Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 398. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 793  —  398. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Árnason og Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Inga Boga Bogason frá Samtökum iðnaðarins, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Einar H. Jónsson frá Tæknifræðingafélagi Íslands, Loga Kristjánsson frá Tæknifræðingafélagi Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands, Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, rektor Tækniháskóla Íslands, Sverri Sverrisson, formann háskólaráðs nýs háskóla sem fyrirhugað er að stofna, Bjarka Brynjarsson frá Háskólanum í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, Sigurjón Valdimarsson og Mörthu Hjálmarsdóttur, fulltrúa kennara við Tækniháskóla Íslands, og Ásgeir Ingvason og Gunnar Hall, fulltrúa nemenda við sama skóla.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust svör frá Samtökum atvinnulífsins, Verkfræðingafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra námsmanna, Félagi tækniháskólakennara, Háskólanum á Akureyri, Bandalagi háskólamanna, Iðnnemasambandi Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands. Þá barst athugasemd frá Gunnari Hall fulltrúa nemenda við frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að lög um Tækniháskóla Íslands verði felld úr gildi 1. júlí nk. og rekstri skólans hætt í tilefni af fyrirhugaðri sameiningu skólans og Háskólans í Reykjavík í nýjum háskóla. Fyrirhuguð sameining byggist á viljayfirlýsingu menntamálaráðherra, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Verslunarráðs Íslands um stofnun einkahlutafélags sem tekur við starfsemi skólanna, dags. 19. október 2004, sbr. fylgiskjal I.
    Við umfjöllun málsins vöknuðu ýmsar spurningar meðal nefndarmanna varðandi væntanlegt fyrirkomulag náms eftir að Tækniháskólinn hefur verið lagður niður auk annarra atriða enda ekki miklar upplýsingar um það að finna í athugasemdum við frumvarpið. Meiri hlutinn bendir á að fyrir liggja skrifleg svör frá rektorum Háskólans í Reykjavík, HR, og Tækniháskóla Íslands, THÍ, Sverri Sverrissyni og Bjarka Brynjarssyni, sem þeir skiluðu sameiginlega til nefndarinnar þar sem ekki náðist að svara spurningum nefndarmanna munnlega á fundi sökum tímaskorts. Í þeim er komið inn á flest álitamálin og ýmsar gagnlegar upplýsingar veittar og telur meiri hlutinn rétt að geta helstu atriðanna.
    Spurt var um tæknifræðinámið en við umfjöllun málsins var lýst áhyggjum af því hvort til stæði að fella niður einhverjar greinar þess og einnig hvort ekki væri hætta á því að nemendur mundu frekar kjósa að stunda tæknifræðinám erlendis þar sem engin skólagjöld væru innheimt. Í svörunum kemur fram að lögð verði mikil áhersla á tæknifræðinámið í hinum


Prentað upp.

