Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 381 . mál.


670. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. lög nr. 31/1994 og 130/1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Á eftir orðunum „þremur fulltrúum hið fæsta“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: en þó a.m.k. fimm fulltrúum ef félagsmálanefnd eru falin verkefni barnaverndarnefndar.

2. gr.

     Orðin „og skal a.m.k. einn þeirra eiga sæti í félagsmálanefnd“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Orðin „á vettvangi byggðasamlaga“ í 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skal í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Aðstoð skal veitt af dvalarsveitarfélagi að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið, enda hafi áður verið leitað eftir aðstoð frá heimalandi. Félagsmálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um aðstoð samkvæmt ákvæði þessu.
    Ríkissjóður skal endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara í eftirfarandi tilvikum:
    Aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu, sbr. 1. mgr.
    Aðstoð við erlenda ríkisborgara skv. 12.–13. gr. laganna sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár.

5. gr.

    Orðin „leitast við að“ í 16. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef sveitarfélag ræður starfsmann skal hann hafa viðhlítandi menntun.

7. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn skal setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, sbr. 2. mgr., að fengnum tillögum félagsmálanefndar, í samræmi við lög þessi og önnur lög eftir því sem við á.
    Félagsmálanefnd metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr.
    Fjárhagsaðstoð er aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram.

8. gr.

    2. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
    Félagsmálanefnd er óheimilt að breyta styrk í lán nema viðkomandi óski þess.

9. gr.

    25. gr. laganna fellur brott og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það.

10. gr.

    Við 30. gr. laganna (verður 29. gr.) bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er sveitarstjórn að taka gjald fyrir heimaþjónustu samkvæmt gjaldskrá.

11. gr.

    2. mgr. 34. gr. laganna (verður 33. gr.) fellur brott.

12. gr.

    Í stað orðanna „svæðisstjórna fatlaðra“ í 3. mgr. 45. gr. laganna (verður 44. gr.) kemur: svæðisskrifstofa málefna fatlaðra.

13. gr.

    49. gr. laganna fellur brott og breytist töluröð annarra greina til samræmis við það.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna (verður 54. gr.):
    Í stað orðanna „svæðisstjórn um málefni fatlaðra“ kemur: svæðisskrifstofu málefna fatlaðra.
    Í stað orðanna „lög um málefni fatlaðra, nr. 41/1983.“ kemur: lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.

15. gr.

    Í stað orðanna „66. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 65. gr. laganna (verður 63. gr.) kemur: 64. gr.

16. gr.

    Við 66. gr. laganna (verður 64. gr.) bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann, sbr. 3. mgr. 21. gr.

17. gr.

