Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 292  —  240. mál.




Frumvarp til laga



um Póst- og fjarskiptastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

Yfirstjórn o.fl.


    Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir um í lögum þessum og öðrum lögum sem um fjarskipta- og póstmál fjalla.
    Póst- og fjarskiptastofnun er sjálfstæð stofnun, en undir yfirstjórn samgönguráðherra.

2. gr.

Starfsmenn.


    Samgönguráðherra skipar forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar til fimm ára í senn og stjórnar hann rekstri hennar. Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.

3. gr.

Verkefni.


    Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar eru:
     1.      Að veita rekstrarleyfi fyrir almenna fjarskiptaþjónustu og net, setja skilyrði um almennar heimildir til að veita fjarskiptaþjónustu, sundurliðuð eftir þjónustu, allt í samræmi við lög um fjarskipti. Stofnunin setur skilyrði í rekstrarleyfum eftir því sem við getur átt innan þeirra marka sem fjarskiptalög segja til um.
     2.      Að veita leyfi til póstþjónustu samkvæmt lögum um póstþjónustu. Stofnunin setur skilyrði í rekstrarleyfum eftir því sem við getur átt innan marka laga um póstþjónustu.
     3.      Að hafa eftirlit með því að rekstrarleyfishafar uppfylli og virði skilyrði Póst- og fjarskiptastofnunar og aðrar kvaðir sem almennum heimildum og rekstrarleyfum fylgja.
     4.      Að skilgreina rekstrarleyfishafa sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild á póst- og fjarskiptamarkaði.
     5.      Að hafa eftirlit með því að ákvæði laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, séu virt.
     6.      Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála. Skal Póst- og fjarskiptastofnun beina tilmælum um breytingar á lögum og reglugerðum til samgönguráðherra ef þess gerist þörf.
     7.      Að annast auglýsingar og útboð á leyfum og rekstri þegar lög um fjarskipti og póstþjónustu kveða á um slíkt.
     8.      Að gera áætlanir um notkun tíðnirófsins í samræmi við alþjóðlegar reglur og úthluta tíðnum til einstakra aðila og fyrir mismunandi þjónustu, þar með talið útvarpsþjónustu.
     9.      Að setja reglur um tæknilega eiginleika kapalkerfa og hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt.
     10.      Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum, gjaldskrám og bókhaldi fjarskiptafyrirtækja, póstrekenda og rekstrarleyfishafa, þar sem það á við.
     11.      Að skilgreina, hafa umsjón með og ákvarða fjárframlög til alþjónustu.
     12.      Að annast samningagerð fyrir hönd samgönguráðherra vegna sértækrar þjónustu, sbr. IV. kafla fjarskiptalaga.
     13.      Að hafa eftirlit með fjarskiptabúnaði.
     14.      Að setja reglur um númerakerfi fyrir fjarskiptaþjónustu, númeraflutning og réttindi notenda fjarskiptaþjónustu sem fengið hafa númer til afnota.
     15.      Að hafa eftir þörfum milligöngu um sættir og úrskurða um samtengingu fjarskiptaneta og fylgjast með að lögum og reglum um samtengingu og opinn aðgang að netum sé framfylgt, samkvæmt lögum um fjarskipti.
     16.      Að hafa eftirlit með þeim sem annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu við fjarskiptavirki.
     17.      Að hafa eftirlit með sölu notendabúnaðar og þráðlauss búnaðar, þar með talið markaðseftirlit.
     18.      Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála.
     19.      Að gefa út öryggisvottorð fyrir fjarskiptabúnað þar sem þess er krafist samkvæmt lögum og reglugerðum.
     20.      Að annast skráningu og halda skrá yfir póstrekendur og fjarskiptafyrirtæki.
     21.      Að veita fyrirtækjum sem annast innheimtu reikninga fyrir erlend fjarskiptafyrirtæki viðurkenningu á að þau uppfylli skilyrði stofnunarinnar um greiðsluhæfi og tryggingar, fyrirkomulag starfseminnar og annað sem Alþjóðafjarskiptasambandið fer fram á.
     22.      Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal framfylgja lögum um fjarskipti og póstþjónustu og tryggja að markmið laganna náist. Skal það gert m.a. með því að stuðla að samkeppni og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti í póst- og fjarskiptaþjónustu og rekstri fjarskiptaneta. Stofnunin skal taka til meðferðar mál sem upp koma vegna starfsemi fjarskiptafyrirtækja, póstrekenda og rekstrarleyfishafa. Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun skulu setja sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga. Skulu reglur þessar birtar.

4. gr.

Eftirlit með leyfishöfum.


    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi leyfishafa, þar með talið fjárhagsstöðu, og skal fylgjast með því að starfsemi þeirra sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur, leyfisbréf eða ákvarðanir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Með leyfishöfum í lögum þessum er átt við þá sem veita fjarskiptaþjónustu eða reka fjarskiptanet samkvæmt almennum heimildum eða hafa rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fjarskipti og þá sem rekstrarleyfi hafa eða eru skráningarskyldir samkvæmt lögum um póstþjónustu.

5. gr.

Eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög.


