Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 422 . mál.


680. Frumvarp til laga



um vernd barna og ungmenna.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



I. KAFLI


Markmið og stjórn barnaverndarmála.


1. gr.


Markmið barnaverndar.


    Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í barnaverndarstarfi skal jafnan það ráð upp taka sem ætla má að barni eða ungmenni sé fyrir bestu. Skal barnaverndarstarfi hagað þannig að það stuðli að stöðugleika í uppvexti barna og ungmenna.
     Með börnum er samkvæmt lögum þessum átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs, en ungmenni eru einstaklingar 16–18 ára.
     Þar sem talað er um foreldra í lögum þessum er einnig átt við aðra þá sem hafa forsjá barna með höndum, sbr. 6. mgr. 35. gr. barnalaga, nr. 9/1981.

2. gr.


Stjórn barnaverndarmála.


    Starf til verndar börnum og ungmennum rækja samkvæmt lögum þessum félagsmálaráðuneytið, barnaverndarnefndir og barnaverndarráð og eru í lögum þessum nefnd barnaverndaryfirvöld.

3. gr.


Hlutverk félagsmálaráðuneytis varðandi barnaverndarmál.


    Félagsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn barnaverndarmála og skal sérstök deild innan þess annast samræmingu og heildarskipulag þeirra. Ráðuneytið skal hafa frumkvæði að þróunarstarfi og rannsóknum á sviði barnaverndar. Það skal enn fremur veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála. Það skal hafa eftirlit með störfum allra barnaverndarnefnda á landinu, heimta frá þeim ársskýrslur og gefa árlega út skýrslu um starfsemi barnaverndaryfirvalda. Ræki barnaverndarnefnd ekki störf þau sem henni eru falin í lögum þessum skal ráðuneytið krefja hana skýrslna og halda henni til að rækja skyldu sína. Ef ráðuneytinu þykir ástæða til getur það lagt fyrir barnaverndarnefnd að gera sérstakar ráðstafanir í máli hvort sem hún hefur fjallað um það áður eða ekki. Nú verður ráðuneytið þess áskynja að barnaverndarnefnd hefur kveðið upp úrskurð sem er andstæður lögum og getur ráðuneytið þá skotið málinu til endanlegs úrskurðar barnaverndarráðs.
     Ráðuneytið skal hlutast til um að settar verði á fót stofnanir skv. 54. gr. laga þessara. Það hefur einnig eftirlit og umsjón með stofnunum þar sem börn eru vistuð á vegum barnaverndarnefnda. Ráðuneytið hefur yfirumsjón með vistun barna og ungmenna utan foreldrahúsa. Það skal annast fræðslustarfsemi fyrir þá sem starfa að barnaverndarmálum með útgáfustarfsemi, námskeiðum o.fl.

4. gr.


Meginþættir í starfi barnaverndarnefnda.


     Forvarnir. Barnaverndarnefndir skulu setja fram tillögur og ábendingar um atriði sem stuðla að því að búa börnum og ungmennum góð uppeldisskilyrði og benda á félagsleg atriði sem eru andstæð því uppeldismarkmiði.
     Eftirlit og leitarstarf. Barnaverndarnefndir skulu hafa eftirlit með aðbúnaði og hátterni barna og ungmenna í þeim tilgangi að greina sem fyrst vanda þeirra sem búa við ófullnægjandi aðstæður, sæta illri meðferð eða eiga í félagslegum erfiðleikum. Barnaverndarnefndir skulu einnig hafa sérstakt eftirlit með aðbúnaði barna sem dveljast á uppeldisstofnunum í umdæmi nefndarinnar, svo sem á dagvistum barna, sumardvalarheimilum og barnaheimilum hvers konar, að svo miklu leyti sem eftirlit er ekki falið öðrum samkvæmt lögum.
     Úrræði. Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð barns eða ungmennis. Þær geta úrskurðað um töku barns af heimili og dvöl á fósturheimili eða uppeldisstofnun ef önnur úrræði þykja ekki henta til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í lögum þessum.
     Önnur verkefni. Einnig hafa barnaverndarnefndir með höndum önnur þau verkefni sem þeim eru falin í öðrum lögum.

5. gr.


Sérstakar skyldur barnaverndaryfirvalda.


    Barnaverndarnefndarmenn, barnaverndarráðsmenn, fulltrúar þessara aðila og annað starfslið á vegum þeirra hljóta þá vernd sem opinberum starfsmönnum er tryggð og bera skyldur samkvæmt því. Ber þeim að sýna börnum og ungmennum, er þeir fjalla um mál þeirra, alla nærgætni og mega ekki skýra óviðkomandi mönnum frá því sem þeir verða vísir í starfa sínum um einkamál manna og heimilisháttu.

II. KAFLI


Um barnaverndarnefndir.


6. gr.


Kosning og kjörgengi í barnaverndarnefnd.


    Borgarstjórn í Reykjavík, héraðsnefndir og bæjarstjórnir í kaupstöðum, sem standa utan héraðsnefnda, kjósa barnaverndarnefnd. Bæjarstjórn í kaupstað, sem á aðild að héraðsnefnd, getur þó að fenginni heimild félagsmálaráðherra kosið sérstaka barnaverndarnefnd. Þar sem félagsmálaráð (félagsmálanefndir) starfa og hafa sömu umdæmismörk og barnaverndarnefndir má fela þeim störf barnaverndarnefnda að nokkru leyti eða öllu að fengnu leyfi félagsmálaráðherra.
     Barnaverndarnefnd skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum varamönnum.
     Barnaverndarnefnd skal að jafnaði skipuð bæði konum og körlum. Nefndarmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og bera gott skyn á mál þau sem barnaverndarnefnd fjallar um. Leitast skal við að kjósa lögfræðing í barnaverndarnefnd þar sem slíks er kostur og enn fremur fólk með sérþekkingu á málefnum barna, t.d. barnalækni, sálfræðing eða félagsráðgjafa.
     Um kjörgengi í barnaverndarnefnd fer eftir sömu reglum og um kjörgengi í sveitarstjórn, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Kosning fer eftir 57. gr. sömu laga eftir því sem við á, sbr. þó 1. mgr. 8. gr. þessara laga.

7. gr.


Kjörtímabil barnaverndarnefndar.


    Kjörtímabil barnaverndarnefndar er hið sama og héraðsnefndar, bæjarstjórnar eða borgarstjórnar er kýs hana. Barnaverndarnefnd gegnir störfum þar til ný nefnd hefur verið kosin.
     Oddviti héraðsnefndar, bæjarstjóri eða borgarstjóri skal þegar eftir að kosning barnaverndarnefndar hefur farið fram skýra félagsmálaráðuneytinu frá skipun nefndarinnar.

8. gr.


Skylda til að taka sæti í barnaverndarnefnd.


    Það er borgaraskylda að taka kosningu í barnaverndarnefnd. Hverjum þeim, sem er kjörgengur, yngri en 60 ára, heill og hraustur, er skylt að taka kosningu í barnaverndarnefnd. Sá sem setið hefur í barnaverndarnefnd tvö síðustu kjörtímabil getur þó skorast undan kosningu.
     Héraðsnefnd, bæjarstjórn eða borgarstjórn ákveður þóknun barnaverndarnefndarmanna, enda greiðist kostnaður af nefndarstörfum úr viðkomandi sjóði, þar með talin laun starfsmanna og önnur útgjöld við störf nefndarinnar.

9. gr.


Skipting starfa í barnaverndarnefnd.


    Héraðsnefnd, bæjarstjórn eða borgarstjórn kýs formann barnaverndarnefndar og boðar hann til fyrsta fundar nefndarinnar. Nefndarmenn skipta með sér störfum að öðru leyti. Halda skal gerðabók um störf nefndarinnar.

10. gr.


Starfslið barnaverndarnefnda.


    Barnaverndarnefnd skal að fenginni heimild héraðsnefndar, bæjarstjórnar eða borgarstjórnar ráða sérhæft starfslið. Skal við það miðað að hægt sé að veita foreldrum, forráðamönnum barna og stofnunum, er annast uppeldi, viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal miðað við að nægilegir möguleikar séu til félagslegra og sálfræðilegra rannsókna á börnum er með þurfa vegna könnunar og meðferðar barnaverndarmála.
     Heimilt er barnaverndarnefnd að semja við stofnanir, svo sem félagsmálastofnanir, fræðsluskrifstofur, svæðisstjórnir eða heilsugæslustöðvar, um sameiginlegt starfsmannahald og sérfræðiþjónustu, svo og leita til sérfræðinga í einstökum málum.
     Barnaverndarnefnd er heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka og skal hún setja um það reglur sem héraðsnefnd eða sveitarstjórn staðfestir. Ákvörðun um þvingunaraðgerð getur barnaverndarnefnd þó ein tekið, sbr. þó 50. gr.

11. gr.


Valdsvið og samstarf barnaverndarnefnda.


    Barnaverndarnefnd, þar sem barn er dvalfast, á úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. mgr.
     Nú flyst barn úr umdæmi nefndar eftir að hún hefur tekið mál þess til meðferðar og skal þá barnaverndarnefnd á hinu nýja heimili barnsins taka við meðferð málsins. Ber fyrri barnaverndarnefndinni skylda til að tilkynna hinni síðari um flutninginn og fyrri afskipti sín af málefnum barnsins. Félagsmálaráðuneytið getur þó heimilað að nefnd sú, sem haft hefur málið til meðferðar, fari áfram með það ef það varðar aðgerðir á grundvelli 2. mgr. 25. gr., 27. gr. eða 28. gr. laganna. Skulu barnaverndarnefndir þá veita hver annarri upplýsingar til skýringar málum og liðsinni við framkvæmd barnaverndarráðstafana.
     Ef barnaverndarnefnd ráðstafar barni eða ungmenni til dvalar í annað umdæmi fer hún áfram með málið. Hún getur þó farið þess á leit að barnaverndarnefnd í dvalarumdæmi barns beri tilteknar skyldur. Barnaverndarnefndinni í dvalarumdæmi barnsins ber að tilkynna nefndinni sem ráðstafaði barninu ef aðstæður þess breytast þannig að ástæða þyki til sérstakrar íhlutunar.

III. KAFLI


Um barnaverndarráð.


12. gr.


Skipan barnaverndarráðs.


    Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna barnaverndarráð til fjögurra ára í senn og þrjá menn til vara. Skal það hafa fast aðsetur í Reykjavík. Formaður ráðsins skal fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaður héraðsdómari, sbr. 32. gr. laga nr. 85/1936, með síðari breytingum. Ráðsmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og hafa sérþekkingu á málefnum barna og ungmenna. Ráðherra tilnefnir formann og varaformann barnaverndarráðs.
     Ráðherra ákveður laun barnaverndarráðsmanna og greiðast þau úr ríkissjóði ásamt öðrum kostnaði við ráðið.

13. gr.


Hlutverk barnaverndarráðs.


    Hlutverk barnaverndarráðs er að fara með úrskurðarvald í þeim málum sem skotið er til ráðsins samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 52. gr.
     Barnaverndarráð skal hafa sérhæfða starfsmenn í þjónustu sinni og enn fremur annað starfsfólk við hæfi. Barnaverndarráð getur einnig leitað álits sérfræðinga utan ráðsins þegar ástæða þykir til.

14. gr.


Fundir barnaverndarráðs.


    Barnaverndarráð er ályktunarfært ef allir ráðsmenn sitja fund og tveir þeirra fylgjast að máli. Varamaður tekur sæti ef ráðsmaður hefur boðað forföll eða er vanhæfur, sbr. 4. mgr. 52. gr., sbr. 45. gr.
     Barnaverndarráð heldur fundi eftir þörfum.
     Úrskurðir ráðsins skulu skráðir í fundagerðarbók. Í reglugerð, er félagsmálaráðherra setur, skulu sett ákvæði um starfsháttu barnaverndarráðs.

IV. KAFLI


Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld.


15. gr.


Tilkynningarskylda almennings.


    Hverjum, sem verður þess vís að barni sé misboðið, uppeldi þess sé vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að barninu geti stafað hætta af, er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd þar sem barnið dvelst.
     Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig skipta.

16. gr.


Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum og ungmennum.


    Hverjum, sem stöðu sinnar vegna hefur afskipti af málefnum barna og ungmenna og verður í starfa sínum var við óviðunandi misfellur á uppeldi og aðbúð barna eða ungmenna, er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.
     Sérstaklega er fóstrum, dagmæðrum, kennurum, prestum, læknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum og öðrum þeim, sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf, skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna og ungmenna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að málefnum barns sé þannig komið að barnaverndarnefnd ætti að hafa afskipti af þeim. Tilkynningarskylda gengur að þessu leyti framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

17. gr.


Tilkynningarskylda lögreglu og dómara.


    Skylt er löggæslumanni að gera barnaverndarnefnd viðvart þegar hann hefur til meðferðar mál barns eða ungmennis.
     Þegar brot eru framin annaðhvort af börnum eða ungmennum eða gegn þeim skal löggæslumaður eða dómari þegar í stað tilkynna það barnaverndarnefnd og veita henni þess kost að fylgjast með rannsókn máls. Sé barn innan 16 ára aldurs skal jafnframt gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan þegar barnið er yfirheyrt. Getur dómari og krafist þess ef honum þykir þörf.

18. gr.


Nafnleynd tilkynnanda.


    Ef sá sem tilkynnir barnaverndarnefnd óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skal það virt nema sérstakar ástæður mæli því gegn.

19. gr.


Samstarf við barnaverndarnefndir.


    Öllum þeim, sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna, svo sem starfsfólk heilbrigðisþjónustu, skóla, dagvistarstofnana barna og löggæslu, er skylt að stuðla að því að barnaverndarstarf komi að sem mestum notum og skulu hafa samvinnu við barnaverndaryfirvöld í því skyni.
     Barnaverndaryfirvöld skulu með sama hætti hafa samstarf við þá sem stöðu sinnar vegna hafa þekkingu á málefnum barna og ungmenna.
     Skylt er skólum og dagvistarstofnunum að hafa náið samstarf við barnaverndarnefndir varðandi stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem standa höllum fæti félagslega.
     Stofnanir á sviði félags- og heilbrigðismála, svo sem áfengismeðferðarstofnanir og geðdeildir, skulu skipuleggja þjónustu sína við foreldra barna þannig að tillit verði tekið til hagsmuna barnanna.
     Skylt er lögreglu, dómstólum og fangelsismálayfirvöldum að hafa samvinnu við barnaverndarnefndir og veita þeim aðstoð við úrlausn barnaverndarmála.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir í samráði við þau ráðuneyti sem viðkomandi stofnanir heyra undir.

V. KAFLI


Skyldur barnaverndaryfirvalda gagnvart einstökum börnum


og ungmennum og fjölskyldum þeirra.


20. gr.


Skyldur foreldra.


    Foreldrum ber að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum barna, sbr. 35. gr. laga nr. 9/1981. Skylt er barnaverndarnefnd að aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum sínum, en grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt þessum kafla ef nauðsyn ber til. Að jafnaði skal þess gætt að almenn úrræði til stuðnings við fjölskyldu verði reynd áður en gripið er til þvingunarúrræða. Þó skal ávallt það ráð upp taka sem ætla má að barni eða ungmenni sé fyrir bestu.

21. gr.


Könnun máls.


    Nú fær barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að
    líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra eða
    barn eða ungmenni stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni
og er nefndinni þá skylt að kanna málið án ástæðulausrar tafar.
     Skal kosta kapps um að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barna eða ungmenna sem í hlut eiga, tengsl þeirra við foreldra eða aðra og aðbúð þeirra á heimili, skólagöngu þeirra og hegðun á heimili og utan þess, svo og um andlegt og líkamlegt ásigkomulag þeirra. Skal leita aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur.
     Um heimildir barnaverndarnefndar og starfsmanna hennar við könnun mála gilda að öðru leyti ákvæði 46. gr.
     Foreldrum eða þeim sem barnið dvelst hjá er skylt að veita liðsinni sitt til þess að könnun máls geti gengið greiðlega fyrir sig, enda skal barnaverndarnefnd sýna þeim er málið snertir alla nærgætni. Könnunin skal ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur.

22. gr.


Áætlun um meðferð máls.


    Nú er í ljós leitt að aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns er áfátt vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra eða barn stefnir eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, t.d. afbrotum eða neyslu vímuefna, og skal barnaverndarnefnd þá láta gera skriflega áætlun um meðferð málsins.
     Í áætluninni skal tilgreint hvernig hagsmunir barnsins verði best tryggðir, m.a. hvaða aðstoð foreldrum verði veitt til að gera þeim kleift að fara með forsjá barnsins og einnig hvað foreldrum beri að gera fyrir sitt leyti til að mega fara áfram með forsjá þess.

23. gr.


Skráning barna í áhættuhópi.


    Barnaverndarnefnd skal halda sérstaka skrá um þau börn í umdæmi sínu sem hún hefur rökstuddan grun um að sé hætta búin skv. 1. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 22. gr. í þeim tilgangi að tryggja yfirsýn og samfellda málsmeðferð í slíkum málum. Nú breytast aðstæður þannig að mati nefndar að barn telst ekki lengur í áhættuhópi og skal nafn þess þá ekki standa lengur á skránni en tólf mánuði þaðan í frá. Foreldrum skal að jafnaði gerð grein fyrir að barn þeirra sé á skrá, sbr. 3. mgr. 46. gr., nema það komi í bága við hagsmuni barnsins að mati nefndarinnar. Ráðuneytið setur reglugerð um fyrirkomulag skráningar og meðferð upplýsinga í samræmi við lagaákvæði þetta og lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989.

24. gr.


Stuðningsúrræði.


    Nú leiðir könnun máls í ljós að þörf er aðgerða barnaverndarnefndar og skal hún þá í samvinnu við foreldra, og eftir atvikum barn eða ungmenni, veita aðstoð eftir því sem við á með því að
    leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns,
    útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu,
    útvega barni eða ungmenni dagvist, skólavist, atvinnu eða möguleika til hollrar tómstundaiðju,
    beita almennum úrræðum til úrbóta samkvæmt öðrum lögum, svo sem lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra,
    aðstoða foreldra við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónulegra vandamála,
    vista barn um skamman tíma utan heimilis á vistheimili eða fósturheimili,
    taka við forsjá barns með samþykki foreldra, sbr. 47. gr., útvega því varanlegt fósturheimili og hlutast til um að barninu verði skipaður lögráðamaður.
     Ráðuneytið skal setja reglugerð um úrræði skv. b-lið þessarar greinar.

25. gr.


Skylda barnaverndarnefndar við börn og ungmenni í hættu vegna eigin hegðunar.


    Nú stefnir barn eða ungmenni eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, svo sem með neyslu áfengis eða annarra vímuefna, afbrotum eða annarri jafnskaðlegri hegðun, og skal barnaverndarnefnd þá veita sérstaka aðstoð með viðtölum, ráðgjöf, vistun á unglingaheimili eða öðrum tiltækum stuðningsaðgerðum.
     Þegar svo stendur á sem í 1. mgr. segir er barnaverndarnefnd heimilt í samráði við foreldra að vista barn til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórar vikur í senn á viðeigandi stofnun. Ef vistun er gegn vilja barns sem orðið er 12 ára skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmanns ef því er að skipta, sbr. 2. og 3. mgr. 49. gr.
     Nú telur barnaverndarnefnd ekki hjá því komist að vista ungmenni gegn vilja sínum á stofnun vegna þess að það stefnir eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu og getur nefndin þá leitað samþykkis dómsmálaráðuneytis fyrir vistun ungmennis á sjúkrahúsi eða deild Unglingaheimilis ríkisins fyrir vímuefnaneytendur í samræmi við ákvæði lögræðislaga, nr. 68/1984.

26. gr.


Skylda barnaverndarnefndar við barn eða ungmenni sem verður fyrir áreitni,


ofbeldi eða öðrum afbrotum.


    Nú hefur barn eða ungmenni orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða öðrum afbrotum og skal þá barnaverndarnefnd aðstoða það með ráðgjöf eða meðferð eftir því sem við á. Barnaverndarnefnd er þá heimilt að fylgjast með rannsókn máls, sbr. 2. mgr. 17. gr. Svo og getur nefndin skipað barninu sérstakan talsmann ef því er að skipta, sbr. 3. mgr. 49. gr.
     Nú verður barnaverndarnefnd þess vís að ábótavant er framkomu manns sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn og skal hún þá láta málið til sín taka og koma með ábendingar eða aðfinnslur til úrbóta.

27. gr.


Úrræði án samþykkis foreldra.


    Nú telur barnaverndarnefnd sýnt að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra og getur barnaverndarnefnd þá með úrskurði
    kveðið á um eftirlit með heimili,
    gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barnsins, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, meðferð eða þjálfun,
    kveðið á um töku barns af heimili, kyrrsetningu þess á fóstur- eða vistheimili, læknisskoðun, innlögn á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu,
    ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi.
     Ákvarðanir samkvæmt grein þessari skulu ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.

28. gr.


Forsjársvipting.


    Barnaverndarnefnd getur með úrskurði svipt foreldra, annað eða bæði, forsjá barns ef
    uppeldi, daglegri umönnun eða samskiptum foreldra við barnið er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska,
    barn er sjúkt eða fatlað og foreldrar tryggja því ekki viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennslu,
    barninu er misþyrmt, misboðið kynferðislega ellegar það má þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,
    telja má fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, alvarlegrar geðveilu, mikils greindarskorts, eða hegðun foreldra er líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
     Úrskurður um forsjársviptingu skal því aðeins kveðinn upp að ekki sé unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta skv. 24. gr. og 27. gr. eða slíkar aðgerðir hafa verið reyndar án nægilegs árangurs. Úrskurð á grundvelli d-liðar fyrri málsgreinar er þó heimilt að kveða upp þegar sérstaklega stendur á áður en nýfætt barn flyst í umsjá foreldra.

29. gr.


Skipan lögráðamanns.


    Hafi foreldrar verið sviptir forsjá barns hverfur forsjá þess til nefndarinnar að svo stöddu en jafnframt ber henni að hlutast til um að yfirlögráðandi skipi barninu lögráðamann, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984. Barnaverndarnefnd tekur forsjá barns í sínar hendur ef það verður forsjárlaust og hlutast á sama hátt til um að því verði skipaður lögráðamaður.

30. gr.


Börnum skal tryggð góð umsjá.


    Þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni í samræmi við ákvæði f- og g-liða 24. gr., 2. og 3. mgr. 25. gr., c-lið 1. mgr. 27. gr., 28. gr. og 29. gr. skal hún tafarlaust tryggja því góða umsjá. Skal barnaverndarnefnd gera skriflega áætlun svo sem um hvort og hvernig barnið fer að nýju til foreldra eða hvort því skuli komið í varanlegt fóstur.
     Leitast skal við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra.
     Nú verður barn 16 ára á heimili þar sem barnaverndarnefnd hefur komið því fyrir og er nefndinni þá skylt að aðstoða það áfram ef þörf krefur.

31. gr.


Brottvikning heimilismanns.


    Ef barnaverndarnefnd þykir barni eða ungmenni háski búinn af háttsemi eða framferði heimamanns, svo sem vegna ofbeldis á heimili, ógnana eða hótana eða vegna vímuefnaneyslu eða annars athæfis er um getur í 66.–69. gr., en barninu eða ungmenninu gæti annars liðið vel á heimilinu, er nefndinni skylt, ef umvandanir eða aðrar ráðstafanir koma ekki að haldi, að leita um brottvikningu hans af heimilinu til bæjarfógeta í heimilisumdæmi barns eða ungmennis (í Reykjavík borgarfógeta) eða sýslumanns, sbr. 10. gr. laga nr. 90/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Er honum þá skylt að víkja manni brott af heimili um stundarsakir eða til frambúðar ef hann bætir ekki ráð sitt, sbr. 64. gr.

