Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 69 . mál.


Nd.

876. Nefndarálit



um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá meiri hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og leggur meiri hl. nefndarinnar til að það verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Breytingartillaga meiri hl. nefndarinnar varðar 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins um skipan kærunefndar jafnréttismála. Í meðferð efri deildar var skipan kærunefndar breytt frá frumvarpinu eins og það var lagt fram. Frumvarpið gerði ráð fyrir að nefndarmenn væru þrír og að Hæstiréttur tilnefndi einn, er væri jafnframt formaður, Kvenréttindafélag Íslands tilnefndi einn og félagsmálaráðherra skipaði einn án tilnefningar. Efri deild breytti skipan kærunefndar á þann veg að Hæstiréttur tilnefndi einn, félagsmálaráðherra skipaði tvo án tilnefningar og að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefndu einn nefndarmann hvort. Framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs hefur mælt gegn þessari breytingu efri deildar. Jafnframt hafa Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna lýst andstöðu við breytingar efri deildar. Í þessu sambandi má á það benda að óeðlilegt er að VSÍ og ASÍ eigi fasta fulltrúa í kærunefnd en ekki t.d. BSRB eða BHMR, ekki síst í ljósi þess að um 90% af öllum kærum, sem ráðið fær til meðferðar, eru frá opinberum starfsmönnum eða bankamönnum. Kærur, sem tengjast almenna vinnumarkaðinum, eru mjög fáar. Á það má einnig benda að með breyttri skipan kærunefndar samkvæmt afgreiðslu efri deildar líkist kærunefnd orðið allmikið Jafnréttisráði og því vaknar sú spurning hvort aðgreiningin í Jafnréttisráð og kærunefnd sé ekki þar með orðin óþörf.
    Með hliðsjón að þeim deilum, sem ríkja um skipan kærunefndar, telur meiri hl. nefndarinnar heppilegast að engin félagasamtök eigi aðild að kærunefnd heldur verði nefndin skipuð tveimur lögfræðingum tilnefndum af Hæstarétti og einum tilnefndum af félagsmálaráðherra. Meiri hl. telur hins vegar jafnframt eðlilegt að þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skuli kærunefnd leita umsagnar frá heildarsamtökum launþega og viðsemjendum þeirra.

Alþingi, 11. mars 1991.



Rannveig Guðmundsdóttir,


form., frsm.

Guðrún Helgadóttir,


fundaskr.

Jón Kristjánsson.


Geir H. Haarde,


með fyrirvara.

Eggert Haukdal,


með fyrirvara.