    Á eftir 67. gr. laganna (verður 65. gr.) kemur nýr kafli, XVIII. kafli, Ýmis ákvæði, með einni nýrri grein, svohljóðandi:
    Veitt aðstoð til íslenskra ríkisborgara hjá umboðsmönnum ríkisins erlendis og kostnaður við heimferð greiðist úr ríkissjóði. Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglur um aðstoð samkvæmt ákvæði þessu.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, skipaði 21. maí 1996 til að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í nefndina voru skipuð: Jón Björnsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Pálsson alþingismaður, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins, og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, skipaður af ráðherra, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Með nefndinni störfuðu Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri og Þorgerður Benediktsdóttir deildarstjóri.
    Tilefni endurskoðunar laga um félagsþjónustu sveitarfélaga á árinu 1996 er að finna í ákvæði til bráðabirgða, en þar segir að lögin skuli endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Jafnframt vísast til ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, þar sem segir að þau lög skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra með hliðsjón af endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök fatlaðra.
    Endurskoðun laga um málefni fatlaðra lauk með samþykkt laga á Alþingi 20. desember 1996, laga nr. 161/1996. Í ákvæði til bráðabirgða í hinum nýju lögum er mælt fyrir um það að félagsmálaráðherra skuli eftir gildistöku laganna gera ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga sem koma eigi til framkvæmda 1. janúar 1999. Fyrir þann tíma þarf Alþingi m.a. að hafa samþykkt ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taki til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, þó ekki starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Í almennum athugasemdum við frumvarpið (sem varð að áðurnefndum lögum nr. 161/1996) segir svo um samruna laga um málefni fatlaðra og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga: „Með því að fella þjónustu við fatlaða undir lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þarf að semja ný og breytt lög um félagsþjónustu. Ljóst er að sú lagasetning krefst mikils og vandaðs undirbúnings. Lögin um málefni fatlaðra eru ítarleg sérlög sem kveða ríkt á um réttindi fatlaðra og skyldur ríkisins. Lögunum fylgja sex reglugerðir. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga eru hins vegar almenn rammalög, ná yfir víðtækt svið þar sem skyldur sveitarfélaga eru ekki nákvæmlega tíundaðar heldur er svigrúm sveitarfélaga mikið. Engin almenn reglugerðarheimild fylgir þeim lögum. Samsteypa jafnólíkra laga er vandaverk.“
    Með hliðsjón af því að undirbúningur að frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem taki til þjónustu við fatlaða, er á næsta leiti var nefndin, sem samdi frumvarp þetta, sammála því að við endurskoðun laganna í þessari lotu skyldu meiri háttar athugunarefni liggja á milli hluta. Engu að síður er tekið á nokkrum veigamiklum atriðum í frumvarpinu, en þau eru helst þessi:
—    skipan félagsmálanefndar ef nefndin fer einnig með barnaverndarmál,
—    skylda sveitarfélaga til að bjóða upp á félagslega ráðgjöf,
—    greiðsla fjárhagsaðstoðar aftur í tímann.
    Önnur atriði teljast minni háttar og sum hver nauðsynleg vegna breytinga á öðrum lögum. Vísast um það, svo og um skýringar á frumvarpinu að öðru leyti, til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um það að félagsmálanefnd skuli skipuð a.m.k. fimm fulltrúum ef nefndinni eru falin verkefni barnaverndarnefndar, en meginreglan um þrjá fulltrúa í félagsmálanefnd hið fæsta standi að öðru leyti óbreytt. Breytingartillagan er tilkomin vegna ákvæða í 2. mgr. 6. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, og 32. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fram kemur að sveitarstjórn sé heimilt að fela félagsmálanefnd verkefni barnaverndarnefndar. Barnaverndarnefnd skal skipuð fimm mönnum, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Óljóst hefur þótt hvort félagsmálanefnd, sem fer með barnaverndarmál, skuli skipuð fimm mönnum þrátt fyrir meginregluna um þrjá fulltrúa hið fæsta í félagsmálanefnd. Álit félagsmálaráðuneytis um þetta atriði, sem fram kom í bréfi þess til Barnaverndarstofu, dags. 30. september 1996, var að fimm menn skyldu taka sæti í félagsmálanefnd þegar fjallað væri um barnaverndarmál. Nefndin, sem samdi frumvarp þetta, telur að rétt sé að lögfesta það fyrirkomulag á þann hátt að þegar ákvörðun sveitarstjórnar liggur fyrir um að félagsmálanefnd fari með barnaverndarmál verði nefndin skipuð a.m.k. fimm mönnum upp frá því.
    Örfá dæmi eru um að félagsmálanefndir séu skipaðar sjö fulltrúum. Sú tilhögun stendur óbreytt séu nefndinni falin barnaverndarmál. Þetta atriði skýrir nauðsyn þess að nota orðalagið „a.m.k.“ fimm fulltrúum í 2. mgr. 5. gr. laganna eins og hér er gert ráð fyrir.

Um 2. gr.


    Lagt er til að fellt verði niður skilyrðið um að einn fulltrúi undirnefndar félagsmálanefndar eigi jafnframt sæti í félagsmálanefnd. Óþarft þykir að binda hendur sveitarstjórnar með þessum hætti. Tengsl milli undirnefndar og félagsmálanefndar eru eftir sem áður óbreytt, þ.e. að undirnefnd lúti forsjá félagsmálanefndar.

Um 3. gr.