VI. KAFLI


Um ráðstöfun barna í fóstur.


32. gr.


Fóstur.


    Með fóstri er í lögum þessum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns þegar
    kynforeldrar samþykkja það,
    barn er forsjárlaust,
    kynforeldrar hafa verið sviptir forsjá eða barn er í umsjá barnaverndarnefndar um tíma.
     Fóstur getur verið tvenns konar, varanlegt eða tímabundið. Með varanlegu fóstri er átt við að það haldist þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum. Fara fósturforeldrar þá að jafnaði með forsjá barns skv. 35. gr. barnalaga, nr. 9/1981, nema annað þyki betur henta þörfum barns og hagsmunum að mati barnaverndarnefndar. Að jafnaði skal ekki gerður samningur um varanlegt fóstur fyrr en að liðnum reynslutíma sem skal ekki vera lengri en eitt ár.

33. gr.


Fósturforeldrar.


    Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til aðstæðna þeirra, hæfni og reynslu sem heppilegra uppalenda. Enn fremur skal velja fósturforeldra sérstaklega út frá hagsmunum og þörfum viðkomandi barns.
     Barnaverndarnefnd ber að þjálfa og undirbúa fósturforeldra áður en fóstur hefst og enn fremur veita þeim stuðning og leiðbeiningar meðan fóstur varir eftir því sem nauðsyn ber til. Fulltrúi barnaverndarnefndar skal koma á fósturheimili eigi sjaldnar en einu sinni á ári hverju.

34. gr.


Fóstursamningur.


    Kveða skal á um fóstur í skriflegum samningi milli fósturforeldra og barnaverndarnefndar. Í fóstursamningi skal kveðið á um:
    hver fer með forsjá barns og að hvaða leyti, sbr. 32. gr.,
    áætlaðan fósturtíma, þ.e. tímabundið fóstur eða varanlegt,
    framfærslu barns og annan kostnað, svo sem fósturlaun, sbr. 35. gr.,
    umgengni barns við kynforeldra og aðra,
    stuðning barnaverndarnefndar við barn og fósturforeldra meðan fóstrið varir,
    annað sem máli kann að skipta.
     Félagsmálaráðuneytið skal útbúa sérstök eyðublöð fyrir fóstursamninga.

35. gr.


Framfærsla og annar kostnaður vegna barns í fóstri.


    Hafi barnaverndarnefnd ráðstafað barni eða ungmenni í fóstur eða á annan hátt samkvæmt lögum þessum skal Tryggingastofnun ríkisins greiða með því þrefaldan barnalífeyri sé það innan sjö ára aldurs og tvöfaldan sé það eldra, en framfærslusveit barns endurgreiðir Tryggingastofnuninni. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna barnsins úr sveitarsjóði.
     Allan kostnað, sem barnaverndarnefnd kann að hafa af hvers konar ráðstöfun barna og ungmenna úr öðrum umdæmum, skulu sveitarsjóðir þeirra umdæma endurgreiða ef ekki er öðruvísi ákveðið í lögum.
     Barnaverndarnefnd skal tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um fóstursamning samkvæmt nánari reglum er Tryggingastofnun setur.

36. gr.


Umgengni barns í fóstri við kynforeldra.


    Barn, sem er í fóstri, með eða án samþykkis kynforeldra, á rétt á umgengni við þá og aðra sem eru barni nákomnir. Kynforeldrum er skylt að rækja umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar.
     Kveða skal á um umgengni í fóstursamningi, sbr. d-lið 34. gr.
     Ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að umgengnisréttar njóti ekki við eða breytt fyrri ákvörðun um umgengnisrétt með úrskurði. Jafnframt getur nefndin í þeim tilvikum lagt bann við hvers konar samskiptum foreldra og barns.

     Barnaverndarnefnd getur kveðið upp úrskurð um að halda dvalarstað barns leyndum ef hagsmunir barnsins krefjast þess.
     Barnaverndarnefnd á úrlausnarvald um umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína.

37. gr.


Réttur barns í fóstri til þess að vita málsatvik.


    Eftir atvikum skal barnaverndarnefnd gera barni ljóst hvers vegna því var komið í fóstur að svo miklu leyti sem heppilegt er vegna aldurs þess og þroska. Með sama hætti skal gera barni grein fyrir þeim áformum sem barnaverndarnefnd hefur og varða barnið.

38. gr.


Nefnd er heimilt að úrskurða að barn sé kyrrt í fóstri.


    Nú óska foreldrar, sem samþykkt hafa fóstur, eftir því að fóstursamningi verði rift og skal barnaverndarnefnd þá taka málið til meðferðar. Við úrlausn máls skal fyrst og fremst taka mið af velferð barnsins. Barnaverndarnefnd er þá jafnan heimilt að úrskurða að barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt hjá fósturforeldrum ef þar fer vel um það og hagsmunir barns mæla með því.

39. gr.


Samþykki barnaverndarnefndar.


    Enginn má taka barn í fóstur nema með samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi hans og ekki má ráðstafa barni í fóstur nema til aðila sem fengið hefur meðmæli barnaverndarnefndar.

40. gr.


Vanræksla fósturforeldra.


    Nú kemst barnaverndarnefnd að raun um að þeir sem hafa barn í fóstri vanrækja uppeldishlutverk sitt og skal hún þá gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til verndar barni eða ungmenni. Getur nefndin lagt bann við því að fósturforeldrar þessir taki börn framvegis í fóstur.

41. gr.


Endurskoðun fóstursamnings.


    Ef aðstæður fósturforeldra breytast, svo sem vegna skilnaðar, andláts eða búferlaflutninga, ber að tilkynna barnaverndarnefnd um það og skal þá endurskoða fóstursamning ef ástæða þykir til. Fósturforeldrar geta og óskað endurskoðunar á fóstursamningi.

42. gr.


Skráning og framkvæmd.


    Félagsmálaráðuneytið heldur skrá um börn í varanlegu fóstri.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laganna varðandi fóstur.

VII. KAFLI


43. gr.


Foreldrar vista sjálfir börn sín utan heimilis.


    Foreldrar geta falið öðrum daglega umönnun og uppeldi barna sinna, sbr. 42. gr. barnalaga, nr. 9/1981, enda brjóti það ekki í bága við hagsmuni barnsins. Foreldrum ber þó að tilkynna barnaverndarnefnd þegar barni er komið fyrir hjá öðrum og dvöl er ætlað að standa lengur en sex mánuði. Dveljist barn hjá vandamönnum þarf þó ekki að tilkynna um ráðstöfun nema henni sé ætlað að vara í níu mánuði eða lengur. Skilyrðislaust þarf að tilkynna nefndinni ef dvöl barns hefur varað í þann tíma sem áður greinir.
     Tilkynningarskylda skv. 1. mgr. gildir ekki þegar vistun er nauðsynleg vegna skólagöngu barnsins, þegar barn er vistað í opinberri stofnun vegna heilsu sinnar eða þroska eða þegar barn er orðið 15 ára.
     Þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu eins og segir í 1. mgr. eða fær upplýsingar á annan hátt um vistun sem tilkynningarskyldan gildir um skal hún kanna hvort þörf er fyrir stuðning við foreldra sem gæti gert þeim kleift að hafa barnið hjá sér. Ef svo er ekki skal nefndin kanna hvort hag og þörfum barns sé fullnægt á væntanlegum dvalarstað þess. Könnun má fella niður ef fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir um dvalarheimilið.
     Hafi barn verið í umsjá annarra, sbr. 1. mgr., í þrjá mánuði eða lengur samkvæmt þessari grein getur barnaverndarnefnd bannað flutning þess að svo stöddu. Barnaverndarnefnd verður þó, innan þriggja mánaða, að kveða upp úrskurð um dvalarstað barnsins. Barnaverndarnefnd er þá heimilt að úrskurða að ráðstöfun skuli haldast ef vel fer um barnið og flutningur stríðir gegn hag þess og þörfum.

VIII. KAFLI


Málsmeðferð.


44. gr.


Ályktunarhæfi.


    Barnaverndarnefnd er ályktunarfær þegar fullur helmingur nefndarmanna situr fund enda sé formaður eða varaformaður á fundi. Nú hamlar nauðsyn barnaverndarnefndarmanni fundarsókn og skal hann þá gera formanni viðvart með fyrirvara ef unnt er. Boðar formaður þá varamann í hans stað.

45. gr.


Um vanhæfi nefndarmanna.


    Um vanhæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála gilda ákvæði 36. gr. laga nr. 85/1936, eftir því sem við getur átt. Sama á við um starfsfólk barnaverndarnefnda.

46. gr.


Rannsóknarskylda og heimildir.


    Áður en barnaverndarnefnd ræður máli til lykta skal afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns eða ungmennis, sbr. 2.–4. mgr. 21. gr.
     Við rannsókn á högum barns eða ungmennis er barnaverndarnefnd, starfsmönnum hennar eða öðrum, sem hún kann að fela það sérstaklega, heimilt að taka skýrslur af foreldrum eða forráðamönnum barns eða ungmennis og kveðja fyrir sig til yfirheyrslu hvern þann í umdæmi hennar er um kann að bera. Um rétt þeirra til að skorast undan að gefa skýrslu gilda ákvæði 125. gr. laga nr. 85/1936. Svo getur hún og krafist vitnaleiðslu fyrir dómi til skýringar á máli. Heimilt er að ræða við barn í einrúmi.
     Að jafnaði skal foreldri eða forráðamanni barns eða ungmennis greint frá því að haldið sé uppi fyrirspurnum um hagi þess samkvæmt grein þessari.
     Barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar er því aðeins heimilt að fara á einkaheimili eða barnaheimili til rannsóknar á högum barns eða ungmennis að fyrir liggi samþykki foreldris eða forráðamanns þess eða á grundvelli dómsúrskurðar, sbr. þó niðurlag 50. gr. Dómari metur á grundvelli 21. gr. hvenær þörf er á að fara á heimili.

47. gr.


Samþykki foreldra.


    Samþykki foreldris skv. f- og g-liðum 24. gr. og a-lið 32. gr. skal vera skriflegt og undirritað í viðurvist tveggja manna er votta að foreldri hafi gert sér fulla grein fyrir eðli og réttaráhrifum ráðstöfunarinnar.

48. gr.


Úrskurðir barnaverndarnefnda.


    Málum, er varða ráðstafanir gagnvart börnum, ungmennum eða forráðamönnum þeirra skv. 27. gr., 28. gr., 3. og 4. mgr. 36. gr., 38. gr., 4. mgr. 43. gr. og 4. mgr. 49. gr., skal ráðið til lykta með úrskurði. Ef lögfræðingur á ekki sæti í nefndinni skal héraðsdómari taka sæti í henni með fullum réttindum og skyldum.
     Fjórir nefndarmenn hið fæsta af fimm eða sex skulu standa að úrskurði. Úrskurður skal vera skriflegur og rökstuddur. Þar skal rekja málavexti og greina forsendur og niðurstöður. Úrskurð skal tilkynna með ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggilegan hátt og skal vekja athygli aðila á að heimilt sé að skjóta máli til barnaverndarráðs, sbr. 52. gr.

49. gr.


Meðferð úrskurðarmála.


    Áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð skv. 48. gr. ber að leiðbeina foreldrum eða öðrum forráðamönnum barns eða ungmennis um réttarstöðu þeirra samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal veita þeim kost á að tjá sig um málið fyrir barnaverndarnefnd, munnlega eða skriflega, þar á meðal með liðsinni lögmanna. Eftir atvikum skal barnaverndarnefnd veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð.
     Að jafnaði ber að veita barni kost á að tjá sig um mál og er það skylt ef mál varðar barn 12 ára eða eldra.
     Þegar sérstaklega stendur á er barnaverndarnefnd heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann.
     Barnaverndarnefnd skal með nægilegum fyrirvara láta aðilum í té öll skrifleg gögn sem byggt er á við úrlausn málsins. Nefndin getur ákveðið með rökstuddum úrskurði að tiltekin gögn skuli ekki afhent ef það skaðar hagsmuni barnsins eða heitið hefur verið trúnaði. Á sama hátt getur nefndin ákveðið að aðilar geti kynnt sér gögn án þess að þau verði afhent.

50. gr.


Neyðarráðstafanir.


    Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun sem ber undir barnaverndarnefnd getur formaður hennar eða starfsmaður í umboði hans framkvæmt hana, en leggja skal hann málið fyrir barnaverndarnefnd til staðfestingar innan tveggja vikna. Ef ráðstöfun felur í sér aðgerðir á grundvelli c- og d-liða fyrri málsgreinar 27. gr. skal hún staðfest með fullnaðarúrskurði barnaverndarnefndar innan tveggja mánaða. Við þessar aðstæður er heimilt að fara inn á heimili þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 46. gr. enda sé ástæða til að ætla að barn sé í bráðri hættu.

51. gr.


Valdbeiting.


    Ef beita verður valdi til að hrinda ákvörðun barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs í framkvæmd samkvæmt lögum þessum heyrir slík valdbeiting undir fógeta eða lögreglu ef brýna nauðsyn ber til. Fulltrúi barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs skal þó ávallt vera viðstaddur ef til slíkra ráðstafana þarf að grípa til að gæta hagsmuna barnsins.

52. gr.


Málskot.


    Foreldrar, forráðamenn barns eða aðrir þeir, sem eru barninu nákomnir, geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til fullnaðarúrskurðar til barnaverndarráðs innan fjögurra vikna frá því að viðkomanda var kunnugt um úrskurð barnaverndarnefndar. Er barnaverndarráði skylt að taka málið til skjótrar meðferðar og úrlausnar.
     Málskot til barnaverndarráðs frestar ekki framkvæmd ákvörðunar barnaverndarnefndar. Þegar sérstaklega stendur á getur barnaverndarráð þó ákveðið að framkvæmd samkvæmt ályktun barnaverndarnefndar skuli frestað uns ráðið hefur fellt úrskurð sinn. Að jafnaði skal barnaverndarráð kveða upp fullnaðarúrskurð innan sex mánaða frá því að málinu var skotið til ráðsins.
     Barnaverndarráð getur metið að nýju bæði lagahlið málsins og sönnunargögn þess. Það getur ýmist staðfest úrskurðinn að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu, þar á meðal mælt fyrir um aðrar ráðstafanir en barnaverndarnefnd hefur ákveðið. Þá getur ráðið einnig vísað málinu til nefndarinnar til meðferðar að nýju, svo og aflað gagna sjálft eða fyrir atbeina barnaverndarnefnda eða með öðrum hætti ef því er að skipta.
     Að öðru leyti gilda ákvæði 45.–46. gr. og 48.–49. gr. um málsmeðferð fyrir barnaverndarráði. Barnaverndarráð getur að auki mælt fyrir um formlegan málflutning fyrir ráðinu.

53. gr.


Endurupptaka mála.


    Nú breytast aðstæður foreldra verulega frá því að samþykki var veitt eða úrskurður var kveðinn upp þannig að ætla megi að foreldrar séu nú hæfir til þess að fara með forsjá barns og geta þeir þá farið fram á að barnaverndarnefnd taki mál þeirra upp á ný. Barnaverndarnefnd metur hvort mál skuli endurupptekið og afgreiðir beiðnina með bókun. Við úrlausn málsins skal velferð barns ávallt ganga fyrir.

IX. KAFLI


Um stofnanir.


54. gr.


Heimili fyrir börn og ungmenni.


    Heimili, sem undir kafla þennan falla, eru: hvers konar vistheimili eða meðferðarheimili fyrir börn eða unglinga, hjálparstöðvar eða neyðarathvarf fyrir unglinga, sumardvalarheimili, sumarbúðir eða önnur heimili sem taka börn og ungmenni til uppeldis, umönnunar eða aðhlynningar, um langan tíma eða skamman, enda falli þau ekki undir önnur lög.


     Félagsmálaráðuneytið skal hlutast til um að settar verði á fót stofnanir eða heimili sem nauðsynleg eru til að barnaverndarnefndum sé unnt að rækja störf sín samkvæmt lögum þessum.
     Félagsmálaráðuneytinu er skylt að reka unglingaheimili, svo og meðferðarheimili fyrir börn sem eiga við hegðunarerfiðleika að stríða. Ráðherra skipar slíkum heimilum þriggja manna stjórnarnefnd til fjögurra ára í senn og setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi þeirra.
     Sveitarfélög skulu, eitt eða fleiri saman, setja á stofn og reka vistheimili er veiti börnum viðtöku um stundarsakir vegna aðstæðna á heimili þeirra, svo sem vegna forfalla foreldra, vanrækslu eða illrar meðferðar á barni eða til könnunar á aðstæðum þeirra, sbr. 21. gr. Sveitarfélög skulu einnig setja á stofn og reka önnur heimili eða stofnanir er sveitarstjórn telur þörf á, að fenginni tillögu eða umsögn barnaverndarnefndar, til að nefndin geti sinnt lagaskyldum sínum.
     Heimilt er félagasamtökum eða öðrum aðilum að setja á stofn heimili eða stofnanir til stuðnings börnum og ungmennum að fengnu leyfi félagsmálaráðherra.

55. gr.


Leyfi til að reka heimili.


    Óheimilt er að setja á stofn eða reka heimili skv. 54. gr. nema leyfi félagsmálaráðherra komi til. Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar þar sem heimilið er ef nefnd sú á ekki hlut að rekstrinum.
     Félagsmálaráðuneytið skal semja og gefa út nánari reglur og leiðbeiningar um stjórn, starfsfólk, m.a. hæfisskilyrði og menntun, og alla aðbúð á þeim heimilum sem um getur í 54. gr.

56. gr.


Eftirlit með heimilum.


    Barnaverndarnefnd hefur í umdæmi sínu eftirlit með heimilum sem rekin eru samkvæmt ákvæðum þessa kafla nema eftirlit sé falið öðrum samkvæmt lögum. Barnaverndarnefnd skal fylgjast með högum og aðbúnaði barna á slíkum heimilum og gæta þess vandlega að ekki séu rekin í umdæmi hennar önnur heimili fyrir börn en þau sem hlotið hafa leyfi samkvæmt lögum þessum.
     Líkamlegum eða andlegum refsingum má ekki beita á heimilum eða stofnunum fyrir börn og ungmenni.
     Ef meðferð barns á barnaheimili eða uppeldisstofnun er óhæfileg eða rekstri slíks heimilis eða stofnunar á annan hátt ábótavant skal barnaverndarnefnd leitast við með leiðbeiningum og áminningum að bæta úr því sem áfátt er. En komi það ekki að haldi skal hún leggja málið fyrir félagsmálaráðuneytið. Ef ráðuneytið fær eigi úr bætt getur það svipt heimili eða stofnun rétti til áframhaldandi rekstrar.

X. KAFLI


Almenn verndarákvæði.


57. gr.


Eftirlit með vinnu barna og ungmenna.


    Barnaverndarnefnd skal hafa eftirlit með því að barni eða ungmenni sé ekki ofþjakað við þunga eða óholla vinnu, með löngum vinnutíma, vökum eða óreglulegum vinnuháttum. Að öðru leyti fer um eftirlit með vinnu barna og ungmenna eftir lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

58. gr.


Varnir gegn vímuefnaneyslu.


    Barnaverndarnefnd skal vinna gegn hvers konar vímuefnaneyslu barna og ungmenna í umdæmi sínu. Nefndin skal einnig stuðla að því að þeir sem selja, útvega eða veita börnum eða ungmennum vímuefni sæti ábyrgð lögum samkvæmt.

59. gr.


Eftirlit með sýningum og skemmtunum.


    Barnaverndarnefnd skal eftir því sem hún telur ástæðu til hafa eftirlit með leiksýningum og hvers konar opinberum sýningum eða skemmtunum öðrum en kvikmyndasýningum. Þeim er veitir forstöðu skemmtun eða sýningu sem ætla má að börn muni sækja er skylt að kveðja til barnaverndarnefnd eða fulltrúa hennar og gefa nefndinni kost á að kynna sér efni sýningar á undan almenningi. Ef barnaverndarnefnd telur að skemmtun sé með einhverjum hætti skaðsamleg börnum getur hún bannað að börn innan ákveðins aldurs fái aðgang að henni. Forstöðumenn skemmtunar skulu geta banns um hana á sinn kostnað í auglýsingum og bera ábyrgð á að bann sé haldið.

60. gr.


Útivistartími barna.


    Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu að sama skapi ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.

61. gr.


Aðgangur barna og ungmenna að dansleikjum og öðrum skemmtunum.


    Börnum, yngri en 16 ára, er óheimill aðgangur og dvöl á dansleikjum öðrum en sérstökum unglinga- eða fjölskylduskemmtunum sem haldnar eru af skólum, æskulýðsfélögum eða öðrum þeim sem til þess hafa leyfi. Forstöðumönnum dansleikja er skylt að fylgjast með að ákvæði þetta sé haldið að viðlagðri afturköllun almenns skemmtanaleyfis um lengri eða skemmri tíma.
     Börnum eða ungmennum, innan 18 ára aldurs, er óheimill aðgangur og dvöl á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga, sbr. og 20. gr. áfengislaga, nr. 82/1969, nema í fylgd með foreldri, öðrum forsjáraðila eða maka. Þeim sem leyfi hefur til áfengisveitinga er skylt að sjá til þess að ákvæði þetta sé haldið að viðlagðri leyfissviptingu.
     Ungmenni, innan 18 ára aldurs, mega ekki starfa á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga nema það sé liður í viðurkenndu iðnnámi.
     Þegar börnum eða ungmennum er bannaður aðgangur að skemmtunum, öðrum en á stöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga, skal miða aldursmörk við fæðingarár en ekki fæðingardag.

XI. KAFLI


Refsiákvæði.


62. gr.


    Það varðar sektum eða varðhaldi að koma vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum á framfæri við barnaverndarnefnd um atriði sem lög þessi taka til.

63. gr.


    Nú lætur maður hjá líða að tilkynna barnaverndarnefnd um svo illa meðferð eða slæman aðbúnað barns eða ungmennis að lífi þess eða heilsu sé hætta búin þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

64. gr.


    Ef maður hefur samband, heimsækir eða ónáðar barn eða ungmenni gegn banni barnaverndarnefndar eða brýtur gegn úrskurði fógeta eða sýslumanns um að víkja af heimili, sbr. 31. gr., varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

65. gr.


    Hver, sem nemur á brott barn eða ungmenni sem barnaverndarnefnd hefur ráðstafað samkvæmt lögum þessum eða kemur því til leiðar að brotið er gegn slíkri ráðstöfun, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

66. gr.


    Ef þeir sem hafa barn eða ungmenni í sinni umsjá
    misþyrma því andlega eða líkamlega,
    misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt,
    vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin,
þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

67. gr.


    Hver, sem beitir barn eða ungmenni refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum.

68. gr.


    Ef maður hvetur barn eða ungmenni til lögbrota, lauslætis, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða leiðir það með öðrum hætti á siðferðilega glapstigu þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum.

69. gr.


    Hver, sem sýnir barni eða ungmenni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

70. gr.


    Um rannsókn og meðferð brota, sem refsing er lögð við í lögum þessum, fer að hætti opinberra mála.

Niðurlagsákvæði.


71. gr.


