Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 217 . mál.


274. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 115 31. desember 1985, um skráningu skipa, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)


    

1. gr.

    4. málsl. 1. gr. laganna orðast svo: Til fiskveiða hér á landi má aðeins skrá skip sem eru í eigu íslenskra ríkisborgara, sem eiga lögheimili hérlendis, og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti eign íslenskra ríkisborgara, sem eiga lögheimili hér á landi, eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila sem er skráður eigandi skips ekki yfir 5% má eignarhlutur þó vera allt að 33%.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 46 22. maí 1996, um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, með síðari breytingum, var rýmkuð heimild útlendinga til þátttöku í íslenskum atvinnurekstri með óbeinni hlutdeild, þar á meðal með þátttöku í hlutafélögum sem aftur voru eigendur lögaðila er útgerð stunda. Niðurlagsákvæði 1. gr. laga nr. 115/1985 er efnislega samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 34/1991, eins og það var fyrir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með 1. gr. laga nr. 46 22. maí 1996, en þar segir:
    „Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
    Eftirtaldir aðilar mega einir stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi:
         
    
    Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
         
    
    Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                   i.         Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
                   ii.    Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila, sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
                   iii.    Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
    Með vinnslu sjávarafurða í 1. mgr. þessa töluliðar er átt við frystingu, söltun, herslu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Augljóst er að löggjafinn vildi með þessari lagaheimild rýmka heimildir erlendra aðila til fjárfestinga hér á landi og þar með viðurkenna rétt þeirra að leggja fé til og eiga hlut í hlutafélögum, sem aftur áttu hluti í öðrum félögum, lögaðilum, sem mega stunda fiskveiðar og eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða.
    Til þess að framangreint ákvæði geti náð tilgangi sínum er eðlilegt að breyta einnig ákvæðum laga um skráningu fiskiskipa í lögum nr. 115 31. desember 1985, eins og hér er lagt til. Þar með gilda sömu reglur um eignarhald útlendinga í fiskveiðum, fiskvinnslu og fiskiskipum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 115/1985,


um skráningu skipa, með síðari breytingu.


    Frumvarpið felur í sér breytingu á síðasta málslið 1. gr. laganna og varðar skilyrði fyrir skráningu skipa til fiskveiða. Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar laga nr. 46/1996, um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi nokkur áhrif á útgjöld ríkissjóðs.