Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 206. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 206  —  206. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Frá umhverfisnefnd.



1. gr.

    Orðin „í landhelgi“ í 1. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    10. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Mengunarlögsaga Íslands: Hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, sbr. lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að gera nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, sem tóku gildi 1. október 2004. Áður en lögin voru samþykkt var skilgreining á mengunarlögsögu Íslands þrengd og 2. gr. breytt til samræmis við það. Það kom hins vegar ekki í ljós fyrr en eftir setningu laganna að láðst hafði að taka tillit til þess að vísað er til mengunarlögsögu Íslands í fleiri ákvæðum en 2. gr. og því hefur þrengingin á hugtakinu leitt til þess að heimildir íslenskra stjórnvalda samkvæmt lögunum eru takmarkaðri innan landhelgi en utan. Það var ekki ætlunin og því er nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðin „í landhelgi“ verði felld brott þar sem í 2. gr. er lagt til að landhelgi verði hluti af mengunarlögsögu Íslands sem og innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði. Nefndin leggur áherslu á að breytingar þessar fela ekki í sér skerðingu á fullveldisrétti Íslands innan landhelginnar, sbr. 2. gr. laga nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.