    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafið þá sem stunda starfsemi sem fellur undir lög um fjarskipta- og póststarfsemi um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Í þessu sambandi er stofnuninni heimilt að krefjast þess að rekstrarleyfishafar láti henni í té ársreikninga, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun að fjárhagsstaða leyfishafa sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi eða almennum heimildum getur stofnunin krafist þess að bætt verði úr innan tiltekins frests.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað rekstrarleyfishafa og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum, lögum um fjarskipti, lögum um póstþjónustu, reglum eða ákvörðunum stofnunarinnar. Við framkvæmd þessara aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
    Vanræki leyfishafar skyldur sínar eða uppfylli ekki kröfur sem Póst- og fjarskiptastofnun gerir um úrbætur innan hæfilegs frests getur stofnunin svipt viðkomandi leyfi til fjarskipta- eða póstþjónustu eða tilkynnt fjarskiptafyrirtæki að það njóti ekki lengur almennrar heimildar, að undangenginni skriflegri viðvörun.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal gera ráðstafanir til að stöðva rekstur fjarskiptafyrirtækis eða póstrekanda sem starfar án heimildar eða uppfyllir ekki skilyrði laga og reglna um slíka starfsemi. Er heimilt að leggja á dagsektir í þessu skyni, sbr. 7. mgr.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.

6. gr.


Þagnarskylda og samskipti við eftirlitsstjórnvöld.


    Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um endurskoðendur og aðra sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
    Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við framkvæmd eftirlits eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að birta tölfæðilegar upplýsingar um magn fjarskipta og pósts og skulu leyfishafar láta stofnuninni í té slíkar upplýsingar.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum í aðildarríkjum EES og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar upplýsingar sé það liður annaðhvort í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila eða við úrlausn einstakra mála og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um skipti á upplýsingum við eftirlitsstjórnvöld hér á landi. Póst- og fjarskiptastofnun er því aðeins heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein að sá sem upplýsingarnar fær sé háður sams konar þagnarskyldu.
    Þagnarskylda samkvæmt lögum þessum skal ekki vera því til fyrirstöðu að Póst- og fjarskiptastofnun gefi fulltrúum eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdstjórnar Evrópusambandsins sem fjalla um póst- og fjarskiptamál allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að skiptast á upplýsingum við sambærilegar stofnanir innan EES og samningsríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að því marki að ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða.

7. gr.

Kvartanir.


    Telji notandi fjarskipta- eða póstþjónustu, rekstrarleyfishafi eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta að fjarskiptafyrirtæki, póstrekendur eða rekstrarleyfishafar brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um fjarskipti eða lögum um póstþjónustu, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal leita álits viðkomandi fjarskiptafyrirtækis, póstrekanda eða rekstrarleyfishafa á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila. Náist ekki samkomulag skal úr ágreiningi skorið með úrskurði.

8. gr.

Heimild til bráðabirgðaákvörðunar.


    Telji Póst- og fjarskiptastofnun nauðsynlegt að taka ákvörðun í einstökum málum án tafar, enda sé hætta á því að dráttur á úrskurði valdi aðilum máls fjártjóni, er stofnuninni heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal taka málið til umfjöllunar skv. 7. gr. innan sjö daga frá því að bráðabirgðaákvörðunin var tekin, ella fellur hún úr gildi.

9. gr.

Dagsektir og innheimta.


    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja á og innheimta dagsektir af leyfishöfum, uppfylli þeir ekki skilyrði sem þeim hafa verið sett eða aðrar kvaðir sem á þá hafa verið lagðar samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Dagsektir nemi 50.000 til 500.000 kr. á dag. Eru slíkar sektir aðfararhæfar skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Málskot til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála frestar aðför en úrskurðir nefndarinnar eru aðfararhæfir.

10. gr.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.


    Ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Skal kæran berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun eða úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara, allir eftir tilnefningu Hæstaréttar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
    Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst nefndinni.
    Úrskurðir nefndarinnar skulu vera endanlegir á stjórnsýslustigi. Nú vill aðili ekki una úrskurði nefndarinnar og getur hann þá borið úrskurðinn undir dómstóla, en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því að viðkomandi fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.
    Ákvörðun, eða úrskurður, Póst- og fjarskiptastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála liggur fyrir.
    Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð o.fl. skal mælt fyrir í reglugerð.

11. gr.

Gjaldtaka o.fl.