    Rétt þykir að rýmka ákvæðið með þeim hætti sem hér er lagt til, þ.e. að sveitarstjórnir geti ákveðið að vinna saman að einstökum verkefnum félagsþjónustu eftir því sem henta þykir á hverjum stað.

Um 4. gr.


    Lagt er til að 1. mgr. 15. gr. laganna falli brott. Í 1. mgr. er kveðið á um að erlendir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga í landinu, eigi rétt á félagsþjónustu í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga lögheimili. Með vísun í 12. og 13. gr. laganna er óþarft að taka þetta sérstaklega fram. Ákvæði 12. og 13. gr. laganna tryggja öllum íbúum sveitarfélaga, sem þar eiga lögheimili, sama rétt óháð þjóðerni.
    Í stað almennu reglunnar um aðstoð til erlendra ríkisborgara sem eiga lögheimili í landinu er gert ráð fyrir að 1. mgr. 15. gr. hafi að geyma sérreglu um aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili hér á landi. Efnislega er þar ekki um breytingu frá gildandi lögum að ræða, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna, en efnistök og framsetning er með öðrum hætti. Ákvæðið snýst um undantekningartilvik, um aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu eins og áður kom fram. Rétt þykir að tiltaka sérstaklega að aðstoð þeim til handa sé einungis veitt í sérstökum tilfellum, ákvæðið feli með öðrum orðum í sér þrönga sérreglu. Hér er fyrst og fremst um að ræða aðstoð til heimferðar. Einnig getur í undantekningartilvikum verið um að ræða fjárhagsaðstoð vegna brýnna þarfa í skamman tíma. Lagt er til að núverandi framkvæmd á aðstoð þessari verði lögfest. Í því felst að aðstoð er veitt í dvalarsveit að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið, enda hafi áður verið leitað eftir aðstoð frá heimalandi. Óbreytt stendur að félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglur um þessa aðstoð íslenska ríkisins.
    Bent skal á að ákvæðið á ekki við um ríkisborgara EES-landanna sem hér eru í atvinnuleit, án lögheimilis í landinu. Um þá gilda sérreglur EES-samningsins. Þeir halda lögheimili sínu í heimalandi en eiga rétt á aðstoð vinnumiðlunar hér á landi og fá hér greiddar atvinnuleysisbætur sem fluttar eru frá heimalandi. Um aðstoð umfram það skal leita til heimalands.
    2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, sem tekur til endurgreiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna veittrar aðstoðar við erlenda ríkisborgara, er efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Í því sambandi skal tekið fram að við undirbúning frumvarpsins kom til athugunar að fella niður endurgreiðslu ríkissjóðs vegna erlendra ríkisborgara sem átt hefðu lögheimili hér á landi skemur en tvö ár. Rökin voru þau að slík endurgreiðsla væri úrelt orðin, enda í takt við nútímafélagsþjónustu að sveitarfélög beri ábyrgð á félagsþjónustu gagnvart öllum sem þar eiga lögheimili. Aftur á móti er ljóst að það er samningsatriði milli ríkis og sveitarfélaga að fella niður endurgreiðslur ríkissjóðs sem staðið hafa um langt árabil. Þeir samningar liggja ekki fyrir nú. Nefndin, sem samdi frumvarp þetta, taldi því ekki tímabært að koma með tillögu um þetta efni í frumvarpinu.
    Að lokum er gerð tillaga um að ákvæði 3. mgr. 15. gr. laganna verði fellt brott úr greininni en verði þess í stað að nýrri lagagrein er verði væntanlega 66. gr. laganna, sbr. 17. gr. frumvarpsins. Ástæðan er sú að ákvæðið fjallar um aðstoð ríkisins við íslenska ríkisborgara sem staddir eru erlendis. Þykir fara betur á því að sérstök lagagrein taki til þess afmarkaða efnis þannig að í 15. gr. laganna felist einungis sérregla um aðstoð við erlenda ríkisborgara.

Um 5. gr.


