Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 333 . mál.


889. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vöruflutninga á landi, nr. 47/1994.

(Eftir 2. umr., 25. febr.)



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um vöruflutninga á landi gegn gjaldi með flutningabifreið eða vagnlest um fram þá hámarkshleðslu sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Heimild bifreiðastjóra til að stunda akstur flutningabifreiða samkvæmt lögum þessum fellur niður við lok 70 ára aldurs þeirra. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda akstur flutningabifreiða á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.

2. gr.


    Við 4. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, er verða 2. og 3. mgr., svohljóðandi:
    Til að stunda vöruflutninga með flutningabifreiðum þarf sérstakt leyfi. Samgönguráðuneytið veitir slík leyfi til einstaklinga og fyrirtækja eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð. Til að öðlast slíkt leyfi þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði 2. gr. laganna.
    Þeir sem stunda akstur flutningabifreiða við gildistöku laga þessara eru háðir þeim breyting um á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 1. gr. skulu þeir sem stunda akstur flutningabifreiða halda atvinnu réttindum sínum óskertum til 1. janúar 1996. Eftir þann tíma rennur heimild allra bifreiðastjóra sem stunda akstur flutningabifreiða samkvæmt lögum þessum út við lok 70 ára aldurs þeirra nema þeir fái undanþágu á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 1. gr.
    Þeir sem stunda vöruflutninga með flutningabifreiðum gegn gjaldi við gildistöku laga þess ara skulu uppfylla skilyrði laganna og afla sér flutningaleyfis á árinu 1995.