nýja háskóla, m.a. með því að bjóða í fyrsta sinn hér á landi framhaldsnám til MSc í tæknifræði. Efnislegt innihald allra námsbrauta í tæknifræði muni haldast óbreytt, en áherslusvið verði skýrð. Þannig verði tölvu- og upplýsingafræði t.d. færð undir rafmagnstæknifræði sem valsvið. Slík skipulagsbreyting sé alls ekki til þess gerð að minnka vægi tæknifræðinámsins í sameinuðum háskóla. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að fyrir liggur yfirlýsing frá menntamálaráðuneyti, dags. 3. febrúar 2005, þar sem m.a. kemur fram að stefnt sé að því að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum. Hvað varðar skólagjöldin kemur fram í svörunum að innheimta þeirra geri skólanum kleift að efla námið enn frekar og það muni því styrkja stöðu háskólans í samkeppni við erlenda tækniháskóla. Kostnaður nemenda við að stunda nám erlendis sé umtalsverður og því sé talið að hófleg skólagjöld á Íslandi vegi þar lítið. Auk þess sé æskilegt að hluti námsmanna stundi háskólanám erlendis eins og verið hefur.
    Spurt var hvernig samstarfi milli háskóla og rannsóknastofnana yrði háttað. Í svörunum kemur fram að THÍ hafi átt mjög gott og farsælt samstarf við rannsóknastofnanir og hafi gert samstarfssamninga við Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Íslenskar orkurannsóknir. Nýr háskóli muni halda samstarfinu áfram og fyrirætlanir séu um enn meira og markvissara samstarf. Eitt af markmiðum nýja háskólans sé að auka rannsóknir á sviði tæknifræði og verkfræði í nánu samstarfi við rannsóknastofnanir. Það sé mjög mikilvægt að framtíðarhúsnæði og staðsetning háskólans leyfi náið samstarf og jafnvel sambýli við rannsóknastofnanir.
    Spurt var um fyrirkomulag frumgreinadeildar (nám til undirbúnings frekara námi við háskóladeildir THÍ), einkum hvar hún yrði staðsett og hvort skólagjöld yrðu innheimt. Í svörunum kemur fram að nýr háskóli muni sinna náminu með sama hætti og var í THÍ. Skólagjöld verði ekki innheimt í frumgreinadeild, deildin sé í raun ekki eins og háskóli, í því námi séu ekki stundaðar rannsóknir heldur einungis lögð áhersla á góða kennslu. Hvað varðar þá nemendur sem þegar hafa innritað sig í frumgreinadeild og stefna í kjölfarið á nám í hinum nýja háskóla var upplýst síðar í umfjölluninni af hálfu formanns háskólaráðs hins nýja háskóla og fulltrúa nemenda við frumgreinadeild THÍ að samkomulag hefði náðst þess efnis að umræddir nemendur fengju fyrstu tvö árin frítt í allar deildir en þyrftu að greiða fyrir síðasta árið. Fulltrúi nemenda lýsti yfir almennri ánægju með þetta samkomulag. Telur meiri hlutinn mikilvægt að góð sátt hafi náðst um málið. Þá kemur fram í svörunum að það sé mikið hagsmunamál fyrir háskólann að halda frumgreinanáminu sem sterkustu og að hið opinbera haldi áfram stuðningi við það.
    Spurt var um hver greiði skólagjöld vegna núverandi THÍ-nemenda sem flytjast í nýjan háskóla, nánar tiltekið hvort sérstakur samningur væri við menntamálaráðuneyti vegna þessara nemenda um skólagjöldin. Í svörunum kemur fram að háskólanemar í THÍ hafi greitt innritunargjöld en ekki skólagjöld. Þegar nýr háskóli taki til starfa muni þeir stúdentar sem nú þegar eru í háskólanámi í THÍ halda áfram að greiða gjöld sem séu í samræmi við þau innritunargjöld sem ríkisháskólar innheimta. Þannig haldi þessir nemendur áfram námi án þess að greiða svokölluð skólagjöld. Menntamálaráðuneyti hafi enga samninga gert um greiðslu skólagjalda fyrir þessa nemendur.
    Spurt var um fyrirkomulag heilbrigðisdeildarinnar. Í svörunum kemur fram að fyrir liggi að námið muni flytjast yfir til Háskóla Íslands, þrýstingur hafi verið frá stéttarfélögum meinatækna og geislafræðinga um flutning þangað. Í yfirlýsingu menntamálaráðuneytisins, dags. 3. febrúar 2005, sem áður er getið, áréttar ráðuneytið að það hafi síðastliðið haust haft frumkvæði að viðræðum við forsvarsmenn Háskóla Íslands og stjórn hins sameinaða háskóla um fyrirkomulag kennslu í meinatækni (lífeindafræði) og geislafræði. Í kjölfar þess hafi það orðið að samkomulagi og ráðuneytið ákveðið að í haust skyldi kennsla hefjast við læknadeild Háskóla Íslands í umræddum námsgreinum sem til þessa hafi verið kenndar í THÍ. Þeir nemendur sem þegar stundi nám í þessum greinum við THÍ muni ljúka námi sínu við nýjan sameinaðan háskóla. Fari þessi flutningur því fram í fullu samráði við báða skólana og sé það í samræmi við eindreginn vilja viðkomandi fagfélaga.