    Lög þessi taka gildi 1. júní 1992. Falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram sem stjórnarfrumvarp á 112. og 113. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Frumvarpinu fylgdu svohljóðandi athugasemdir:
     Þann 30. apríl 1987 skipaði Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra, nefnd til að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966. Nefndin var skipuð Sigríði Ingvarsdóttur, formanni barnaverndarráðs, Ingibjörgu Rafnar héraðsdómslögmanni og Gunnari Sandholt, yfirmanni fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Tveir starfsmenn barnaverndarráðs unnu með nefndinni, þau Guðjón Bjarnason framkvæmdastjóri og Guðrún Erna Hreiðarsdóttir lögfræðingur.
     Starf nefndarinnar hefur miðast við heildarendurskoðun á gildandi lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966. Nefndin hefur átt fundi með ýmsum aðilum sem hafa þekkingu og reynslu á því sviði sem um ræðir, svo sem barnalæknum, geðlæknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, lögfræðingum og félagsráðgjöfum. Einnig hefur hún átt samvinnu á starfstíma sínum við nefndir eða einstaka fulltrúa þeirra sem hafa haft með höndum endurskoðun á lögum eða reglum sem tengjast með einum eða öðrum hætti málefnum barna. Þessar nefndir eru: nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem vann að gerð frumvarps til laga um félagslega þjónustu sveitarfélaga, sifjalaganefnd, nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem vann að því að setja reglur um starfsemi dagmæðra og nefnd sem hefur endurskoðað ákvæði almennra hegningarlaga um skírlífisbrot. Þá hefur nefndin gert samanburð á erlendum rétti, einkum á Norðurlöndum, en þar hefur farið fram endurskoðun á barnaverndarlögum, svo og löggjöf um félagslega þjónustu hins opinbera. Sérstaklega var stuðst við ítarlegar greinargerðir og tillögur sem höfðu verið unnar í Noregi á undanförnum árum en lagafrumvarp um félagslega þjónustu var lagt fram á norska Stórþinginu 1989. Loks hefur nefndin haft hliðsjón af tillögum nefndar sem skipuð var 26. ágúst 1974 til að endurskoða lög nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna.
     Verkefni þetta hefur einkum beinst að því að setja fram hugmyndir sem eru í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í barnaverndarmálum frá því að gildandi lög voru sett. Í því sambandi má benda á uppbyggingu félagslegrar þjónustu af ýmsu tagi, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Árið 1967 var lögfest heimild til þess að fela félagsmálaráðum verkefni barnaverndarnefnda að nokkru leyti eða öllu. Þá var Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar komið á fót og nú hafa flestir stærstu kaupstaðirnir þá skipan mála. Fagleg þekking hefur aukist með fjölgun sérmenntaðra starfsmanna, svo sem sálfræðinga og félagsráðgjafa, í heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu. Dagvistun hefur eflst til muna og sömuleiðis sálfræðileg þjónusta í skólum. Ýmiss konar starfsemi fyrir unglinga á vegum stórra sveitarfélaga og leitarstarf á vegum útideilda hefur einnig orðið til á þessum árum. Ungbarnaeftirlit og heilsugæsla hefur eflst.
     Komið hefur í ljós þörf á að samræma barnaverndarlögin nýjum eða breyttum lögum sem tekið hafa gildi á síðari árum og má þar nefna barnalög, nr. 9/1981, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og lög um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 33/1983.
     Á síðari árum hefur greinilega verið leitast við að skilgreina réttarstöðu barna betur en áður. Í barnalögum, nr. 9/1981, svo og finnsku barnaverndarlögunum, nr. 683 frá 1983, kemur þetta greinilega fram. Í þeim tillögum, sem hér eru settar fram, er lögð áhersla á að skilgreina barnavernd út frá þörfum barna og að hagsmunir barna sitji í fyrirrúmi. Þá hefur nefndinni þótt áríðandi að við endurskoðun laganna yrði haft í huga mikilvægi þess að lög um vernd barna og ungmenna verði skýr og aðgengileg öllum, bæði almennum borgurum, svo og þeim sem hafa með höndum barnaverndarstörf, beint eða óbeint.
     Þegar litið er til þeirra hagsmuna sem í húfi eru varðandi öryggi og velferð barna og ungmenna þykir ljóst hve mikilvægt það er að vanda vel lagasetningu um þetta efni. Á hinn bóginn er hér við að eiga persónuleg málefni og einkalíf manna sem verður að fara varlega í að raska. Vandinn er því sá að tryggja velferð og öryggi barna og ungmenna án þess að skerða um of friðhelgi einstaklinga. Enn fremur má benda á að ógjörningur hlýtur að vera að fjalla um í lagatexta allar þær aðstæður sem upp geta komið í lífi barna og ungmenna sem kalla á sérstakar aðgerðir af hálfu yfirvalda eða annarra. Þetta hefur verið leyst með því að lýsa því svo nákvæmlega sem unnt er hvaða aðstæður kalli á ákveðin viðbrögð, en væntanlega fer það svo eftir atvikum hvernig til tekst að koma til móts við þarfir barna og ungmenna í samræmi við þau lög sem í gildi eru á hverjum tíma. Mikilvægt þykir að lagaákvæði um vernd barna og ungmenna gefi ekki tilefni til mismunandi eða mjög ólíkra túlkana. Því hefur hér verið lögð áhersla á að framsetning og orðalag lagafrumvarpsins gefi skýr fyrirmæli um til hvers er ætlast.

Samræmd félagsmálalög — sérlög um barnavernd?


    Nefndinni er ljóst að árangur í barnaverndarstarfi er undir því kominn að starfshæfar einingar standi undir framkvæmdinni. Annars staðar á Norðurlöndum hefur þróun í barnaverndarmálum orðið sú að þessi mál eru í tekin inn í heildarskipulag velferðarmála einstaklingsins. Um barnaverndarmálin er þá fjallað í tengslum við aðra félagslega aðstoð. Í Danmörku eru lagaákvæði um barnavernd sérstakur kafli í lögunum um félagslega þjónustu og hið sama er að segja um nýtt frumvarp til laga um félagslega þjónustu sem lagt var fram á norska Stórþinginu 30. mars 1989. Sama gildir að mestu um sænsku félagsmálalögin þótt sérstök lög hafi þar verið sett um þvingunarúrræði í barnaverndarmálum. Í öllum tilfellum er barnavernd samþætt annarri félagslegri þjónustu. Í Finnlandi voru sett sérstök barnaverndarlög en framkvæmd þeirra hvílir að mestu á félagsmálastofnunum sveitarfélaga. Rétt er að hafa í huga að miklar breytingar á skipan sveitarstjórnarmála voru undanfari endurbóta á félagslegri þjónustu í öllum þessum löndum. Stækkun sveitarfélaga og þriðja stig stjórnsýslunnar skipa þar stóran sess. Slíkar breytingar hafa, sem kunnugt er, ekki orðið hér á landi.
     Nefndin telur rétt að sett verði sérstök lög um vernd barna og ungmenna á þann hátt sem hér er lagt til. Lagaákvæði um íhlutun barnaverndaryfirvalda í málefni einstakra barna og fjölskyldna, um málsmeðferð og réttaröryggi ásamt ákvæðum um stöðu fósturbarna og fósturforeldra þurfa ekki að vera í lagabálki um aðra félagslega þjónustu. Nefndin gerir ráð fyrir að meginreglan sé sú að barnaverndarmál séu samþætt annarri félagslegri þjónustu en að minnstu sveitarfélögunum sé gert skylt að sameinast um barnaverndarnefndir. Lögð er áhersla á að fyllsta samræmis verði gætt við löggjöf um félagslega þjónustu þegar þar að kemur. Nefndin gerir t.d. ráð fyrir að ítarlegar verði fjallað um ýmsa þætti forvarna í almennum lögum um félagslega þjónustu en hér er gert.

Úrskurðarvald í barnaverndarmálum.


    Nefndin hefur hugað sérstaklega að breyttri tilhögun á því hver eigi að hafa úrskurðarvald í þvingunaraðgerðum í þágu barnaverndar en eins og kunnugt er fara barnaverndarnefndir og barnaverndarráð með úrskurðarvald samkvæmt gildandi lögum. Til álita þykir koma að ákvörðun um þvingunaraðgerð þurfi að bera undir hina almennu dómstóla svo sem tíðkast víða á Vesturlöndum. Dómstólameðferð þykja þó fylgja ýmsir ókostir og er hætta á að sú leið yrði ekki nægjanlega skilvirk. Tryggja þarf sérþekkingu dómara og er það að nokkru leyti unnt með því að dómari kalli til sérfróða meðdómsmenn við úrlausn þessara mála, sbr. 37. A. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936, en dómsformaður þyrfti einnig að hafa nokkra sérþekkingu. Einnig er dómstólameðferðin dýr og seinleg.
     Þótt ætla megi að dómstólaleiðin tryggi rétt foreldra best telur nefndin ekki ljóst að hið sama gildi um öryggi og velferð barnsins þegar mál eru rekin fyrir dómstólum. Í barnavernd felst stuðningur samfélagsins við börn. Ef grípa þarf til úrskurðar er eðli hans og tilgangur að tryggja velferð barnsins og öryggi en alls ekki sá að refsa foreldrum. Í meðferð barnaverndarmáls er mikilvægt að tryggja samfellda meðferð þar sem eitt úrræði leiðir af öðru barninu til hagsbóta. Einn meginkostur núverandi kerfis er að barnaverndarnefnd ber áfram fulla ábyrgð á velferð barnsins eftir að hún ákveður að taka barn af heimili. Þetta getur skert rétt foreldra og deilt hefur verið á „sjálfdæmi“ barnaverndarnefnda. Í frumvarpinu er reynt að bregðast við þessari hættu með skýrum málsmeðferðarákvæðum og sterkari stöðu barnaverndarráðs sem áfrýjunaraðila.
     Niðurstaða nefndarinnar er sú að best fari á því að barnaverndarnefndir fari áfram með úrskurðarvald eins og nú háttar til. Úrskurðum má síðan skjóta til barnaverndarráðs sem hefur endanlegt úrskurðarvald í þessum málum eins og verið hefur en þó með þeirri veigamiklu breytingu að hlutverk barnaverndarráðs er takmarkað við úrlausnir í málum sem skotið er til ráðsins en eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk verði í höndum félagsmálaráðuneytisins, sbr. 3. gr. frumvarpsins.

Helstu nýmæli frumvarpsins.


    Lagt er til að yfirstjórn barnaverndarmála verði í höndum félagsmálaráðuneytisins í stað menntamálaráðuneytisins eins og nú er. Þessi hugmynd er ekki ný en hún kom m.a. fram í greinargerð með gildandi lögum nr. 53/1966. Félagsmálaráðuneytið hefur með höndum, eins og kunnugt er, almennt eftirlit með störfum sveitarfélaga, svo og ýmsum verkefnum sem unnin eru á vegum þeirra, svo sem félagsmálum. Barnaverndarstörf tengjast með ýmsum hætti félagslegri þjónustu sem unnin er á vegum sveitarfélaga og þykir því fara betur á því að yfirstjórn þessara mála verði í sama ráðuneyti. Sem handhafi framkvæmdarvalds þykir ráðuneytið hafa mun betri aðstöðu en barnaverndarráð til að hafa virkt eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og skyldum sveitarfélaga og hafa þar áhrif á ef þessir aðilar bregðast lögboðnum skyldum sínum. Þá má benda á að annars staðar á Norðurlöndum er yfirstjórn barnaverndarmála í höndum félagsmálaráðuneyta. Þar sem töluverð samvinna er orðin á seinni árum varðandi barnavernd almennt milli þessara landa er þess að vænta að mun hentugra verði fyrir Ísland að standa að slíkri samvinnu verði yfirstjórn barnaverndarmála í höndum félagsmálaráðuneytisins.
    Gert er ráð fyrir breyttum starfsháttum barnaverndarráðs þannig að það fari ekki lengur með það tvíþætta hlutverk að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf við úrlausn einstakra mála og fara með fullnaðarúrskurðarvald í sömu málum. Gerð er tillaga um að barnaverndarráð fari einungis með fullnaðarúrskurðarvald í barnaverndarmálum en leiðbeiningarskyldan og eftirlit með störfum barnaverndarnefnda fari fram í félagsmálaráðuneytinu, sbr. 1. lið hér að framan.
    Brýnt þykir að barnaverndarumdæmi verði stækkuð en barnaverndarnefndir eru nú yfir tvö hundruð talsins á landinu öllu. Reynslan hefur sýnt að barnaverndarstarf strandar oft á smæð sveitarfélaga. Þau hafa ekki bolmagn til að sinna raunhæfu barnaverndarstarfi. Bæði er fjármagn af skornum skammti og einnig sérþekking við úrlausn barnaverndarmála. Fjárskorturinn leiðir m.a. til þess að ekki er unnt að ráða fólk með sérþekkingu til starfa fyrir barnaverndarnefndir en sérþekking er í flestum tilfellum afar nauðsynleg. Einnig er ráðgjöf sérfræðinga oft mjög brýn við úrlausn erfiðra barnaverndarmála en fyrir hana þarf að greiða sérstaklega. Sama á við um athuganir á börnum eða öðru heimilisfólki. Stofnanir eru t.d. ekki fúsar að taka þessi mál að sér án greiðslu.
                  Því verður að líta svo á að barnaverndarstarfi verði ekki hægt að sinna á fullnægjandi hátt í svo smáum einingum sem núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir. Með sameiginlegum barnaverndarnefndum sveitarfélaga yrðu þær fremur starfshæfar einingar og ættu t.d. auðveldara með að ráða sérhæft starfsfólk og að standa undir öðrum óhjákvæmilegum kostnaði.
    Í frumvarpinu hefur verið leitast við að setja skýrari ákvæði um skyldur barnaverndaryfirvalda gagnvart börnum og ungmennum. Má í því sambandi benda á ákvæðin um leitar- og varnarstarf, svo og nánari skilgreiningu á því hvað eru óviðunandi aðstæður barna og ungmenna. Þá er kveðið á um skyldur yfirvalda gagnvart þeim börnum og ungmennum sem lenda í afbrotum, svo og þeim sem verða fyrir afbrotum. Nauðsynlegt er að gera viðeigandi breytingar á lögræðislögum, nr. 68/1984, um innlögn ungmenna á stofnun sem stefna eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu.
    Í frumvarpi þessu eru ítarlegri ákvæði en í gildandi lögum um ráðstöfun barna í fóstur, svo og um réttarstöðu barna í fóstri, fósturforeldra og kynforeldra.
    Í gildandi lögum eru ákvæði um málsmeðferð á víð og dreif í ýmsum lagagreinum. Í frumvarpinu eru ákvæði um starfshætti barnaverndarnefnda og málsmeðferð sett í sérstakan kafla. Leitast er við að gera ákvæði, er lúta að meðferð mála, skýrari til þess að taka af tvímæli.
    Leitast er við að skilgreina betur réttarstöðu barna og ungmenna í barnaverndarmálum og miðað er að því að auka réttarvernd þeirra. Er því sett fram sú tillaga að börn eigi að jafnaði rétt á að tjá sig um málið og er það skylt þegar barn er orðið 12 ára. Þegar sérstaklega stendur á er barnaverndarnefnd auk þess heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann.
    Felld eru brott ákvæði um skoðun kvikmynda en eðlilegt þykir að þau verði í lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í inngangskafla frumvarpsins er fjallað um markmið barnaverndar og meginþætti í starfi barnaverndaryfirvalda. Er þar tekið fram hver megintilgangur laganna er en nánari skilgreiningar koma fram í öðrum köflum frumvarpsins.
     Í kaflanum er einnig fjallað um skipulag barnaverndarmála. Sú meginbreyting er gerð á yfirstjórn barnaverndarmála að hún er færð úr höndum menntamálaráðuneytisins í félagsmálaráðuneytið. Einnig er gerð sú breyting að eftirlit með störfum barnaverndarnefnda, svo og fræðslustarfsemi og ráðgjöf, verður framvegis í höndum félagsmálaráðuneytisins en ekki hjá barnaverndarráði eins og verið hefur. Fer barnaverndarráð þá ekki lengur með það tvíþætta hlutverk að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf við úrlausn einstakra mála og jafnframt með fullnaðarúrskurðarvald í sömu málum.

Um 1. gr.


    Gengið er út frá því að hagsmunir barna verði alla jafna best tryggðir með því að þau alist upp hjá eigin fjölskyldu. Þótt litið sé á barnið sem einstakling er lögð áhersla á að það er engu að síður hluti af fjölskyldunni og ber barnaverndaryfirvöldum að virða það. Með orðalagi greinarinnar er stefnt að því að setja barnaverndaryfirvöldum raunhæf markmið. Ekki er barnaverndaryfirvöldum ætlað að tryggja öllum börnum bestu aðstæður heldur að sjá svo um að engin börn búi við skaðlegar aðstæður. Það verður þó ávallt matsatriði á hverjum tíma og í hverju samfélagi hvað teljast viðunandi uppeldisskilyrði. Er það mat m.a. háð siðferðilegu gildismati og fræðilegri þekkingu á því hvað börnum er hollt og hvað þeim er skaðlegt. Hér er gengið út frá því að fjölskylda hvers barns gegni lykilhlutverki við uppeldi barna. Þó getur komið til þess að grípa þurfi til sérstakra ráða til verndar barni og getur þá verið að slíkar aðgerðir beinist gegn vilja og hagsmunum annarra í fjölskyldu barnsins. Því verður að meta í hverju einstöku tilfelli hvað barni eða ungmenni sé fyrir bestu.
     Með stöðugleika í uppvexti er átt við að börn fái að alast upp í öryggi og án þess að aðgerðir barnaverndaryfirvalda raski stöðu þeirra og högum nema ekki verði hjá því komist. Stöðugleiki í uppvexti vísar einnig til mikilvægis upprunafjölskyldu barnsins og gildi þess almennt að börn séu alin upp í fjölskyldu. Með þessu er lögð áhersla á tengsl barns og fullorðinna einstaklinga sem bera ábyrgð á umönnun þess, uppeldi og þroska. Með stöðugleika í uppvexti er einnig vísað til þess að unnið skuli að því að koma börnum á ný í umsjá foreldra svo fremi það fari ekki í bága við þarfir þeirra og hagsmuni. Í þeim tilvikum vísar stöðugleiki í uppvexti til þess að börn, sem tekin eru úr umsjá foreldra, fái svo skjótt sem auðið er trausta og varanlega forsjá í góðri fósturfjölskyldu þegar það hentar best þörfum þeirra.

Um 2. gr.


    Í greininni eru talin upp þau stjórnvöld sem bera ábyrgð á störfum er varða barnavernd og teljast því barnaverndaryfirvöld.

Um 3. gr.


    Með aukinni þekkingu á málefnum barna, þörfum þeirra og uppvaxtarskilyrðum er nauðsynlegt að stjórnvöld móti ákveðna stefnu á hverjum tíma um megintilgang með barnaverndarstörfum. Mikilvægt er að stjórnvöld skilgreini hvað beri að leggja áherslu á hverju sinni. Úrræði í barnavernd eru oft af skornum skammti og er því brýnt að markviss uppbygging fari fram til þess að barnaverndarstörf verði árangursrík. Eðlilegt þykir að heildarstefna verði mótuð í félagsmálaráðuneytinu, byggð á þeirri þekkingu sem til er hverju sinni um börn og aðstæður þeirra. Allnokkuð hefur skort á að nægjanlegar rannsóknir væru gerðar á aðstæðum barna og fullnægjandi úrræðum í þágu þeirra sem þurfa sérstaka vernd af hálfu yfirvalda en þetta þykir sérstaklega mikilvægt til að tryggja viðunandi árangur í barnaverndarstörfum.
     Með þeirri breytingu að ráðuneytið fari með eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk í stað barnaverndarráðs er nauðsynlegt að skýra valdmörk félagsmálaráðuneytisins annars vegar og barnaverndarráðs hins vegar gagnvart barnaverndarnefndum og er það gert með þessari grein.

Um 4. gr.


    Meginþættir í störfum barnaverndarnefnda eru samkvæmt greininni þeir sömu og í gildandi lögum en eru nú taldir upp og skilgreindir. Sérstök áhersla er lögð á að fylgjast beri með þeim börnum og ungmennum sem eru hjálpar þurfi og einnig að afla skuli upplýsinga sem gefa haldgóða mynd af þeim vanda sem við er að eiga hverju sinni. Að öðrum kosti er þess ekki að vænta að unnt verði að veita viðunandi aðstoð eða grípa til heppilegra úrræða.
     Þá þykir rétt að taka sérstaklega fram að barnaverndarnefndir fara einnig með þau verkefni sem þeim eru falin í öðrum lögum, svo sem ættleiðingarlögum.

Um 5. gr.


    Greinin fjallar um þagnarskyldu og er óbreytt 3. gr. gildandi laga.

Um II. kafla.


    Í kaflanum er fjallað sérstaklega um barnaverndarnefndir, skipulag þeirra, starfslið og samstarf nefnda. Mikilvægasta breytingin á gildandi lögum er sú að hér er gert ráð fyrir að efla starfsemi barnaverndarnefnda með stækkun barnaverndarumdæma, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Um það atriði er enn frekar fjallað í 3. tölul. í kaflanum, Helstu nýmæli frumvarpsins, í inngangi þessara athugasemda.

Um 6. gr.


    Greinin fjallar um kosningu og kjörgengi í barnaverndarnefnd. Gert er ráð fyrir því að héraðsnefndir og bæjarstjórnir í kaupstöðum, sem standa utan héraðsnefnda, kjósi í barnaverndarnefnd. Með þessu er ætlunin að tryggja að stærri einingar standi að barnaverndarstarfi en nú er. Þá er gert ráð fyrir því að félagsmálaráð geti farið með störf barnaverndarnefnda svo sem heimilt er samkvæmt gildandi lögum eða félagsmálanefndir verði þeim komið á fót.
     Mikilvægt þykir að í barnaverndarnefnd eigi sæti lögfræðingur, svo og fólk með sérþekkingu á málefnum barna.
     Kjörgengi í barnaverndarnefnd er háð sams konar skilyrðum og nú.

Um 7. gr.


    Greinin fjallar um kjörtímabil barnaverndarnefnda og er efnislega samhljóða 7. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 8. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að rétt þykir og eðlilegt að undanþágu frá skyldu til setu í barnaverndarnefnd fái nefndarmenn eftir tvö kjörtímabil í stað eins nú þar sem reynsla nefndarmanna þykir mikils virði.
     Ljóst er að sveitarstjórnir standa straum af kostnaði við störf barnaverndarnefnda en í greininni er héraðsnefnd látið eftir að ákveða hvernig kostnaður skiptist á einstök sveitarfélög en eins og kunnugt er eru málefni héraðsnefnda enn í mótun.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Fyrsta málsgrein er efnislega samhljóða upphafi 10. gr. gildandi laga, en er nokkru fyllri. Í greinargerð með frumvarpi til gildandi laga kom fram fullur skilningur á mikilvægi þess að barnaverndarnefndir hefðu á að skipa sérhæfðu starfsliði. Með sérhæfðu starfsliði er átt við starfsmenn er fengið hafa sérmenntun í þeim fræðum sem mest tengsl hafa við barnavernd, þar á meðal sálfræðinga, félagsráðgjafa, sérmenntaða kennara og uppeldisfræðinga. Því fer fjarri að barnaverndarnefndir hafi yfirleitt nægan aðgang að sérhæfðu starfsliði og stendur það barnaverndarstarfi víða mjög fyrir þrifum. Veldur slíkt óeðlilegum drætti á að mál séu könnuð, málsmeðferð verður ómarkviss og dregst á langinn og réttarstöðu allra aðila er ekki gætt sem skyldi.
     Nú munu starfandi 15 félagsmálastofnanir í bæjum og kaupstöðum. Flestar eru þó svo fámennar að ekki gefst færi á þeirri sérhæfingu sem æskileg er í barnaverndarmálum. Þess eru dæmi, og þeim fer fjölgandi, að barnaverndarnefndir og félagsmálastofnanir hafa keypt ráðgjöf félagsráðgjafa og sálfræðinga í einstökum málum.
     Stækkun barnaverndarumdæma ætti að gefa nefndum aukna möguleika til að ráða starfsfólk og er brýnt að héraðsnefndir og sveitarstjórnir styðji við nefndirnar að þessu leyti.
     Í 2. mgr. er veitt heimild til samstarfs við aðrar stofnanir um sameiginlega sérfræðiþjónustu.
     Í 3. mgr. er bætt við ákvæði um heimildir barnaverndarnefnda til að fela starfsmönnum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka að því tilskildu að um það hafi verið settar formlegar reglur sem héraðsnefnd eða sveitarstjórn staðfestir.

