Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 290. máls.

Þskj. 326  —  290. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ríkisskattstjóri hefur úrskurðarvald um hvaða lögaðilar skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt þessari grein. Úrskurði ríkisskattstjóra má skjóta til dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna fjármálaráðherra.

2. gr.

    Við 6. tölul. 4. gr. laganna bætist: samkvæmt lögum nr. 78/2007, um starfstengda eftirlaunasjóði.

3. gr.

    Í stað orðsins „Arðgreiðslur“ í 4. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: Tekjur.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Orðin „og 4.“ í 1. málsl. 9. tölul. falla brott.
     b.      Á eftir orðunum „er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.“ í 1. málsl. 9. tölul. kemur: sbr. XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
     c.      3. málsl. 9. tölul. orðast svo: Ákvæði 1. málsl. skal einnig taka til arðs frá hlutafélögum sem skráð eru erlendis ef það félag sem arðinn fær sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.

5. gr.

    1. mgr. 59. gr. laganna orðast svo:
    Tekjuskatt skal miða við tekjur næsta almanaksárs á undan skattákvörðun. Ef lögaðili skv. 2. gr. hefur samkvæmt samþykktum sínum annað reikningsár en almanaksárið skal miða við tekjur reikningsársins á undan skattákvörðun. Ef lögaðili breytir reikningsári er heimilt að miða tekjuskatt við allt að 15 mánaða reikningstímabil eða styttra en 12 mánuði ef það er nauðsynlegt til að samræma reikningsárið við upphaf á nýju reikningsári.

6. gr.

    Í stað orðsins „arðgreiðslur“ í 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna kemur: tekjur.

7. gr.

    Í stað „834“ í 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. laganna kemur: 874.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað „56.096“ í 3. mgr. A-liðar kemur: 57.891.
     b.      Í stað „139.647“, „166.226“, „232.591“, „238.592“, „2.231.195“ og „1.115.598“ í 4. mgr. A-liðar kemur: 144.116, 171.545, 240.034, 246.227, 2.415.492 og 1.207.746.
     c.      1. málsl. 7. mgr. A-liðar orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessa stafliðar má ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda sé framfærandi skattskyldur hér á landi skv. 1. gr. þessara laga eða tryggður á grundvelli 12., 13. eða 14. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
     d.      Við 7. mgr. A-liðar bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sá sem rétt kann að eiga til barnabóta með börnum sem ekki hafa heimilisfesti á Íslandi skal sækja um bætur til skattstjóra og leggja fram upplýsingar um tekjur framfærenda ásamt upplýsingum um barnabætur eða hliðstæðar greiðslur vegna sömu barna sem greiddar hafa verið erlendis, sbr. 1. mgr.
     e.      Í stað „4.931.043“ og „8.174.053“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 5.273.425 og 8.437.481.

9. gr.

    Á eftir tölunni „3.“ í 3. mgr. 71. gr. laganna kemur: 4.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 73. gr. laganna:
     a.      1. mgr. 3. tölul. orðast svo:
             Varanlegir rekstrarfjármunir, þar með talin skip og loftför, sem nýtast takmarkaðan tíma vegna aldurs, úreldingar eða af hliðstæðum ástæðum, teljast til eignar á stofnverði, sbr. 2. mgr. 12. gr., að frádregnum heimiluðum og notuðum fyrningum.
     b.      5. tölul. orðast svo: Hlutabréf skal telja til eignar á nafnverði nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess. Sama gildir um stofnsjóðsinneignir hjá samvinnufélögum, stofnfjárbréf í sparisjóðum og stofnfjáreignir í sameignarfélögum. Hlutabréf skráð í erlendum gjaldmiðli skal færa til eignar á nafnverði, umreiknað með kaupverði miðað við daggengi við kaup, en ef nafnverð er ekki þekkt skulu bréfin færð til eignar á kaupverði. Áhættufjármuni og langtímakröfur, þ.m.t. hvers konar fjármálagerninga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um ársreikninga, sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, skal telja til eignar á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól sem miðast við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs. Ef þessar eignir eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði skal telja þær til eignar á skráðu markaðsverði á virkum markaði í lok reikningsárs. Óefnislegar eignir, sbr. 4. og 5. tölul. 33. gr. og 48. gr., teljast til eignar á stofnverði, að frádregnum heimiluðum og notuðum fyrningum skv. 7. og 8. tölul. 37. gr. Skammtímakröfur skal telja til eignar á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól sem miðast við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs, nema sannað sé að þær séu minna virði. Frá þannig töldu verði útistandandi viðskiptakrafna og lánveitinga er þó heimilt að draga allt að 5% og mynda með því mótreikning fyrir kröfum sem kunna að tapast. Útistandandi viðskiptakröfur og lánveitingar í þessu sambandi teljast kröfur sem stofnast vegna sölu á vörum og þjónustu og aðrar lánveitingar sem beint tengjast atvinnurekstrinum. Útistandandi skuldir á hendur viðurkenndum sjálfseignarstofnunum, sem samhliða veita kröfuhafa íbúðarrétt, má telja til eignar samkvæmt fasteignamati viðkomandi íbúðar.