    Spurt var um réttindi starfsmanna og tímaramma. Í svörunum kemur fram að lögð verði áhersla á að tryggja sem best réttindi stúdenta og starfsmanna í samrunaferlinu. Stjórnarformaður hins nýja háskóla hafi tilkynnt starfsmönnum THÍ að allir fái samning við skólann. Varðandi tímarammann kemur fram að samkvæmt frumvarpinu sé gert ráð fyrir að THÍ verði lagður niður 30. júní nk. Gert sé ráð fyrir að öllum starfsmönnum THÍ verði tilkynnt 31. mars nk. að niðurlagning skólans jafngildi uppsögn. Hinn nýi háskóli hafi skuldbundið sig til að taka við öllum starfsmönnum THÍ til starfa. Sama eigi við um starfsmenn HR, þeir muni hætta starfi hjá HR og verða starfsmenn sameinaðs háskóla, ekki sé heldur gert ráð fyrir að nokkrum starfsmanni HR verði sagt upp störfum. Síðar við umfjöllunina upplýsti formaður nýs háskólaráðs að nú væri að störfum nefnd þriggja lögfræðinga sem hefði það hlutverk að tryggja að í hvívetna yrði gætt að réttarstöðu starfsmanna THÍ, m.a. væri verið að skoða lífeyrissjóðsmál starfsmanna.
    Spurt var hvernig samstarfi við framhaldsskóla yrði háttað. Í svörunum kemur fram að samstarf við framhaldsskóla þurfi að efla. Fram undan sé öflugt kynningarstarf meðal starfsmanna og stjórnenda framhaldsskóla landsins. Meðal þess sem tekið verði fyrir sé athugun á hvernig samstarfi nýja skólans og framhaldsskólanna skuli háttað, hvernig því verði best fyrir komið.
    Nokkuð ítarleg umræða fór fram um hvers vegna hlutafélagaformið hafi verið valið fram yfir sjálfseignarstofnun, hvort akademísku frelsi kennara verði ekki stefnt í hættu. Í svörunum kemur fram að hlutafélagaformið sé almennt heppilegra, hlutafélagalöggjöf geri ráð fyrir að hægt sé að stofna félag sem ekki sé rekið í hagnaðarskyni en svo sé gert í 2. gr. stofnsamþykkta hins nýja félags sem ætlað er að reka sameinaðan háskóla, sbr. fylgiskjal II. Þar komi fram að hlutverk félagsins sé ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri, heldur renni hugsanlegur hagnaður til frekari uppbyggingar starfseminnar. Þá eru kostir hlutafélagaformsins nánar raktir og færð rök fyrir því að akademísku frelsi sé ekki ógnað með breyttu rekstrarformi. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem þar koma fram.
    Spurt var um setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í háskólaráði. Í svörunum kemur fram að hlutverk háskólaráðs sé m.a. að ákvarða námsframboð og móta framtíðarstefnu fyrir háskólann og veita honum stuðning, aðhald og eftirlit þannig að hann ræki hlutverk sitt af kostgæfni. Í störfum sínum geti háskólaráð fengið starfsmenn og nemendur til ráðgjafar eftir því sem við á hverju sinni. Lögð sé áhersla á að gott upplýsingaflæði sé frá framkvæmdastjórn til nemenda og starfsmanna og öfugt þannig að báðir hópar geti komið ábendingum og óskum til háskólaráðs í gegnum framkvæmdastjórn. Þessi háttur hafi verið viðhafður í HR frá stofnun skólans og ekki verið gagnrýndur, hvorki af nemendum né starfsmönnum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að eðlileg þátttaka starfsmanna og nemenda í stjórn skólans verði tryggð og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur.
    Meiri hlutinn fagnar frumvarpi þessu og telur að fyrirhuguð sameining skólanna muni efla verkfræði- og tæknifræðinám enn frekar hér á landi sem og atvinnulífið og fjölga tækifærum námsmanna til framtíðar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þau atriði sem nefnd hafa verið hér að framan verði höfð að leiðarljósi við undirbúning hins nýja háskóla, einkum er varðar eflingu tæknifræðináms, samstarf við rannsóknastofnanir og framhaldsskóla, að frumgreinanámið haldi vægi sínu og að réttindamálum starfsmanna og nemenda verði sinnt af kostgæfni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. febr. 2005.