Um 11. gr.


    Grein þessi fjallar um valdmörk nefnda og samstarf nefnda. Efnislega er greinin samhljóða 17. og 29. gr. gildandi laga.

Um III. kafla.


    Þessi kafli fjallar um skipan barnaverndarráðs, hlutverk þess og starfshætti. Í kaflanum eru lagðar til verulegar breytingar frá gildandi lögum. Lagt er til að ráðsmönnum verði fækkað úr fimm í þrjá en með setningu gildandi laga var þeim fjölgað úr þrem í fimm. Hlutverki ráðsins er einnig breytt þannig að það hafi eingöngu með höndum fullnaðarúrskurðarvald í þeim barnaverndarmálum sem skotið er til ráðsins en leiðbeiningarskylda barnaverndarráðs og eftirlit með störfum barnaverndarnefnda flyst til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
     Telja verður að þessi veigamikla breyting á hlutverki barnaverndarráðs styrki verulega stöðu þess sem áfrýjunaraðila þar sem því er ekki lengur ætlað það tvíþætta hlutverk að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf við úrlausnir einstakra mála og kveða síðan upp fullnaðarúrskurði í þessum sömu málum síðar.

Um 12. gr.


    Í greininni er lagt til að félagsmálaráðherra skipi þrjá menn í barnaverndarráð í stað fimm manna eins og nú er. Það er ljóst að ákvarðanir barnaverndarráðs hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá sem hlut eiga að máli og því nauðsynlegt að tryggja eftir föngum að þær ákvarðanir séu byggðar á víðtækri, faglegri þekkingu þeirra sem sitja í ráðinu. Telja verður að með þremur mönnum sé hægt að fullnægja þeim kröfum um sérþekkingu á málefnum barna sem gera verður til ráðsmanna auk þess sem vægi og ábyrgð hvers einstaks ráðsmanns hlýtur að vera meira í þriggja manna ráði en í fimm manna ráði. Enn fremur má ætla að úrlausn mála verði greiðari í minna ráði en stærra.
     Það þykir eðlilegt að gera þær kröfur til formanns barnaverndarráðs að hann fullnægi almennum hæfisskilyrðum til þess að vera skipaður héraðsdómari í samræmi við ákvæði 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936, ekki síst með tilliti til þeirra breytinga sem lagt er til að gerðar verði á barnaverndarráði.

Um 13. gr.


    Lagt er til að barnaverndarráð fari með úrskurðarvald í þeim málum sem skotið er til ráðsins samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. Önnur verkefni, sem ráðið hefur nú með höndum, flytjist hins vegar til félagsmálaráðuneytisins skv. 3. gr. frumvarpsins.
     Greinin er að öðru leyti efnislega samhljóða ákvæðum í 12. og 51. gr. gildandi laga.

Um 14. gr.


    Í greininni er ákvæði þess efnis að ráðherra setji reglugerð um starfsháttu barnaverndarráðs. Í þeirri reglugerð þyrfti m.a. að kveða ítarlega á um það hvernig staðið skuli að bókun fundargerða, en engin slík fyrirmæli eru í gildandi lögum eða reglugerð. Enn fremur þyrfti að setja reglur um boðun funda barnaverndarráðs, boðun varamanna og um verkaskiptingu innan ráðsins, um starfsmenn þess og skrifstofuhald.
     Annað í kaflanum er efnislega samhljóða ákvæðum í III. og V. kafla gildandi laga.

Um IV. kafla.


    Ákvæði frumvarpsins um tilkynningarskyldu eru að efni til óbreytt að öðru leyti en því að nú er gerð tillaga um sérstaka grein sem lýtur að nafnleynd tilkynnanda og er það nýmæli. Jafnframt er miðað að því að gera lagaákvæðin um tilkynningarskyldu skýrari og er þeim nú skipað í samfellu í sérstakan kafla ásamt ákvæði um skyldur annarra, sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna, við barnaverndaryfirvöld.
     Í greinargerð með 46. gr. laga nr. 29/1947, um vernd barna og ungmenna, segir m.a. að börn á ungum aldri séu ekki þess umkomin að leita réttar síns vegna misferlis sem þau verða fyrir og að börn og ungmenni séu annars oft svo háð þeim sem veita eiga þeim forsjá að þau geti ekki borið sig upp undan meðferð þeirri er þau sæta. Þessi orð eiga enn þá við og jafnvel eru ástæður til að ætla að tilkynningarskyldan sé enn mikilvægari nú en hún var fyrir 40 árum vegna þeirra þjóðfélagsbreytinga sem orðið hafa.
     Tilgangur tilkynningarskyldu er sá að vitneskja um barn eða börn, sem eru hjálparþurfi, komist til barnaverndaryfirvalda þannig að þau geti sinnt þeim lögboðnu skyldum sínum að tryggja öryggi, aðbúnað og viðunandi uppeldisskilyrði barna og ungmenna. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að barnaverndaryfirvöld fái sem fyrst vitneskju um tilvik sem gefa tilefni til afskipta af þeirra hálfu. Tilkynningarskyldan sem slík tryggir þó ekki að aðbúnaður barns batni heldur verður einnig til að koma öflugt og traust barnaverndarstarf sem bregst við tilkynningum og tekur á málum eftir því sem við á. Tilkynningarskylda hefur því enn meira gildi ef barnaverndarstarf er öflugt og nýtur trausts.
     Það er ákaflega erfitt að skilgreina nákvæmlega í lögum hvenær tilkynningarskyldan á við, en engu að síður mjög mikilvægt að lögin séu eins skýr og afdráttarlaus og mögulegt er til þess að taka af tvímæli. Hins vegar verður að ganga út frá þeirri staðreynd að það hljóti að byggjast á mati hvenær skilyrði laganna eru fyrir hendi. Hér má líka nefna hugsanlegan hagsmunaárekstur þegar tilkynningarskyldan stangast á við þagnarskyldu ákveðinna starfsstétta. Samkvæmt gildandi lögum gengur tilkynningarskyldan við barnaverndaryfirvöld framar ákvæðum laga um þagnarskyldu en engu að síður er það þó oft háð mati hvaða atvik eða aðstæður gefa tilefni til afskipta barnaverndaryfirvalda. Rétt er að geta þess að tilkynningarskyldan gildir þótt tilkynnandinn þekki ekki allar aðstæður barnsins. Einungis getur verið um rökstuddan grun að ræða og því ekki ljóst á því stigi hvort barnaverndarnefnd lætur málið til sín taka eða ekki. Þegar tilkynnt hefur verið er það háð mati nefndarinnar hvort og hverra aðgerða er þörf hverju sinni.

Um 15. gr.


    Þessi grein er að mestu samhljóða 1. og 3. mgr. 48. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.


    Þessi grein er að mestu sambærileg 1. mgr. 18. gr. gildandi laga. Sú breyting er þó gerð að tilkynningarskyldan hvílir ekki eingöngu á opinberum starfsmönnum heldur á hverjum þeim sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna. Í upptalningu þeirra stétta, sem sérstök tilkynningarskylda er lögð á, er bætt fóstrum og dagmæðrum.
     Í lokamálslið 2. mgr. er kveðið á um það nýmæli að tilkynningarskyldan gangi framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Telja verður að með þessari grein séu tekin af tvímæli um það að tilkynningarskylda þeirra starfsstétta, sem tilgreindar eru sérstaklega í greininni, við barnaverndarnefndir gangi framar þagnarskyldu þeirra samkvæmt öðrum lögum.

Um 17. gr.


    Greinin er efnislega sambærileg 19. gr. gildandi laga.

Um 18. gr.


    Helsta nýmæli frumvarpsins um tilkynningar til barnaverndaryfirvalda lúta að nafnleynd tilkynnanda. Með nafnleynd í þessu sambandi er átt við að barnaverndarnefnd heitir tilkynnanda að halda nafni hans leyndu fyrir öðrum ef hann óskar þess. Tilkynnandi verður eigi að síður að gefa nefndinni upp nafn sitt. Það er mikilvægt að upplýsingar berist greiðlega til barnaverndaryfirvalda. Með því að tryggja almenningi nafnleynd er greitt fyrir því að svo verði. Nafnleyndin hefur því þann tilgang að stuðla að bættri barnavernd. Þá er einnig mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sýni fyllstu aðgæslu við meðferð hvers konar upplýsinga sem til þeirra berast en í 21. gr. frumvarpsins er boðið að barnaverndaryfirvöld skuli hefjast handa þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um ákveðin atriði.

Um 19. gr.


    Ljóst þykir að barnaverndarstarf komi því aðeins að fullum notum að tryggð sé samvinna allra þeirra aðila og stofnana er mest afskipti hafa af málefnum barna og ungmenna. Mikilvægt barnaverndar- og uppeldisstarf er unnið af hálfu ýmissa aðila, bæði opinberra og annarra. Má þar nefna heilbrigðisþjónustuna, einkum ungbarnaeftirlitið, svo og dagvistarstofnanir og skóla. Skv. 3. mgr. 2. gr. gildandi laga hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að leita samvinnu við forráðamenn skóla, heilsugæslu og félagsmála og aðra þá sem fjalla um málefni barna og ungmenna. Á hinn bóginn er lögð sú skylda á alla opinbera starfsmenn að hafa náið samstarf við barnaverndarnefndir í 18. gr. gildandi laga.
     Rétt þykir að leggja sérstaka áherslu á gagnkvæma samvinnu barnaverndaryfirvalda og annarra sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna. Sérstök skylda er lögð á skóla og dagvistarstofnanir í þessum efnum skv. 3. mgr.
     Þá er í 4. mgr. sérstaklega tilgreint að þær stofnanir á sviði félags- og heilbrigðismála, er sinna foreldrum, skuli taka tillit til hagsmuna barna skjólstæðinga sinna. Það verður að leggja í mat hverrar stofnunar hvernig það verður best gert. Um getur verið að ræða aðgerðir allt frá félagslegri ráðgjöf varðandi réttindi og þjónustu til mjög náinnar samvinnu við barnaverndarnefndir, t.d. þegar börn búa við hættulegar aðstæður vegna geðveiki eða fíkniefnaneyslu foreldranna.
     Gert er ráð fyrir að ráðuneytið setji frekari reglur og leiðbeiningar í reglugerð um samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir. Rétt þykir að slík reglugerð verði sett að höfðu nánu samráði við önnur ráðuneyti þegar það á við, t.d. menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Gæti slíkt stuðlað að markvissari samvinnu.

Um V. kafla.


    Á síðari árum hefur verið á það bent að nauðsynlegt sé að skilgreina vel í lögum skyldur barnaverndaryfirvalda til stuðnings einstökum börnum og ungmennum. Á það bæði við um hvenær skuli hefja íhlutun og hvaða úrræðum skuli beitt. Með því móti er síður hætta á mismunandi túlkunum á lagaákvæðum, starf barnaverndaryfirvalda verður markvissara og börn, foreldrar og barnaverndaryfirvöld njóta meira réttaröryggis við úrlausnir þessara vandasömu mála.
     Skyldur barnaverndaryfirvalda varðandi einstök börn felast fyrst og fremst í því að grípa til viðeigandi úrræða ef og þegar aðstæður barns eða aðbúnaður er óviðunandi. Þetta orðalag gefur barnaverndaryfirvöldum mjög frjálsar hendur í þeim efnum að skilgreina hvað eru óviðunandi aðstæður eða aðbúnaður.
     Í 35. gr. barnalaga, nr. 9/1981, eru skilgreindar forsjárskyldur foreldra. Þær skilgreiningar gefa þó ekki endilega fullnægjandi vísbendingar um það við hvað skuli miða varðandi ákvörðun á því hvenær foreldrar eða þeir sem hafa forsjárskyldur við barnið hafa brugðist þessum lögboðnu skyldum. Því þykir nauðsynlegt að í lögum um vernd barna og ungmenna verði nánar skilgreint hvenær barnaverndaryfirvöld skuli hefjast handa til stuðnings einstökum börnum eða ungmennum og til hvaða úrræða þeim beri að grípa. Ekki þykir fullnægjandi, svo sem gert er í gildandi barnaverndarlögum, að orða þetta þannig að barnaverndarnefnd skuli láta mál til sín taka á þann hátt er best þykir við eiga eftir því sem á stendur, sbr. 22. gr. laga nr. 53/1966. Það er ljóst að slíkt orðalag setur starfsmenn barnaverndaryfirvalda í ærinn vanda, t.d. ef þeir fá óstaðfestar eða jafnvel óljósar upplýsingar um að barn búi við slaka umönnun af hálfu foreldra sinna. Flest þau úrræði, sem gildandi lög ætla barnaverndarnefndum að beita, halda enn gildi sínu og eru hér einnig með, ýmist óbreytt eða færð til nútímalegra orðalags. Mikið þykir þó vanta á að kveðið sé á um ýmis úrræði í samvinnu við foreldra og þvingunarúrræði. Má þar nefna t.d. tilsjónarmann og stuðningsfjölskyldu. Þá er þar hvorki kveðið sérstaklega á um skyldur foreldra né heimildir barnaverndarnefnda til að færa barn til læknisrannsóknar eða athugunar á sjúkrahús né heimildir barnaverndarnefnda til að banna brottflutning barns úr landi.
     Í kafla þessum er leitast við að skilgreina betur en gert er í gildandi lögum hverjar skyldur barnaverndaryfirvalda eru gagnvart einstökum börnum og ungmennum og þá jafnframt við hvaða aðstæður þessar skyldur verða virkar.
     Öll afskipti barnaverndaryfirvalda eru til þess fallin að trufla að meira eða minna leyti einkalíf viðkomandi fjölskyldu. Afskiptin þurfa því í öllum tilvikum að vera réttlætanleg. Hafa verður í huga að afskipti barnaverndaryfirvalda hafa þann eina tilgang að koma barni til hjálpar þegar foreldrar bregðast skyldum sínum gagnvart barninu. Afskipti eru því aðeins réttlætanleg að með þeim verði hagur eða aðbúnaður barnsins bættur. Nú er ekki alltaf auðvelt að sjá fyrir hvenær afskipti koma til með að ná þessu marki. Því verður ekki hjá því komist að það verði að einhverju leyti háð mati barnaverndaryfirvalda hvenær þau eigi að hafa afskipti af því hvernig foreldrar rækja þær skyldur sem þeir bera gagnvart börnum sínum. Engu að síður hlýtur markmið lagasetningar í þessu tilliti að vera að skilgreina skyldur barnaverndaryfirvalda sem nákvæmast þannig að orðalag gefi sem minnst tilefni til mismunandi túlkunar.
     Þótt það sé ótvíræður réttur barna að barnaverndaryfirvöld grípi inn í ef aðstæður þeirra eða aðbúnaður er óviðunandi er það einnig réttur foreldra að lög kveði skýrt á um það til hvers er ætlast af þeim sem foreldrum og hvaða háttsemi þeirra leiði til afskipta barnaverndaryfirvalda af heimilisháttum og uppeldisaðferðum. Á hinn bóginn hefur það þótt erfiðleikum bundið í framkvæmd að fyrir þurfi að liggja skilgreindir annmarkar á hæfni foreldra til að annast börn og ala þau upp. Slíkt gæti hugsanlega leitt til þess að vinna í barnaverndarmálum snúist fyrst og fremst um það að sanna ákveðna vankanta á foreldrum í stað þess að rannsókn beinist að því að leiða í ljós að barnið verði fyrir skaða við þær aðstæður sem það býr við láti barnaverndaryfirvöld sig ekki málið varða. Því hefur verið reynt að orða lagaákvæði svo að barnaverndaryfirvöld hafi afskipti af málefnum barns ef foreldrar sýna þá hegðun sem er líkleg til að valda barninu skaða eða ef barn eða ungmenni er líklegt til að skaða sjálft sig með hegðun sinni.
     Uppbygging þessa kafla er með þeim hætti að byrjað er á að kveða á um skyldur foreldra gagnvart börnum og er þar með lögð áhersla á að fyrst og fremst eru það foreldrarnir sem bera ábyrgð á börnum sínum og uppeldi þeirra. Barnaverndaryfirvöld hafa að þessu leyti þær skyldur að þeim ber að aðstoða foreldra við að annast börn sín ef leitt er í ljós að þeir eru ófærir um að gegna þessum skyldum án hjálpar. Því næst eru skilgreindar þær aðstæður sem kalla á íhlutun nefndar og kveðið á um könnun máls. Þá er kveðið á um það til hvaða úrræða barnaverndaryfirvöld skuli grípa ef könnun leiðir í ljós að aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns er áfátt. Þar er fyrst kveðið á um stuðnings- og hjálparaðgerðir og loks kveðið á um sérstök úrræði sem beita má með þvingunaraðgerðum.
     Framsetning og orðalag kaflans er að mestu leyti nýmæli, en þess getið í athugasemdum við einstakar greinar sem óbreytt er frá gildandi lögum.

Um 20. gr.


    Í greininni er skírskotað til almennrar forsjárskyldu foreldra sem nánar er kveðið á um í barnalögum, nr. 9/1981. Eðlilegt má telja að barnaverndarlög vísi til þessarar meginreglu og kveði jafnframt á um skyldur barnaverndaryfirvalda til að hjálpa foreldrum til að annast börn sín í samræmi við barnalög. Hér er gengið út frá því að yfirleitt sé hagsmunum og þörfum barna best borgið í höndum foreldra sem er í sjálfsvald sett að taka þær ákvarðanir er þeir telja börnum sínum og sér henta. Slíkt viðhorf mun í samræmi við almennt gildismat og lýðræðislegar hefðir okkar þjóðfélags. Þess vegna skal þess að jafnaði gætt að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu og í samvinnu við hana verði reynd áður en gripið er til þvingunarúrræða. Slíkur stuðningur má þó aldrei verða barninu skaðlegur. Því er áréttuð hér sú regla að barnaverndarnefndir taki upp það ráð sem ætla má að barni eða ungmenni sé fyrir bestu jafnvel þótt beita þurfi þvingun.

Um 21. gr.


    Í þessari grein eru tilgreind þau tilvik er barnaverndarnefnd skal kanna varðandi málefni einstakra barna. Lög er byggja á sjálfdæmi foreldra, sbr. 20. gr., þurfa ekki að skilgreina hvað sé góð aðbúð heldur frá hvaða skaðlegum skilyrðum eða miska beri að forða öllum börnum. Tekið er mið af „viðunandi uppeldisskilyrðum“, sbr. 1. gr. þessa frumvarps. Seint munu menn á eitt sáttir um hvað sé heilbrigður einstaklingur og hvernig tryggja megi fullkominn þroska hans með uppeldi og ytri aðstæðum. Þekking á aðstæðum og hegðun, sem er skaðleg börnum, er mun nákvæmari og byggist síður á huglægu gildismati eða geðþótta úrskurðaraðila. Árangur þvingaðrar íhlutunar orkar oft tvímælis og með hliðsjón af því skal aðeins grípa til slíkra úrræða ef aðstæður eru barninu skaðlegar þannig að síður leiki vafi á hvort aðgerðir barnaverndarnefndar geri fremur gagn en ógagn.
     Í greininni er tekið mið af barninu sjálfu og raunverulegum eða líklegum skaða sem heilsu þess eða þroska geti verið búin. Þau tilvik, sem barnaverndarnefnd skal láta sig varða, eru einkum tvenns konar:
    Aðstæður eru þannig að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin.
    Barn eða ungmenni stefnir heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni.
     Í a-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að ekki nægi að aðbúnaði barns sé í einhverjum atriðum ábótavant heldur að barninu sé beinlínis hætta búin. Orðalag greinarinnar gerir ekki ráð fyrir að skaði hafi þegar orðið. Nægilegt tilefni til afskipta barnaverndarnefndar er að hætta sé á ferðum ef aðstæður verða ekki færðar til betri vegar. Hafi barnið þegar beðið skaða af verður íhlutun nefndarinnar því brýnni. Þegar barnaverndarnefnd metur hvort vanræksla, vanhæfni eða framferði foreldra sé hættuleg barni þarf oftast að meta hversu alvarlegt framferðið eða vanrækslan er, hvort um langvarandi ástand sé að ræða og hvort það er yfirstandandi, nýafstaðið eða langt er um liðið.
     Sérfræðingar greina yfirleitt fjóra hópa barna sem þannig er hætta búin vegna:
    líkamlegra áverka eða skaða,
    vanrækslu, andlegrar eða líkamlegrar,
    andlegrar kúgunar,
    kynferðislegrar misþyrmingar eða áreitni.
     Þessir flokkar útiloka engan veginn hver annan, þannig er vanrækt barn stundum beitt líkamlegu ofbeldi og barn, sem hlýtur líkamlega áverka af hendi forsjáraðila eða er misþyrmt kynferðislega, hlýtur oftast andlegan skaða.
    Þessi flokkur tekur til barna sem veittur er líkamlegur áverki eða skaði eða hætta er á slíku hvort sem er vegna hegðunar foreldra, t.d. barsmíða, eða t.d. vegna aðgæsluleysis. Algengustu áverkarnir, sem börn hljóta í slíkum tilvikum, eru marblettir og brunasár, stöku sinnum beinbrot og áverkar á innri líffærum. Ýmsir sérfræðingar hafa haldið því fram að slíkir áverkar séu algengari hér á landi en tölur sýna og vísa í því sambandi til nákvæmari rannsókna erlendis. Oft er erfitt að segja svo að óyggjandi sé hvenær líkamlegir áverkar á barni stafa af illri meðferð. Stundum er ekki við annað að styðjast en sjálfan áverkann og ýmsar óljósar vísbendingar um að áverkinn stafi af manna völdum.
    Börn, sem eru vanrækt andlega eða líkamlega, eru að öllum líkindum fjölmennasti hópurinn sem barnaverndarnefndir hér á landi hafa afskipti af. Hér er vísað til hvers konar aðgerðarleysis foreldra varðandi líkamlegar eða andlegar þarfir barns fyrir umönnun, umhirðu, næringu, hreinlæti, örvun, þjálfun o.s.frv. eða þegar foreldrar láta undir höfuð leggjast að bæta úr eða koma í veg fyrir aðstæður sem reynst geta barninu skaðlegar. Hér getur einnig verið um það að ræða að foreldrar hirði ekki um að barn fái viðunandi læknismeðferð, sérþjálfun eða sérkennslu vegna fötlunar eða veikinda.
    Börn, sem sæta andlegri kúgun, getur verið erfitt að greina þar sem einkennin eru óáþreifanlegri. Í þessum hópi eru börn sem foreldrar hafna, jafnvel frá fæðingu, telja „vitlaus“, „vond“, „brjáluð“ o.s.frv. Þeim er hafnað með ýmsum hætti, þau sniðgengin, hædd og spottuð eða þau skömmuð og niðurlægð í sífellu. Annar hópur eru börn sem búa í fjölskyldu þar sem samlíf og andrúmsloft allt mótast af hatri, fjandskap og líkamlegu ofbeldi milli foreldra. Þriðji hópurinn býr við alvarlegt öryggisleysi vegna óábyrgrar og óvæntrar hegðunar foreldranna, oft vegna alvarlegrar geðveiki þeirra eða áfengis- og fíkniefnaneyslu.
                  Loks má hér nefna börn sem bíða tjón á geðheilsu sinni vegna hatrammra skilnaðarátaka foreldra. Nefnd sú, er samdi frumvarp þetta, er þeirrar skoðunar að barnaverndarnefndir skuli einungis vera umsagnaraðilar við forsjárdeilur þegar vafi leikur á hæfni foreldra til að fara með forsjá barns.
    Með kynferðislegri áreitni eða misþyrmingu er átt við að fullorðinn einstaklingur, sem barnið er tengt eða háð á einn eða annan hátt, neytir yfirburða sinna til þess að láta barnið eða ungmennið taka þátt í kynferðislegum verknaði þar sem það samræmist hvorki tilfinninga- eða líkamsþroska þess. Umræður um mál þessara barna eru nýjar af nálinni hérlendis og margt bendir til að slíkar misþyrmingar séu mun algengari en áður var talið.
    Barninu þarf að vera hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Greinin felur ekki í sér nákvæma skilgreiningu á hegðun eða eiginleikum foreldra eins og gert er í gildandi lögum enda verður það aldrei tæmandi talið.
     Vanræksla vísar til hvers konar aðgerðarleysis foreldra, svo sem áður er getið.
     Framferði vísar til hvers konar athafna eða hegðunar af hálfu foreldra sem skaðað geta barnið hvort sem um er að ræða líkamlegt ofbeldi eða andlega kúgun. Kynferðisleg þjökun barna innan fjölskyldna felur oft í sér hvort tveggja. Hvatning foreldra til afbrota eru einnig dæmi um slíkt framferði.
     Vanhæfni foreldranna kemur hér einnig til álita en hafa ber í huga þá meginreglu við mat barnaverndarnefndar að miða við barnið og þá hættu sem það er í fremur en eiginleika foreldranna. Þó verður ekki fram hjá því litið að börnum stafar meiri hætta af vissum eiginleikum í fari foreldra en öðrum. Hér hafa fræðimenn einkum greint sljóa og framtakslitla foreldra, foreldra sem einkennast af lélegri sjálfsstjórn og hömluleysi, langvarandi og alvarlega þunglynda foreldra, foreldra með mjög skerta greind eða alvarlegar geðveilur og loks foreldra sem misnota áfengi eða aðra vímugjafa. Heildarmat á aðstæðum er hér nauðsynlegt því að sterkir, jákvæðir þættir í félagslegu umhverfi, t.d. hæfur maki eða stuðningur fjölskyldu, geta vegið upp einstaka veikleika svo sem slaka greind annars foreldris.
     Í b-lið 1. mgr. er vísað til þess að barn eða ungmenni stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni. Hér er einkum vísað til neyslu áfengis eða annarra vímuefna, afbrota eða annarrar jafnskaðlegrar hegðunar, sbr. 25. gr.
     Í 1. mgr. er barnaverndarnefnd gert skylt að kanna mál þegar hún fær rökstuddan grun um að aðstæður barns séu með þeim hætti sem nánar er tilgreint í a- og b- liðum greinarinnar. Með þessu ákvæði eru kröfur um rannsóknarskyldu barnaverndarnefnda hertar og jafnframt gerðar skýrari. Nefnd ber að hefjast handa um rannsókn máls þegar grunur liggur fyrir, án ástæðulausrar tafar. Sá grunur þarf reyndar að vera rökstuddur þannig að ábendingar og upplýsingar sem berast barnaverndarnefnd verða að eiga við haldbær rök að styðjast að mati nefndar.
     Í 2. mgr. er lögð áhersla á að gerð sé vönduð rannsókn á aðstæðum barns. Einu gildir í hverju hin illa meðferð barnsins er fólgin eða hversu alvarleg hún er. Réttar aðgerðir til úrbóta verða að byggjast á skipulegri rannsókn á uppeldisaðstæðum barnsins. Aðstæður barns, sem ógna heilsu þess og þroska, eru oftast afleiðing margra orsakaþátta; ytri aðstæður, svo sem álag, félagslegar aðstæður og samskipti foreldra, ráða þar nokkru, en einnig persónulegir þættir, svo sem eigið uppeldi, geðheilsa og persónuleiki. Gagnsemi stuðningsaðgerða hlýtur að velta á vandaðri greiningu á sálfræðilegum og félagslegum þáttum og heildarmati á aðstæðum barnsins og fjölskyldu þess. Gert er ráð fyrir að nefndir hafi starfsmenn og leiti til sérfróðra aðila til að geta sinnt þessu, sbr. 10. gr.
     Barn á rétt á vernd samfélagsins og er sá réttur óháður afstöðu foreldranna. Jafnframt á það rétt á að fjölskyldu þess og aðstæðum sé sýnd virðing og nærgætni. 3. og 4. mgr. vísa til þessa, enda eru það hagsmunir barns að könnun máls gangi greiðlega og með friði.

