Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 28 . mál.


Nd.

794. Nefndarálit



um frv. til l. um mannanöfn.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Drífu Pálsdóttur, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Hallgrím Snorrason hagstofustjóra, Skúla Guðmundsson, skrifstofustjóra þjóðskrár, Guðrúnu Kvaran, ritstjóra Orðabókar Háskóla Íslands, og Kristján Árnason, formann Íslenskrar málnefndar.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingartillögur nefndarinnar byggjast einkum á tillögum sem dómsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands lögðu sameiginlega fyrir nefndina. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma. Þær breytingar, sem nefndin gerir tillögu um, eru eftirfarandi:
     Við 7. gr. Breytingin er við 3. mgr. og er tvíþætt: Í fyrsta lagi er breytt hinum almennu skilyrðum til nafnbreytinga og miðað við að hægt sé að leyfa manni nafnbreytingu ef gildar ástæður mæli með því. Í frumvarpinu er einnig ákvæði þess efnis að leyfa megi nafnbreytingu ef telja verður að eiginnafn hlutaðeigandi sé honum til ama. Nefndin er þeirrar skoðunar að slíkt tilvik geti verið fullgild ástæða fyrir nafnbreytingu en telur ekki ástæðu til að geta þess sérstaklega í lögunum. Í öðru lagi er sett nýtt ákvæði um hvernig standa skuli að nafnbreytingu þegar breyting hefur orðið á forsjá barns eftir að því var gefið nafn. Miðað er við að leitað sé samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór við fyrri nafngjöf áður en ákvörðun er tekin um nafnbreytingu. Þótt samþykki þess foreldris liggi ekki fyrir getur dómsmálaráðuneytið eigi að síður heimilað nafnbreytingu ef hagsmunir barns eða sérstakar ástæður mæla með því. Tiltekið er að breytingar samkvæmt málsgreininni megi einungis heimila einu sinni nema sérstaklega standi á.
     Við 12. gr. Breytingin varðar 2. mgr. er kveður á um að dómsmálaráðuneytið geti heimilað að feðrað barn sé kennt til stjúpforeldris. Sett eru ítarlegri ákvæði um málsmeðferð en fyrir voru í frumvarpinu.
     Við 16. gr. Til samræmis við breytingu á 7. gr. er fellt brott að heimilt sé að breyta kenninafni manns ef telja verður það sé honum til ama. Í staðinn er, líkt og í 7. gr. um breytingar á eiginnöfnum, miðað við að gildar ástæður mæli með breytingunni og getur þá ami af nafni verið ein þeirra.
     Við 23. gr. Breytingin varðar málsmeðferð þegar barni er ekki gefið nafn innan þess tíma sem lögin tiltaka. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að úrskurður um þvingunarúrræði (dagsektir) sé á hendi dómsmálaráðuneytisins í þeim tilvikum þegar knýja þarf forsjármann eða forsjármenn til að gefa barni nafn. Eftir viðræður við fulltrúa Hagstofu Íslands og dómsmálaráðuneytisins hefur niðurstaðan orðið sú að þetta þvingunarúræði verði á hendi Hagstofunnar. Miðað er við að ef forsjármaður eða forsjármenn barns sinna ekki áskorun innan mánaðar og tilgreina ekki gildar ástæður fyrir drætti á nafngjöf sé Hagstofunni heimilt, að undangegninni skriflegri áskorun, að leggja dagsektir allt að 1.000 kr. á forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn.
     Bætt er nýrri grein við frumvarpið er varðar samninga við önnur ríki. Er ríkisstjórninni veitt heimild til að að gera samninga við önnur ríki um mörkin milli íslenskrar og erlendrar mannanafnalöggjafar. Jafnframt er dómsmálaráðherra heimilt að kveða á með reglugerð um mörkin milli íslenskrar löggjafar um mannanöfn og löggjafar annarra Norðurlandaþjóða á því sviði.

Alþingi, 4. mars 1991.



Ragnar Arnalds,


form., frsm.

Sólveig Pétursdóttir,


fundaskr.

Árni Gunnarsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Ragnhildur Helgadóttir.


Guðmundur G. Þórarinsson.