    Í gildandi lögum er að finna hvatningu til sveitarfélaga til að bjóða upp á félagslega ráðgjöf. Á gildistíma laganna hafa viðhorf breyst á þann hátt að nú þykir sjálfsagt að sveitarfélög bjóði upp á félagslega ráðgjöf. Því er nú talið tímabært að stíga hér skrefið frá hvatningu til skyldu.
    Í ákvæðinu felst einungis að íbúar sveitarfélags eigi aðgang að ráðgjöf um félagsleg réttindi og einnig, ef mögulegt er, ráðgjöf í einkamálum. Lögð er áhersla á aðgang að þjónustunni, en ekki er skilyrði að sveitarstjórnir hafi fastan starfsmann sem sinni ráðgjöf. Þannig geti t.d. fámenn sveitarfélög ráðið starfsmann til ákveðins verkefnis þegar þörf krefur, svo sem þegar vandasöm fjölskyldumál eiga í hlut.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    1. og 2. mgr. fela ekki í sér efnisbreytingar, einungis aðra uppsetningu og önnur efnistök en í núgildandi ákvæði. Óbreytt stendur að sveitarstjórn setur reglur um fjárhagsaðstoð, en félagsmálanefnd fjallar um málefni einstaklinga, þ.e. ákvarðar fjárhagsaðstoð í einstökum málum innan ramma reglnanna. Þessi skýra verkaskipting milli sveitarstjórna annars vegar, sem hafa með höndum skipulag og fjárhagsramma, og félagsmálanefnda sem inna faglegt starf af hendi með því að fjalla um málefni einstaklinga hins vegar er ein undirstaða laganna. Þetta atriði kemur auk þess beinlínis fram annars staðar í lögunum, svo sem í 4., 5. og 11. gr. Engu að síður þótti til skýringarauka að hin skörpu skil milli verkefna sveitarstjórnar og félagsmálanefndar kæmu hér sérstaklega fram.
    Nokkuð er hert á orðalaginu um skyldur sveitarfélaga til að setja reglur um fjárhagsaðstoð enda þótt ekki sé um efnisbreytingu að ræða. Enn hafa mörg sveitarfélög ekki sett sér slíkar reglur þrátt fyrir lagaskyldu þar um, en af 165 sveitarfélögum hafa 85 sett reglur, þar á meðal öll stærstu sveitarfélög landsins.
    3. mgr. felur í sér nýmæli um hversu lengi sveitarfélögum sé skylt að veita fjárhagsaðstoð aftur í tímann. Komið hefur í ljós óvissa hjá félagsmálanefndum um hvernig með eigi að fara þegar sótt er um aðstoð aftur í tímann. Meðan svo er, og enga takmörkun er á því að finna í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, hefur úrskurðarnefnd félagsþjónustu fellt úrskurð þess efnis að um þetta atriði gildi almennar reglur kröfuréttar. Það þýðir að réttur til aðstoðar miðast við þann tíma er aðstæður umsækjanda urðu með þeim hætti að hann á rétt á aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu. Nauðsynlegt er talið að slíkur almennur réttur sæti takmörkunum í lögum. Því er lagt til að fjárhagsaðstoð verði því veitt aftur í tímann eftir almennum reglum kröfuréttar, en þó sé ekki skylt að veita hana lengra aftur í tímann en fjóra mánuði.
    Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að reglur sveitarfélaga kveði á um greiðslur aftur í tímann og sérstök tímamörk í því sambandi. Ástæðan er sú að hér er dæmigert löggjafaratriði á ferðinni, þ.e. hér er verið að leggja til að almennar reglur kröfuréttar sæti vissum takmörkunum. Slíkar takmarkanir á almennum lögum í landinu verða aðeins settar með lögum, en reglur sveitarfélaga geta ekki þrengt almennan rétt sem í landslögum felst. Má í þessu efni til samanburðar vísa til 2. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, en þar eru almennar reglur kröfuréttar takmarkaðar með þeim hætti að bætur lífeyristrygginga skulu aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár. Hér er lagt til að lögbundið verði að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn var lögð fram. Sveitarfélögum verði ekki heimilað að kveða á um þetta atriði í reglum sínum eins og áður kom fram. Aftur á móti gilda reglur hvers sveitarfélags um það hvort réttur einstaklings til félagsþjónustu hafi verið fyrir hendi allt að fjórum mánuðum áður en umsókn er lögð fram.
    Að lokum skal upplýst að við undirbúning frumvarpsins af hálfu nefndarinnar komu til umræðu sérreglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til heimilislausra áfengissjúklinga og hvort þær sérreglur kölluðu á sérstaka lagastoð. Þær sérreglur fela í sér að fjárhagsaðstoð er veitt í öðru formi þegar um þennan afmarkaða hóp er að ræða en almenna reglan segir til um. Framkvæmdin er sú að í stað fjárhagsaðstoðar í beinum mánaðarlegum peningagreiðslum er umræddum einstaklingum tryggt húsaskjól, fæði, klæði og vasapeningar. Þetta er gert með því að veita aðgang að gistiskýli, morgunverður stendur til boða ásamt einni léttri máltíð, svo og að veita ákveðna lágmarksfjárhagsaðstoð til fatakaupa og vasapeninga. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu hefur í úrskurði sínum frá 15. febrúar 1995 komist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagi sé „rétt og skylt að taka tillit til þess ef einstaklingur er áfengissjúkur og haga aðstoðinni með tilliti til þess skv. 52. gr., sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna um félagsþjónustu, nr. 40/1991“. Með öðrum orðum er niðurstaða úrskurðarnefndar sú að sveitarfélagi sé rétt og skylt innan ramma laganna um félagsþjónustu sveitarfélaga að setja „sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð og framkvæmd hennar, þegar í hlut eiga einstaklingar sem eiga við áfengis- og/eða vímuefnaneyslu að etja“. (Mál 04/1994.) Mikilvægt er að slík sérregla gildi jafnt um alla þá sem svo er ástatt um. Með hliðsjón af áðurnefndum úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu, sem er fullnaðarúrskurður innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 67. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, er breyting á lögunum vegna þessa atriðis talin óþörf.