Um 22. gr.


    Í greininni er lögð áhersla á að barnaverndarnefndir vinni með skipulegum hætti í kjölfar könnunar sem leiðir í ljós að aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns sé áfátt. Kveðið er á um í 1. mgr. að gerð sé skrifleg áætlun til úrbóta er tilgreini markmið og leiðir. Krafa um skriflega áætlun er til þess fallin að tryggja vönduð vinnubrögð nefndanna og einnig til að bæta réttarstöðu aðila, bæði barna og foreldra. Slík meðferðaráætlun skal gerð um hvert það barn sem barnaverndarnefnd telur að 1. mgr. eigi við um. Áætlunin þarf m.a. að innihalda
—    ástæður fyrir íhlutun nefndarinnar,
—    markmið, þ.e. hvernig hagsmunir barns verði best tryggðir,
—    úrræði og aðgerðir, sem beita skal til að markmiðum verði náð,
—    tímaáætlun,
—    hver ber ábyrgð á hverju, þ.e. hvaða aðstoð barnaverndarnefnd veitir foreldrum og einnig hvað foreldrum beri að gera fyrir sitt leyti og loks
—    hvenær og hvernig áætlun er endurmetin.
     Eftir því sem við verður komið skal móta meðferðaráætlun og markmið í samvinnu við viðkomandi barn og foreldra þess. Þykir ástæða til að leggja áherslu á að starf barnaverndarnefndar skuli þannig mótast af faglegum vinnubrögðum, enda mikið í húfi að vel takist til. Gera verður ráð fyrir að ráðuneytið veiti barnaverndarnefndum, einkum hinum minni, frekari leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi slíka áætlanagerð, enda gert ráð fyrir því í 3. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Í greininni er lögð sú skylda á barnaverndarnefnd að halda sérstaka skrá yfir þau börn í umdæminu sem hún telur í hættu, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 22. gr. Tilgangur slíkrar skráningar er m.a. að tryggja barnaverndarnefnd yfirsýn yfir slík vandamál í umdæminu. Ýmsir sérfræðingar telja að mörg tilfelli séu aldrei greind enda þótt mál barnanna komi til kasta fagmanna, svo sem lækna, skóla, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Einnig hefur verið bent á það að vegna slakrar skráningar og skorts á yfirsýn kemur ekki fram í dagsljósið að um ítrekuð tilvik er að ræða. Með því að halda slíka skrá og leggja áherslu á tilkynningarskyldu, sbr. 15. og 16. gr., geta nefndir fengið betra yfirlit yfir stöðu þessara mála. Einnig er tilgangur slíkrar skráningar að hvetja til markvissra ákvarðana og samfelldrar málsmeðferðar í málefnum einstakra barna. Ráðuneytið skal setja nánari ákvæði um skráningu í reglugerð þar sem um vandmeðfarnar upplýsingar er að ræða.
     Ákvæði þessarar greinar eiga sér hliðstæðu í 34. gr. gildandi laga en líkast til hefur smæð umdæma og ófullnægjandi aðhald við nefndir valdið því að lítið hefur orðið um framkvæmdir víðast hvar.

Um 24. gr.


    Í þessari grein er fjallað um þau úrræði sem barnaverndarnefnd skal beita í samvinnu við barn og foreldra eftir því sem við á. Heimildir nefndarinnar til að beita þessum stuðningsúrræðum eru eðli málsins samkvæmt mjög rúmar. Áhersla er hér lögð á stuðning í samráði við foreldra. Hér getur verið um að ræða varnaðarstarf til að koma í veg fyrir ástand sem um er getið í 21. gr., 25. gr., 27. gr. og 28. gr. og leitt getur til þvingunarúrræða. Í þessum efnum skulu barnaverndarnefndir beita þeim úrræðum sem best eiga við hverju sinni og hentugust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð barns eða ungmennis. Á það skal bent að foreldrum er frjálst að þiggja þessa þjónustu barnaverndarnefnda eða hafna henni. Þetta valfrelsi foreldranna er þó við sérstakar aðstæður takmarkað af ákvæðum 2. mgr. 28. gr. en andstaða foreldra við stuðningsaðgerðir getur þá leitt til þvingunaraðgerða og sviptingar forsjár.
     Í a-lið er getið um að leiðbeina skuli foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns. Reikna verður með að slíkar leiðbeiningar séu oftast hluti af fjölskylduráðgjöf eða félagslegri ráðgjöf við fjölskylduna og venjulega á hendi starfsmanna nefndarinnar, félagsráðgjafa, sálfræðinga eða annarra til þess bærra.
     Samkvæmt b-lið skal reynt að útvega barni, ungmenni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Hugtökin tilsjónarmaður og persónulegur ráðgjafi eru nýmæli í barnaverndarlögum. Samkvæmt gildandi lögum og reglugerð er unnt að skipa heimili eftirlitsmann. Í hinum stærri sveitarfélögum er eftirlit í eiginlegri merkingu oftar á hendi starfsmanna nefnda og félagsmálastofnana en tilsjónarmenn, sem svo eru nefndir, hafa verið fengnir sérstaklega til stuðnings einstökum börnum, ungmennum eða fjölskyldum. Hlutverk tilsjónarmanna er að veita leiðsögn og stuðning, hafa samvinnu við skóla og vinnuveitanda ef hann er fyrir hendi. Ef um unglinga er að ræða skal tilsjónarmaður tengja skjólstæðing heilbrigðri æskulýðsstarfsemi. Samband tilsjónarmanns og skjólstæðings byggist á gagnkvæmu trausti og vinsemd.
     Hugtakið stuðningsfjölskylda er einnig nýmæli í barnaverndarlögum en er þekkt úr lögum um málefni fatlaðra. Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni, og stöku sinnum barni og móður þess, til vistunar nokkra daga í mánuði í því augnamiði að létta álagi af þjakaðri fjölskyldu og leiðbeina foreldrum og styðja þá í forsjárhlutverkinu. Margir skjólstæðingar barnaverndarnefnda eru félagslega einangraðir og hafa oft lítil tengsl við stórfjölskyldu, afa og ömmur, frændur og frænkur. Í slíkum tilvikum hafa stuðningsfjölskyldur reynst jákvætt úrræði. Gera verður ráð fyrir að ráðuneytið setji reglugerð um störf tilsjónarmanna og stuðningsfjölskyldna í barnaverndarmálum.
     Samkvæmt c- og d-liðum skal barnaverndarnefnd beita ýmsum almennum úrræðum. Sem dæmi má nefna dagvistun og ýmis úrræði í samvinnu við skólayfirvöld. Hér hljóta einnig að vega þungt ýmis úrræði samkvæmt öðrum lögum er varða félagsþjónustu sveitarfélaga, svo sem fjárhagsaðstoð, félagslegt húsnæði, heimilisþjónusta og félagsleg ráðgjöf.
     Í e-lið er um að ræða aðgerðir sem beinast að vandamálum foreldranna sjálfra. Er þar sérstök ástæða til að leggja áherslu á samstarf barnaverndarnefnda við meðferðarstofnanir vegna áfengis- og vímuefnavandamála, geðdeildir og göngudeildir þeirra og aðra aðila er veita geðlæknisfræðilega og sálfræðilega meðferð. Einnig má minna á 4. mgr. 19. gr. frumvarpsins í þessu sambandi.
     Í f- og g-liðum er svo um að ræða fósturheimili og vistheimili til lengri og skemmri tíma. Fjalla VI. og IX. kafli laganna sérstaklega um þau úrræði. Leggja ber áherslu á vönduð vinnubrögð nefnda þegar barn er vistað utan heimilis enda er aðskilnaður foreldra og barna ávallt afdrifaríkur, jafnvel þótt um fulla samvinnu barnaverndarnefndar og foreldra sé að ræða, eins og f- og g-liðir þessarar greinar fela í sér. Sérstakan gaum þarf að gefa að lögformlegum áhrifum fósturs barna í samvinnu við foreldra og þó einkum yfirtöku forsjár og varanlegt fóstur, sbr. g-lið þessarar greinar. Við slíkar aðstæður rofna tengsl barns við foreldra, umsjá eða forsjá þess hverfur til annarra og tengsl við nýja umönnunaraðila myndast. Hagsmunir barns geta leitt til þess að ráðstöfun skuli haldast, sbr. 38. gr., jafnvel þótt foreldrar kalli eftir barninu. Því er brýnt að foreldrar séu upplýstir um áhrif ákvörðunar sinnar og málsmeðferðarreglna sé í hvívetna gætt, sbr. 47. gr.
     Ljóst þykir að með þeim úrræðum, sem hér hafa verið upp talin, má vinna að úrlausn margra barnaverndarmála og koma þannig í veg fyrir að taka þurfi barn úr forsjá foreldra, vista það á fósturheimili eða beita þvingunarúrræðum. Því verður að gera þá kröfu til héraðsnefnda og sveitarstjórna að þau úrræði, sem háð eru fjárveitingum þeirra, verði barnaverndarnefndum ávallt tiltæk. Þetta á einkum við félagslega ráðgjöf, tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur, auk vistunarúrræða.

Um 25. gr.


    Í þessari grein er fjallað um skyldur barnaverndarnefndar er barn eða ungmenni stefnir heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni. Ákvæði 1. mgr. og fyrri málsliðar 2. mgr. er að stofni til sambærileg 1. mgr. 28. gr. gildandi laga en seinni málsliður 2. mgr. og 3. mgr. eru nýmæli. Ákvæði 3. mgr. er háð því að breyting verði gerð á lögræðislögum eins og nánar verður vikið að hér á eftir.
     Um 1. mgr. Í 1. mgr. er gerð grein fyrir þeim úrræðum til stuðnings bæði börnum og ungmennum sem barnaverndarnefnd ber að grípa til þegar svo stendur á sem í málsgreininni segir. Oft verða hegðunarvandamál barna og ungmenna til að leiða þau í vítahring sem þau losna ekki úr án sérstaks stuðnings. Aðstoðin ætti einkum að miða að því að koma í veg fyrir að börnin og ungmennin skaði sjálf sig. Félagsleg aðstaða þeirra er oft bágborin, en þó þarf ekki alltaf svo að vera. Sú hegðun, sem hér um ræðir, auk afbrota, áfengis- og fíkniefnaneyslu, getur t.d. verið útigangur og flakk, kynlífshegðun, þar sem ætla má að menn misnoti sér æsku eða vanþroska barns eða ungmennis, vændi eða annað hættulegt kynlíf. Einnig kemur til greina stórfelld vanræksla á skólagöngu og námi eða hegðunarvandamál sem trufla stórlega nám að mati skólayfirvalda, sbr. 6. gr. og 53. gr. grunnskólalaga, enda verður að telja að slík hegðun geti skaðað félagslegan þroska einstaklingsins.
     Um 2. mgr. Hér er fjallað um vistun barns til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórum vikum í senn á viðeigandi stofnun þegar svo stendur á sem í 1. mgr. segir. Málsgreinin kveður á um það nýmæli að barn, sem orðið er 12 ára, eigi rétt á að tjá sig fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmanns ef því er að skipta ef barnið er vistað á unglingaheimili eða annarri viðeigandi stofnun gegn vilja sínum, sbr. 49. gr. frumvarpsins. Með þessu er stefnt að auknu réttaröryggi barna og unglinga undir 16 ára aldri og verður að telja það í samræmi við almenna þróun á þessu sviði.
     Miðað er við að aðgerðir og úrræði, sem gripið er til skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, séu í samvinnu við foreldra. Hér er því ekki gert ráð fyrir að taka þurfi ákvörðun með úrskurði um málefni barns vegna andstöðu foreldra. Slíkir úrskurðir geta byggst á heimildum 27. gr. ef foreldrar vanrækja uppeldisskyldur sínar eða eru vanhæfir til að gegna foreldrahlutverki sínu og neita samvinnu við barnaverndarnefnd til að stöðva hina skaðlegu hegðun barnsins.
     Um 3. mgr. Ekki er gert ráð fyrir því hér að barnaverndaryfirvöld geti beitt ungmenni, 16–18 ára, úrskurði eða þvingunaraðgerðum vegna eigin hegðunar, ekki einu sinni þegar þau gætu talist hættuleg sjálfum sér. Til þess þarf samþykki dómsmálaráðuneytisins eða úrskurð dómara um sjálfræðissviptingu samkvæmt lögræðislögum, nr. 68/1984. Ungmenni, 16–18 ára, eru sjálfráða samkvæmt lögræðislögum. Nokkuð hefur verið rætt um hvort hækka beri sjálfræðisaldur til samræmis við löggjöf nágrannalandanna til að unnt sé að beita úrræðum barnaverndarlaga gagnvart ungmennum. Þar sem um undantekningartilvik hlýtur að vera að ræða þykir í of mikið ráðist að hækka sjálfræðisaldur til þess að unnt verði að taka á málum fárra einstaklinga sem tengjast einkum alvarlegri áfengis- og fíkniefnaneyslu. Lögræðislög, nr. 68/1984, kveða einungis á um vistun í sjúkrahúsi, en þau lög taka ekki til vistunar á nýstofnaðri deild Unglingaheimilis ríkisins fyrir vímuefnaneytendur. Í þessari málsgrein er kveðið á um frumkvæði barnaverndarnefndar um slíka vistun, sem er nýmæli, og einnig tekin af tvímæli um að hægt er að vista ungmenni á hinni nýju vímuefnadeild.
     III. kafli lögræðislaga gerir aðeins ráð fyrir nauðungarvistun í tvær vikur sem er allt of skammur tími til að árangur meðferðar á vímuefnadeild sé farinn að koma í ljós. Að loknum tveimur vikum gera lögræðislög ráð fyrir að lögð sé fram beiðni um sjálfræðissviptingu fyrir dómi. Slík aðgerð þykir mjög alvarleg þegar ungmenni eiga í hlut. Þykir því nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á lögræðislögum sem fela í sér heimild dómsmálaráðuneytisins til að úrskurða ungmenni, 16–18 ára, til lengri tíma, t.d. til sex mánaða í senn, til dvalar á sérstökum meðferðardeildum fyrir vímuefnaneytendur án þess að gera þurfi kröfu fyrir dómi um að það verði svipt sjálfræði. Slík breyting á lögræðislögum er skilyrði fyrir því að ákvæði 3. mgr. komi að fullu gagni.

Um 26. gr.


    Í greininni er nýmæli er kveður á um skyldur barnaverndarnefndar til að aðstoða barn eða ungmenni sem orðið hefur fórnarlamb áreitni, ofbeldis eða annarra afbrota. Núverandi barnaverndarlög gera einungis ráð fyrir skyldum barnaverndarnefndar þegar barnið sjálft er viðriðið afbrotið.



     Í 2. mgr. er tekinn af allur vafi um að barnaverndarnefnd getur látið til sín taka tilvik þar sem ábótavant er framkomu aðila sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn. Hér er haft í huga að börn eru stöðugt lengur í umsjá annarra en foreldra, t.d. skóla, dagvistarheimila, félagsmiðstöðva og æskulýðsfélaga hvers konar. Þess eru dæmi að foreldrar hafa leitað liðsinnis barnaverndarnefnda til að taka á slíkum málum en skýra lagaforsendu fyrir afskiptum hefur skort.

Um 27. gr.


    Í greininni eru talin upp þau úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt gegn vilja foreldra. Slíkum þvingunarúrræðum skal því aðeins beitt að nauðsyn krefji.
     Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að nefndin geti haft eftirlit með heimili um tiltekinn tíma. Eftirlit felur venjulega í sér reglubundnar heimsóknir á heimili, en einnig er unnt að beita þessu úrræði með öðrum hætti, t.d. að fylgst sé með líðan barns með upplýsingum frá dagvistarheimili, skóla eða öðrum sem um kunna að bera. Venjulega fer best á að eftirlit sé á hendi fastra starfsmanna en ekkert er þó til fyrirstöðu að nefnd geti ráðið sérstakan eftirlitsmann með heimili. Hér er samt gerður greinarmunur á eftirliti og tilsjón, sbr. b-lið 24. gr., sem er stuðningsúrræði í samvinnu við foreldra.
     Í öðru lagi getur nefnd gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns varðandi ýmis atriði. Slík fyrirmæli geta verið raunhæf um ytri aðbúnað barns eins og dagvistun, skóla, lækningar og þess háttar. Færa má rök með og móti slíkum fyrirmælum gegn vilja foreldra. Rökin fyrir slíku úrræði eru t.d. að þannig gefist foreldrum á eftirlitstíma færi á að breyta aðstæðum barnsins svo að ekki þurfi að koma til forsjársviptingar. Reynist andstaða foreldra harðsnúin má hins vegar reikna með að barnaverndarnefnd muni reynast erfitt að framkvæma fyrirmæli um t.d. dagvistun eða skólasókn og gildi slíkra fyrirmæla því takmarkað.
     Í þriðja lagi getur nefnd ákveðið töku barns af heimili, kyrrsett það á fóstur- eða vistheimili eða lagt það inn á sjúkrahús eða heilbrigðisstofnun. Í gildandi lögum er kveðið á um töku barns af heimili í 26., 28. og 32. gr. Barnaverndarnefndir hafa um alllangt skeið kveðið upp bráðabirgðaúrskurði um kyrrsetningu barna á vistheimilum eða einkaheimilum á grundvelli ákvæða um töku barns af heimili og með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 36. gr. gildandi laga um að barnaverndarnefnd sé heimilt að úrskurða að barn skuli vera um kyrrt á fósturheimili. Hér er tekinn af allur vafi um réttmæti slíkrar kyrrsetningar sem reynst getur nauðsynleg til verndar viðkomandi barni.
     Í fjórða lagi getur nefnd svo ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi. Hliðstætt ákvæði er í 41. gr. barnalaga, nr. 9/1981. Samkvæmt þeirri grein getur dómsmálaráðuneytið lagt svo fyrir að ekki megi fara með barnið úr landi hafi forsjármáli eigi verið ráðið til lykta. Heimildir eru ekki fyrir hendi samkvæmt gildandi lögum um vernd barna og ungmenna og hefur því þurft að kveða upp bráðabirgðarúrskurð um töku barns af heimili í slíkum tilvikum og hefur slíkt reynst erfitt í framkvæmd. Heimild nefndar til að beita ákvæði þessu gildir einnig ef könnun skv. 21. gr. er ekki lokið.

Um 28. gr.