Gunnar Birgisson,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Hjálmar Árnason.



Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.




Fylgiskjal I.


Viljayfirlýsing um stofnun einkahlutafélags er taki yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands.
(19. október 2004.)


    Aðilar að þessari viljayfirlýsingu eru menntamálaráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands fyrir hönd Sjálfseignarstofnunar Verslunarráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV).
    Af hálfu ríkisstjórnar er yfirlýsing þessi háð því að Alþingi fallist á þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að af sameiningu Háskólans í Reykjavík (hér eftir nefndur HR) og Tækniháskóla Íslands (hér eftir nefndur THÍ) geti orðið. Verður frumvarp sem inniheldur þær breytingar lagt fram á Alþingi haustið 2004. Fjárskuldbindingar gagnvart hinum nýja skóla (hér eftir nefndur háskólinn) eru háðar samþykki Alþingis skv. fjárlögum.
    Aðilar eru sammála um að gera þurfi átak til að auka áhuga ungs fólks á raunvísindum og tæknigreinum og tryggja að gæði menntunar á þeim sviðum standist alþjóðlegan samanburð. Hvort tveggja er forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni í atvinnulífi hér á landi. Mikilvægt er að háskólinn mæti þörfum atvinnulífs og einstaklinga fyrir trausta og góða tækni- og rekstrarþekkingu. Með hinum nýja háskóla er stigið skref í átt til þess að tryggja áhrif og þátttöku atvinnulífs í háskólastarfi hér á landi.
     1.      Stefnt er að því að á næstu vikum verði gengið frá samþykktum fyrir einkahlutafélag er reki háskólann og að hann fái formlegt starfsleyfi menntamálaráðuneytis, sbr. lög um háskóla, nr. 36/1997, fyrir árslok 2004. Jafnframt er að því stefnt að starfsemi HR og THÍ verði endanlega sameinuð í hinum nýja háskóla í síðasta lagi í júní 2005.
     2.      Aðstandendur háskólans, sem eru Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands (fyrir hönd SVÍV), skipa stjórn hins nýja félags sem jafnframt gegnir hlutverki háskólaráðs og markar það stefnu um rekstur og starfsemi háskólans. Gert er ráð fyrir að háskólinn hafi heimild til að innheimta skólagjöld.
     3.      Aðstandendur háskólans munu leggja til 300 m. kr. eigið fé og annað sem nauðsynlegt er til að háskólinn geti sinnt hlutverki sínu af metnaði og vaxið og dafnað í samræmi við hlutverk sitt að því gefnu að samkomulag náist við menntamálaráðuneytið um stuðning við starfsemi skólans, sbr. 13. tölulið þessarar yfirlýsingar. Einkahlutafélagið verður ekki rekið í hagnaðarskyni fyrir eigendur félagsins.
     4.      Aðstandendur háskólans skuldbinda sig til að uppfylla í hvívetna kröfur um gæði náms og rannsókna er stjórnvöld gera skv. lögum, reglugerðum, tilmælum og alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland á aðild að.
     5.      Aðstandendur háskólans tryggja að nemendur sem hafið hafa nám í HR og THÍ þegar háskólinn verður stofnaður skulu eiga rétt á að ljúka því í samræmi við þær skuldbindingar sem skólarnir hafa stofnað til. Jafnframt því mun háskólinn samræma kennsluskrár og námskröfur og bjóða fram endurskipulagt nám við fyrsta hentugleika.
     6.      Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að nemendur sem þurfa að stunda verklegt nám og starfsnám hjá stofnunum hins opinbera geti gert það áfram á sömu forsendum og verið hefur við THÍ.
     7.      Háskólinn mun bjóða nám til BA-, BS- og diplómaprófs í þeim greinum sem HR og THÍ hafa boðið upp á. Auk þess er að því stefnt að stofnaðar verði nýjar deildir á fyrsta starfsári skólans í kennslufræði og verkfræði.
     8.      Háskólinn mun bjóða upp á það framhaldsnám sem þegar hefur verið heimilað við núverandi skóla. Auk þess er stefnt að því að hann bjóði upp á MS-gráðu í verkfræði og meistaragráðu í kennslufræði sem og frekara framhaldsnám eftir aðstæðum og nánara samkomulagi við menntamálaráðuneytið.
     9.      Háskólinn mun bjóða upp á sérhæft undirbúningsnám, sambærilegt námi í frumgreinadeild THÍ.
     10.      Stefnt er að því að háskólinn standi fyrir diplóma- og viðbótarnámi og stuðli að eflingu símenntunar í samvinnu við aðila sem vinna að þeim málefnum.
     11.      Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir framlögum til skólans vegna kennslu í samræmi við reglur ráðuneytisins um fjármögnun háskóla. Heildarnemendaígildum háskólans mun fjölga miðað við núverandi skóla og verður fjölgunin fyrst og fremst í reikniflokkum 4 og 5 eins og þeir eru skilgreindir í reglum nr. 646/1999 um fjárveitingar til háskóla.
     12.      Við háskólann verða stundaðar rannsóknir og á næstu árum mun framlag ríkisins til rannsókna fara stigvaxandi til ársins 2009, háð þeim fyrirvörum sem settir verða í kennslu- og rannsóknasamningi og almennum kröfum um árangur rannsóknarstarfseminnar. Háskólinn mun auk þess efla rannsóknar- og þróunarstarf með fjármögnun frá fyrirtækjum, samtökum atvinnurekanda, samkeppnissjóðum innan lands og erlendis og í samstarfi við rannsókna- og fræðslustofnanir.
     13.      Stefnt er að undirritun samnings, skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr 136/1997, um háskóla, sem taki til kennslu- og rannsókna eigi síðar en í júní 2005 og mun hann ná til fimm ára.
     14.      Menntamálaráðuneytið leggur hinum nýja háskóla til afnot af núverandi búnaði THÍ.

