Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 323. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 351  —  323. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    1. og 2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skv. 1. gr. skal greiða gjaldanda vexti, sem skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hér eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Samkvæmt gildandi lögum er miðað við að vextir séu jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma, en viðmiðunin „óbundnir sparireikningar“ er hins vegar ekki notuð lengur. Í 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er því lagt til að vextir verði þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og fjallar um vexti af skaðabótakröfum.
    Samkvæmt gildandi lögum skal greiða dráttarvexti skv. 10. gr. laga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Vaxtalög, nr. 25/1987, voru felld úr gildi með lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í ljósi þess er í 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins lagt til að dráttarvextir verði þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 29/1995,
um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á viðmiðun vaxta vegna endurgreiðslna úr ríkissjóði á ofteknum sköttum. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, verði frumvarpið að lögum.