    Í þessari grein er fjallað um lagaleg skilyrði forsjársviptingar sem er róttækasta aðgerð sem barnaverndaryfirvöld geta gripið til. Því er talið mikilvægt að orðalag greinarinnar sé svo skýrt og ótvírætt sem kostur er.
     Samkvæmt 32. gr. gildandi laga um vernd barna og ungmenna er barnaverndarnefndum heimilt að svipta foreldra, annað eða bæði, foreldravaldi ef ákvæði 26. og 28. gr. þeirra laga eiga við og nauðsyn krefur. Ákvæði hinna tilvitnuðu greina þykja nokkuð rúm. Er þar áskilið að uppeldi eða hegðun barns sé ábótavant, auk þess sem þar eru tilgreindir ýmsir annmarkar foreldra sem valdið geta því að aðbúnaði er ábótavant, svo sem hirðuleysi, vankunnátta, drykkjuskapur, lauslæti o.s.frv. Í þeim greinum er ekki ótvíræð heimild til að svipta foreldra forsjá nýfædds barns sem ekki er í þeirra umsjá og því ekki um það að ræða að aðbúnaði sé í rauninni ábótavant, jafnvel þótt foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjá barnsins. Reynslan af barnaverndarstarfi hérlendis og erlendis sýnir þó að slík ákvæði eru nauðsynleg, t.d. vegna alvarlegrar fíkniefnaneyslu, mikillar geðveiki eða að foreldrar eru vangefnir.
     Forsjársvipting samkvæmt þessari grein felur í sér að foreldrarnir eru sviptir öllum réttindum til að fara með lögráð barnsins, sbr. lögræðislög, nr. 68/1984, og þar með rétt til að ráða persónulegum högum barnsins, sbr. 35. gr. barnalaga, nr. 9/1981. Ekki þarf þó að vera að allar forsjárskyldur falli niður, t.d. getur framfærsluskylda haldist að nokkru leyti eða öllu.
     Í greininni eru skilyrði forsjársviptingar tæmandi talin og þess freistað að orðalag greinarinnar sé svo leiðbeinandi við mat barnaverndarnefndar og barnaverndarráðs sem kostur er. Nægilegt er að eitt þessara skilyrða sé fyrir hendi til að barnaverndarnefnd sé heimilt að kveða upp slíkan úrskurð. Hann skal þó aðeins kveðinn upp að uppfylltum vissum öðrum skilyrðum. Í fyrsta lagi að ekki sé unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta, sbr. 2. mgr., t.d. vegna augljósrar vanhæfni foreldra, eða þær hafi verið reyndar án nægilegs árangurs. Í öðru lagi ber nefnd jafnframt að hafa í huga hina almennu reglu sem sett er í 1. og 20. gr., þ.e. að forsjá barns sé að jafnaði best borgið í höndum foreldra. Nefndinni ber að stuðla að stöðugleika og þar með að gera foreldrum kleift að annast barnið. Þessi krafa felur þó ekki í sér að það sé látið víkja sem barni er fyrir bestu. Hafa ber í huga hve djúp tilfinningatengsl foreldra og barna eru. Rof þeirra tengsla geta falið í sér áhættu sem skylt er að meta eins og aðra hættu sem barninu er búin. Í þriðja lagi ber nefndinni að hafa í huga ákvæði 30. gr. er kveða á um skyldu nefndarinnar til að tryggja barni tafarlaust góða umsjá sem feli í sér betri aðstæður en þær sem barnið er tekið úr og viðunandi stuðningsúrræði.
     Í þeim tilvikum, sem lýst er í a-, b- og c-liðum greinarinnar, er ráð fyrir því gert að reynslan hafi sýnt að skilyrði forsjársviptingar séu fyrir hendi. Meginreglan hlýtur að vera að fullnægt sé einhverju þessara skilyrða.
     Jafnframt verður að gera ráð fyrir tilvikum þar sem barnaverndarnefnd metur líkur til að heilsu barns og þroska geti verið slík hætta búin að réttlæti sviptingu forsjár. Um slík tilvik er fjallað í d-lið 1. mgr. Ljóst er að nefndum er hér mikill vandi á höndum og gera verður auknar kröfur til rökstuðnings fyrir slíkri niðurstöðu. Gert er ráð fyrir að barnaverndarnefnd sýni fram á að fullvíst megi telja að barni geti verið hætta búin. Einnig að um augljósa vanhæfni sé að ræða og tilgreind þau dæmi sem líklegust eru til að liggja til grundvallar mati barnaverndarnefndar. Sjá hér einnig athugasemdir við vanhæfnishugtakið í 21. gr. Úrskurð á grundvelli d-liðar 1. mgr. er heimilt að kveða upp þegar sérstaklega stendur á áður en nýfætt barn flyst í umsjá foreldra. Reynslan sýnir að í mjög alvarlegum tilvikum sé varhugavert fyrir öryggi barns að hefja tilraunir til að leiða í ljós hæfni eða vanhæfni foreldra. Með orðalagi greinarinnar er sérstök sönnunarbyrði lögð á nefnd þegar þessu úrræði er beitt. Þá kemur m.a. til greina að hafa til hliðsjónar fyrri reynslu af umönnun og uppeldisháttum viðkomandi foreldra.

Um 29. gr.


    Hliðstæð ákvæði eru í gildandi lögum. Svo virðist sem barnaverndarnefndir hafi lítið gripið til þess að láta skipa barni lögráðamann. Slíkt hlýtur þó að teljast eðlileg skipan þegar börn verða forsjárlaus eða barnaverndarnefnd hefur svipt foreldra forsjá. Þegar börnum er ráðstafað í varanlegt fóstur má telja eðlilegt að fósturforeldrar séu skipaðir lögráðamenn ef sérstakar ástæður mæla ekki gegn því. Í samræmi við 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga er barnaverndarnefnd rétt að snúa sér til yfirlögráðanda, sem eru sýslumenn og bæjarfógetar, í Reykjavík borgarfógetar, og leita eftir því að barni verði skipaður lögráðamaður.

Um 30. gr.


    Hér er lögð áhersla á að barnaverndarnefnd vinni tafarlaust og markvisst í málefnum þeirra barna sem tekin hafa verið úr umsjá foreldra sinna. Jafnframt er kveðið á um skriflega áætlun nefndar, sbr. athugasemdir við 22. gr. Sérstök ástæða er til að leggja áherslu á markviss vinnubrögð í málefnum þeirra barna sem ekki dveljast hjá foreldrum sínum. Með þeim hætti skal reynt að tryggja að aðskilnaður barns og foreldra sé ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefur, að það ráð, sem upp er tekið, sé barninu fyrir bestu og að öllum tiltækum ráðum sé beitt til þess að barnið komist í umsjá foreldra að nýju þegar slíkt er æskilegt, en fari ella í traust og varanlegt fóstur eða hljóti umönnun á viðeigandi stofnun ef slíkt er óhjákvæmilegt.
     Ákvæði 2. mgr. eru efnislega samhljóða 3. mgr. 16. gr. gildandi laga.
     Í 3. mgr. er nefnd gert skylt að aðstoða barn í fóstri áfram eftir 16 ára aldur. Slík regla er ekki ótvíræð í gildandi lögum, en 3. mgr. 28. gr. og 3. mgr. 31. gr. gildandi laga vísa þó í þessa átt. Rétt þykir að taka af öll tvímæli í þessu sambandi. Hér er fyrst og fremst átt við að vistun haldist ef ungmenni óskar eftir því og slíkt þykir henta. Samkvæmt barnalögum lýkur framfærsluskyldu er barn verður 18 ára. Líta verður svo á að barnaverndarnefnd hafi ekki síðri skyldur við börn sem hún hefur ráðstafað í vist eða fóstur jafnframt því sem að sveitarfélag er framfærsluskylt samkvæmt framfærslulögum. Ákvæði þetta á einnig við um aðra aðstoð en vistun og framfærslu eftir því sem við verður komið, svo sem ráðgjöf, að útvega ungmenni skólavist, atvinnu og þess háttar.

Um 31. gr.


    Hliðstæð grein er í 27. gr. gildandi barnaverndarlaga og var einnig í eldri lögum. Sú hugsun er eðlileg að gerandinn sé fjarlægður af heimili fremur en þolandinn, barnið, ef því getur annars liðið vel á heimilinu. Þó er ljóst að framkvæmd þessara ákvæða er vandkvæðum bundin og raunar mjög undir því komin að samkomulag náist við aðra heimilismenn. Í 27. gr. gildandi laga er sagt að nefndin skuli kæra málið fyrir valdsmanni þeim er í hlut á en ekki þykir ótvírætt hver sá valdsmaður er. Hér er tekinn af allur vafi. Fram að gildistöku laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ber að leita til bæjarfógeta, í Reykjavík borgarfógeta, eða sýslumanns, en eftir gildistöku laganna 1. júlí 1992 skal leita til sýslumanns í samræmi við 10. gr. sömu laga.

Um VI. kafla.


    Í kaflanum er safnað saman ákvæðum um fóstur barna. Ýmis nýmæli er hér um að ræða sem ekki hafa verið í lögum áður. Í kaflanum er lögð sérstök áhersla á skyldur barnaverndaryfirvalda varðandi fósturmál, enda óhjákvæmilegt að setja skýrar reglur um þetta úrræði sem barnaverndarnefndir grípa mjög oft til. Í stærri sveitarfélögum, þar sem félagsmálastofnanir eru starfandi, eru ýmiss konar stuðningsaðgerðir við fjölskyldur tíðar en hvers konar fósturráðstafanir eru þó einnig fyrirferðarmiklar í starfi þeirra. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ráðstafaði t.d. 201 barni í langtímafóstur á árunum 1971 til 1987. Því er ljóst að hér er um umfangsmikla starfsemi barnaverndaryfirvalda að ræða og brýnt að um þær gildi skýrar lagareglur.
     Nefndinni er aðeins kunnugt um tvær athuganir sem gerðar hafa verið á fósturráðstöfunum hér á landi. Guðrún Kristinsdóttir félagsráðgjafi gerði athugun á öllum ráðstöfunum barna utan foreldraheimilis í Reykjavík árið 1984. Var þessi athugun liður í umfangsmeira verkefni um barnavernd. (Institutionen for socialt arbete Umeå Universitet, Rapport nr. 30 ISSN 0282-1958. Undersögelse af Börns Placeringer i Reykjavík. April 1987.) Þar kom m.a. í ljós að 34 börnum var ráðstafað í tímabundið fóstur (vistun) og 22 börnum í varanlegt fóstur. Yngri börnin fóru oftar í varanlegt fóstur (16 af 22 voru 0–5 ára). Eldri börnin fóru oftar í tímabundið fóstur (29 af 34 voru 6–18 ára). Rökstuðningur fyrir tímabundnu fóstri reyndist mjög margbreytilegur, nánast hvers konar vandamál barna, foreldra og fjölskyldna gátu þar legið að baki. Forsendur varanlegs fósturs voru aftur á móti eftirfarandi: vanræksla, fjölskylduvandi, áfengis- eða lyfjamisnotkun foreldra, sjúkdómar eða ósk foreldra um að gefa frá sér barnið. Þannig virðist greinilegur munur á ástæðum að baki þessum tveimur formum fósturráðstafana.
     Ása Ottesen, Gunnar Sandholt og Sigríður Jónsdóttir könnuðu allar ráðstafanir Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á börnum í varanlegt fóstur árið 1971–1987 (Ráðstafanir Barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar á börnum í fóstur til 16 ára aldurs. Árin 1971–1987. Áfangaskýrsla, febrúar 1989, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar). Þar kom fram að 209 slíkar ráðstafanir voru gerðar á þessu árabili (201 barn), þ.e. rúmlega 12 á ári. 63 barnanna fóru í fóstur í kjölfar forsjársviptingar. Tæpur helmingur barnanna fór fyrir þriggja ára aldur og tæplega þrír fjórðu fyrir skólaaldur. 46 af 166 fósturforeldrum reyndust skyldir barninu. 35 sinnum rofnuðu þau fóstursambönd sem til var stofnað fyrr en ætlað var, en í þeim tilvikum voru börn eldri en heildarhópurinn er til fósturs var stofnað og oftar hjá ættingjum. Unnið er að áframhaldi þessarar könnunar á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.
     Ákvæði um helstu skyldur barnaverndarnefnda varðandi málefni barna í fóstri er að finna í 35. og 36. gr. gildandi laga. Þar er m.a. kveðið á um að enginn megi taka börn í fóstur nema með samþykki barnaverndarnefndar. Óheimilt er að ráðstafa barni í fóstur nema til aðila sem fengið hefur slíkt samþykki. Þá er kveðið á um skyldu barnaverndarnefndar til að gera viðeigandi ráðstafanir ef fósturforeldrar vanrækja hlutverk sitt og getur barnaverndarnefnd lagt bann við að slíkir aðilar taki börn framvegis. Sérstök eftirlitsskylda er lögð á barnaverndarnefnd þegar hún ráðstafar barni í fóstur. Loks getur barnaverndarnefnd úrskurðað að barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt ef þar fer vel um það þótt þeir er foreldraráð hafa yfir barni kalli eftir því.
     Í gildandi lögum er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvort fóstur sé til langs eða skamms tíma. Hins vegar er í reglugerð um vernd barna og ungmenna frá 9. júní 1970 að auki fjallað sérstaklega um fóstur á einkaheimilum til skamms tíma. Fóstur samkvæmt gildandi lögum getur verið hvort heldur að frumkvæði foreldra eða barnaverndarnefndar og sá einn munur á að barnaverndarnefnd hefur sérstakar eftirlitsskyldur hafi hún sjálf ráðstafað barninu í fóstur. Hugtakið varanlegt fóstur eða fóstur til 16 ára aldurs er ekki að finna í gildandi barnaverndarlögum.


     Hugtakið fóstur er í frumvarpi þessu eingöngu notað um formlegar ráðstafanir sem barnaverndarnefndir gera, en fjallað er í sérstökum kafla um þau tilvik er foreldrar vista börn sín sjálfir utan heimilis.
     Í samræmi við eðli barnaverndarmála hefur á grundvelli laga og reglugerðar mótast sterk hefð fyrir tvenns konar fósturráðstöfunum á vegum barnaverndarnefnda hér á landi. Annars vegar er um að ræða varanlegt fóstur, fóstur til 16 ára aldurs og hins vegar ýmsar skammtímaráðstafanir. Rétt þykir að taka tillit til þessara hefða í frumvarpi þessu jafnframt því sem sérstök ástæða þykir til að lögfesta hugtakið varanlegt fóstur. Með varanlegu fóstri er stefnt að stöðugleika í lífi barna sem foreldrar geta ekki annast sjálfir hvort sem þeir fela barnaverndarnefnd forsjá þess eða þeir hafa verið sviptir forsjá.
     Þá þykir ljóst að móta verður markvissara verklag varðandi skammtímafóstur en tíðkast hefur til þessa. Vistun eða fóstur barns um skamman tíma hefur ýmsa erfiðleika í för með sér fyrir barnið. Svo virðist sem stundum sé gripið til slíkra ráðstafana vegna erfiðra ytri aðstæðna án þess að þarfir barnsins séu látnar sitja í fyrirrúmi. Í þeim tilfellum ríkir oft óvissa um hversu lengi ráðstöfun skal standa, óregla er á umgengni barns við foreldra, tengsl barns við foreldra rofna en barn nær ekki að tengjast fósturforeldrum sem skyldi. Algengast mun að börn í þéttbýli séu vistuð til sveita þrátt fyrir leiðbeinandi ákvæði reglugerðar um annað. Það torveldar allt samband við foreldrana. Einnig eiga mörg þessara barna í námserfiðleikum en fámennari dreifbýlisskólar hafa hvorki úrræðum né starfsliði á að skipa til að taka á slíkum vanda. Sérfræðiaðstoð öll er torsóttari.
     Í frumvarpinu er að finna efnislega óbreytt öll ákvæði gildandi laga um fóstur, en jafnframt ýmis nýmæli auk þeirra er hér hafa verið tilgreind. Er þeirra getið í athugasemdum um einstakar greinar.

Um 32. gr.


    Í greininni er skilgreining á hugtakinu fóstri eins og það er notað í frumvarpinu, en slík skilgreining er ekki í gildandi lögum um vernd barna og ungmenna eða öðrum lögum.
     Í 2. mgr. er það nýmæli að fóstur getur ýmist verið tímabundið eða varanlegt. Ákvæði kaflans gilda bæði um tímabundið og varanlegt fóstur, t.d. ber barnaverndarnefnd að gera skriflegan samning við fósturforeldra þó aðeins sé um að ræða tímabundið fóstur. Gert er ráð fyrir því að fósturforeldrar fari að jafnaði með forsjá barna í varanlegu fóstri nema annað þyki betur henta þörfum barns og hagsmunum að mati barnaverndarnefndar.

Um 33. gr.


    Fyrri málsgrein þessarar greinar er efnislega sambærileg ákvæðum í 35. og 36. gr. gildandi laga og fjallar um þær kröfur sem gera verður til fósturforeldra. Seinni málsgreinin fjallar m.a. um þjálfun og undirbúning fósturforeldra, stuðning og leiðbeiningar á meðan fóstur varir og er hún nýmæli.
     Við val á fósturforeldrum verður að taka sérstakt tillit til allra aðstæðna hverju sinni. T.d. verður að taka tillit til þess hvort fóstri er ætlað að vera tímabundið eða varanlegt og hvort gert er ráð fyrir að barnið njóti umgengni við kynforeldra sína eða ekki. Þegar fóstur er tímabundið er oftast mikilvægt að viðhalda sem nánustum tengslum barns við kynforeldra og þar af leiðandi heppilegra að velja fósturforeldra með tilliti til þess, svo sem varðandi búsetu.
     Í 2. mgr. 42. gr. frumvarpsins er gert er ráð fyrir því að félagsmálaráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þessa kafla laganna. Þar þarf m.a. að setja ítarlegar reglur um þær kröfur sem gera verður til fósturforeldra, um réttindi þeirra og skyldur og um skyldur barnaverndarnefnda við fósturforeldra og eftirlit með börnum í fóstri samkvæmt lögunum.

Um 34. gr.


    Þessi grein er nýmæli. Hér er lagt til að kveðið verði á um fóstur í skriflegum samningi milli fósturforeldra og barnaverndarnefndar. Lagt er til að félagsmálaráðuneytið útbúi sérstök eyðublöð fyrir slíka samninga og enn fremur tiltekið í sex liðum hvað það er sem koma verður fram í slíkum samningi.
     Það þykir til bóta að kveða skýrt á um fóstur í skriflegum samningi og hlýtur slíkt fyrirkomulag að miða að tryggari réttarstöðu þeirra barna sem fara í fóstur. Hvernig til tekst með fóstur barna veltur að sjálfsögðu fyrst og fremst á því hvernig staðið er að allri framkvæmd fóstursins. Til þess að auðvelda þá framkvæmd þykir eðlilegt að taka af tvímæli um þá þætti sem mestu máli skipta varðandi fóstrið og upp eru talin í greininni og leitast þannig við að stuðla að öryggi barna sem fara í fóstur og bættum hag þeirra. Að öðru leyti vísast hér til þess sem sagt er um skriflegar meðferðaráætlanir í athugasemdum við 22. gr. og 30. gr. hér að framan.

Um 35. gr.


    Það er nauðsynlegt að ganga tryggilega frá framfærslu barna í fóstri þegar við upphaf fósturs og kveða á um slíkt í skriflegum fóstursamningi eins og gert er ráð fyrir í 34. gr. frumvarpsins. Í þriðju málsgrein þessarar greinar er það nýmæli að barnaverndarnefnd er gert skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um gerð fóstursamnings samkvæmt nánari reglum er Tryggingastofnunin setur. Annað í greininni er að mestu samhljóða 40. gr. gildandi laga.

Um 36. gr.


    Engin lagaákvæði eru til um umgengnisrétt barna í fóstri við kynforeldra sína og aðra sem standa barni nær. Það er því brýn nauðsyn að bæta þar úr og lögfesta slíkan rétt enda mun almennt talið að um raunverulegan rétt barnsins sé að ræða ef mögulegt er að koma honum við þannig að umgengni þjóni hagsmunum þess.
     Þegar barn fer í fóstur að tilstuðlan barnaverndarnefndar, með eða án samþykkis foreldra, verður nefndin að taka ákvörðun um umgengnisrétt barnsins við kynforeldra þess. Þegar foreldrar hafa verið sviptir forsjá barns er augljóst að nefndin hefur heimild til þess að ákvarða um umgengni barns við foreldra. Það er hins vegar umdeilt hvort nefnd geti neitað foreldrum um umgengni við barn ef þeir hafa ekki verið sviptir forsjá þess. Í reynd er alltaf reynt að viðhalda tengslum milli barns og kynforeldris og er það aðallega vegna hagsmuna barnsins, enda talinn réttur þess. Nefndin verður að komast að niðurstöðu um hvort það muni þjóna hagsmunum barnsins best að hafa umgengni við foreldrana eða hvort sá möguleiki sé e.t.v. óraunhæfur eða jafnvel skaðlegur barni. Með umgengni er komið í veg fyrir að klippt sé á samband barns við kynforeldra sína, en þrátt fyrir þá vankanta foreldra, sem hljóta að hafa leitt til þess að barnið var vistað utan heimilis, getur þetta samband verið þroska barnsins afar mikilvægt. Barnaverndarmál geta verið afar margbreytileg og skoðanir fræðimanna á umgengnisrétti barna í fóstri við kynforeldra sína eru mismunandi en meginreglan hlýtur samt sem áður að vera sú að barn í fóstri hafi umgengni við kynforeldra sína nema slíkt stríði gegn þörfum og hagsmunum barnsins.
     Rétt þykir að kveða á um umgengni og það hvernig henni skuli háttað í fóstursamningi, eins og gert er ráð fyrir í 34. gr. frumvarpsins, til þess að taka af tvímæli og draga úr líkum á vandamálum þegar fer að reyna á framkvæmd umgengni. Þrátt fyrir ákvæði um umgengni í fóstursamningi er ljóst að barnaverndarnefnd verður að hafa vald til þess að breyta inntaki umgengni ef aðstæður breytast þannig að slíkt teljist nauðsynlegt eða heppilegt. Nefndin verður einnig að geta úrskurðað um niðurfellingu umgengnisréttar, hugsanlega í ákveðinn tíma eða jafnvel til frambúðar ef augljósar ástæður eru fyrir hendi sem réttlæta slíka ráðstöfun að mati nefndarinnar. Enn fremur getur verið nauðsynlegt að ákveða umgengni í hvert skipti.
     Einnig er nauðsynlegt að barnaverndarnefnd geti kveðið upp úrskurð um að halda dvalarstað barns leyndum og þá yfirleitt í ákveðinn tíma. Barnið getur haft þörf fyrir næði til þess að aðlagast nýjum aðstæðum og ástæða getur verið til að ætla að foreldrar muni á einhvern hátt trufla barnið. Það er því talið rétt að lögfesta ákvæði um þetta atriði.
     Rétt þykir að gera ráð fyrir umgengnisrétti barna við aðra en kynforeldra ef þeir hafa verið barninu nátengdir og líklegt er að það þjóni hagsmunum barnsins að rjúfa ekki slík tengsl. Það þykir sjálfsagt að lögfesta þann rétt barna í fóstri.

Um 37. gr.


    Þessi lagagrein er nýmæli og er tilgangur hennar fyrst og fremst sá að tryggja rétt barns í fóstri til þess að fá upplýsingar um ástæður þess að það varð að fara af heimili sínu. Það að veita barni slíkar upplýsingar er að sjálfsögðu vandmeðfarið og erfitt verkefni og verður að taka fullt tillit til aldurs barns og þroska og allra aðstæðna, þar á meðal tengsla þess við kynforeldra. Það verður þó að teljast rétt og skylt barnsins vegna að ræða við það af hreinskilni um bakgrunn þess eftir því sem aðstæður leyfa og tilefni er til. Ef vel er að slíku staðið og helst falið sérfræðingum í uppeldismálum er talið að það auðveldi börnum í fóstri að takast á við þá staðreynd að kynforeldrar þeirra gátu ekki gegnt foreldrahlutverki sínu. Þessari grein þarf að beita eftir því sem barn eldist og þroskast samhliða ákvæði e-liðar 34. gr. um stuðning barnaverndarnefndar við barn og fósturforeldra meðan fóstrið varir.