Reykjavík, 19. október 2004.


    Menntamálaráðherra                    f.h. Samtaka atvinnulífsins

f.h. Samtaka iðnaðarins

Verslunarráð Íslands
f.h. SVÍV



Fylgiskjal II.

Samþykktir fyrir Hástoð ehf.

1. gr. Heiti og heimilisfang

    Heiti félagsins er Hástoð ehf. Heimili félagsins er að Ofanleiti 2, Reykjavík.

2. gr. Hlutverk

    Hlutverk félagsins er að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, m.a með því að efla og auka menntun, rannsóknir og nýsköpun á háskólastigi, sem nýtist atvinnulífinu. Í þeim tilgangi rekur félagið háskóla, sem verður meginverkefni félagsins, og aðra þá starfsemi sem þjónað getur þessu hlutverki. Hlutverk félagsins er ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri.
    Félagið hyggst sinna hlutverki sínu varðandi menntun og rannsóknir meðal annars með gerð þjónustusamninga við stjórnvöld um fjárveitingar. Þá hyggst félagið sinna hlutverki sínu með því að taka að sér margvíslega þjónustu á sviði menntunar og rannsókna og þar m.a. samstarf við fyrirtæki, rannsóknastofnanir og aðrar menntastofnanir á Íslandi og erlendis.

3. gr. Hlutafé

    Hlutafé félagsins er kr. 15 milljónir. Hlutaféð skiptist í hluti að fjárhæð ein króna að nafnvirði eða margfeldi þar af. Eitt atkvæði fylgir hverri krónu í hlutafé.

4. gr. Hlutafjáraukning og -lækkun, hlutabréf, hlutaskrá og eigendaskipti

    Stjórn félagsins hefur heimild til að hækka hlutafé um kr. 385 milljónir í einu lagi eða áföngum. Hluthafar hafa forkaupsrétt að því hlutafé í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Eigi síðar en þegar háskóli félagsins tekur til starfa skal hlutafé vera kr. 300 milljónir. Að öðru leyti þarf samþykki hluthafafundar til að auka hlutafé enda samþykki 2/3 hluthafa þá tillögu. Stjórnin ákveður nafnverð hluta, útboðsgengi eða skiptigengi og aðrar sölureglur, frest til áskriftar og greiðslu ákveður stjórnin og skal í einu og öllu fara eftir ákvæðum samþykkta félagsins og V. kafla einkahlutafélagalaga, nr. 138/1994.
    Stjórn á forkaupsrétt að fölum hlutum fyrir hönd félagsins. Hluthafar eiga forkaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína að félaginu sjálfu frágengnu.
    Eigendaskipti að hlutum öðlast gildi við tilkynningu til stjórnar. Verði ágreiningur um verð hluta skulu dómkvaddir matsmenn kallaðir til. Frestur forkaupsréttarhafa til að nýta sér forkaupsrétt er einn mánuður frá tilkynningu stjórnar til þeirra um sölu hlutanna og skulu seldir hlutir staðgreiddir.
    Óheimilt er að veðsetja eða gefa hluti án samþykkis stjórnar félagsins. Aðeins hluthafafundur getur ákveðið að lækka hlutafé og þá með samþykki 2/3 hluthafa. Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá að lögum.