    Fyrir útgáfu rekstrarleyfisbréfa og skráningu fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
    Við útgáfu rekstrarleyfa til fjarskiptaþjónustu eða reksturs fjarskiptaneta þar sem takmarka þarf fjölda rekstrarleyfishafa, t.d. vegna takmarkaðs tíðnisviðs fyrir viðkomandi þjónustu og úthlutun tíðna fer fram eftir birtingu auglýsingar um fyrirhugaða úthlutun eða útboð, eða þegar tíðni er úthlutað á grundvelli útboðs til annarra nota en fjarskiptaþjónustu, skal innheimta sérstakt gjald fyrir tíðnirnar. Gjaldið ákvarðast af kostnaði við úthlutunina eða með útboði þegar það á við.
    Fyrir úthlutun símanúmera til rekstrarleyfishafa skal fyrir hvert úthlutað símanúmer taka árlegt gjald sem standi undir kostnaði Póst- og fjarskiptastofnunar við umfjöllun um númeramál og afgreiðslu þeirra. Til viðbótar skal tekið 200.000 kr. gjald fyrir fjögurra stafa númer og 1.000.000 kr. fyrir þriggja stafa númer.
    Fjarskiptafyrirtæki, póstrekendur og rekstrarleyfishafar skulu árlega greiða Póst- og fjarskiptastofnun rekstrargjald sem nemur 0,25% af bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert fjarskiptafyrirtæki, póstrekanda eða rekstrarleyfishafa að greiða samkvæmt reikningi kostnað við sérstakar kannanir sem stofnunin telur nauðsynlegar vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum.
    Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu Póst- og fjarskiptastofnunar sem henni er falið að veita samkvæmt lögum þessum, fjarskiptalögum og lögum um póstþjónustu.
    Allar tekjur samkvæmt þessari grein, að undanteknu leyfisbréfagjaldi skv. 1. mgr., skulu renna óskiptar til Póst- og fjarskiptastofnunar sem annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein.
    Álagning rekstrargjalds skv. 4. mgr. skal fara fram eigi síðar en 15. janúar ár hvert. Póst- og fjarskiptastofnun skal gera eftirlitsskyldum aðilum grein fyrir álagningunni með bréfi.
    Rekstrargjald greiðist ársþriðjungslega með þremur jafnháum greiðslum. Það greiðist þannig að gjalddagi 1. ársþriðjungs er 1. febrúar og eindagi 15. febrúar, gjalddagi 2. ársþriðjungs er 1. maí og eindagi 15. maí og gjalddagi 3. ársþriðjungs er 1. september og eindagi 15. september.
    Hefji fjarskiptafyrirtæki, póstrekandi eða rekstrarleyfishafi starfsemi eftir að álagning fer fram skv. 8. mgr. skal leggja á hann rekstrargjald og miðast álagningin við næsta gjalddaga eftir útgáfu starfsleyfis. Skal fjárhæð gjaldsins taka mið af því hversu langur tími er eftir af rekstrarárinu, talið frá næsta gjalddaga. Greiðist gjaldið þá á þeim gjalddögum sem eftir eru. Séu allir gjalddagar liðnir skal ekki leggja á rekstrargjald vegna yfirstandandi rekstrarárs. Hætti fjarskiptafyrirtæki, póstrekandi eða rekstrarleyfishafi starfsemi áður en rekstrargjald er að fullu greitt fellur niður sá hluti gjaldsins sem ekki er kominn í gjalddaga þegar starfsleyfi fellur úr gildi.
    Sé rekstrargjald greitt eftir eindaga hverrar greiðslu reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við vaxtalög.
    Vanræki fjarskiptafyrirtæki, póstrekandi eða rekstrarleyfishafi greiðslu rekstrargjalds er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að afturkalla starfsheimild fyrirtækisins.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að ákvarða álagningu rekstrargjalds að nýju gagnvart tilteknum aðilum reynist álagningarstofn eða aðrar forsendur fyrri álagningar ekki réttar.

12. gr.

Skýrsla.


    Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skal m.a. greint frá útgefnum leyfum og birtur listi yfir fjarskiptafyrirtæki, póstrekendur og rekstrarleyfishafa.

13. gr.

Reglugerðir.


    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna.

14. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Póst- og fjarskiptastofnun var stofnuð á grundvelli laga nr. 147/1996. Stofnunin hóf starfsemi 1. apríl 1997 og tók þá við almennu stjórnsýsluhlutverki á sviði fjarskipta- og póstmála. Póst- og fjarskiptastofnun tók meðal annars við verkefnum Fjarskiptaeftirlits ríkisins og hluta af verkefnum samgönguráðuneytisins, svo sem leyfisveitingum. Póst- og símamálastofnun hafði áður á hendi ýmis stjórnsýsluverkefni auk þess að veita almenna fjarskiptaþjónustu og reka almennt fjarskiptanet. Í samræmi við ákvæði tilskipana EES um aðskilnað stjórnsýslu frá viðskiptastarfsemi fjarskiptafyrirtækja yfirtók Póst- og fjarskiptastofnun alla stjórnsýslu sem Póst- og símamálastofnun hafði annast.
    Breyttar aðstæður pósts og einkum fjarskipta sem fólust í lögum um fjarskipti, nr. 143/ 1996, og lögum um póstþjónustu, nr. 142/1996, sem byggðust að meginefni á löggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu, hefur leitt til þess að auk framangreindra verkefna koma nýir málaflokkar til kasta Póst- og fjarskiptastofnunar. Samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og í rekstri fjarskiptaneta hófst með því að nýir aðilar komu til sögunnar og kepptu við ríkisfyrirtækin, fyrrverandi einkaleyfishafa. Þetta leiddi af sér kröfur um opinn aðgang að netum og þjónustu og um samtengingu milli neta. Frjáls markaður kann hins vegar að leiða til þess að enginn vilji þjóna strjálbýlinu. Þess vegna eru ákvæði í lögum um alþjónustu á talsímasviðinu og grunnpóstþjónustu í þeim tilgangi að tryggja þjónustu á öllu landinu. Þessi þrjú mál, opinn aðgangur, samtenging og alþjónusta, eru ný viðfangsefni stjórnsýslunnar á verksviði Póst- og fjarskiptastofnunar. Það eru jafnframt þeir málaflokkar sem hafa orðið tilefni flestra deilna á milli samkeppnisaðila. Lausn þeirra og ákvarðanir þar að lútandi eru ört vaxandi þáttur í starfi stofnunarinnar.
    Á byrjunarskeiði hins frjálsa markaðar er staða samkeppnisaðila mjög ójöfn. Fyrrverandi einkaleyfishafi hefur í krafti fyrri fjárfestinga sinna og uppbyggingar yfirburðastöðu á markaðinum og mundi, ef ekki væru gerðar ráðstafanir af hálfu stjórnvalda, eiga auðvelt með að brjóta niður tilraunir til samkeppni. Á Evrópska efnahagssvæðinu eru stjórnvöld meðvituð um þessa stöðu og hafa með tilskipunum og reglugerðum reynt að draga úr aðstöðumuninum með því t.d. að leggja á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðsstöðu, ýmsar skyldur sem yrðu taldar óeðlilegar á flestum öðrum sviðum atvinnulífs. Samkeppnismál á fjarskiptasviðinu taka því á sig sérstakan blæ á breytingaskeiðinu sem stendur frá lokum einkaleyfistímans þar til eðlileg samkeppni er komin á. Þessi mál tengjast óhjákvæmilega þeim þremur málaflokkum sem áður var lýst, þ.e. opnum aðgangi, samtengingu og alþjónustu. Það er einmitt vegna þess sem stöðugt hefur verið unnið að endurbótum á fjarskiptalöggjöf í Evrópu og um leið á reglum um starfsemi eftirlitsaðila á borð við Póst- og fjarskiptastofnun.
    Póst- og fjarskiptastofnun tók eins og áður sagði við verkefnum Fjarskiptaeftirlits ríkisins. Þau eru m.a. skipulag tíðnimála og úthlutun einstakra tíðna, viðurkenning á notendabúnaði, öryggisskoðun fjarskiptabúnaðar, truflanaleit og útgáfa starfsvottorða. Umfang tíðnimála hefur aukist með tilkomu nýrra fjarskiptafyrirtækja og með sívaxandi notkun þráðlauss búnaðar í fjarskiptum.
    Í flestum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins starfa eftirlitsstofnanir á borð við Póst- og fjarskiptastofnun sem vinna að úrlausn svipaðra verkefna. Þær hófu flestar starfsemi sína á undan Póst- og fjarskiptastofnun og því er komin lengri reynsla af starfi þeirra. Í ýmsum löndum eru völd eftirlitsstofnananna víðtækari en hér á landi. Má sem dæmi nefna að í Danmörku og Bretlandi geta eftirlitsstofnanir sett fram kröfur um árlega raunlækkun gjaldskrár þeirra fyrirtækja sem njóta umtalsverðrar markaðshlutdeildar og fylgt kröfunum eftir. Ekki er gert ráð fyrir slíkum heimildum til handa Póst- og fjarskiptastofnun í frumvarpinu. Vegna ört vaxandi viðskipta á milli einstakra ríkja í fjarskiptum er sífelld aukning á samskiptum, samvinnu og samráði Póst- og fjarskiptastofnunar við systurstofnanir í öðrum löndum, sérstaklega innan EES. Getur samráð oft leitt til hagræðis við úrlausn einstakra mála. Einnig er raunhæfur möguleiki á því að leysa þurfi úr málum sem varða fyrirtæki í öðrum löndum, t.d. vegna samtengingar milli landa. Í slíkum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að stofnunin starfi með erlendri stofnun og er í frumvarpinu að finna heimild til slíks samstarfs. Auk þess er í frumvarpinu heimild til að upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um framkvæmd ákvæða tilskipana og um ástand póst- og fjarskiptamála hér á landi. Eins og hér hefur verið rakið hafa orðið til ýmis ný stjórnvaldsverkefni á sviði fjarskipta og búast má við sams konar þróun á póstsviði þó að hún verði að líkindum hægari. Þegar lög nr. 147/1996 voru sett mátti sjá fyrir mörg þessara verkefna en erfitt var að spá um umfang þeirra og hver yrðu meginvandamálin. Á síðustu tveimur árum hefur samkeppnin tekið á sig mynd og er reynsla komin á framkvæmd póst- og fjarskiptalaga. Að mati Póst- og fjarskiptastofnunar standa nokkur atriði því í vegi að hún geti rækt hlutverk sitt nægilega vel, auk þess að framfylgja þeim breytingum sem felast í frumvarpi til fjarskiptalaga. Í fyrsta lagi þarf að skilgreina betur hvenær einstök mál heyra undir Póst- og fjarskiptastofnun og hvenær undir Samkeppnisstofnun. Í öðru lagi getur aðili með umtalsverða markaðsstöðu tafið innkomu nýrra aðila á markaðinn með því að fresta afgreiðslu á samtengingu, línum eða öðru sem nýir aðilar verða að sækja til hans og með því að draga á langinn ákvörðun um gjaldtöku fyrir þjónustu sem þessu tengist. Til að flýta fyrir ákvarðanatöku er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til að taka ákvarðanir til bráðabirgða þegar dráttur á niðursöðu er líklegur til að valda fjártjóni. Í þriðja lagi þarf svo að tryggja Póst- og fjarskiptastofnun fullnægjandi úrræði til að fylgja fyrirspurnum og ákvörðunum sínum eftir.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi að nýjum fjarskiptalögum og taka breytingatillögur í því mið af frumvarpi til fjarskiptalaga.
    Með hinu nýja frumvarpi til fjarskiptalaga eru lagðar til miklar breytingar á möguleikum fyrirtækja til að starfa á fjarskiptamarkaðinum, t.d. með því að aðgangur fjarskiptafyrirtækja að heimtaug einstakra notenda verður nú mögulegur. Einnig er gert ráð fyrir því að rekstrarleyfishafar á sviði farsímaþjónustu geti í sérstökum tilvikum krafist íhlutunar Póst- og fjarskiptastofnunar við gerð reikisamninga á milli fyrirtækja. Jafnframt gera lögin ráð fyrir umfangsmikilli þátttöku stofnunarinnar í úrlausn deilumála um samtengingu og opinn aðgang að netum.
    Þessu til viðbótar má nefna að stofnuninni er ætlað veigamikið hlutverk við framkvæmd reglna um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er samhljóða 1. gr. gildandi laga.

