Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 850  —  548. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður 5. málsl., svohljóðandi: Jafnframt skulu ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki greiða virðisaukaskatt af framleiðsluverði á mat sem tilreiddur er í mötuneytum þeirra og seldur er starfsmönnum eða öðrum á verði undir framleiðsluverði.

2. gr.

    Við 5. tölul. 2. mgr. 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Afsláttur sem þeir aðilar, er skrá sölu í sjóðvél, veita gegn greiðslu með kreditkorti og tekjufærður er að fullu við afhendingu en dregst frá söluverði við uppgjör greiðslukortafyrirtækis telst ekki háður skilyrðum sem greinir í 1. málsl. þessa töluliðar. Gefi seljandi út reikning samhliða skráningu í sjóðvél skal fjárhæð afsláttar tilgreind á honum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      6. tölul. 3. mgr. orðast svo: Öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða og hópbifreiða. Sama á við um sendi- og vörubifreiðar með leyfða heildarþyngd 5000 kg eða minna sem ekki uppfylla skilyrði um burðargetu og lengd farmrýmis er fjármálaráðherra setur í reglugerð.
     b.      4. mgr. orðast svo:
             Þeir sem skattskyldir eru á grundvelli 2. mgr. 3. gr. mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða hina skattskyldu þætti í starfsemi þeirra.

4. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Fjármálaráðherra ákveður í reglugerð um greiðslustaði, greiðslufyrirkomulag og efni skýrslu, þar á meðal um rafræn skil á skýrslu og greiðslu.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðist svo:
             Endurgreiða skal veitingahúsum, mötuneytum og öðrum hliðstæðum aðilum, sem selja tilreiddan mat, sbr. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr., fjárhæð er nemur 112,5% af innskatti hvers uppgjörstímabils vegna matvælaaðfanga sem bera 14% virðisaukaskatt samkvæmt ákvæðinu. Endurgreiðsla þessi skal þó ekki vera hærri en svo að útskattur vegna sölu á tilreiddum mat að frádreginni endurgreiðslu samsvari að minnsta kosti 14% af hráefnisverði að viðbættum 19,25% af mismun söluverðs á tilreiddum mat og hráefnisverðs matvælaaðfanga. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð nánar um framkvæmd endurgreiðslunnar.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
             Endurgreiða skal rekstraraðilum hópbifreiða, sem leyfi hafa samkvæmt lögum um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 19,68% af söluverði hópbifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslunnar.

6. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Fjármálaráðherra skipaði í byrjun árs 1999 nefnd til að framkvæma athugun á virðisaukaskatti og meta hvort sú reynsla sem fengist hefur af innheimtu skattsins væri þess eðlis að efni væru til breytinga á löggjöf eða einhverjum framkvæmdaratriðum. Tilefni þessarar nefndarskipunar var að röskur áratugur var liðinn frá setningu laga um virðisaukaskatt en auk þess þótti ástæða til að fara yfir athuganir sem gerðar hafa verið á nokkrum þáttum í framkvæmd laganna.
    Nefndin kannaði rækilega flesta þætti virðisaukaskattsins, en einkum þó framkvæmd hans, tekjur af virðisaukaskatti og hvaða lagaleg atriði þörfnuðust úrbóta. Nefndin ræddi m.a. við fulltrúa atvinnulífsins, sveitarfélaga o.fl. Í febrúarmánuði sl. skilaði nefndin niðurstöðum sínum í skýrslu til fjármálaráðherra. Í henni kemur m.a. fram það álit að ekki sé þörf neinna grundvallarbreytinga á lögum um virðisaukaskatt, en þó eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar. Frumvarp þetta byggist á tillögum nefndarinnar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um skattskyldu mötuneyta í eigu ríkis og sveitarfélaga vegna sölu á mat til starfsmanna á verði undir framleiðslukostnaði.
    Í öðru lagi er lagt til að við uppgjör virðisaukaskatts verði heimilað að taka tillit til rafræns afsláttar sem veittur er í verslunum þegar greitt er með kreditkorti.
    Í þriðja lagi er annars vegar verið að þrengja frádráttarheimild vegna bifreiða til fólksflutninga sem notaðar eru í virðisaukaskattskyldum rekstri. Er það gert m.a. til þess að jafna samkeppnisstöðu rekstraraðila í fólksflutningum sem ekki njóta frádráttar vegna innskatts. Hins vegar er verið að opna fyrir möguleika fyrir ráðherra til að setja reglur um skiptingu innskatts hjá opinberum aðilum.
    Í fjórða lagi er lagt til að fjármálaráðherra geti sett reglur um rafræn skil á virðisaukaskatti.
    Í fimmta lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á endurgreiðslureglum 42. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að endurgeiðslur á virðisaukaskatti til veitingahúsa verði hækkaðar úr 93,75% af innskatti vegna hráefniskaupa í 112,5%. Þannig er dregið úr því misræmi sem er komið upp vegna þess að verslanir eru í auknum mæli farnar að selja tilbúinn mat sem fellur í 14% skattþrep í samkeppni við veitingahús sem selja mat og aðrar veitingar í 24,5% skattþrepi. Þá þykir nauðsynlegt að setja hámark á endurgreiðslurnar. Hins vegar er lagt til að rekstrarleyfishöfum í fólksflutningum verði greiddur hluti virðisaukaskatts sem eftir stendur af verðmæti hópbifreiða sem seldar eru úr landi.
    Áætlað er að lækkun á tekjum ríkisins vegna þessara breytinga geti orðið á bilinu 100-130 m.kr. og munar þar mestu um hækkun endurgreiðslu til veitingahúsa sem áætluð er að geti orðið á bilinu 100–110 m.kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að skjóta styrkari stoðum en verið hafa undir þá skattframkvæmd að fæðissala opinberra aðila sé virðisaukaskattsskyld jafnvel þótt fæði sé selt á lægra verði en nemur framleiðslukostnaði. Þá er kveðið á um skattverð í slíkum tilvikum.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að heimilað verði að draga ákveðna tegund afsláttar frá söluverði við ákvörðun skattverðs. Um er að ræða svokallaðan rafrænan afslátt sem veittur er gegn greiðslu með kreditkorti og er tekjufærður að fullu hjá seljanda við afhendingu en ekki dreginn frá söluverði fyrr en við uppgjör greiðslukortafyrirtækis. Afslátturinn hjá korthafa kemur fram í formi lægri greiðslu á uppgjöri frá greiðslukortafyrirtækinu. Þennan afslátt, sem veittur er án skilyrða, hafa seljendur ekki getað dregið frá skattskyldri veltu sinni hingað til þar sem hann er ekki dreginn frá söluverði strax við afhendingu eins og áskilið er í 2. málsl. 5. tölul. 7. gr. laganna. Með breytingunni verður seljendum hins vegar gert mögulegt að lækka skattskylda veltu sína í samræmi við veittan rafrænan afslátt þegar uppgjör milli seljanda og greiðslukortafyrirtækis liggur fyrir. Heimildin er bundin við þá aðila sem skrá sölu sína í sjóðvél enda er í seinni málsliðnum tekinn af allur vafi um að sé reikningur gefinn út samhliða skráningu í sjóðvél verði að tilgreina afsláttinn á honum. Óbreyttar reglur gilda áfram um þá aðila sem ekki skrá sölu sína í sjóðvél.

Um 3. gr.

    Í a-lið eru lagðar til breytingar á reglum um innskattsrétt af öflun, rekstri og leigu bifreiða. Gildandi reglum um innskattsrétt af ökutækjum má skipta í eftirtalda þrjá flokka.
     1.      Enginn innskattsréttur. Virðisaukaskatt af öflun, rekstri og leigu fólksbifreiða fyrir níu menn eða færri má almennt ekki færa til innskatts.
     2.      Fullur innskattsréttur. Innskattsréttur af öflun og leigu tiltekinna ökutækja er bundinn því skilyrði að þau séu eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Undir þennan regluflokk falla sendi- og vörubifreiðar að leyfðri heildarþyngd 5000 kg eða minna að uppfylltum tilteknum skilyrðum um burðargetu og stærð farmrýmis, svo og hópbifreiðar, bifhjól, torfærutæki og loftpúðatæki.
     3.      Innskattsréttur að hluta. Þessi regluflokkur felur í sér almennar reglur um innskatt, þ.e. að innskattsréttur er til staðar að svo miklu leyti sem notkun ökutækja varðar virðisaukaskattskylda starfsemi. Undir þennan flokk falla öll ökutæki önnur en þau sem falla undir 1. og 2. flokk hér að framan.
    Með ákvæði þessu er lagt til að allar fólks- og hópbifreiðar falli undir framangreindan 1. flokk, svo og þær sendi- og vörubifreiðar að leyfðri heildarþyngd 5000 kg eða minna sem ekki uppfylla hin tilteknu skilyrði til að falla undir 2. flokk. Hópbifreiðar eru í eðli sínu fólksflutningabifreiðar en fólksflutningar falla utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts skv. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, óháð því hvort kaupandi slíkrar þjónustu stundar virðisaukaskattsskylda starfsemi eða ekki. Þeir sem fólksflutninga stunda eiga ekki rétt til innskatts af öflun og rekstri hópbifreiða. Samkvæmt gildandi lögum á virðisaukaskattsskyldur aðili rétt á innskatti af hópbifreið noti hann hana eingöngu í þágu skattskyldrar starfsemi sinnar, svo sem vegna flutnings á starfsmönnum milli vinnusvæða. Þannig geta skattaleg sjónarmið ráðið því hvort slíkur aðili kýs að reka eigin hópbifreið eða kaupa þjónustu aðila er stunda fólksflutninga. Slíkt verður að teljast óeðlilegt. Vegna breytinga sem orðið hafa á almennum skilgreiningum sendi- og vörubifreiða uppfylla ekki allar skilgreindar sendi- og vörubifreiðir skilyrði varðandi burðargetu og stærð farmrýmis til að falla undir innskattsreglur 2. flokks hér að framan. Breytingu þeirri sem hér er lögð til er ætlað að taka af allan vafa um að virðisaukaskatt af öflun, rekstri og leigu þessara bifreiða má ekki telja til innskatts.
    Í b-lið er lagt til að bann við hlutfallslegum innskatti af aðföngum er varða í senn virðisaukaskattsskylda starfsemi og starfsemi er fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts taki ekki til opinberra aðila sem skattskyldir eru á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. Með því er opnað, að því er þessa opinberu aðila varðar, fyrir heimild fjármálaráðherra skv. 2. mgr. 16. gr. til að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu þeirra á vörum og skattskyldri þjónustu. Umrætt bann þykir raska samkeppnisstöðu deilda og eininga opinberra stofnana og fyrirtækja sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi í samkeppni við atvinnufyrirtæki og hafa aðgreindan fjárhag frá öðrum deildum eða einingum.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að ráðherra hafi heimild til að ákveða í reglugerð hvernig rafrænum skilum á virðisaukaskatti skuli háttað. Með því er ætlað að leggja grundvöll að því að gjaldendum verði gefinn kostur á að standa skil jafnt á skýrslum sem greiðslum með rafrænum hætti.