Um 8. gr.


    Ákvæðið felur ekki í sér efnisbreytingu. Orðalag núverandi ákvæðis þykir hins vegar óþarflega flókið og er hér lagt til að úr því verði bætt.

Um 9. gr.


    Í 25. gr. laganna felst heimild fyrir ráðherra að setja reglugerð um samskipti sveitarfélaga sín á milli og um uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga vegna veittrar fjárhagsaðstoðar. Komið hefur í ljós að engin þörf er fyrir reglugerð um þetta efni og verður ákvæðið því að teljast óþarft. Því er lagt til að það verði fellt brott.

Um 10. gr.


    30. gr. laganna hefur verið skýrð svo að sveitarfélögum sé heimilt að kveða á um gjaldtöku í reglum sínum um félagslega heimaþjónustu. Betra er hins vegar talið að heimild til gjaldtöku komi beinlínis fram í lögunum.

Um 11. gr.


    Í 2. mgr. 34. gr. laganna felst að félagsmálaráðuneytið skuli liðsinna sveitarfélögum í því skyni að sameinast um rekstur leikskóla á vettvangi héraðsnefnda eða með stofnun byggðasamlags. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði. Reynslan þykir því sýna að ákvæðið sé óþarft og því lagt til að það verði fellt brott.

Um 12. gr.


    Breytingin er einungis lögð til til samræmis við gildandi lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, þar sem svæðisstjórnir voru lagðar niður og svæðisbundin framkvæmd falin svæðisskrifstofum.

Um 13. gr.


    Með húsaleigulögum, nr. 36/1994, var húsaleigunefnd sveitarfélaga aflögð og verkefni hennar falin öðrum aðilum. Þannig var húsnæðisnefndum sveitarfélaga gert að fylgjast með leigumarkaðinum og veita upplýsingar um hann. Úttektir voru lagðar til byggingarfulltrúa. Úrskurðir um ágreiningsefni fara til kærunefndar húsaleigumála. Með hliðsjón af þessum lagabreytingum verður ekki séð að félagsmálanefnd komi að framangreindum verkefnum og því er ákvæðið óþarft.

Um 14. gr.