Um 2. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 2. gr. gildandi laga en lagt er til að starfsheiti forstöðumanns verði breytt í forstjóra til samræmis við sambærileg starfsheiti í öðrum stofnunum.

Um 3. gr.


    Greinin kemur í stað 3. gr. gildandi laga.
     Um 1. mgr.
    1. tölul.: Í frumvarpi til fjarskiptalaga er horfið frá núverandi fyrirkomulagi leyfisveitinga í fjarskiptum. Í stað þess að fjarskiptafyrirtæki þurfi að jafnaði rekstrarleyfi, njóta þau almennrar heimildar til að veita fjarskiptaþjónustu, skv. 5. gr. frumvarps til fjarskiptalaga að uppfylltum skilyrðum 6. gr. þess. Þessum tölulið er bætt við hér til samræmis við nýtt fyrirkomulag á þessu sviði.
    Rekstrarleyfi þurfa fyrirtæki að fá skv. 7. gr. frumvarps til fjarskiptalaga, fyrst og fremst í þeim tilvikum er þau þurfa að fá úthlutað númerum og tíðnum vegna starfsemi sinnar og er þau reka almenn fjarskiptanet. Miðar breytingin að því að mæla fyrir um breytingu á framangreindri framkvæmd.
    2. tölul.: Ákvæði um leyfi fyrir póstþjónustu eru í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga.
    3. tölul.: Efnislega samhljóða 2. tölul. gildandi laga að teknu tilliti til breytinga á 1. og 2. tölul.
    4. tölul.: Töluliður þessi felur í sér nýmæli þar sem Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að fjalla um stöðu einstakra rekstrarleyfishafa á fjarskiptamarkaði. Samkvæmt frumvarpi til fjarskiptalaga gilda ýmsar sérreglur um rekstrarleyfishafa sem hafa umtalsverða markaðshlutdeild, sbr. t.d. 19. gr., 20. gr. og 24. gr. Er nauðsynlegt að fjalla um stöðu fyrirtækja og ákveða hvort þau njóti umtalsverðrar markaðshlutdeildar. Samkvæmt tilskipunum EES er til þess ætlast að Póst- og fjarskiptastofnun fjalli um það. Að jafnaði eru mörkin dregin við 25% hlutdeild á viðkomandi markaði sem bæði þarf að afmarka landfræðilega og ákvarða vöru- og þjónustumarkað. Miðast þessi mörk við ákvæði samtengingartilskipunarinnar nr. 97/33/ ESB. Samkeppnisstofnun fjallar hins vegar um markaðsskilgreiningar sem falla undir gildissvið samkeppnislaga nr. 8/1993. Á sama hátt er hér lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun fjalli um markaðsskilgreiningar sem falla undir fjarskiptalög og lög um póstþjónustu.
    5. tölul.: Töluliðurinn er samhljóða 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga.
    6. tölul.: Töluliðurinn er samhljóða 4. tölul. gildandi laga að því viðbættu að Póst- og fjarskiptastofnun er hér falið að vekja athygli stjórnvalda á því þegar hún telur breytinga þörf á íslenskum reglum í ljósi breytinga á alþjóðlegum reglum og sáttmálum.
    7. tölul.: Töluliðurinn kemur í stað 5. tölul. gildandi laga en hér er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað að annast framkvæmd á úthlutun rekstrarleyfa þegar tíðniaðgangur er takmarkaður, annaðhvort með því að auglýsa eftir umsóknum eða halda útboð eins og mælt er fyrir um í frumvarpi til laga um fjarskipti.
    8.–10. tölul.: Töluliðirnir eru samhljóða 5.–7. tölul. gildandi laga.
    11.–12. tölul.: Töluliðirnir eru efnislega samhljóða 8. tölul. gildandi laga.
    13.–20. tölul.: Töluliðirnir þarfnast ekki skýringa.
    21. tölul.: Hér er um nýmæli að ræða. Íslenskir aðilar notfæra sér oft fjarskiptaþjónustu erlendis en innheimta fyrir hana hér á landi með aðstoð milliliða sem viðurkenndir eru af Alþjóðafjarskiptasambandinu. Erlendir aðilar hafa óskað eftir að Póst- og fjarskiptastofnun tilkynni Alþjóðafjarskiptasambandinu að slíkir milliliðir hafi hlotið viðurkenningu til að annast innheimtu reikninga. Þar eð greiðslur íslenskra notenda munu, ef leyft verður, fara í gegnum erlendu aðilana er talið nauðsynlegt að fela Póst- og fjarskiptastofnun að setja skilyrði fyrir viðurkenningu.
    22. tölul.: Töluliðurinn er samhljóða 17. tölul. gildandi laga.
    Um 2. mgr.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. frumvarps til laga um fjarskipti er eitt af markmiðum laganna að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði og koma í veg fyrir ólögmæta viðskiptahætti. Er það hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar að sjá um að fyrirtæki virði þessi ákvæði og framfylgi þeim.
    Þar sem einstök mál sem upp hafa komið hafa ýmist hlotið umfjöllun hjá samkeppnisyfirvöldum eða hjá Póst- og fjarskiptastofnun og oft er óljóst hjá hvorri stofnuninni fjallað skuli um málið er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun fjalli aðeins um mál sem falla undir fjarskiptalög og lög um póstþjónustu.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskipastofnun og Samkeppnisstofnun hafi samvinnu um að setja leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta bæði fallið innan marka laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga. Með setningu og birtingu slíkra reglna er unnið gegn hugsanlegri óvissu fyrirtækja um valdmörk og lögsögu þessara stjórnvalda. Samkeppnisyfirvöld hafa eftirlit með fyrirtækjum á fjarskipta- og póstmarkaði á grundvelli samkeppnislaga. Nýjum lögum um fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun er ekki ætlað að breyta gildissviði samkeppnislaga eða takmarka valdheimildir samkeppnisyfirvalda á póst- og fjarskiptamarkaðnum. Samkeppnisyfirvöld munu því eftir sem áður geta beitt ákvæðum samkeppnislaga á umræddum mörkuðum, svo sem reglum um bann við samráði, misnotkun á markaðsráðandi stöðu, samruna fyrirtækja og um óréttmæta viðskiptahætti. Þannig munu gilda sams konar samkeppnisreglur í öllum atvinnugreinum, eins og hingað til, og fyrirtæki búa að þessu leyti við sambærileg starfsskilyrði. Er þá sérstaklega haft í huga að viðskiptaráðherra mun leggja fram frumvarp sem miðar að því að efla virka samkeppni með því að styrkja ákvæði samkeppnislaga.