11. gr.

    78. gr. laganna orðast svo:
    Framtalsskyldar eignir og skuldir skal miða við eignir og skuldir skattaðila í lok reikningsárs.

12. gr.

    Við 2. mgr. 84. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaráðherra er einnig heimilt að flytja einstök verkefni á milli skattumdæma.

13. gr.

    Fyrirsögn VIII. kafla laganna verður: Skattumdæmi, skattstjórar, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri o.fl.

14. gr.

    Ákvæði 1.–6. gr., c- og d-liðar 8. gr. og 9.–13. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 7. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2008 og við álagningu tekjuskatts á árinu 2009.
    Ákvæði a-, b- og e-liðar 8. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008 og koma til framkvæmda við álagningu og greiðslu barnabóta og vaxtabóta á árinu 2008 vegna tekna og eigna á árinu 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt, flestar þeirra minni háttar. Tvær þeirra er þó vert að nefna sérstaklega.
    Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir laganna, þ.e. fjárhæðir vegna sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta, hækki í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008. Í því sambandi er rétt að nefna að samkvæmt gildandi lögum um tekjuskatt hækkar persónuafsláttur árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði, þ.e. frá desember til desember ár hvert. Samkvæmt verðlagsforsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008 er áætlað að hækkun vísitölunnar á umræddu tímabili nemi 4,8%. Persónuafslátturinn mun því að óbreyttu hækka í takt við þá forsendu í upphafi næsta árs án sérstakrar lagabreytingar.
    Í öðru lagi eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á reglum um greiðslu barnabóta með börnum sem eru heimilisföst í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Þeim breytingum er ætlað að tryggja betur að íslenskar reglur um rétt til barnabóta samrýmist reglugerð (EBE) nr. 1408/71 og reglugerð (EBE) nr. 574/72, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja með tilliti til greiðslu barnabóta, en ákveðin óvissa hefur ríkt þar um. Með aðild sinni að EES ber Íslandi að framfylgja þessum reglugerðum.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til ýmsar breytingar á hugtakanotkun og orðalagi, m.a. til samræmis við sambærileg hugtök í lögum um ársreikninga, auk nokkurra leiðréttinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 2. mgr. 1. gr. laga um tekjuskatt er kveðið á um að ríkisskattstjóri hafi úrskurðarvald, þegar skera þarf úr um það á hvaða forsendum einstaklingar teljist heimilisfastir hér á landi. Slíkri heimild er ekki til að dreifa varðandi heimilisfesti lögaðila, sbr. 2. gr. laganna, en vaxandi alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum hefur leitt til þess að þetta álitamál kemur ekki síður upp í tilviki lögaðila. Í frumvarpinu er því lagt til að ríkisskattstjóri fái sambærilegt úrskurðarvald um það á hvaða forsendum lögaðilar teljist heimilisfastir hérlendis eins og gildir um einstaklinga.

