Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 206 . mál.


267. Frumvarp til laga



um afnám laga nr. 96/1936, um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    Lög nr. 96/1936, um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti, eru úr gildi felld og fer um skyldur félaganna eftir ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981.
    

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1997 vegna tekna á árinu 1996 og eigna í lok þess árs.

Ákvæði til bráðabirgða.


Skattalegt mat á eignum.


    Á árinu 1996 skal Mjólkursamsalan í Reykjavík framkvæma mat á þeim fyrnanlegu eignum, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem voru í eigu þeirra í byrjun þess árs. Skal þetta skattalega mat gilda í skattskilum félagsins.
    Matið skal framkvæma þannig að kostnaðarverði (stofnverði) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár. Kostnaðarverð, þannig framreiknað, myndar fyrningargrunn sem fyrning reiknast af, í fyrsta sinn á árinu 1996.
    Til frádráttar framreiknuðu stofnverði reiknast sá hundraðshluti fyrninga af stofnverðinu, sem um getur í 38. gr. laga nr. 75/1981, eftir því sem við á, fyrir hvert ár frá og með kaup- eða byggingarári til ársloka 1995. Samtala þessara fyrninga telst fengin heildarfyrning. Hún skal þó aldrei vera hærri en 90% af framreiknuðu stofnverði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981 á eignum skv. 1. og 2. tölul. 32. gr. þeirra laga.
    Mismunur fyrningargrunns, sbr. 2. mgr. þessa ákvæðis, og framreiknaðra fyrninga sbr. 3. mgr., telst eftirstöðvar fyrningarverðs. Fyrningargrunnur og fengnar fyrningar breytast síðan árlega, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum.
    Ríkisskattstjóri skal reikna verðbreytingarstuðul fyrir eignir sem Mjólkursamsalan í Reykjavík skv. 1. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis hefur eignast á árunum 1981–1995. Stuðullinn reiknast í samræmi við ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum nr. 75/1981, sbr. 26. gr. sömu laga. Hafi Mjólkursamsalan í Reykjavík eignast fyrnanlegar eignir skv. 1., 3., eða 4. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981 fyrir ársbyrjun 1981 skulu þær ekki metnar samkvæmt þessu ákvæði. Þegar metnar eru eignir skv. 2. tölul. greindrar 32. gr., sem hafa verið í eigu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík í fimmtán ár eða lengur, skal ríkisskattstjóri reikna stuðul til notkunar í því sambandi og skal hann hafa sömu viðmiðun og um getur í upphafi þessarar málsgreinar.
    Matsverð mannvirkja, sbr. 2. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, er Mjólkursamsölunni í Reykjavík heimilt að ákveða jafnt gildandi fasteignamati í árslok 1996 í stað framreiknaðs kostnaðarverðs (stofnverðs). Sé þessi heimild notuð myndar fasteignamatið nýjan fyrningargrunn. Sé fasteignamatið notað sem fyrningargrunnur samkvæmt þessari málsgrein reiknast ekki fyrningar skv. 3. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis fyrir liðinn tíma.
    Reglur þessa ákvæðis gilda einnig um skattalegt mat ófyrnanlegra eigna eftir því sem við á.
    Mjólkursamsalan í Reykjavík skal senda skattstjóra, eigi síðar en með skattframtali 1997, greinargerð um matið í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Matsbreyting samkvæmt þessu ákvæði telst ekki til tekna heldur færist í sérstakan reikning, reikning, vegna skattalegs mats sem telst til eigin fjár.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði niður ákvæði laga nr. 96/1936, um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda skuli undanþegin öllum tekju- og eignarskatti, svo og því að greiða aukaútsvar eftir efnum og ástæðum.
    Breyting þessi hefur eingöngu í för með sér breytingu á skattlagningu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, þar sem Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda var slitið á árinu 1993 og hlutafélag stofnað um rekstur þess.
    Mjólkursamsalan hefur á grundvelli skattleysisákvæðisins verið undanþegin tekjuskatti og eignarskatti að því er varðar vinnslu og dreifingu mjólkurafurða og vegna þeirrar eignamyndunar sem orðið hefur til vegna starfseminnar.
    Í greinargerð að frumvarpi með lögunum kemur eftirfarandi fram: „Með því að nú allur sá arður, sem stofnanir þær, sem ræðir um í frumvarpi þessu, gefa, rennur til framleiðendanna sjálfra, þeir greiða skatta og skyldur af þeim arði, og þess vegna um engan milliliðagróða að ræða, þykir ekki rétt, að telja stofnanir þessar útsvars- eða skattskyldar“.
    Ljóst er að málum hefur verið skipað með öðrum hætti að því er varðar Mjólkursamsöluna og forsendur löggjafans fyrir skattfrelsi því löngu brostnar. Þá hefur komið fram að á vegum Mjólkursamsölunnar hefur verið byggður upp og rekinn margvíslegur annar atvinnurekstur en hefðbundinn mjólkuriðnaður í samkeppni við annan matvælaiðnað í landinu.
    Mjólkursamsalan í Reykjavík var fyrst skráð í firmaskrá á árinu 1993, sem samvinnufélag. Að einhverju leyti munu þó hafa verið stofnuð hlutafélög um afmarkaða þætti starfseminnar. Eftir stendur þó að Mjólkursamsalan nýtur óeðlilegrar samkeppnisstöðu gagnvart öðrum drykkjarvöruframleiðendum. Með vísan til þessa og meginreglunnar um jafnræði við skattlagningu þykja ekki vera sjáanleg rök fyrir skattfrelsi Mjólkursamsölunnar.

Um 1. og 2. gr.


    Um skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Eins og gert hefur verið þegar aðilar t.d. á sínum tíma bankar eða sparisjóðir sem undanþegnir hafa verið skattlagningu verða skattskyldir þarf að meta eignir eftir þeim leiðum sem skattalög áskilja. Er hér lagt til að sömu reglur og settar voru í lög nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt og síðar í lög nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana verði viðhafðar í endurmati eða skattalegu mati fyrnanlegra eigna.