Um 4. gr.


    Ákvæðinu hefur verið breytt þannig að það endurspegli hið aukna hlutverk stofnunarinnar samkvæmt frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga. Þar sem stofnuninni er ætlað m.a. að vinna að eflingu samkeppni í fjarskiptum er henni nauðsynlegt að hafa rúmar heimildir til eftirlits með starfsemi fjarskiptafyrirtækja.

Um 5. gr.


    1. mgr. kemur í stað 1. mgr. 5. gr. gildandi laga en nánar eru skilgreinar heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að krefjast upplýsinga.
    2. mgr. er nýmæli. Til þess að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni á skilvirkan hátt er stofnuninni nauðsyn að hafa heimild til að fá einstök umbeðin gögn afhent til athugunar í tengslum við þau mál sem til meðferðar eru hverju sinni. Má sem dæmi úr hliðstæðum lögum nefna heimildir samkeppnisyfirvalda til að krefjast gagna til rannsóknar. Gildandi lög um Póst- og fjarskiptastofnun hafa ekki að geyma fullnægjandi heimildir að þessu leyti og er því nauðsynlegt að auka þær.
    3. mgr. er efnislega óbreytt frá 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. gildandi laga.
    4. mgr. kemur í stað 3. mgr. 5. gr. gildandi laga sem ekki er nægilega víðtæk svo að hægt sé að sinna fullnægjandi eftirliti. Þetta ákvæði er hliðstætt heimildum samkeppnisyfirvalda, sbr. hér að framan. Samkvæmt núgildandi lögum hefur stofnunin ekki nægilega skýra heimild til að rannsókna á starfsstað fjarskiptafyrirtækja eða póstrekenda. Einnig þykir skorta á heimild til að leggja hald á gögn til rannsókna.
    5. mgr. er efnislega samhljóða 5. mgr. 5. gr. gildandi laga.
    6. mgr. er nýmæli, sem ætlað er að veita Póst- og fjarskiptastofnun ótvíræða heimild til að grípa til aðgerða ef fyrirtæki starfa heimildarlaust. Er lagt til að stofnuninni verði heimilt að leggja á dagsektir í því skyni að stöðva ólögmæta starfsemi.

Um 6. gr.