Um 38. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæði 3. mgr. 36. gr. gildandi laga.

Um 39. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum í 35. gr. gildandi laga.

Um 40. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum í 1. mgr. 36. gr. gildandi laga.

Um 41. gr.


    Greinin er nýmæli og þarfnast ekki skýringa.

Um 42. gr.


    Ákvæði þessarar greinar um skráningu barna í varanlegu fóstri er nýmæli. Það þykir sjálfsagt að til séu nákvæmar og aðgengilegar upplýsingar á einum stað um öll börn á landinu sem eru í varanlegu fóstri. Slíkar upplýsingar geta m.a. verið gagnlegar við stefnumótun og þróun í úrræðum fyrir börn og ungmenni og einnig í tengslum við rannsóknir á málefnum þeirra.
     Skráning barna í varanlegu fóstri auðveldar einnig heildaryfirsýn og eftirlit með fóstrinu. Staða barna í fóstri mun oft og tíðum vera ótrygg af ýmsum ástæðum og til eru dæmi þess að börn í fóstri flækist frá einum fósturforeldrum til annarra, jafnvel á viðkvæmu aldursskeiði, án vitundar eða vilja þeirrar barnaverndarnefndar sem um á að fjalla. Með skráningu ráðuneytisins á börnum í varanlegu fóstri verður væntanlega greiðara að koma því til leiðar að réttir aðilar grípi inn í ef eitthvað fer úrskeiðis og tryggi þannig að ákvæðum þessa kafla laganna verði fylgt eftir því sem við á.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um stöðu barna sem foreldrar vista sjálfir utan heimilis. Löng hefð er fyrir því hér á landi að foreldrar ráðstafi börnum sínum í fóstur eða vistun til annarra um lengri eða skemmri tíma. Fóstur er í frumvarpi þessu eingöngu notað um formlegar ráðstafanir barnaverndarnefndar, sbr. VI. kafla.
     Í gildandi lögum um vernd barna og ungmenna og í barnalögum, nr. 9/1981 eru foreldrum settar vissar skorður varðandi slíkar ráðstafanir. Með 35. gr. laga nr. 53/1966 var lögfest sú regla að enginn geti tekið barn til fósturs nema með leyfi barnaverndarnefndar og lagt var bann við því að handhafi foreldravalds ráðstafaði barni til fósturs nema til aðila er fengið hefði leyfi barnaverndarnefndar í því skyni.
     Enginn veit hve algengt er að foreldrar ráðstafi börnum sínum með þessum hætti hér á landi. Líkast til hefur dregið úr slíkum ráðstöfunum enda hefur verið af hálfu samfélagsins gert ýmislegt til stuðnings foreldrum er standa höllum fæti félagslega svo að þeir geti haft börnin hjá sér. Mörg dæmi eru um að slíkar ráðstafanir foreldranna hafi reynst börnum vel. Oft er um að ræða eðlilegan félagslegan stuðning stórfjölskyldunnar þar sem barn, t.d. mjög ungrar móður eða foreldra sem ekki geta annast barn vegna alvarlegra veikinda, elst upp hjá nánum ættingjum. Stundum verða slíkar ráðstafanir til þess að íhlutun barnaverndaryfirvalda verður óþörf með öllu. Þess eru hins vegar dæmi að vanhugsaðar ráðstafanir af þessu tagi eigi þátt í að börn alast upp í mikilli óvissu, tengsl þeirra við umönnunaraðila eru margsinnis rofin eða návist við vanhæfa foreldra skerði þroskamöguleika þeirra. Þess eru og dæmi að slíkar ráðstafanir hafa tafið fyrir eðlilegri íhlutun barnaverndarnefndar.

Um 43. gr.


    Í greininni er gengið út frá heimild 42. gr. barnalaga sem heimilar foreldrum að fela öðrum forsjá barna að nokkru leyti eða öllu. Hér er þó fyrst og fremst leitast við að skilgreina hlutverk barnaverndarnefndar við slíkar aðstæður. Greinin felur í sér rýmkun á rétti foreldra frá gildandi barnaverndarlögum. Er það m.a. gert með hliðsjón af því að þær reglur hafa lítið verið virtar og vart framkvæmanlegar. Greinin takmarkar ekki rétt foreldra til slíkra ráðstafana, en felur í sér tilkynningarskyldu. Skal nefndin kanna hvort þörf er fyrir stuðning við foreldra og tryggður er réttur barnaverndarnefndar til að kanna hvort hag og þörfum barna sé fullnægt á hinum nýja dvalarstað. Barnaverndarnefnd getur úrskurðað að ráðstöfun skuli haldast og er það í samræmi við gildandi lög og 42. gr. barnalaga. Þegar barn hefur dvalið á nýju heimili um hríð kunna að hafa myndast slík tilfinningatengsl við nýja umsjáraðila að flutningur getur verið skaðlegur barni.

     Rétt þykir að taka fram að barnaverndarnefnd getur hlutast til um mál óháð slíkri ráðstöfun foreldra ef þeir eru augljóslega að koma barni undan réttmætum afskiptum barnaverndarnefndar.

Um VIII. kafla.


    Í frumvarpi þessu eru ákvæði um meðferð mála fyrir barnaverndarnefnd tekin saman í einn kafla þar sem það þykir skýrara og einfaldara fyrir þá sem eiga að vinna eftir lögunum. Ljóst er þó að ýmis ákvæði barnaverndarlaga, sem má flokka undir málsmeðferð, fer betur á að hafa annars staðar í lögunum. Kaflinn um málsmeðferð hefur því ekki að geyma tæmandi talningu ákvæða um meðferð mála fyrir barnaverndaryfirvöldum heldur að því marki sem best þykir henta.
     Barnaverndarnefndir taka ákvarðanir um veigamikla hagsmuni einstaklinga og fjölskyldna og oft afdrifaríkar. Lög um vernd barna og ungmenna veita barnaverndaryfirvöldum víðtækar heimildir til íhlutunar í mikilvæg mannréttindi. Því ríður á miklu að málsmeðferð öll sé vönduð og sem best staðið að ákvörðunum, þannig að réttaröryggis þeirra einstaklinga, sem í hlut eiga, sé sem best gætt. Nauðsynlegt er og að barnaverndaryfirvöld njóti trausts almennings. Vandaðar málsmeðferðarreglur stuðla að því.
     Skýrari ákvæði um málsmeðferð tryggja betur réttaröryggi barna og annarra sem hagsmuna eiga að gæta vegna ráðstafana barnaverndaryfirvalda og stuðla jafnframt að samræmi í úrlausnum einstakra barnaverndarnefnda.
     Hér á landi hafa ekki verið sett almenn stjórnsýslulög svo sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Barnaverndar- og félagsmálalöggjöf þeirra styðst að miklu leyti við slík stjórnsýslulög þó að þar sé í einstaka tilvikum kveðið á um sérreglur. Þar sem ekki er við slík almenn stjórnsýslulög að styðjast hér á landi er þeim mun brýnna að ákvæði barnaverndarlaga um málsmeðferð séu skýr og ótvíræð. Nokkur nýmæli er að finna í kafla þessum og verður fjallað um þau í umfjöllun um einstakar greinar. Að ýmsu leyti hefur verið stuðst við ákvæði norrænna laga um vernd barna og ungmenna eða félagslega þjónustu.
     Ef umsagnarskyldu barnaverndarnefnda í forsjárdeilumálum verður ekki breytt telur einn nefndarmanna, Ingibjörg Rafnar, að reglur þessa kafla frumvarpsins um málsmeðferð eigi að gilda þegar barnaverndarnefnd fjallar um mál foreldra og barna í slíkum málum eftir því sem við á. Nauðsynlegt sé að foreldrar njóti þeirrar réttarstöðu sem þessum kafla frumvarpsins er ætlað að tryggja aðilum þar sem umsögn barnaverndarnefndar vegur að jafnaði mjög þungt við ákvörðun dómsmálaráðuneytis um það hvort foreldra skuli hafa forsjá barns til frambúðar.

Um 44. gr.


    1. mgr. þessarar greinar er samhljóða 1. mgr. 13. gr. gildandi laga.
     2. mgr. er samhljóða 3. mgr. 13. gr. gildandi laga.

Um 45. gr.


    Greinin er samhljóða 1. mgr. 14. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að rétt þykir að reglur um vanhæfi gildi jafnframt um starfsmenn barnaverndarnefnda.

Um 46. gr.


    Grein þessi er um margt efnislega samhljóða 16. gr. gildandi laga. Hér hefur þó verið greint á milli ákvæða er varða annars vegar form og aðferðir við öflun upplýsinga og þess hins vegar um hvar afla skal gagna eða upplýsinga. Um síðara atriðið er fjallað í 21. gr. frumvarpsins.
     Greinin fjallar um hvernig afla skuli upplýsinga, heimildir barnaverndarnefnda og réttindi einstaklinganna við þá upplýsingaöflun. Nýmælin og efnislegar breytingar varða fjögur atriði.
     Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að í ákveðnum tilvikum geti fólk skorast undan að gefa barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar upplýsingar og er í greininni vísað til 125. gr. laga um meðferð einkamála í héraði. Þar er kveðið á um rétt nákomins skyldfólks eða tengdafólks til að skorast undan að gefa skýrslu. Sú undanþága gildir þó ekki ef um er að ræða málsatvik er verulegu máli skipta og ekki verður eftir eðli máls unnt að tryggja sönnun fyrir með öðrum hætti. Í greininni er gert ráð fyrir að nefnd geti eins og nú er krafist vitnaleiðslu fyrir dómi til skýringar á máli og taka þá reglur um skyldu manna til að bera vitni gildi sem og undanþáguregla 125. gr. eml. Með sama hætti má benda á 89. og 91. gr. laga um meðferð opinberra mála um rétt aðila og vitna til að skorast undan að gefa skýrslur. Ekki þykir rétt að réttur einstaklinga sé minni við meðferð mála fyrir barnaverndarnefndum en fyrir dómstólum. Hins vegar kann undanfærsla manna að verða túlkuð þeim í óhag. Í dönsku lögunum um félagslega þjónustu og norska frumvarpinu til laga um félagslega þjónustu er sams konar ákvæði að finna og hér er lagt til.
     Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í greininni að heimilt sé að ræða við barn í einrúmi. Slíkt er ekki beinlínis heimilað í gildandi lögum en hefur verið tíðkað í framkvæmd. Nauðsynlegt getur reynst að tala við barn einslega til að upplýsa mál og þykir rétt að taka af öll tvímæli um að það sé heimilt.
     Í þriðja lagi er það nýmæli að finna í 3. mgr. að foreldrum barns eða forráðamönnum skal að jafnaði greint frá því að verið sé að kanna hagi þess.
     Í fjórða lagi er heimild barnaverndarnefnda og starfsmanna hennar til að fara inn á einkaheimili til rannsóknar á högum barns þrengd frá því sem nú er. Hér er gert ráð fyrir að samþykki foreldris eða forráðamanns þurfi að koma til, ella þurfi að leita eftir úrskurði dómara. Sé barn í bráðri hættu er þó heimilt að fara inn á heimili án samþykkis eða dómsúrskurðar á grundvelli 50. gr.

Um 47. gr.


    Í grein þessari er kveðið á um það nýmæli að samþykki foreldra til ráðstafana þeirra, sem greinir í f- og g-liðum 1. mgr. 24. gr. og a-lið 1. mgr. 32. gr. frumvarpsins, skal vera skriflegt og vottfest. Í ýmsum tilvikum grípa barnaverndarnefndir til ráðstafana með samþykki foreldra, enda ber þeim að leita lausnar á máli í samvinnu við foreldra áður en gripið er til þvingunaraðgerða. Hér er oft um afdrifaríkar ákvarðanir að ræða og þykir því rétt að tryggt sé að foreldrar geri sér vel grein fyrir eðli og réttaráhrifum samþykkis síns. Jafnframt er mikilvægt fyrir barnaverndaryfirvöld að ljóst og ótvírætt sé eftir á hver var raunverulegur vilji foreldra á þeirri stundu er ráðstöfun var ákveðin.

Um 48. gr.


    1. mgr. þessarar greinar er samsett úr 2. mgr. 13. gr. og hluta 2. mgr. 14. gr. gildandi laga. Hér er kveðið á um að nánar tilgreindar ákvarðanir barnaverndarnefndar skuli afgreiddar með úrskurði og að til þurfi aukinn meiri hluta til að úrskurður sé gildur. Jafnframt er kveðið á um að í þeim tilvikum skuli lögfræðingur sitja í nefndinni.
     2. mgr. er að mestu samhljóða 2. mgr. 14. gr. gildandi laga.

Um 49. gr.


    Hér er kveðið á um réttarstöðu barns og foreldra á lokastigi máls fyrir barnaverndarnefnd, þ.e. áður en úrskurður er kveðinn upp. Að sumu leyti er greinin byggð á 20. gr. gildandi laga. Hér er aðilum þó tryggð sterkari staða að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi er sú skylda lögð á barnaverndarnefnd að leiðbeina foreldrum um réttarstöðu þeirra. Þá er foreldrum tryggður réttur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri beint við nefndina eins og nú er kveðið á um. Gert er ráð fyrir að foreldrar geti notið liðsinnis lögmanna eins og nú er en hér er lagt til að barnaverndarnefnd skuli eftir atvikum veita foreldrum fjárstyrk til að standa straum af kostnaði við slíka aðstoð. Oft eru foreldrar úr hópi þeirra sem verst eru settir fjárhagslega. Ákvæði laga um meðferð einkamála í héraði um gjafsókn taka ekki til mála sem rekin eru fyrir stjórnvöldum. Ekki eru heldur fyrir hendi almenn lög um ókeypis lögfræðiaðstoð. Foreldrum er oft nauðsynlegt að geta notið aðstoðar lögmanna enda eru miklir hagsmunir í húfi. Ófært þykir að fjárhagur manna ráði því hvort þeir fái notið slíkrar hjálpar.
     Í gildandi lögum er kveðið á um að barni eða ungmenni skuli að jafnaði gefinn kostur á að koma á fund barnaverndarnefndar. Hér er gert ráð fyrir því að skylt sé að barni, 12 ára eða eldra, sé gefinn kostur á að tjá sig. Hér er jafnframt lagt til að þegar sérstaklega stendur á sé heimilt að skipa barni sérstakan talsmann. Barnaverndarnefnd er auðvitað skylt að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi við meðferð og lausn barnaverndarmáls og gætir í þeim skilningi hagsmuna barnsins. Stundum getur þó verið rétt að skipa barni sérstakan talsmann sem er hvorki tengdur foreldrum né barnaverndaryfirvöldum, svo sem í hatrömmum deilum kynforeldra og fósturforeldra um umgengni.
     Loks er í 4. mgr. fjallað um rétt aðila til að kynna sér gögn málsins. Hér er um að ræða veigamikinn þátt í því að bæta réttarstöðu og öryggi aðila í barnaverndarmálum. Á síðustu missirum hefur mikið verið rætt um aðgang aðila að gögnum við meðferð mála fyrir stjórnvöldum, sérstaklega í barnaverndarmálum. Réttur aðila til að tjá sig er lítils virði ef hann veit ekki á hvaða forsendum málarekstur byggist. Hér er því lagt til að meginreglan verði sú að foreldrar fái í hendur afrit allra skriflegra gagna sem nefnd byggir á við úrlausn málsins. Undir þetta falla þó ekki minnisblöð og vinnugögn starfsmanna meðan á vinnslu málsins stendur.
     Ýmis gögn í barnaverndarmálum eru þess eðlis að óheppilegt getur talist vegna hagsmuna barnsins að aðilar fái þau í hendur eða lesi þau. Barnaverndarnefnd verður einnig að meta hvort foreldrar séu færir um að hafa slík gögn undir höndum og gæta trúnaðar gagnvart óviðkomandi aðila, vegna barnsins, svo sem vegna drykkjuskapar, geðveiki eða greindarskorts foreldra. Því er gert ráð fyrir að barnaverndarnefnd geti í slíkum tilvikum ýmist úrskurðað að aðilar fái aðeins að kynna sér gögn án þess að fá þau afhent eða aðilar skuli ekki hafa aðgang að tilteknum gögnum. Slík gögn geta t.d. verið skýrslur sérfræðinga er byggjast á upplýsingum er þeir hafa aflað í trúnaðarsamtölum við börn, eða gögn með upplýsingum sem ætla má að reynst gætu hættulegar aðila sjálfum eða öðrum.

Um 50. gr.


    Grein þessi er efnislega samhljóða 15. gr. gildandi laga, nema hvað hér eru settir tímafrestir þar sem slíkar ráðstafanir eru í eðli sínu bráðabirgðaráðstafanir. Samkvæmt greininni ber að leggja mál fyrir barnaverndarnefnd til staðfestingar innan tveggja vikna og sé um að ræða ráðstöfun sem felur í sér aðgerðir á grundvelli c- og d-liða fyrri málsgreinar 27. gr., svo sem töku barns af heimili, skal barnaverndarnefnd afgreiða málið með fullnaðarúrskurði innan tveggja mánaða.
     Í tilvikum þeim, er hér greinir, er heimilt að fara inn á einkaheimili án samþykkis foreldra eða dómsúrskurðar ef ástæða þykir til að ætla að barnið sé í bráðri hættu.

Um 51. gr.


    Grein þessi er samhljóða 3. mgr. 53. gr. gildandi laga.

Um 52. gr.


    1. mgr. greinar þessarar er að mestu samhljóða 1. mgr. 56. gr. gildandi laga. Þó er hér gerð tillaga um að settur verði ákveðinn málskotsfrestur, þ.e. úrskurði barnaverndarnefndar verður að skjóta til barnaverndarráðs innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi varð kunnugt um úrskurðinn. Ljóst er að barnaverndarnefnd þarf að fylgja úrskurðum sínum eftir með ýmsum aðgerðum, svo sem með því að koma barni fyrir á fósturheimili. Óheppilegt er að óvissa ríki um endanlega niðurstöðu máls um langan tíma.
     Jafnframt er af sömu ástæðu gerð tillaga um að barnaverndarráði verði settur ákveðinn frestur til að afgreiða mál endanlega fyrir sitt leyti. Ætla má að þær breytingar, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á verksviði og starfsemi ráðsins, muni hraða mjög meðferð mála þar sem því er einungis ætlað að vera úrskurðaraðili um málskot en annast ekki jafnframt leiðbeiningar og eftirlit.
     2. mgr. greinarinnar er samhljóða 2. mgr. 56. gr. gildandi laga.
     3. mgr. greinarinnar er samhljóða 3. mgr. 56. gr. Hér er áfram gert ráð fyrir að barnaverndarráð geti mælt fyrir um aðrar ráðstafanir en barnaverndarnefnd þrátt fyrir breytingu á verksviði ráðsins. Þykir það ekki óeðlilegt þar sem ráðið munu skipa sérfræðingar á sviðum er varða málefni barna og hagsmunir barnanna sjálfra eru leiðarljós barnaverndaryfirvalda allra.
     4. mgr. greinarinnar er efnislega samhljóða niðurlagi 1. mgr. 56. gr. gildandi laga og kveður á um að ákvæði í þessum kafla um réttarstöðu aðila við meðferð mála gildi jafnframt fyrir barnaverndarráði.
     Barnaverndarráði er áfram ætlað að kveða upp fullnaðarúrskurði í barnaverndarmálum, þ.e. að ekki er gert ráð fyrir að mál fari til úrlausnar dómstóla. Dómstólar hafi aðeins um það að segja hvort nefndir eða ráðið hafi farið út fyrir valdmörk sín. Barnaverndarmál eru í eðli sínu viðkvæm og nauðsynlegt að niðurstaða fáist sem fyrst um framtíð barna sem í hlut eiga. Jafnframt er þess að geta að gert er ráð fyrir breyttu verksviði ráðsins þannig að það verði eingöngu úrskurðaraðili um málskot. Það, ásamt því að málsmeðferðarreglur eru bættar, ætti að tryggja að réttarstaða aðila verður líkari því sem gerist við meðferð dómsmála.

Um 53. gr.


    Gildandi barnaverndarlög gera ekki ráð fyrir að foreldrar geti fengið mál sín tekin fyrir að nýju fyrir barnaverndarnefnd, jafnvel þó að aðstæður þeirra breytist til hins betra. Þess eru þó dæmi að nefndir hafi tekið úrskurðarmál fyrir að nýju að beiðni foreldra. Rétt þykir því að gera ráð fyrir slíkum möguleika í lögunum. Til þess að mál verði tekið upp að nýju verða foreldrar að sýna fram á með óyggjandi hætti að aðstæður þeirra hafi breyst verulega og nú megi ætla að þeir séu hæfir til að fara með forsjá barna sinna. Í þessum tilvikum sem endranær skal þó fyrst og fremst taka mið af hagsmunum barnsins en ekki foreldranna.

Um IX. kafla.


    Reynsla af barnaverndarstarfi hér á landi og erlendis þykir sýna að barnaverndarnefndum er nauðsynlegt að hafa aðgang að stofnunum er tekið geti við börnum sem vista þarf um lengri eða skemmri tíma. Frá því að gildandi lög voru sett hafa þó áherslur nokkuð breyst í þessum efnum. Nú þykir brýnna en fyrr að beita fjölþættum stuðningsúrræðum til að koma í veg fyrir stofnanadvöl barna. Ef hún reynist þó nauðsynleg er reynt að stytta hana og koma sem mest í veg fyrir endurteknar vistanir. Lögð er vaxandi áhersla á þátttöku foreldranna í umönnun barnsins meðan á dvölinni stendur. Á þetta sérstaklega við um ung börn.
     Síðustu tvo til þrjá áratugi hefur plássum fyrir börn á stofnunum á vegum barnaverndaryfirvalda fækkað verulega. Þess er að geta að Reykjavíkurborg hefur eitt sveitarfélaga rekið vistheimili fyrir börn yngri en 12 ára. Fyrir 1970 voru á vegum Reykjavíkurborgar á annað hundrað pláss á vistheimilum fyrir börn undir 12 ára aldri. Pláss á vistheimilum borgarinnar eru nú 14 talsins. Þessi mikla fækkun var möguleg vegna ýmissa annarra aðgerða. Má þar nefna stóraukna notkun fósturheimila, eflingu stuðningsúrræða fyrir foreldra og börn, þar á meðal eflingu félagsmálastofnunar, sálfræðideilda skóla og sérkennsluúrræða, stofnun barnageðdeildar og meðferðarheimilis í tengslum við sálfræðideildir skólanna sem nú er rekið á vegum geðdeildar Borgarspítalans.
     Rétt er að hafa í huga að stórefld hefur verið starfsemi fyrir fötluð börn frá því að lög um aðstoð við þroskahefta voru sett 1979 og síðan lög um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, sem leystu þau lög af hólmi. Í gildandi barnaverndarlögum var gert ráð fyrir að barnaverndarnefndir sinntu þjónustu við þessi börn meira en raun varð á.
     Eðlilegt hefur þótt að ríkið sæi um rekstur unglingaheimilis. Starfsemi Unglingaheimilis ríkisins hefur nokkuð eflst frá því það var sett á laggirnar 1972. Þar eru nú starfræktar þrjár deildir, auk opinnar unglingaráðgjafar (göngudeildar). Þar skal fyrst talin móttökudeild þar sem hægt er að taka við unglingum í bráðavistun, en einnig til rannsóknar og greiningar. Þá eru tvær uppeldis- og meðferðardeildir til lengri dvalar. Einkaaðilar reka samkvæmt sérstöku samkomulagi við menntamálaráðuneytið og í samvinnu við stjórnarnefnd Unglingaheimilis ríkisins Meðferðarheimilið Torfastöðum í Biskupstungum. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar var haustið 1989 stofnuð sérstök deild fyrir unga vímuefnaneytendur á vegum Unglingaheimilis ríkisins. Unnið er að undirbúningi fyrir opnun deildarinnar. Loks má nefna neyðarathvarf Rauða krossins sem starfrækt hefur verið frá 1985. Þar er tekið á móti börnum og ungmennum sem þangað leita sjálf vegna margháttaðra vandamála.
     Eðlilegt er að halda í lögum um vernd barna og ungmenna ákvæðum um starfsemi þeirra stofnana er hér hafa verið upp taldar og annarra sem í framtíðinni verða settar á laggirnar og skilgreinast sem barnaverndarstofnanir. Nauðsynlegt þykir að hraðað verði uppbyggingu stofnana í þágu barnaverndar í náinni framtíð. Ber þar fyrst að nefna að engin sveitarfélög utan Reykjavíkur hafa aðgang að vistheimili fyrir ung börn til notkunar í alvarlegum barnaverndarmálum. Þá hefur reynst erfitt að finna fósturheimili fyrir stálpuð börn, 7–12 ára, sem eiga við veruleg hegðunarvandkvæði að stríða, eiga sér ekki trausta forsjáraðila og þurfa mikillar sérkennslu við. Ýmsir sérfræðingar hafa bent á þörf fyrir stofnun meðferðarheimilis til að sinna þessum börnum. Einnig er allmikill skortur á deild við unglingaheimilið sem geti sinnt langtímameðferð unglinga sem eru uppvísir að síbrotum og ofbeldisverkum. Þá þykir og líklegt að í framtíðinni verði hugað að uppbyggingu barnaheimila þar sem foreldrar og börn geti dvalist saman. Reynsla af slíkum barnaverndarstofnunum erlendis er þegar fengin og þykir mjög athyglisverð.

