Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 115  —  115. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 7/1975, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972, sbr. lög nr. 56/1986, nr. 25/1990 og nr. 19/1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ríkisstjórninni er enn fremur heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á alþjóðareglunum sem gerðar voru í Lundúnum 19. nóvember 1981, 19. nóvember 1987, 19. október 1989 og 4. nóvember 1993.

2. gr.

    Í fylgiskjali með lögunum verða þær breytingar sem greinir í fylgiskjali með lögum þessum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Fylgiskjal.

Breytingar á alþjóðareglum
til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972.

     1.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. reglu:
          a.      Í stað orðanna „Meðal skipa með takmarkaða stjórnhæfni má telja“ í 2. mgr. g-liðar kemur: Hugtakið „skip með takmarkaða stjórnhæfni“ nær til, en takmarkast þó ekki við.
          b.      3. tölul. 2. mgr. g-liðar orðast svo: skip við móttöku eða losun eldsneytis, vista og farms skipa á milli eða við flutning manna, vista eða farms meðan skipið er laust.
     2.      Í stað orðsins „dyggilega“ í 5. reglu kemur: dyggilegan.
     3.      Eftirfarandi breytingar verða á 10. reglu:
          a.      Í stað orðsins „siglingaleiðar“ í 1. tölul. b-liðar kemur: einstefnuleiðar.
          b.      Í stað orðsins „siglingaleið“ í 3. tölul. b-liðar kemur: einstefnuleið.
          c.      Í stað orðanna „afmarkaða siglingaleið“ í c-lið kemur: afmarkaðar einstefnuleiðir, og í stað orðanna „hinnar afmörkuðu siglingaleiðar“ kemur: skipaumferðarinnar.
          d.      1. tölul. d-liðar orðast svo: Skip á ekki að sigla strandleið þegar það getur með öryggi siglt eftir þeirri einstefnuleið er við á í aðskilinni siglingaleið sem næst liggur. Þó mega skip, sem eru styttri en 20 metrar, seglskip og skip að fiskveiðum sigla strandleiðina.
          e.      Í stað orðanna „Að jafnaði má ekki sigla skipi yfir svæði“ í 1. mgr. e-liðar kemur: Að jafnaði má ekki sigla skipi inn á svæði.
     4.      A-liður 14. reglu orðast svo: Þegar tvö vélskip mætast á gagnstæðum stefnum eða því nær gagnstæðum stefnum, svo að hætta er á árekstri, skulu bæði víkja til stjórnborða, svo að þau komist hvort framhjá öðru á bakborða.
     5.      Í stað orðanna „torvelda góða útsýn frá skipinu“ í b-lið 20. reglu kemur: torvelda að halda dyggilegan útvörð á skipinu.
     6.      2. tölul. c-liðar 23. reglu orðast svo: Vélskip, sem er styttra en 7 metrar og siglir með 7 sjómílna hámarkshraða á klukkustund, má hafa uppi hvítt hringljós í stað þeirra ljósa, sem kveðið er á um í a-lið þessarar reglu, og skal einnig hafa uppi hliðarljós, ef framkvæmanlegt er.
     7.      Í stað orðanna „svo sem að varpa ljósi á dráttartaugina“ í i-lið 24. reglu kemur: sérstaklega með því að lýsa upp dráttartaugina.
     8.      Eftirfarandi breytingar verða á 26. reglu:
          a.      Orðin „á skipi, styttra en 20 metrar, má í stað þessa dagmerkis hafa uppi körfu“ í 1. tölul. b-liðar falla brott.
          b.      Orðin „á skipi, styttra en 20 metrar, má í stað þessa dagmerkis hafa uppi körfu“ í 1. tölul. c-liðar falla brott.
          c.      D-liður orðast svo: Viðbótarmerki, sem lýst er í II. viðauka við þessar reglur, á við skip sem er að fiskveiðum rétt námunda við önnur skip að fiskveiðum.
     9.      Eftirfarandi breytingar verða á I. viðauka:
          a.      2. tölul. f-liðar 2. hluta, Lóðrétt staðsetning ljósa og fjarlægð á milli þeirra, orðast svo: Sé óframkvæmanlegt að hafa hringljósin, sem fyrirskipuð eru í 1. gr. b-liðar 27. reglu eða 28. reglu, undir sigluljósunum, má koma þeim fyrir ofan við aftara sigluljósið(in) eða lóðrétt milli fremra(i) og aftara(i) sigluljóssins (sigluljósanna), svo fremi að framfylgt verði ákvæðum c-liðar 3. hluta þessa viðauka.
