Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
Þskj. 854  —  576. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Vísitala neysluverðs skal reiknuð í mánuði hverjum miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð. Heimilt er að safna verðupplýsingum yfir lengra tímabil ef verðlag vöru breytist ört. Ef ekki er unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar eða sé það ekki talið eiga við er Hagstofu Íslands heimilt að miða við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á. Vísitalan skal svo sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Í janúarmánuði 2008 skal Hagstofa Íslands reikna og birta vísitölu neysluverðs miðað við verðlag tvo fyrstu daga mánaðarins og einnig miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan mánuðinn. Hagstofunni er jafnframt heimilt að reikna vísitöluna miðað við verðlag tvo fyrstu daga febrúarmánaðar 2008 sé það talið nauðsynlegt vegna notkunar vísitölunnar til verðtryggingar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að vísitala neysluverðs verði reiknuð miðað við verð um miðjan mánuð í stað verðs í upphafi mánaðar eins og verið hefur.
    Hinn 25. apríl 2006 samþykkti ráð Evrópusambandsins reglugerð (nr. 701/2006) um að samræma tíma verðsöfnunar fyrir samræmda vísitölu neysluverðs (Harmonized Index of Consumer Prices – HICP). Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 2008 og kveður hún á um að söfnun verðupplýsinga fyrir samræmdu vísitöluna skuli fara fram í a.m.k. viku í miðjum hverjum mánuði. Þá er kveðið á um að miða skuli við verðlag yfir lengra tímabil þegar um er að ræða vörur sem breytast mjög ört í verði. Er þá sérstaklega átt við eldsneyti, grænmeti og ávexti.
    Hagstofa Íslands reiknar vísitölu neysluverðs samkvæmt lögum nr. 12/1995 miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga hvers mánaðar. Útreikningur Hagstofunnar á samræmdu vísitölunni fyrir Ísland er miðaður við sama tímabil. Við gildistöku hinnar nýju reglugerðar ESB er nauðsynlegt að laga verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs að hinum nýju Evrópuákvæðum þar sem ekki kemur til álita hér á landi að reikna tvær mismunandi neysluverðsvísitölur í hverjum mánuði.
    Margt mælir með því að vísitala neysluverðs miðist við verðlag um miðjan mánuð fremur en við upphaf mánaðar og að mælingin taki til heldur lengra tímabils en verið hefur. Mestu skiptir þó í þessu sambandi sú samræming á reglubundnum verðmælingum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem að er stefnt. Eins og nú háttar er viðmiðunartími vísitalna ríkjanna mjög misjafn. Sum ríki miða við verðlag í byrjun mánaðar, önnur við verðlag um miðjan mánuð og mismunandi er í hve langan tíma verðupplýsingum er safnað. Mörg undanfarin ár hefur verið unnið að samræmingu á vísitölum neysluverðs í EES-ríkjunum, hvað snertir þekju þeirra, skilgreiningar, flokkanir, aðferðir við gagnasöfnun og útreikning svo og gæði vísitalnanna og gæðaleiðréttingar. Þessi vinna hefur verið árangursrík og er nú svo komið að segja má að þær neysluverðsvísitölur ríkjanna, sem reiknaðar eru undir merkjum hinnar samræmdu neysluverðsvísitölu EES, séu að mestu samræmdar að öðru leyti en gildir um tíma verðsöfnunar og meðferð eigin húsnæðis í vísitölunum. Verðsöfnunartíminn verður nú samræmdur frá og með ársbyrjun 2008. Enn er unnið að samræmingu á meðferð eigin húsnæðis og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á árinu 2007. Reiknað er með að eigið húsnæði verði tekið með í samræmdu vísitölunni á svipaðan hátt og það er reiknað í vísitölu neysluverðs hér á landi.