    Ákvæði 1.–2. mgr. eru samhljóða 6. gr. gildandi laga
    Nær öll ríki birta tölfræðilegar upplýsingar um magn fjarskipta og pósts og um fjölda notenda, afgreiðslustaði o.s.frv. Póst- og fjarskiptastofnun er skv. 3. mgr. veitt heimild til að birta slíkar upplýsingar sem leyfishöfum kann að vera skylt að afhenda henni samkvæmt frumvarpi til laga um fjarskipti.
    Með auknu samstarfi Póst- og fjarskiptastofnunar við sambærilegar stofnanir í öðrum ríkjum og með þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi er nauðsynlegt að kveða á um heimildir stofnunarinnar til að veita þeim stofnunum upplýsingar. Þykir eðlilegt að upplýsingar sem þurfa að fara leynt, t.d. vegna viðskiptahagsmuna, séu ekki látnar af hendi til erlendra aðila nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Er eðlilegt að takmarka upplýsingagjöfina við þá aðila sem eru bundnir af sams konar þagnarskyldu og íslensk stjórnvöld. Upplýsingarnar skulu enn fremur ekki látnar af hendi nema það sé nauðsynlegt vegna meðferðar mála.
    Sem dæmi um upplýsingar sem veita mætti á grundvelli 4. mgr. má nefna mál er gæti varðað samtengingu tveggja fjarskiptafyrirtækja, annars á Íslandi og hins í Danmörku. Gæti slíkt mál komið til kasta Póst- og fjarskiptastofnunar og Telestyrelsen í Danmörku sameiginlega. Í slíku tilviki gæti verið nauðsynlegt fyrir stofnanirnar að skiptast á gögnum um málið, þótt um trúnaðarupplýsingar væri að ræða. Færi þá um meðferð gagnanna í Danmörku að dönskum lögum, en þó mætti vernd upplýsinganna ekki fela í sér lakari réttarvernd en samkvæmt íslenskum lögum.
    Ísland hefur með EES-samningnum skuldbundið sig til að veita upplýsingar um framkvæmd póst- og fjarskiptalöggjafar og er ákvæðinu í 5. mgr. ætlað að tryggja heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að láta þær upplýsingar af hendi sem samningsskyldur EES-samningsins bjóða.
    Í þeim tilvikum sem upplýsingar eru ekki trúnaðarupplýsingar verður að heimila Póst- og fjarskiptastofnun að skiptast á slíkum upplýsingum við sambærilegar stofnanir. Eiga slík upplýsingaskipti oft þátt í því að leysa úr málum sem til meðferðar eru, þar sem draga má ályktanir af málsmeðferð og reynslu annarra ríkja af málsmeðferð og túlkun reglna sem eru efnislega samhljóða.

Um 7. gr.


    Greinin er samhljóða 1. og 2. mgr. 7. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.


    Þetta ákvæði er nýmæli sem gerir Póst- og fjarskiptastofnun kleift að taka ákvarðanir til bráðabirgða þegar aðstæður krefjast þess og dráttur á niðurstöðu málsins er til þess fallinn að valda verulegu fjártjóni.
    Í stjórnsýslulögum er ekki að finna almenna heimild til bráðabirgðaákvörðunar en t.d. í samkeppnislögum er heimild fyrir Samkeppnisstofnun að taka slíkar ákvarðanir.
    Er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað að meta hvenær slíkrar ákvörðunar er þörf en sú ákvörðun getur sætt endurskoðun skv. 10. gr.
    Hinn 31. desember 1998 tók Póst- og fjarskiptastofnun bráðabirgðaákvörðun í máli Tals hf. gegn Landssímanum hf. sem varðaði innheimtu á gjöldum Tals fyrir útlandaþjónustu. Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála felldi ákvörðun stofnunarinnar úr gildi með þeim rökum að ekki væri fyrir hendi lagaheimild til slíkrar bráðabirgðaákvörðunar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir einfaldri málsmeðferð. Í ákvæðinu er lagður til skammur frestur, sjö dagar, til að taka málið til venjulegrar umfjöllunar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, ella fellur ákvörðunin úr gildi. Þykir rétt í ljósi eðlis bráðabirgðaákvarðana að þeim sé ekki ætlað að standa lengi og er sjálfsagt að mál séu tafarlaust tekin til umfjöllunar eftir að slík ákvörðun hefur verið tekin.

Um 9. gr.


    Ákvæði þetta kemur í stað 4. mgr. 5. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Þessi grein er efnislega samhljóða 8. gr. gildandi laga með þeirri breytingu að í stað þess að samgönguráðherra skipi formann og varaformann samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, einn nefndarmann og annan til vara samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands og einn mann án tilnefningar er lagt til að Hæstiréttur tilnefni alla nefndarmenn. Með þeirri tilhögun er sjálfstæði nefndarinnar gagnvart ráðherra aukið.
    Einnig er lagt til að ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar verði ekki bornar undir dómstóla fyrr en kæruleið í stjórnsýslunni hefur verið fullreynd. Er það gert svo að freista megi þess að leysa úr deilumálum án þess að bera þau undir dómstóla.
    Ljóst er að lög og reglur um fjarskipta- og póstmál eru sérstaks eðlis og því er mikilvægt að unnt verði að byggja upp nægilega sérþekkingu á þessum málaflokki innan stjórnsýslunnar. Verður því markmiði frekar náð með því að stuðla að umfjöllun og úrlausn deilumála innan stjórnsýslunnar.

Um 11. gr.


