Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 174 . mál.


Ed.

1119. Frumvarp til laga



um grunnskóla.

(Eftir eina umr. í Nd., 20. mars.)



    Samhljóða þskj. 1103 með þessum breytingum:

    26. gr. hljóðar svo:
    Sveitarstjórnir ákveða í samráði við hlutaðeigandi skólanefnd hvaða sérfræðingar skuli annast hönnun skólabygginga, þ.e. undirbúningsvinnu og áætlanagerð, þar með gerð uppdrátta.
     Tillöguuppdrættir að gerð skólamannvirkja skulu kynntir opinberlega í viðkomandi skólahverfi. Fulltrúar skólastjóra og kennara skulu vera með í ráðum við hönnun skólamannvirkja og fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hvað varðar aðstöðu til heilsugæslu.
     Áður en framkvæmdir hefjast skal leitað eftir samþykki menntamálaráðuneytisins fyrir viðkomandi skólamannvirki.
    Skólanefnd ákveður nafn skóla að höfðu samráði við menntamálaráðuneytið.

    Ákvæði til bráðabirgða hljóða svo:
    Ákvæði 46. gr. um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemenda komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.
     Ákvæði 75. gr. um hámarksfjölda nemenda í 4. 10. bekk komi til framkvæmda á næstu þremur árum þannig að miðað verði við hámarkið 29 nemendur skólaárið 1991 92 og hámarkið 28 nemendur skólaárið 1992 93. Ákvæði 75. gr. um fjölda nemenda í 1. 3. bekk komi til framkvæmda á næstu þremur árum þannig að skólaárið 1991 92 verði miðað við hámark 22 nemendur í 1. og 2. bekk og skólaárið 1992 93 verði miðað við hámark 22 nemendur í 2. 3. bekk en 18 nemendur í 1. bekk.
     Ákvæði 35. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofu komi til framkvæmda á næstu fimm árum frá gildistöku laganna samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni.
     Stefnt skal að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu tíu árum frá gildistöku laganna samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt verði á því árabili jafnt og þétt aukið við kennslutíma grunnskólanemenda þannig að við lok tímabilsins verði vikulegur stundafjöldi í samræmi við það sem segir í 46. gr., skóladagur samfelldur og nemendur eigi kost á skólamáltíðum.
     Ákvæði 4. gr. um málsverði á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.
     Til viðbótar því sem kveðið er á um í 78. og 79. gr. skulu þeir grunnskólar, sem ríkið rekur fyrir fötluð börn (sérskólar), vera reknir á vegum þess þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum sambærilega eða betri þjónustu.
     Að fimm árum liðnum frá gildistöku laga þessara skal menntamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.