          b.      Nýr stafliður, d-liður, bætist við 3. hluta, Lárétt staðsetning ljósa og fjarlægð á milli þeirra, svohljóðandi: Á vélskipi sem er aðeins skylt að hafa uppi eitt sigluljós skal ljósið vera framan við miðju skipsins. Á skipum, styttri en 20 metrar, er þó ekki skylt að hafa ljósið framan við miðju skipsins, en það skal haft eins framarlega á skipinu og unnt er.
          c.      B-liður 9. hluta, Láréttir ljósgeirar, verður liður b. 1. og við bætist nýr liður, b. 2., svohljóðandi: Sé óframkvæmanlegt að fara eftir lið b. 1. í þessum hluta með því að hafa uppi aðeins eitt hringljós, skal hafa uppi tvö hringljós, sem skulu eftir því sem frekast er unnt og þar sem best hentar sett upp á þann veg eða þannig búin hlífum, að ljósin sjáist sem eitt ljós í einnar sjómílu fjarlægð.
          d.      Nýr hluti bætist við, 13. hluti, svohljóðandi, og breytist röð annarra hluta samkvæmt því: 13. Mjög hraðskreið skip. Á mjög hraðskreiðu skipi, þar sem hlutfallið af lengd skipsins á móti breidd þess er minna en 3,0, má sigluljósið vera lægra en mælt er fyrir um í l. gr. a-liðar 2. hluta þessa viðauka, svo framarlega sem hornið við grunnlínu á jafnarma þríhyrningi, sem sigluljósið og hliðarljósin mynda, þegar horft er á ljósin framan frá, er ekki minna en 27°.
     10.      Eftirfarandi breytingar verða á II. viðauka, 2. hluta, Merki skipa að togveiðum:
    a.    A-liður orðast svo: Skip að togveiðum, 20 metrar á lengd eða lengra, skal, hvort sem það veiðir með botnvörpu eða flotvörpu, hafa uppi.
    b.    B-liður orðast svo: Á skipum, sem eru 20 metrar á lengd eða lengri og toga vörpu á milli sín, skal á hvoru þeirra um sig hafa uppi.
    c.    Nýr stafliður, c-liður, bætist við, svohljóðandi: Skip styttra en 20 metrar má, eftir því sem við á, hafa uppi þau ljós sem mælt er fyrir um að hafa uppi í a- eða b-lið þessa hluta, hvort sem skipið er að veiðum með botnvörpu eða flotvörpu eða togar vörpu með öðru skipi.
     11.      O-liður 1. hluta IV. viðauka: Viðurkennd merki sem send eru frá fjarskiptakerfum, hér með taldir ratsjársvarar í björgunarförum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með lögum nr. 7/1975 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt frá 1972 um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, sem gerð var í Lundúnum 20. október 1972. Samþykktin var fullgilt 21. apríl 1975 og öðlaðist gildi 15. júlí 1977, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda, nr. 6/1975 og 4/1977.
    Með lögum nr. 56/1986 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar sem gerðar voru á samþykkt frá 1972 um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó í Lundúnum 19. nóvember 1981. Breytingarnar tóku gildi 1. júní 1983, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda, nr. 4/1983.
    Með lögum nr. 25/1990 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar sem gerðar voru á samþykkt frá 1972 um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó í Lundúnum 19. nóvember 1987. Breytingarnar tóku gildi 19. nóvember 1989.
Með lögum nr. 19/1993 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar sem gerðar voru á samþykkt frá 1972 um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó í Lundúnum 19. október 1989. Breytingarnar tóku gildi 19. apríl 1991.
    Í samræmi við 6. gr. samþykktarinnar hefur verið unnið á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að breytingum á alþjóðareglunum. Á 18. þingi stofnunarinnar voru með ályktun A.736(18), dags. 4. nóvember 1993, gerðar þær breytingar á alþjóðareglunum um siglingar sem greinir í fylgiskjali með frumvarpi þessu. Þær öðluðust gildi alþjóðlega 4. nóvember 1995, en með frumvarpi þessu er lagt til að þær öðlist lagagildi hér á landi.