    Breytingin er einungis til samræmis við gildandi lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Breyting þessi er í samræmi við þá viðbót við 21. gr. laganna, 3. mgr., sem lögð er til í 7. gr. frumvarpsins. Í því ákvæði er kveðið sérstaklega á um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Þar er gert ráð fyrir að skyldu sveitarfélaga til að greiða fjárhagsaðstoð aftur í tímann séu takmörk sett, þ.e. hún takmarkist við fjóra mánuði frá því að umsókn var lögð fram. Eins og 3. mgr. 21. gr. laganna hljóðar skv. 7. gr. frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að reglur sveitarfélaga taki til greiðslna fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Að óbreyttri 66. gr. laganna ætti úrskurðarnefnd því ekki ótvírætt úrskurðarvald um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann. Hins vegar þykja málefnaleg rök búa að baki því að málum, sem snúast um greiðslur fjárhagsaðstoðar aftur í tímann, verði skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu með sama hætti og önnur atriði er snerta fjárhagsaðstoð. Af þeirri ástæðu er talið nauðsynlegt að taka af allan vafa um það að úrskurðarnefnd félagsþjónustu eigi úrskurðarvald um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann, enda eru verkefni nefndarinnar tæmandi talin í 66. gr. laganna.

Um 17. gr.


    Ákvæði um aðstoð ríkissjóðs við íslenska ríkisborgara sem staddir eru erlendis er nú í 3. mgr. 15. gr. laganna. Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 15. gr. og felst hún m.a. í því að greinin taki einungis til erlendra ríkisborgara, en ákvæði 3. mgr., um aðstoð við íslenska ríkisborgara erlendis, færist til í lögunum og standi framvegis sjálfstætt. Ástæðan er sú að hér er um ólík efnisatriði að ræða sem ekki þykir rétt að séu í sömu lagagrein.
    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá því sem fram kemur í 3. mgr. 15. gr. laganna að öðru leyti en því að lagt er til að félagsmálaráðherra hafi heimild til að setja reglur um framkvæmd aðstoðarinnar. Þykir sú tilhögun eðlileg þar sem ríkissjóður ber kostnaðinn að fullu.
    Um skýringar vísast jafnframt til niðurlags athugasemda við 4. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.



Sérálit fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.


    Undirritaðir, fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga, í nefnd er unnið hefur að endurskoðun á lögum nr. 40 frá 1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, gera að tillögum sínum að 21. gr. hinna endurskoðuðu laga verði eftirfarandi:
    „Fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags skal vera svo mikil sem nauðsyn krefur að mati sveitarstjórnar.
    Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr., að fengnum tillögum félagsmálanefndar í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og önnur lög eftir því sem við á.
    Heimilt er sveitarstjórn í reglum um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að setja almenna skilmála fyrir fjárhagsaðstoð, enda tryggt að umsækjendur séu með þeim ekki útilokaðir frá réttindum sínum skv. 12. gr. þessara laga.
    Fjárhagsaðstoð er ekki skylt að veita aftur í tímann frá því er umsókn er lögð fram.“

Greinargerð.