5. gr. Réttindi og ábyrgð hluthafa

    Hluthafar bera ekki ábyrgð umfram hluti sína í félaginu. Engin sérréttindi fylgja hlutum í félaginu. Hluthafar þurfa ekki að sæta innlausn nema landslög kveði á um slíkt. Félagið má kaupa eigin hlut að lögmæltu hámarki. Óheimilt er að neyta atkvæðisréttar fyrir hluti í eigu félagsins.

6. gr. Hluthafafundur

    Æðsta vald er í höndum lögmætra hluthafafunda. Hluthafafundur er lögmætur ef hann er boðaður með bréfi eða á sannanlegan hátt með a.m.k. fjórtán daga fyrirvara, en lengst með fjögurra vikna fyrirvara. Hluthafafund skal halda að ákvörðun stjórnar eða að ósk hluthafa sem ráða yfir a.m.k. tíunda hluta hlutafjár. Slík ósk skal berast stjórninni skriflega og fundarefni tilgreint og ber stjórninni þá að halda fund innan fjórtán daga.

7. gr. Ársreikningar og aðalfundur

    Reikningsár félagsins er almanaksárið. Aðalfund skal halda fyrir lok júlímánaðar ár hvert. Skal hann boðaður öllum hluthöfum með bréfi eða með auglýsingu í fjölmiðlum, með minnst fjórtán daga fyrirvara og lengst fjögurra vikna fyrirvara og skal geta um sérstök fundarefni í fundarboði. Fundurinn skal jafnframt vera opinn öllum stjórnarmönnum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Verslunarráði Íslands.
    Tillögur stjórnar eða hluthafa, sem leggja skal fyrir aðalfund, þar á meðal tillaga um stjórn, skulu liggja fyrir eigi síðar en viku fyrir fundinn. Tillögur um breytingar á samþykktum skal þó kynna hluthöfum a.m.k. tveimur vikum fyrir fund. Að öðrum kosti verða þær ekki teknar til afgreiðslu.
    Á dagskrá aðalfundar skulu m.a. vera eftirtaldir liðir:
    a)    Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um hag félagsins, starfsemina undanfarið ár og framtíðaráform.
    b)    Ársreikningar lagðir fram til samþykktar.
    c)    Fjárhagsáætlun yfirstandandi árs lögð fram til kynningar.
    d)    Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins.
    e)    Tillaga um þóknun til stjórnarmanna og endurskoðanda.
    g)    Kjör endurskoðanda.
    h)    Önnur mál löglega upp borin eða mál sem stjórnin hefur undirbúið.
    Annað hvert ár kýs aðalfundur stjórn félagsins.

8. gr. Stjórnarkjör

    Stjórn félagsins er skipuð sjö mönnum, og þremur til vara, til tveggja ára í senn. Samkomulag er um að stofnendur félagsins Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands skipi stjórn þess. Fyrir fyrsta kjörtímabil stjórnar skipar Verslunaráð Íslands þrjá menn í stjórn, þar af einn sem formann, Samtök atvinnulífsins einn mann og Samtök iðnaðarins tvo menn en sameiginlega skipa þessir aðilar einn stjórnarmann. Frá og með aðalfundi félagsins árið 2006 skipar Verslunarráð Íslands fjóra menn, þar af einn sem formann stjórnar, Samtök atvinnulífsins einn og Samtök iðnaðarins tvo menn.