Fylgiskjal I.


Breytingar á alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó 1972, sem voru samþykktar á 18. allsherjarþingi IMO hinn 4. nóvember 1993
og tóku alþjóðlegt gildi 4. nóvember 1995.


ÁLYKTUN A.736(18)

Samþykkt 4. nóvember 1993.


Breytingar á alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó 1972.


    Allsherjarþingið
    minnir á grein VI í samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó 1972 varðandi breytingar á alþjóðasiglingareglunum,
    eftir að hafa fjallað um breytingar á alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó 1972, sem voru samþykktar af Öryggismálanefndinni (MSC) á 61. fundi nefndarinnar og komið þeim samþykktum til allra samningsaðila í samræmi við 2. mgr. VI. gr. samþykktar um alþjóðasiglingareglurnar ásamt tilmælum Öryggismálanefndarinnar varðandi gildistöku þessara breytinga,
    1. samþykkir í samræmi við 3. mgr. VI. gr. samþykktarinnar þær breytingar, sem koma fram í viðauka við þetta skjal um þessa ákvörðun þingsins;
    2. ákveður í samræmi við 4. mgr. VI. gr. samþykktarinnar, að breytingarnar skuli taka gildi 4. nóvember 1995, nema meira en þriðji hluti þátttökuríkja hafi sent skrifleg mótmæli við breytingunum;
    3. biður aðalritarann í samræmi við 3. mgr. VI. gr. að tilkynna öllum aðildarríkjum að Samþykktinni um Alþjóðasiglingareglurnar þessa ályktun til samþykktar;
    4. mælist til að aðildarríki að samþykktinni tilkynni öll hugsanleg mótmæli við breytingunum ekki síðar en 4. maí 1994, en að þeim tíma liðnum verður litið svo á að samþykkt hafi verið að breytingarnar taki gildi eins og þær hafa verið ákveðnar í fyrirliggjandi ályktun.
     1.      26. regla b. 1 um skip að togveiðum:
        Eftirfarandi texti er felldur úr gildi:
        á skipi, styttra en 20 metrar, má í stað þessa dagmerkis hafa uppi körfu;
     2.      26. regla c. 1 um skip, annað en skip að togveiðum:
         Eftirfarandi texti er felldur úr gildi:
         á skipi, styttra en 20 metrar, má í stað þessa dagmerkis hafa uppi körfu;
     3.      26. regla d.:
        Í stað núgildandi texta komi eftirfarandi:
        d.    Viðbótarmerki, sem lýst er í II. viðauka við þessar reglur, á við skip sem er að fiskveiðum rétt námunda við önnur skip að fiskveiðum.
     4.      I. viðauki, 3. hluti. Lárétt staðsetning ljósa og fjarlægð á milli þeirra:
         Eftirfarandi nýjum lið, d., er bætt við:
        d.    Á vélskipi sem er aðeins skylt að hafa uppi eitt sigluljós skal ljósið vera framan við miðju skipsins. Á skipum, styttri en 20 metrar, er þó ekki skylt að hafa ljósið framan við miðju skipsins, en það skal haft eins framarlega á skipinu og unnt er.
     5.      I. viðauki, 9. hluti. Láréttir ljósgeirar:
         Núverandi b-liður verði b. 1. og eftirfarandi nýjum lið, b. 2., er bætt við:
        b. 2.    Sé óframkvæmanlegt að fara eftir lið b. 1. í þessum hluta með því að hafa uppi aðeins eitt hringljós, skal hafa uppi tvö hringljós, sem skulu eftir því sem frekast er unnt og þar sem best hentar sett upp á þann veg eða þannig búin hlífum, að ljósin sjáist sem eitt ljós í einnar sjómílu fjarlægð.
     6.      I. viðauki, „13. hluti – Samþykki“ verði „14. hluti. Samþykki“ og eftirfarandi nýjum hluta, 13. hluta, er bætt við:
         13. Mjög hraðskreið skip. Á mjög hraðskreiðu skipi, þar sem hlutfallið af lengd skipsins á móti breidd þess er minna en 3,0, má sigluljósið vera lægra en mælt er fyrir um í 1. gr. a-liðar, 2. hluta þessa viðauka, svo framarlega sem hornið við grunnlínu á jafnarma þríhyrningi, sem sigluljósið og hliðarljósin mynda, þegar horft er á ljósin framanfrá, er ekki minna en 27°.
     7.      II. viðauki, 2. hluti. Merki skipa að togveiðum:
         Í stað núgildandi texta í a-lið um gildissvið liðarins komi eftirfarandi:
         a.    Skip að togveiðum, 20 metrar á lengd eða lengra, skal, hvort sem það veiðir með botnvörpu eða flotvörpu, hafa uppi:
         Í stað núgildandi texta í b-lið um gildissvið liðarins komi eftirfarandi:
         b.    Á skipum, sem eru 20 metrar á lengd eða lengri og toga vörpu á milli sín, skal á hvoru þeirra um sig hafa uppi:
         Eftirfarandi nýjum lið, c., er bætt við:
         c.    Skip styttra en 20 metrar má, eftir því sem við á, hafa uppi þau ljós sem mælt er fyrir um að hafa uppi í a- eða b-lið þessa hluta, hvort sem skipið er að veiðum með botnvörpu eða flotvörpu eða togar vörpu með öðru skipi.
     8.      IV. viðauki, 1. hluti:
         Í stað núgildandi texta í o-lið komi eftirfarandi:
         o.    Viðurkennd merki sem send eru frá fjarskiptakerfum, hér með taldir ratsjársvarar í björgunarförum.


Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1975,
um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd
samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó,
1972, sbr. lög nr. 56/1986, 25/1990 og 19/1993.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni verði heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á alþjóðareglum til þess að koma í veg fyrir árekstra á sjó sem samþykktar voru á þingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar 4. nóvember 1993. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka í för með sér verði það óbreytt að lögum.