    1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 9. gr. gildandi laga að teknu tiliti til þeirra breytinga sem gerðar eru á frumvarpi til fjarskiptalaga.
    2. mgr. kemur í stað 3. mgr. 9. gr. gildandi laga að því viðbættu að nánar er skilgreint hvers vegna nauðsynlegt kann að vera að takmarka fjölda rekstrarleyfishafa. Slíkar takmarkanir verða t.d. til þegar viðkomandi þjónusta eða rekstur nets krefst úthlutunar tíðna eða tíðnisviða. Gert er ráð fyrir að hægt verði að viðhafa annaðhvort útboð á leyfum þar sem hæstbjóðandi mundi fá úthlutun eða að auglýsa eftir umsóknum og yrði umsækjandi valinn á grundvelli stærðar þjónustusvæðis hans eða öðrum mælikvarða á þjónustu. Í fyrra tilvikinu mundi gjaldið ákvarðast af tilboðum en í seinna tilvikinu er gert ráð fyrir að sá eða þeir sem leyfi hljóta greiði kostnaðinn við auglýsinguna, undirbúning hennar og vinnslu umsókna.
    3. mgr. er nýmæli. Lagt er til að tekið verði sérstakt gjald fyrir úthlutun símanúmera til rekstrarleyfishafa og úthlutun einstakra stuttnúmera. Póst- og fjarskiptastofnun verður að leggja umtalsverða vinnu í skipulag númera og úthlutun þeirra. Það eru hins vegar ekki allir leyfishafar sem þurfa á númerum að halda og er því ekki réttlátt að rekstrargjaldið sem lagt er á alla rekstrarleyfishafa standi undir þeim kostnaði. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður við framangreinda vinnu verði áætlaður og númeragjald ákveðið í samræmi við áætlunina. Hins vegar er gert ráð fyrir að gjald fyrir stutnúmer verði hátt, meðal annars í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn þar sem um tiltölulega fá númer er að ræða og því erfitt, þegar til lengri tíma er litið, að anna eftirspurn. Reglur sem um þetta hafa verið settar hafa ekki dugað til að draga úr eftirspurn og þrýstingi frá umsækjendum. Sams konar reglur gilda t.d. í Danmörku.
    4. mgr. kemur í stað 2. mgr. 9. gr. gildandi laga. Samkvæmt þeirri grein innheimtir ríkissjóður árlega skatt af rekstrarleyfishöfum sem nemur 0,25% af veltu. Hér er lagt til að samsvarandi skattur verði lagður á leyfishafa en hann verði innheimtur af Póst- og fjarskiptastofnun og renni til reksturs stofnunarinnar.
    Ákvæði 5. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum. Í ákveðnum málum þarf Póst- og fjarskiptastofnun að kaupa sérfræðiþjónustu vegna vinnu sem tengist einstökum fjarskiptafyrirtækjum, póstrekendum eða rekstrarleyfishöfum. Kostnaður vegna þessarar vinnu kann að verða umtalsverður og verður ekki ákveðinn fyrir fram í gjaldskrá.
    6. mgr. kemur í stað 5. mgr. 9. gr. gildandi laga en bætt er við nánari skýringu á gildissviði gjaldskrár Póst- og fjarskiptastofnunar og það betur afmarkað en í gildandi lögum.
    7. mgr. kemur í stað 6. og 8. mgr. 9. gr. gildandi laga en hér er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun annist sjálf innheimtu þeirra gjalda sem 11. gr. mælir fyrir um. Þar sem horfið er frá innheimtu skatts af rekstrarleyfishöfum og þess í stað innheimt þjónustugjald er eðlilegt að sá sem veitir þjónustuna og ákvarðar gjaldið innheimti það.
    8.–13. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 12.–14. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.

    Tilgangur frumvarpsins er að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í tilskipunum sem þar gilda eru ákvæði um aðskilnað stjórnsýslu frá viðskiptastarfsemi fjarskiptafyrirtækja.
    Markmið frumvarpsins er meðal annars að jafna aðstöðu fyrirtækja sem starfa á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og reka fjarskiptanet. Í þessu felst að fjarskiptafyrirtæki með yfirburðastöðu á markaðnum, fyrrverandi einkaleyfishafar, taka á sig ákveðnar skyldur sem ekki teljast eðlilegar á öðrum sviðum atvinnulífsins, þ.e. að hafa opinn aðgang mismunandi aðila að netum og þjónustu, koma á samtengingu milli neta og að tryggja einstaklingum og fyrirtækjum í strjálbýli alþjónustu á talsímasviðinu og grunnpóstþjónustu.
    Breyttar aðstæður póstþjónustu og einkum fjarskipta hafa leitt til þess að nýir málaflokkar koma nú til kasta Póst- og fjarskiptastofnunar. Aðgangur að netum og samtenging eru þeir málaflokkar þar sem flestar deildur verða til á milli samkeppnisaðila og er lausn slíkra deilna og ákvarðanir þar að lútandi stór þáttur í starfi stofnunarinnar. Ákvarðanir og úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar er hægt að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Nefndin er skipuð þremur mönnum. Í ljósi mikilla breytinga á rekstrarumhverfi fyrirtækja á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu má gera ráð fyrir að verkefni nefndarinnar verði umtalsverð á næstu árum.
    Kostnaður vegna starfsemi úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála er áætlaður 5 m.kr. á næstu árum en ætti síðan að vera óverulegur eftir að full og eðlileg samkeppni er komin á. Afgangur á þessum lið, eða skuld, í árslok fellur niður.
    Frumvarp þetta er lagt fyrir samhliða frumvarpi til laga um fjarskipti.