    Breytingin á vísitölu neysluverðs sem hér er lagt til að verði lögfest krefst talsverðrar breytingar á verklagi og umsvifum við söfnun verðupplýsinga á Hagstofunni. Vinna við söfnun upplýsinga mun aukast þar sem hún nær yfir lengra tímabil en nú háttar og þar sem nauðsynlegt er að upplýsinga sé safnað um helgar en ekki einungis á virkum dögum. Nokkur kostnaður mun hljótast af þessu en á móti kemur að upplýsingarnar, sem aflað er, ættu að verða fyllri en nú og vísitölumælingin því öruggari en ella. Breytingin er þó fremur einföld í framkvæmd sé eingöngu miðað við söfnun verðupplýsinga og útreikning og birtingu á vísitölu neysluverðs. Hins vegar hefur hún áhrif á beitingu vísitölunnar til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Í gildandi lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, vaxtalögum, segir í IV. kafla, 14. gr.:
    „Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.“
    Samkvæmt frumvarpi þessu verður verðupplýsingum vegna útreiknings vísitölunnar safnað um miðjan hvern mánuð og vísitalan birt í lok mánaðarins að lokinni yfirferð gagna og útreikningi. Eftir að tímasetningu á vísitölu neysluverðs hefur verið breytt á þennan hátt er naumast raunhæft að ákvæði vaxtalaga geti staðið óbreytt. Ástæðan er sú að tíminn frá birtingu vísitölunnar í lok hvers mánaðar til gildistöku hennar til verðtryggingar verður einfaldlega of stuttur. Er þá sérstaklega haft í huga að ekki mun gefast tími til að senda út innheimtuseðla vegna þeirra fjárskuldbindinga sem eru á gjalddaga fyrstu daga mánaðarins. Af þessu leiðir að samhliða breytingu á tímasetningu á verðsöfnun – og þar með útreikningi og birtingu – vísitölu neysluverðs þarf að breyta fyrrgreindum ákvæðum í vaxtalögum til þess að skýrt sé kveðið á um tímatafir milli útreiknings vísitölu neysluverðs og beitingar hennar til verðtryggingar. Er það gert í sérstöku frumvarpi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í gildandi lögum segir að vísitala neysluverðs skuli reiknuð í mánuði hverjum miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga hvers mánaðar. Þetta er sú meginregla sem gildir um mælinguna hvað tímasetningu snertir. Frá þessu eru í reynd frávik hvað snertir húsnæðislið vísitölunnar þar sem samtímaupplýsingar eru ekki tiltækar. Eigið húsnæði miðast við meðalsöluverð eigna næstliðna þrjá mánuði og vextir af íbúðalánum eru miðaðir við meðaltal síðustu tólf mánaða. Þá er viðhald húsnæðis miðað við breytingu vísitölu byggingarkostnaðar milli næstliðinna tveggja mánaða.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér á undan er í 1. gr. þessa frumvarps lagt til í meginatriðum að vísitala neysluverðs miðist við verðlag um miðjan hvern mánuð til þess að fylgt sé áformum um samræmingu vísitölumælinga í ríkjum EES. Þau áform fela einnig í sér að verðupplýsingum sé safnað yfir lengra tímabil ef um er að ræða vörur sem breytast ört í verði. Þetta er tekið fram í 1. gr. frumvarpsins og er nýmæli. Þá er enn fremur lagt til að sé ekki unnt að miða við samtímaupplýsingar um verðlag eða verðbreytingar eða það ekki talið eiga við sé Hagstofunni heimilt að miða við meðaltal mánaðar eða mánaða eftir því sem við á. Þetta er til staðfestingar á því verklagi sem tíðkast hefur um árabil. Lokamálsliður 1. gr. að vísitalan skuli svo sem kostur er miðast við meðalverðlag í landinu er óbreyttur frá gildandi ákvæði.
    Eins og vikið er að í almennum athugasemdum mun vinna Hagstofunnar við söfnun verðupplýsinga aukast nokkuð verði frumvarp þetta að lögum. Ástæður þessa eru þrenns konar: a) upplýsinganna verður aflað yfir lengri tíma en nú gildir og er það líklega ekki jafnskilvirkt og núverandi fyrirkomulag; b) kanna verður verð á sumum vöru- og þjónustuliðum oftar en einu sinni í mánuði og c) afla verður upplýsinganna um helgar jafnt sem á virkum dögum. Hafa verður í huga að verslanir eru nú yfirleitt opnar að meira eða minna leyti um helgar en það heyrði til undantekninga þegar núgildandi tilhögun var tekin upp. Kostnaður af störfum spyrla við öflun verðupplýsinga fyrir vísitölu neysluverðs er nú um 6 millj. kr. á ári. Breytingin á upplýsingasöfnuninni er lauslega áætluð kosta 2–3 millj. kr. á ári, þó 3–4 millj. kr. árið 2008 vegna þeirra aukamælinga sem þá er gert ráð fyrir.