Um 5. gr.

    Í a-lið er lagt til að endurgreiðsla til veitingahúsa, mötuneyta og hliðstæðra aðila sem selja tilreiddan mat verði hækkuð úr 93,75% af innskatti vegna matvælaaðfanga í 112,5%. Jafnframt er lagt til að sett verði ákveðið hámark á endurgreiðslur þessar. Hámark þetta er sett til að koma í veg fyrir að endurgreiðslur geti orðið hærri en nauðsynlegt er til að færa útskatt veitingahúsa á matarsölu úr hærra skattþrepi í lægra skattþrep en það er tilgangurinn með lagaákvæðinu.
    Endurgreiðslureglan miðast við að verðmæti matvælaaðfanga tvöfaldist við að breytast úr hráefni í framreiddan mat. Jafnframt er gert ráð fyrir að helmingur verðmætisaukningarinnar sé vegna matreiðslu og framreiðslu sem á að skattleggjast í hærra skattþrepi en hinn helmingur verðmætisaukningarinnar sé vegna álagningar og tilreiðslu hráefnis sem á að skattleggjast í lægra skattþrepi. Hráefnið sjálft skattleggst í lægra skattþrepinu. Hámarksreglan hefur ekki áhrif ef verðmætisaukning í veitinga-húsum er meiri en verðmæti matvælaaðfanga. Hún hefur hins vegar áhrif ef verð-mætisaukning er minni en sem svarar til kostnaðarverðs matvælaaðfanga en þá er gert ráð fyrir að helmingur af verðmætisaukningunni sé í hvoru þrepi. Hlutfallið 19,25 er meðaltal hærra og lægra skattþreps.
    Í b-lið er ákvæði sem gerir ráð fyrir að fjármálaráðherra greiði rekstraraðilum hópbifreiða 19,68% af söluverði þeirra við sölu úr landi. Einungis verður heimilt að endurgreiða rekstraraðilum hópbifreiða sem hafa sérstök leyfi til að stunda fólks-flutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum um skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum. Hluti af verðmæti hópbifreiða er virðisaukaskattur sem ekki hefur fengist endurgreiddur innan lands þar eð fólksflutningar eru utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts. Ákvæðinu er ætlað að greiða fyrir sölu notaðra hópbifreiða úr landi og auðvelda með þeim hætti endurnýjun hópbifreiða.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1998,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til úrbætur á nokkrum þáttum virðisaukaskatts-kerfisins í samræmi við niðurstöður nefndar sem unnið hefur að athugun á kerfinu. Breytingarnar miða að því að treysta skattframkvæmd í sambandi við fæðissölu í mötuneytum opinberra aðila, að heimilt verði að draga rafrænan afslátt vegna greiðslu með kreditkorti frá skattskyldri veltu, að endurbæta reglur um innskattsrétt af öflun, rekstri og leigu bifreiða og loks að hækka endurgreiðslur til veitingahúsa og mötuneyta sem selja tilreiddan mat úr 93,75% af innskatti vegna matvælaaðfanga í 112,5% til að jafna aðstöðu þeirra og verslana sem selja tilbúinn mat. Þessar breytingar eru taldar hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs, að undanskildum endurgreiðslum til veitingahúsa en áætlað er að þær gætu hækkað um 100 m.kr. verði frumvarpið að lögum. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo nokkru nemi.