Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1317  —  272. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um heilbrigðisþjónustu.

Frá Þuríði Backman.



     1.      10. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Fagstjórnendur.

             Á heilbrigðisstofnun skal starfa framkvæmdastjóri lækninga, framkvæmdastjóri hjúkrunar og eftir atvikum aðrir faglegir yfirstjórnendur sem bera faglega ábyrgð á þjónustu stofnunarinnar.
             Yfirlæknar sérgreina eða sérdeilda innan heilbrigðisstofnunar bera faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra lækninga eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar. Yfirlæknar hafa eftirlit með starfsemi deilda og skulu stuðla að því að hún sé ávallt sem hagkvæmust og markvissust.
             Deildarstjórar hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana skipuleggja og bera faglega ábyrgð á þeirri hjúkrunarþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra hjúkrunar eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar.
             Aðrir fagstjórnendur innan heilbrigðisstofnunar bera faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem þeir veita og undir þá heyrir í samræmi við stöðu þeirra í skipuriti stofnunarinnar.
     2.      13. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Fagráð.

             Á háskóla- og kennslusjúkrahúsum, svæðisbundnum heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skulu vera starfandi læknaráð og hjúkrunarráð og eftir atvikum önnur fagráð. Heimilt er að starfrækja slík ráð á öðrum heilbrigðisstofnunum.
             Læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa á heilbrigðisstofnun er heimilt að hafa með sér eitt sameiginlegt fagráð.
             Fagráð, þ.m.t. læknaráð og hjúkrunarráð þar sem þau eru starfandi, skulu vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðuneytis um fagleg atriði í rekstri heilbrigðisstofnunar. Ber að leita álits fagráða um allar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu stofnunarinnar, þar á meðal álits læknaráðs um læknisþjónustu og álits hjúkrunarráðs um hjúkrunarþjónustu um öll fagleg efni.
             Fagráð skulu setja sér starfsreglur sem staðfestar skulu af forstjóra.
     3.      Í stað 2. mgr. 20. gr. komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:
             Ráðherra skipar níu menn í stjórn Landspítalans og jafnmarga til vara til 4 ára. Skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Skulu fimm stjórnarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis, einn samkvæmt tilnefningu Háskóla Íslands, tveir samkvæmt tilnefningu starfsmannaráðs Landspítalans og einn samkvæmt tilnefningu Öryrkjabandalags Íslands.
             Stjórn Landspítalans skal veita forstjóra ráðgjöf og álit um starfsemi spítalans. Hún skal taka þátt í gerð stjórnskipurits fyrir spítalann í samráði við forstjóra, gera þróunar-, starfs- og rekstraráætlun fyrir spítalann í samráði við forstjóra, hafa eftirlit með að starfsemi spítalans sé í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og rekstur spítalans sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. Stjórnin skal gera ráðherra viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu eða fjárlög.
     4.      1. málsl. 37. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.