Um 2. gr.

    Lagt er til að breytingin á verðsöfnunartíma vísitölunnar taki gildi í ársbyrjun 2008; er þá fylgt ákvæðum um gildistöku reglugerðar ESB sem þetta varðar og því gætt fulls samræmis við breytingar á samræmdum vísitölum neysluverðs í aðildarríkjum EES.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir að Hagstofan reikni vísitölu neysluverðs samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps í fyrsta sinn um miðjan janúar 2008. Í ákvæði til bráðabirgða er jafnframt gert ráð fyrir að Hagstofan reikni vísitöluna samkvæmt núgildandi ákvæðum miðað við verðlag í byrjun janúar 2008. Þetta er talið nauðsynlegt því ella yrði of langt milli verðmælinganna auk þess sem þessi verðmæling kann að verða nauðsynleg vegna verðtryggingar. Enn fremur er lagt til að Hagstofunni verði heimilt að reikna vísitöluna aukalega í byrjun febrúarmánaðar sé það talið nauðsynlegt vegna notkunar hennar til verðtryggingar.
    Ferill verðmælinga á þessu breytingaskeiði yrði þá þannig:

Verðmæling Birting
Árið 2007 2 fyrstu virka daga mánaðar U.þ.b. 12. dag mán.
Desember 2007 2 fyrstu virka daga desember 12. desember
Janúar 2008 2 fyrstu virka daga janúar 14. janúar
Janúar 2008 Vika um miðjan mánuð 30. janúar
Febrúar 2008 2 fyrstu virka daga febrúar 12. febrúar
Eftir það Vika um miðjan mánuð Í lok hvers mánaðar

    Tekið skal fram að þess verður gætt að vísitalan verði birt ekki síðar en næstsíðasta dag hvers mánaðar. Það er nauðsynlegt vegna viðskipta með verðtryggð skuldabréf í Kauphöllinni.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995.

    Í frumvarpinu er lögð til sú meginregla að vísitala neysluverðs skuli reiknuð miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð í stað verðlags tvo fyrstu virka daga hvers mánaðar eins og mælt er fyrir um í gildandi lögum. Í sérstökum tilvikum verður heimilt að miða við verðlag yfir önnur tímabil.
    Gert er ráð fyrir að vinna Hagstofunnar við söfnun verðupplýsinga aukist nokkuð verði frumvarp þetta að lögum. Kemur þar til lengri verðsöfnunartími, auk þess sem kanna verður verð á sumum vöru- og þjónustutegundum oftar en einu sinni í mánuði og afla þarf upplýsinga jafnt um helgar sem á virkum dögum. Kostnaður af störfum spyrla við öflun verðupplýsinga fyrir vísitölu neysluverðs er nú um 6 m.kr. á ári. Áætlað er að sá kostnaður aukist varanlega um 2–3 m.kr. og verði á bilinu 8–9 m.kr. en 1 m.kr. umfram það tímabundið á árinu 2008 vegna þeirra aukamælinga sem þá er gert ráð fyrir. Að öðru leyti verður ekki séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs önnur en þau sem leiðir af áhrifum breytts verðsöfnunartíma á vísitöluna. Gera má ráð fyrir að til lengri tíma litið séu þau óveruleg.