Um 54. gr.


    Í 1. mgr. eru skilgreind þau heimili er undir kafla þennan falla.
     Í 2. mgr. er kveðið á um frumkvæði félagsmálaráðuneytisins varðandi uppbyggingu slíkra stofnana.
     Í 3. og 4. mgr. er skilgreint hlutverk ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar varðandi stofnun og rekstur slíkra heimila. Er við það miðað að ríkisvaldinu sé skylt að reka unglingaheimili, svo og þau meðferðarheimili sem nauðsynlegt er að setja á fót til að sinna hegðunarerfiðleikum barna. Á slíkum heimilum beinist meðferðin fremur að hegðun og erfiðleikum barnsins sjálfs og þykir því eðlilegt að ríkið axli þá ábyrgð. Þykir það sambærilegt við þau verkefni sem ríkið annast á öðrum sviðum, svo sem rekstur geðdeilda fyrir börn, og rekstur hvers konar meðferðar og vistheimila fyrir fötluð börn. Ríkið annast þegar rekstur Unglingaheimilisins að mestu. Aftur á móti þykir eðlilegt að sveitarfélög annist rekstur vistheimila er veiti börnum viðtöku um stundarsakir vegna aðstæðna á heimilum þeirra. Rekstur slíkra vistheimila tengist starfi barnaverndarnefnda með mjög beinum hætti og því talið eðlilegt að sveitarfélög beri þá ábyrgð.
     Í 5. mgr. er félagasamtökum eða öðrum aðilum heimilað að setja á stofn heimili eða stofnanir til stuðnings börnum eða ungmennum að fengnu leyfi félagsmálaráðherra.

Um 55. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa og á sér hliðstæðu í 37. gr. gildandi laga.

Um 56 gr.


    Ákvæði greinarinnar eru efnislega sambærileg ákvæðum í 37. gr. og 39. gr. gildandi laga.

Um X. kafla.


    Í þessum kafla er að finna almenn ákvæði til verndar börnum og ungmennum. Til greina þótti koma að fella slík ákvæði út úr lögunum að öllu leyti, enda er öðrum aðilum samkvæmt lögum falin verkefni á þessu sviði. Hins vegar þykir sýnt að barnaverndarnefndir geti öðrum fremur verið talsmenn barna í samfélaginu sem oft mótast frekar af þörfum og hagsmunum hinna fullorðnu. Á þetta ekki síst við þar sem hætta er á að aðilar leitist við að misnota sér reynslu- eða ístöðuleysi barna eða ungmenna í eiginhagsmunaskyni, svo sem með dreifingu vímuefna, eða með því að selja þeim aðgang að skemmtunum sem ætla má að geti verið börnum skaðsamlegar. Einnig getur verið um að ræða starfsemi sem í sjálfu sér er eðlileg þótt sérstök ástæða geti verið til að gæta hagsmuna barna, svo sem með eftirliti á vinnustöðum og með því að takmarka aðgang að skemmtistöðum er hafa leyfi til áfengisveitinga.

Um 57. gr.


    Þegar gildandi lög voru sett voru höfð í þeim ítarleg ákvæði um vinnuvernd barna og ungmenna, enda var þá ekki til að dreifa heildarlöggjöf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem síðan hefur verið sett, sbr. lög nr. 46/1980. Samkvæmt þeim lögum fer Vinnueftirlit ríkisins með vinnuvernd barna og ungmenna.
     Greinin veitir barnaverndarnefnd möguleika á að fylgjast með einstökum börnum á vinnustað, en að öðru leyti skýrir hún sig sjálf.

Um 58. gr.


    Hér er lagt á barnaverndarnefndir að vinna gegn hvers konar vímuefnaneyslu barna og ungmenna í umdæmi sínu. Samkvæmt áfengislögum, nr. 82/1969, er þetta einnig verkefni áfengisvarnanefnda og er eðlilegt að um samvinnu þessara aðila verði að ræða á þeim stöðum þar sem þessar nefndir hafa ekki sameinast í einni nefnd, félagsmálaráði, eins og víða er. Þá þykir einnig rétt að kveða sérstaklega á um að barnaverndarnefndir stuðli að því, eftir því sem við verður komið, að koma lögum yfir þá sem ýta undir vímuefnaneyslu barna og ungmenna.

Um 59 gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 43. gr. gildandi laga.

Um 60. gr.


    Rétt þykir að taka inn í lögin ákvæði um útivistartíma barna sem hingað til hafa verið í reglugerð enda er ekki síður ástæða nú til þess að takmarka útivistartíma barna en áður var. Nefndin hefur nokkuð leitað eftir tillögum um önnur aldurs- og tímamörk en hér eru sett, en niðurstöður flestra orðið þær að hér sé um eðlilegar viðmiðanir að ræða.

Um 61. gr.


    Grein þessi er að hluta til samhljóða 40. gr. reglugerðar um vernd barna og ungmenna nr. 45 frá 9. júní 1970, en einfölduð mjög. Greinin er og í samhljóðan við reglugerð um löggæslu á skemmtunum nr. 587 23. des. 1987, svo og 20. gr. áfengislaga, nr. 82/1969. Eðlilegt þykir að leggja bann við að ungmenni, innan 18 ára aldurs, starfi á stöðum sem þau hafa að öðru leyti ekki aðgang að. Þó er gerð undantekning þegar um viðurkennt iðnnám er að ræða, þ.e. matreiðslu- og framreiðslunám.

Um XI. kafla.


    Ekki voru aðrar refsiheimildir í fyrstu barnaverndarlögunum frá 1932 en þær sem mæltu fyrir um refsingu fyrir brot á lögunum sjálfum, sbr. 18. gr. laga nr. 43/1932. Í lögum nr. 29 1947, sem komu í stað laga nr. 43/1932, eru refsiákvæði sem eru samsvarandi gildandi refsiákvæðum.
     Full ástæða þykir til að börn og ungmenni njóti sérstakrar refsiverndar. Aðstæður barna og unglinga í daglegu lífi eru oft þannig að foreldrar eru uppteknir við eigin störf utan heimila. Börn og unglingar eru því oft og tíðum ýmist í umsjá annarra eða í eigin umsjá. Þau eru háð því að hinir fullorðnu virði þörf þeirra fyrir sérstaka vernd.

Um 62. gr.


    Þessi grein er nýmæli. Mikilvægi þess að tilkynningarskylda barnaverndarlaga sé virt er augljóst. En það varðar líka hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra að einkalíf þeirra sé virt og að ekki sé vísvitandi komið á framfæri við barnaverndarnefndir röngum eða villandi upplýsingum sem leitt gætu til könnunar máls af hálfu nefndar í samræmi við ákvæði 21. gr. frumvarpsins eða annarra aðgerða en slíkt getur verið börnum og fjölskyldum þeirra skaðlegt.

Um 63.–69. gr.


    Í þessum greinum gætir lítilla efnisbreytinga frá refsiákvæðum gildandi laga, þ.e. 45., 46., 47., 2. mgr. 48. og 49. gr. Uppröðun greinanna er breytt og þeim er fjölgað til þess að gera þær skýrari og orðalagi sumra greina er lítillega breytt.

Um 70. gr.


    Greinin er samhljóða 59. gr. gildandi laga.

Um 71. gr.


    Miðað er við að lögin taki gildi að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 1990.


Fylgiskjal I.


Bréf til menntamálaráðherra frá fjármálaráðuneyti,


Fjárlaga- og hagsýslustofnun.


(6. apríl 1990.)



Efni: Kostnaðarumsögn um drög að frumvarpi til laga um vernd barna og ungmenna.

    Helstu nýmæli þessa frumvarps eru:
    Lagt er til að yfirstjórn barnaverndarmála verði í höndum félagsmálaráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir að barnaverndarráð fari með fullnaðarúrskurðarvald en að önnur verkefni færist til félagsmálaráðuneytis.
    Barnaverndarumdæmi verða stækkuð og fækkar þá barnaverndarnefndum. Þetta getur haft áhrif á útgjöld sveitarstjórna vegna barnaverndarnefnda.
    Að öðru leyti felur frumvarpið í sér skýrari og ítarlegri ákvæði um barnaverndarmál en er að finna í gildandi lögum og leitast er við að skilgreina betur réttarstöðu barna og ungmenna í barnaverndarmálum.
    Ráðuneytið áætlar að samþykkt frumvarpsins muni ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, en kostnaðaráhrif þess koma fram með tvennum hætti:
    1. Meginbreyting frá núgildandi lögum er að yfirstjórn barnaverndarmála verður í höndum félagsmálaráðuneytis í stað menntamálaráðuneytis. Þetta felur í sér tilflutning á eftirfarandi stofnunum: Meðferðarheimili Torfastöðum (802), barnaverndarráði 806, meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur (870) og Unglingaheimili ríkisins (871).
     Fjárveiting til þessara stofnana er í fjárlögum 1990 samtals um 72 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að tilflutningur þeirra á milli ráðuneyta hafi í för með sér breytingar á kostnaði.
    2. Hlutverk barnaverndarráðs breytist og fulltrúum í ráðinu fækkar úr fimm í þrjá. Eftirlitsráðgjafar- og umsagnarhlutverk ráðsins færist til aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Hlutverk barnaverndarráðs verður að veita úrskurð í deilumálum sem vísað er til ráðsins. Rétt er að meta kostnaðaráhrif þessa í tengslum við tvö önnur lagafrumvörp sem nýlega hafa komið fram, þ.e. frumvarp félagsmálaráðherra um félagsþjónustu sveitarfélaga og frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á barnalögum, nr. 9/1981.
     Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingar á barnalögum er núgildandi ákvæði um að leita skuli umsagnar barnaverndarráðs í forsjármálum fellt niður. Í frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er gert ráð fyrir stofnun nýrrar deildar á aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins er sinni eftirliti og ráðgjöf með framkvæmd sveitarfélaga á lögum um félagsþjónustu, þar með talinni vernd barna og ungmenna.
     Fjárveiting til barnaverndarráðs er um 9 m.kr. í fjárlögum líðandi árs. Með tilflutningi á verkefnum barnaverndarráðs til félagsmálaráðuneytis má gera ráð fyrir að u.þ.b. helmingur þeirrar fjárveitingar færist til félagsmálaráðuneytis. Barnaverndarráð hefur á að skipa þremur starfsmönnum og mundu tveir þeirra færast til félagsmálaráðuneytis.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um vernd barna og ungmenna.


    Helstu nýmæli þessa frumvarps eru:
Lagt er til að yfirstjórn barnaverndarmála verði í höndum félagsmálaráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir að barnaverndarráð fari með fullnaðarúrskurðarvald en að önnur verkefni færist til félagsmálaráðuneytis.
    Barnaverndarumdæmi verða stækkuð og fækkar þá barnaverndarnefndum.
    Að öðru leyti felur frumvarpið í sér skýrari og ítarlegri ákvæði um barnaverndarmál en er að finna í gildandi lögum og leitast er við að skilgreina betur réttarstöðu barna og ungmenna í barnaverndarmálum.
     Fjármálaráðuneytið áætlar að samþykkt frumvarpsins geti haft í för með sér nokkurn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en erfitt er að meta þessi kostnaðaráhrif. Í þessu samhengi skal bent á 3. og 54. gr.
—    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að innan félagsmálaráðuneytis skal sérstök deild annast samræmingu og heildarskipulag barnaverndarmála og má leiða getum að því að það hafi í för með sér einhverja fjölgun starfsmanna og annan kostnaðarauka, samtals að fjárhæð 4–8 m.kr. Hins vegar er rétt að meta kostnaðaráhrif þessa í tengslum við lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, en á grundvelli þeirra er gert ráð fyrir stofnun nýrrar deildar á aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins er sinni eftirliti og ráðgjöf með framkvæmd sveitarfélaga á lögum um félagsþjónustu, þar með talinni vernd barna og ungmenna. Einnig er á það bent að við það er miðað að starfsmenn flytjist frá barnaverndarráði til aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytis, sbr. 2. lið hér á eftir, og er sú fjölgun starfsmanna umfram hugsanlega fjölgun vegna 3. gr. frumvarpsins.
—    Í 54. gr. segir að félagsmálaráðuneyti skuli hlutast til um að settar verði á fót stofnanir eða heimili sem nauðsynleg eru til að barnaverndarnefndum sé unnt að rækja störf sín og að félagsmálaráðuneytinu sé skylt að reka unglingaheimili, svo og meðferðarheimili fyrir börn sem eiga við hegðunarörðugleika að stríða. Hugsanlegur kostnaðarauki vegna þessa ákvæðis er mjög óljós, enda er a.m.k. unglingaheimili þegar starfrækt. Í núgildandi lögum og með reglugerð um Unglingaheimili ríkisins er gert ráð fyrir að sveitarfélög taki þátt í rekstrarkostnaði heimilisins með daggjöldum. Hins vegar hefur reynslan af því fyrirkomulagi verið slæm og daggjöldin skilað sér illa.
     Að öðru leyti koma kostnaðaráhrif þessa frumvarps fram með tvennum hætti:
    1. Meginbreyting frá núgildandi lögum er að yfirstjórn barnaverndarmála verður í höndum félagsmálaráðuneytis í stað menntamálaráðuneytis. Þetta felur í sér tilflutning á eftirfarandi stofnunum: Meðferðarheimili Torfastöðum (802), barnaverndarráði (806), meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur (870) og Unglingaheimili ríkisins (871).
    Fjárveiting til þessara stofnana er í fjárlögum 1992 samtals um 104 m. kr. og ætti tilflutningur þeirra á milli ráðuneyta ekki að hafa í för með sér breytingar á kostnaði. Ekki er gert ráð fyrir tilflutningi á störfum frá menntamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis, en í menntamálaráðuneyti var þessu verkefni ekki sinnt af sérstakri deild þótt aðalumsjón barnaverndarmála hafi þar verið í höndum deildarstjóra lista- og safnadeildar ráðuneytisins.
    2. Hlutverk barnaverndarráðs breytist og fulltrúum í ráðinu fækkar úr fimm í þrjá. Hlutverk barnaverndarráðs verður að veita úrskurð í deilumálum sem vísað er til ráðsins. Eftirlits-, ráðgjafar- og umsagnarhlutverk ráðsins færist til aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Fjárveiting til barnaverndarráðs er um 10,4 m.kr. í fjárlögum 1992. Með tilflutningi á verkefnum barnaverndarráðs til félagsmálaráðuneytis má gera ráð fyrir að u.þ.b. helmingur þeirrar fjárveitingar færist til félagsmálaráðuneytis. Barnaverndarráð hefur á að skipa fjórum starfsmönnum og mundu tveir til þrír færast til félagsmálaráðuneytis.
     Ekki eru metin hugsanleg kostnaðaráhrif þessa frumvarps fyrir sveitarfélög. Gera má ráð fyrir að fækkun barnaverndarnefnda og stækkun barnaverndarumdæma geti haft áhrif á kostnað sveitarfélaga. Einnig er í 54. gr. kveðið á um að sveitarfélög skulu, eitt eða fleiri saman, setja á stofn og reka vistheimili er veiti börnum viðtöku um stundarsakir og að sveitarfélög skulu setja á stofn og reka önnur heimili eða stofnanir er sveitarstjórn telur þörf á, að fenginni tillögu eða umsögn barnaverndarnefndar, til að nefndin geti sinnt lagaskyldum sínum.


Fylgiskjal III.


1990–91. — 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. — 29. mál.

Ed.

984. Nefndarálit



um frv. til l. um vernd barna og ungmenna.

Frá menntamálanefnd.



     Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það höfunda þess, Sigríði Ingvarsdóttur, formann barnaverndarráðs, Ingibjörgu Rafnar héraðsdómslögmann og Gunnar Sandholt, yfirmann fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Hilmar Björgvinsson, deildarstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins, kom einnig á fund nefndarinnar. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá eftirtöldum aðilum: Barnaheill, barnaverndarráði, biskupi Íslands, bæjarstjórn Selfoss, Dómarafélagi Íslands, félagsmálaráði Akureyrar, félagsmálaráði Egilsstaðabæjar, félagsmálaráði Neskaupstaðar, félagsmálaráði Selfoss, félagsmálaráðuneytinu, Félagsmálastofnun Kópavogskaupstaðar, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fóstrufélagi Íslands, fræðslustjóra Suðurlandsumdæmis, héraðsnefnd Árnesinga, héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu, héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu, Kennarasambandi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, menntamálaráðuneytinu, Sálfræðingafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa og Sýslumannafélagi Íslands.
     Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Nefndin taldi nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar, m.a. með hliðsjón af ábendingum sem henni bárust í umsögnum um frumvarpið, en í flestum tilvikum er þó ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða.
     Halldór Blöndal var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. mars 1991.



Eiður Guðnason,

Guðrún Halldórsdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.

fundaskr.



Skúli Alexandersson.

Jón Helgason.

Salome Þorkelsdóttir.




Fylgiskjal IV.


1990–91. — 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. — 29. mál.

Ed.

985. Breytingartillögur



við frv. til l. um vernd barna og ungmenna.

Frá menntamálanefnd.



    Við 3. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
         
    
    Fyrri málsgrein verði tvær málsgreinar þannig að 1. málsl. verði 1. mgr. og 2.–7. málsl. verði 2. mgr.
         
    
    Síðasti málsliður síðari málsgreinar orðist svo: Það skal annast fræðslustarfsemi fyrir þá sem starfa að barnaverndarmálum, m.a. með útgáfustarfsemi og námskeiðum.
    Við 4. gr. Í stað orðanna „og hátterni“ í 1. efnismálsl. 2. mgr. komi: hátterni og uppeldisskilyrðum.
    Við 6. gr. Eftirtaldar breytingar verða á greininni:
         
    
    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. komi: Þá skal sveitarstjórn heimilt að semja um svæðisbundið samstarf með öðrum hætti en að framan greinir með leyfi félagsmálaráðherra.
         
    
    Í stað orðanna „að fengnu leyfi félagsmálaráðherra“ í lok 1. mgr. komi: og í þeim tilvikum skal gæta þeirra sjónarmiða sem nefnd eru í 3. mgr. um kjör barnaverndarnefnda.
         
    
    Orðin „t.d. barnalækni, sálfræðing eða félagsráðgjafa“ í niðurlagi 3. mgr. falli brott.
    Við 7. gr. Fyrri málsliður fyrri málsgreinar orðist svo: Kjörtímabil barnaverndarnefnda er hið sama og sveitarstjórna.
    Við 10. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
         
    
    Á eftir orðinu „héraðsnefndar“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: sveitarstjórnar.
         
    
    Orðin „svo og leita til sérfræðinga í einstökum málum“ í lok 2. mgr. falli brott.
    Við 12. gr. Annar málsliður fyrri málsgreinar falli brott.
    Við 17. gr. Við greinina bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                  Barnaverndarnefnd er skylt að tilkynna foreldri barns ef mál, er varðar barnið, er til meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum, sbr. 1. og 2. mgr., enda mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því. Óski foreldri eftir því að vera viðstatt yfirheyrslu yfir barni sínu yngra en 16 ára skal það að jafnaði heimilt. Dómari úrskurðar um þetta atriði ef ágreiningur verður og sætir úrskurður hans ekki kæru.
    Við 19. gr. Í stað orðsins „dagvistarstofnana“ í 1. mgr. og í stað sama orðs í 3. mgr. komi (í viðeigandi beygingarföllum): dagvistarheimila.
    Við 20. gr. Í stað orðsins „laga“ í 1. málsl. komi: barnalaga.
    Við 21. gr. Orðið „ástæðulausrar“ í lok b-liðar 1. mgr. falli brott.
    Við 23. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
         
    
    Á eftir orðinu „börn“ í 1. málsl. komi: og ungmenni.
         
    
    Í stað orðanna „hefur rökstuddan grun um“ í 1. málsl. komi: telur.
         
    
    Orðin „en tólf mánuði þaðan í frá“ í lok 2. málsl. falli brott.
    Við 25. gr. Í stað orðsins „sínum“ í 3. mgr. komi: þess.
    Við 26. gr. Orðin „eða aðfinnslur“ í seinni málsgrein falli brott.
    Við 28. gr. Í stað orðsins „reyndar“ í fyrri málslið síðari málsgreinar komi: fullreyndar.
    Við 30. gr. Í stað orðanna „ef þörf krefur“ í niðurlagi 3. mgr. komi: svo lengi sem þörf krefur.
    Við 33. gr. Í stað orðsins „þjálfa“ í upphafi seinni málsgreinar komi: aðstoða.
    Við 35. gr. Í stað orðanna „þrefaldan barnalífeyri sé það innan sjö ára aldurs og tvöfaldan sé það eldra“ í 1. mgr. komi: umsaminn lífeyri.
    Við 36. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
         
    
    Í stað orðsins „barni“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: barninu.
         
    
    Í stað orðanna „er skylt“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: ber.
    Við 43. gr. Í stað orðanna „níu mánuði eða lengur“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: til frambúðar.
    Við 46. gr. Í stað orðanna „einkaheimili eða barnaheimili“ í 4. mgr. komi: einkaheimili, barnaheimili eða annan þann stað þar sem börn dveljast.
    Við 47. gr. Í stað orðanna „hafi gert sér fulla grein“ komi: hafi verið gerð full grein.
    Við 50. gr. Í stað orðanna „innan tveggja vikna“ í lok 1. málsl. komi: án tafar og eigi síðar en innan viku.
    Við 54. gr. 4. mgr. orðist svo:
                  Barnaverndarnefndir, ein eða fleiri saman, skulu hafa tiltæk úrræði með rekstri vistheimila eða á annan hátt til að veita börnum viðtöku vegna aðstæðna á heimili þeirra, svo sem vegna forfalla foreldra, vanrækslu eða illrar meðferðar á barni eða til könnunar á aðstæðum þeirra, sbr. 21. gr.
    Við 60. gr. bætist: Sveitarstjórnir geta þá breytt þessum aldursmörkum og tímasetningum með sérstakri samþykkt.