    Nokkur óvissa hefur komið upp hjá sveitarstjórnarmönnum um það hversu víðtæka heimild lögin nr. 40/1991 hafi gefið sveitarstjórnum til að móta reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Óvissa þessi kom upp í framhaldi af úrskurðum úrskurðarnefndarinnar, sem ómerktu ákvæði í reglum einstakra sveitarfélaga, með þeim rökum að þau ættu sér ekki sérstaka stoð í félagsþjónustulögunum.
    Með því orðalagi 21. gr., 3. og 4. mgr., sem hér er lagt til væru tekin af öll tvímæli um heimildir einstakra sveitarfélaga til að binda fjárhagsaðstoð almennum skilyrðum og jafnframt að sveitarfélög væru ekki gerð skyldug til þess að greiða fjárhagsaðstoð aftur í tímann frá umsóknardegi samkvæmt reglum almenns kröfuréttar. Sveitarfélögin fengu með lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga rétt og skyldu til þess að setja sér eigin reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og er enda treyst til þess. Þar með talinn er réttur sveitarstjórnar til að ákveða hve fjárhagsaðstoð skuli vera mikil, hvernig hún sé metin og er sveitarstjórn einnig treyst til þessa. (Þetta er áréttað hér til að benda á að sveitarfélögunum er treyst til þungvægari ákvarðana samkvæmt þessum lögum en skilyrðingu þeirrar sem fjallað er um í ofangreindri tillögu.)
    Viss skilyrðing fjárhagsaðstoðar er iðkuð og hefur verið svo lengi athugasemdalaust. Sem dæmi má nefna að styrkumsækjandi skal taka launavinnu sem honum býðst en segi sig ella frá styrk, eins og hann skuli gera fulla og rétta grein fyrir fjárhagsstöðu sinni. Skilyrði þau sem hér er lagt til að sveitarstjórnum yrði heimilað að setja í reglur sínar eru til varnar að fjárhagsaðstoð misfarist eða sé misnotuð; að styrkumsækjandi misnoti ekki fjárhagsaðstoð sjálfum sér til óheilla, til varnar því að umsækjandi geti brotið 19. gr. laganna og brugðist framfærsluskyldu sinni, til að beita styrkumsækjanda þrýstingi til að sækja nauðsynlega læknismeðferð, svo dæmi séu nefnd. Tillagan felur í sér að skilyrðin komi fram á almennan hátt í reglum sveitarfélags en að þeim verði síðan beitt í einstökum tilvikum þegar viðhlítandi málsatvik væru sannanlega fyrir hendi. Þannig skilmálar hlytu að vera sanngjarnir og aðgengilegir þannig að umsækjandi ætti raunverulegt val um það hvort hann hlíti þeim eða verði af umbeðinni fjárhagsaðstoð. Í 3. mgr. 21. gr. er tekið fram að með slíkum skilmálum megi aldrei útiloka umsækjanda frá réttindum sínum skv. 12. gr. laganna, þannig að hann eigi engra kosta völ um bjargir sínar. Skilyrðing af þessu tagi er þekkt úr sambærilegri löggjöf nágrannalanda (sbr. dönsk Lov um sociale tjenester m.v. gr. 5–3, 1. og 2. mgr.).
    Í 4. mgr. 21. gr. er kveðið á um að styrkumsækjandi eigi ekki afturvirkan rétt til styrks frá því fyrir umsóknardag. Í 1. mgr. 21. gr. kemur fram að fjárhagsaðstoð skuli vera svo mikil sem nauðsyn krefur, samkvæmt mati félagsmálanefndar. Að sjálfsögðu ber félagsmálanefnd að meta aðstæður og greiða þá aðstoð sem nauðsyn krefur og þá ekki síður vegna liðins tíma, en ef í greininni eru tiltekin einhver afturvirk tímamörk sem nefndinni sé ekki skylt að fara út yfir í styrkveitingu, er gefin villandi vísbending um rétt umsækjanda sem nái að þeim mörkum.

Reykjavík, 13. jan. 1997.



Jón Björnsson.


Ólafur Hilmar Sverrisson.





Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu


sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.


    Frumvarp þetta er lagt fram samkvæmt ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun gildandi laga innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/1996, um málefni fatlaðra, er mælt fyrir um að félagsmálaráðherra skuli gera ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga sem koma skuli til framkvæmda 1. janúar 1999. Fyrir þann tíma hyggst félagsmálaráðherra leggja fram frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem efni laga um málefni fatlaðra yrði fellt inn í.
    Í frumvarpi þessu eru nokkrar breytingar og eru þær flestar þess eðlis að þær skýra betur út einstaka þætti í framkvæmd laganna eða hafa reynst nauðsynlegar vegna breytinga á öðrum lögum. Stærstu einstöku breytingarnar varða skipan félagsmálanefnda, fari þær einnig með barnaverndarmál, skyldu sveitarfélaga til að bjóða upp á félagslega ráðgjöf og greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann.
    Ekki verður séð að útgjöld ríkissjóðs aukist verði frumvarpið að lögum.