hvort lagasetning, eins og sú sem hér er gert ráð fyrir, hafi í raun áhrif til breyttrar og bættrar réttarstöðu.
    Undirritaðir nefndarmenn hafa það miklar athugasemdir að gera við frumvarpið að útilokað er að standa að afgreiðslu þess nú. Því er það tillaga okkar að máli þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar sem taki frumvarpið í heild sinni til endurskoðunar.

Alþingi, 25. febr. 1991.



Sólveig Pétursdóttir,


fundaskr., frsm.

Ragnhildur Helgadóttir.