Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 849  —  529. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1.gr.


    Í stað orðsins „ECU“ í 1. tölul. 4. gr. laganna kemur: evrum.


2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Reglur, sem kauphöll setur um opinbera skráningu verðbréfa, skulu uppfylla ákvæði laga þessara og reglugerðar sem ráðherra setur á grundvelli þeirra.
     b.      4. mgr. fellur brott.

3. gr.


    Í stað „ 331/ 3%“ í 4. tölul. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: 50%.

4. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 42. gr., svohljóðandi:
    Í reglugerð er ráðherra heimilt að setja nánari reglur um opinbera skráningu verðbréfa og framkvæmd laga þessara.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða sem lagt var fyrir 122. löggjafarþing árið 1997 var gerð tillaga í 19. gr. um að skylda til þess að gera yfirtöku­tilboð miðaðist við 331/ 3% atkvæðisréttar samkvæmt nánari ákvæðum frumvarpsins, sbr. nú lög nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Við umfjöllun málsins í efnahags- og viðskiptanefnd var framangreindu viðmiðunarmarki breytt í 50%, sbr. ákvæði í 1. tölul. 19. gr. laganna. Hins vegar láðist að gera samsvarandi breytingu í 4. tölul. 19. gr. við endanlega afgreiðslu nefndarinnar og var því frumvarpið samþykkt með upphaflega viðmiðunarmarkinu, þ.e. 331/ 3%. Nauðsynlegt er að lagfæra ákvæði laganna að þessu leyti og er það tilefni þessa frumvarps, sbr. 3. gr.
    Í 1. gr. er að finna tillögu um að tekið verði tillit til þeirrar breytingar sem varð 1. janúar 1999 við stofnun myntbandalags Evrópu en frá þeim tíma hefur evra tekið við af evrópsku mynteiningunni ECU.
    Í 2. og 4. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um smávægilegar breytingar á ákvæðum laganna um setningu reglugerða. Eins og kom fram í athugasemdum við 17. gr. frumvarpsins sem síðar varð að lögum um starfsemi kauphalla ber kauphöll sem hlýtur starfsleyfi á grundvelli þessara laga að framfylgja ýmsum opinberum fyrirmælum sem byggjast á innlendri löggjöf sem oft miðast við ákvæði tilskipana ESB. Við undirbúning reglna á grundvelli laganna hefur komið í ljós að það muni auðvelda Verðbréfaþingi Íslands að fylgja eftir ýmsum reglum af þessu tagi ef um er að ræða bein fyrirmæli í reglugerð sem stjórnvöld hafa sett um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll. Af þessari ástæðu þykir því rétt að styrkja ákvæði laganna um setningu reglugerða um framkvæmd þeirra, svo sem um opinbera skráningu verðbréfa og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda skráðra bréfa. Því er lagt til í 4. gr. að bætt verði við lögin nýrri grein þar sem ráðherra verði gert heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laganna með reglugerð, m.a. í því skyni að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ís­land er aðili að. Í 4. mgr. 17. gr. laganna er að finna ákvæði um að skylt sé að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur sem stjórn kauphallar setur um opinbera skráningu verðbréfa. Eins og vikið hefur verið að hér að framan þykir rétt er að í lögunum sé að finna almennari heimild til þess að setja reglur um starfsemi kauphalla og viðskipti með verðbréf á þeim vettvangi í reglugerð, t.d. reglur sem byggjast á ákvæðum í tilskipunum ESB. Í undirbúningi að setningu reglna á grundvelli laganna hefur einnig komið í ljós að orðalag 17. gr. kunni að vera fullþröngt þó svo að með rúmri túlkun ákvæðsins megi líta svo á að það hafi verið ætlun lög­gjafans að tryggja að viðhlítandi réttargrundvöllur væri ávallt fyrir reglum er vörðuðu starf­semi kauphalla. Niðurstaðan er því að leggja hér til að veitt verði almennari heimild í lögunum til þess að setja nánari reglur um starfsemina og framkvæmd laganna með reglugerð, sbr. ákvæði 4. gr. frumvarpsins um nýja grein sem verði 42. gr. Samhliða slíkri breytingu eru því lagðar til breytingar á 17. gr. laganna, sbr. ákvæði í 2. gr., þannig að ákvæði hennar séu í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í 4. gr.