Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 421 . mál.


Ed.

758. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 9 2. mars 1989, um efnahagsaðgerðir.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     2. mgr. 9. gr. laganna orðist svo:
     Stofna skal hinn 1. apríl 1991 hlutafjárdeild við Byggðastofnun og tekur hún á stofndegi við öllum eignum og skuldbindingum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag. Deildinni má fela að annast eftirlit með hlutafélögum sem Byggðastofnun á aðild að.

2. gr.


     11. gr. laganna orðist svo:
     Stofna skal hinn 1. janúar 1991 atvinnutryggingardeild við Byggðastofnun. Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag og tekur á stofndegi við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Hlutverk deildarinnar er að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar en henni er óheimilt að veita ný lán. Deildinni er heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda eignir sínar. Stjórn Byggðastofnunar er þó óheimilt án samþykkis Ríkisábyrgðasjóðs að breyta skilmálum lána atvinnutryggingardeildar, þar með talið að skuldbreyta þeim, breyta þeim í víkjandi lán, hlutafé eða fella þau niður. Að jafnaði skulu slíkar breytingar á skilmálum vera liður í aðgerðum sem miða að fjárhagslegri endurskipulagningu, meiri háttar skipulagsbreytingum, samruna fyrirtækja og öðru því sem til hagræðingar horfir.

3. gr.


     12. gr. laganna orðist svo:
     Forsætisráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.

4. gr.


     Umboð stjórnar Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar skv. 9. gr. laga nr. 9 2. mars 1989, um efnahagsaðgerðir, fellur niður 1. apríl 1991.

5. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Samkvæmt 11. gr. laga nr. 9 2. mars 1989, um efnahagsaðgerðir, tók atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar við öllum eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina 1. janúar 1991. Samsvarandi ákvæði er hins vegar ekki að finna um Hlutafjársjóð Byggðastofnunar sem stofnað var til með sömu lögum, sbr. 8., 9. og 10. gr. laganna. Hlutafjársjóður Byggðastofnunar hefur nú að mestu lokið upphaflegu hlutverki sínu og er því eðlilegt að fella starfsemi hans undir aðra starfsemi Byggðastofnunar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær meginbreytingar. Annars vegar er lagt til að Hlutafjársjóður Byggðastofnunnar verði felldur undir Byggðastofnun og lúti framvegis stjórn þeirrar stofnunar. Stofnuð verði sjálfstæð hlutafjárdeild sem á stofndegi tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Jafnframt má fela deildinni að annast eftirlit með hlutafélögum sem Byggðastofnun á aðild að. Hins vegar eru í 11. gr. laga um efnahagsaðgerðir, nr. 9/1989, markmið atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar skilgreind nánar og lagt til að stjórn Byggðastofnunar verði að fá samþykki Ríkisábyrgðasjóðs til að breyta skilmálum lána. Ekki er gert ráð fyrir að deildinni verði útvegað nýtt fé til ráðstöfunar í þessum efnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að stofnuð verði sjálfstæð hlutafjárdeild við Byggðastofnun 1. apríl 1991 sem tekur á stofndegi við öllum eignum og skuldbindingum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Eðlilegt er að deildin hafi sjálfstæðan fjárhag vegna fyrri starfsemi Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Einnig má fela deildinni að annast eftirlit með hlutafélögum sem stofnunin á aðild að.

Um 2. gr.


     11. gr. gildandi laga er umorðuð. Hlutverki atvinnutryggingardeildar er nánar lýst, en það er fyrst og fremst að annast innheimtu á skuldabréfaeign Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Jafnframt er lagt til að stjórn Byggðastofnunar geti ekki án samþykkis Ríkisábyrgðasjóðs breytt skilmálum eldri lána. Eðlilegt þykir að Ríkisábyrgðasjóður verði hafður með í ráðum þegar um ráðstafanir sem þessar er að ræða. Ekki er gert ráð fyrir að deildin veiti ný lán eða verði útvegað nýtt fé í því skyni.
     Útlán atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar (Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina) nema nú rúmum 8 milljörðum króna. Stofnfé deildarinnar var talið nema 1.000 milljónum króna, en skv. 6. gr. laga nr. 9/1989 ábyrgist ríkissjóður skuldbindingar Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, nú atvinnutryggingardeildar, og greiði þær ef eignir og tekjur hrökkva ekki til.
     Hafa verður í huga að vaxtamismunur er lítill og að tryggingar fyrir lánum kunna að hluta til að reynast ótryggar, sérstaklega í fiskeldi. Áhætta er mikil og hætt við að ríkissjóður þurfi að leggja henni til fjármuni til að hún geti staðið við skuldbindingar sínar. Því er lagt til að leita verði samþykkis Ríkisábyrgðasjóðs til meiri háttar breytinga og ráðstafana vegna fyrri lána. Líta verður svo á að deildin megi samt sem áður án samþykkis Ríkisábyrgðasjóðs samþykkja nafnbreytingu og breyta tryggingum á lánum versni tryggingar lána ekki.

Um 3. gr.


     Í greininni er lagt til að forsætisráðherra setji reglugerð um framkvæmd laganna. Í gildi eru tvær reglugerðir, annars vegar um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina nr. 463/1988, með síðari breytingum, og hins vegar um Hlutafjársjóð Byggðastofnunar nr. 100/1989. Þessar reglugerðir er nauðsynlegt að endurskoða með tilliti til þeirra breytinga, sem orðið hafa á stöðu sjóðanna og verkefnum.


Um 4. gr.


     Lagt er til að Hlutafjársjóður Byggðastofnunar falli framvegis undir Byggðastofnun og stjórn hennar. Tekið er því fram að umboð stjórnar Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar falli niður á stofndegi hlutafjárdeildar Byggðastofnunar.

Um 5. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.