9. gr. Helstu verkefni og stjórnarhættir stjórnar

    Meginverkefni félagsins er að reka háskóla. Stjórn félagsins, sem er jafnframt háskólaráð háskólans, annast umsýslu eigna. Stjórnin markar stefnu félagsins og háskólans, ákveður námsframboð, inntökuskilyrði, gæði kennslu og aðra meginstarfstilhögun háskólans. Jafnframt ákveður stjórn skólagjöld og greiðslutilhögun þeirra. Stjórnin skal setja sér starfsreglur í samræmi við Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem VÍ, SA og Kauphöll Íslands hafa gefið út. Þar skal m.a. fjalla um verkefni stjórnar og framkvæmdastjóra (rektors), og gæðakröfur til framkvæmdastjóra (rektors), kennara og annarra stjórnenda skólans. Stjórnin er í forsvari fyrir félagið og háskólann. Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins. Stjórnin ein getur skuldbundið háskólann fjárhagslega.
    Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi með dagskrá og minnst þriggja daga fyrirvara nema brýn nauðsyn sé að halda fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum en þó þurfa minnst fjórir stjórnarmenn að greiða tillögu atkvæði sitt til þess að hún teljist samþykkt. Það sem gerist á fundum stjórnar skal bókað í gerðabók.
    Félagið ábyrgist skuldbindingar félagsins með eignum sínum. Stjórnin skal hafa stöðugt eftirlit með rekstri háskólans, bókhaldi og meðferð á fjármunum hans. Stjórnin afgreiðir rekstrar- og fjárfestingaráætlun fyrir háskólann og ársreikning hans. Stjórninni er heimilt að skipa sérstakar nefndir til tímabundinna verkefna, s.s. fjáröflunar, endurnýjunar tækjabúnaðar, þróunarverkefna eða annars sem er talið rétt að sérstakur starfshópur sinni. Daglegur rekstur, þar með talið starfsmannahald, fjármálaumsýsla, áætlunargerð og bókhald félagsins, er í höndum framkvæmdastjóra.

10. gr. Framkvæmdastjóri/rektor

    Stjórnin ræður framkvæmdastjóra félagsins, sem jafnframt er rektor háskólans, ákveður laun hans og önnur starfskjör og leysir hann frá störfum. Rektor háskólans kemur fram fyrir hönd félagsins og háskólans, annast daglegan rekstur hans, fer með prókúruumboð og getur skuldbundið félagið í málum sem eru á verksviði hans. Rektor ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Rektor situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétti nema stjórnin ákveði annað um einstaka fundi. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiri háttar. Slíkar ráðstafanir getur rektor aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi háskólans. Í slíkum tilvikum skal stjórninni tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, að undangengnu mati dómnefndar, og aðra starfsmenn skólans og víkur þeim frá. Þó skal rektor hafa samráð við stjórn um ráðningu og starfsskyldur prófessora, deildarforseta og annarra framkvæmdastjóra skólans. Hann semur skýrslu um starfsemi skólans í lok hvers skólaárs.

11. gr. Ráðstöfun hagnaðar/taps

    Hagnaði félagsins skal aðeins ráðstafað til að efla starfsemina í samræmi við hlutverk félagsins. Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samræmast hlutverki og starfsemi félagsins. Ekki verður greiddur arður út úr félaginu.

12. gr. Breytingar á samþykktum - félagsslit

    Breytingar á þessum samþykktum verður að samþykkja með atkvæðum 2/3 hluthafa og hluthafa sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á lögmætum aðalfundi eða hluthafafundi. Afgreiða skal tillögu um að slíta félaginu eins og tillögu um lagabreytingu og gilda þá ákvæði einkahlutafélagalaga um félagsslit. Hið sama á við um hvers konar samruna eða sameiningu félagsins við önnur félög og um sölu á öllum eignum þess.
    Við slit á félaginu skal hluthafafundur jafnframt ákvarða um ráðstöfun eigna, greiðslu skulda og skuldbindinga félagsins, þar á meðal um réttindi þeirra námsmanna sem ekki hafa lokið námi. Við félagsslit skal einungis framreiknað hlutafé renna til eigenda félagsins, en eignir umfram skuldir að öðru leyti skulu renna til almannaheilla í samræmi við hlutverk félagsins skv. ákvörðun hluthafafundar.

Þannig skráð hjá Fyrirtækjaskrá 11. janúar 2005.