Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 290 . mál.


489. Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 45 7. maí 1946, um beitumál.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Lög nr. 45 7. maí 1946, um beitumál, og lög nr. 13 28. febrúar 1947, um breyting á lögum nr. 45 7. maí 1946, um beitumál, eru úr gildi felld.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í apríl 1946 voru samþykkt á Alþingi lög um beitumál. Samkvæmt þessum lögum skyldi skipa þriggja manna nefnd og var það verkefni hennar „að sjá um, eftir því sem unnt er, að ávallt sé í öllum verstöðvum landsins næg og góð beita við eðlilegu verði“.
     Enda þótt beitunefnd hafi starfað síðan hafa afskipti nefndarinnar af beitusölu og beituöflun aldrei verið eins mikil og lögin heimila og hafa farið minnkandi á síðari árum enda hefur framboð af beitu oftast verið nægilegt. Má segja að afskipti nefndarinnar hafi einkum beinst að eftirgreindum þáttum: Innflutningi á beitu, ákvörðun verðs á beitu framleiddri innan lands og könnun á beitubirgðum í landinu.
     Á árum síldarleysis og síðar síldveiðibanns var beituþörf að mestu fullnægt með innflutningi á smokkfiski. Þessi innflutningur fór fram ýmist fyrir tilstilli nefndarinnar eða í samráði við hana. Á síðari árum hefur mjög dregið úr þessum innflutningi og nefndin hefur haft takmörkuð afskipti af honum. Er það skoðun nefndarmanna að miðað við þá þróun, sem orðið hefur á undanförnum árum, sé óþarft að láta opinbera nefnd stjórna framboðinu.
     Nefndin hefur á síðari árum ákveðið verð á frystri síld og loðnu til beitu eftir að Verðlagsráð sjávarútvegsins eða yfirnefnd hefur ákveðið hráefnisverð til skipa. Síðari ár hefur verðlagning á loðnu og síld verið gefin frjáls. Þegar verð hefur verið gefið frjálst er rökrétt að verð á beitu sé það einnig og því óþarft að nefndin ákveði það.
     Beitunefnd hefur reynt að fylgjast með beitubirgðum í landinu og ber Fiskifélagi Íslands að annast upplýsingasöfnun fyrir nefndina, skv. 4. gr. áðurnefndra laga. Æskilegt er að upplýsingasöfnun þessari verði haldið. Alltaf er þó vandkvæðum bundið að safna upplýsingum um beitubirgðir og beituþörf þar eð oft er um að ræða að beita sé fryst fyrir eigin viðskiptabáta og er þá engin hvatning til að skrá framleiðsluna hjá opinberum aðilum. Einnig er beitusíld stundum frákast frá annarri vinnslu og kemur ekki fram í skýrslum um ráðstöfun afla.
     Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið voru nefndarmenn í beitunefnd sammála um að leggja það til að lög um beitumál yrðu afnumin og nefndin lögð niður. Er þetta frumvarp því flutt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um afnám laga


nr. 45 7. maí 1946, um beitumál.


    Með frumvarpi þessu er áformað að leggja niður svokallaða beitunefnd er haft hefur það verkefni að fylgjast með að beita sé til í öllum verstöðvum landsins.
     Nefnd þessari voru greiddar um 120 þús. kr. í nefndarlaun á sl. ári. Sú fjárhæð mundi sparast við að nefndin verði lögð niður. Önnur bein kostnaðaráhrif eru ekki sjáanleg.