Um 2. gr.

    Í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu. Meðal þeirra eru lífeyrissjóðir sem starfa skv. III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama gildir um starfstengda eftirlaunasjóði sem settir voru á stofn með lögum nr. 78/2007 á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB. Með tillögu frumvarpsins er eingöngu verið að hnykkja á skattundanþágu starfstengdra eftirlaunasjóða með því að vísa í lög nr. 78/2007, til frekari aðgreiningar frá þeim aðilum sem bjóða upp á frjálsan lífeyrissparnað, en þeir síðarnefndu falla undir ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um 3. gr.

    Með lögum nr. 76/2007 sem samþykkt voru sl. vor var nýjum málslið bætt við 2. mgr. 30. gr. gildandi laga um tekjuskatt, en sú grein tekur til frádráttar frá tekjum. Þessum nýja málslið er ætlað að taka til tekna sem greiddar eru frá veiðifélagi til einstaklings sem stundar búrekstur eða annan rekstur á jörð, en hefur jafnframt tekjur af veiðiréttindum. Þessar tekjur skulu ekki teljast til atvinnurekstrartekna í hendi einstaklingsins heldur til fjármagnstekna og heimilast enginn frádráttur frá slíkum tekjum. Í gildandi lögum er notað hugtakið arðgreiðslur um þessar tekjur. Með því hugtaki er almennt átt við greiðslur hlutafélags til hluthafa, en því félagaformi er sjaldnast til að dreifa í þessu samhengi. Því er lögð til orðalagsbreyting á ákvæðinu þannig að í stað orðsins arðgreiðslur komi tekjur úr veiðifélagi. Afleidda breytingu sama efnis er að finna í 6. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að frádráttarheimild á mótteknum arði hjá samlögum og samtökum, sem skattskyld eru skv. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr., verði felld niður, með sama hætti og gildir um sameignarfélög, enda er úttekt á höfuðstól þessara aðila skattfrjáls í hendi eigenda. Jafnframt er til samræmis lögð til afleidd breyting í 9. gr. frumvarpsins á 3. mgr. 71. gr. gildandi laga.
    Tillögunni í b-lið er einungis ætlað að hnykkja á því að frádráttarheimild 9. tölul. 31. gr. sé einvörðungu bundin við löglega úthlutaðan arð, skv. XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en taki ekki til dulinnar arðsúttektar.
    Í c-lið er um að ræða leiðréttingu á augljósri villu sem slæddist inn í ákvæðið með breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar sl. vor á lögum nr. 76/2007. Jafnframt þykir rétt að færa orðalag ákvæðisins til fyrra horfs þar sem það er talið falla betur að efni 31. gr. sem er samkvæmt fyrirsögn greinarinnar frádráttur frá tekjum af atvinnurekstri.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að fella úr lögunum kröfu um að lögaðilar skuli leita til skattstjóra um heimild til að nota reikningsárið sem skattár ef þeir ákveða í samræmi við lög um ársreikninga að hafa reikningsárið annað en almanaksárið. Samkvæmt lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, og endurútgáfu þeirra sem lög nr. 3/2006 er reikningsárið skilgreint tólf mánuðir og miðast við mánaðamót. Það er réttur stjórna lögaðila og hluthafafunda að ákvarða reikningsárið við stofnun félags svo og að breyta því síðar ef sérstakar aðstæður gefa tilefni til þess, t.d. vegna samræmis við reikningsár samstæðu sem það er að ganga inn í eða út úr. Ákvörðun reikningsárs er tilkynningarskyld til viðkomandi félagaskrár (t.d. hlutafélög til hlutafélagaskrár). Nú eru um eða yfir 100 lögaðilar með annað reikningsár en almanaksárið og fer þeim fjölgandi. Þessi breytingartillaga kemur í framhaldi af fyrri breytingum á ákvæðum skattalaga varðandi félög með annað reikningsár en almanaksárið.

Um 6. gr.

    Sjá umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins varðandi breytingartillögu þessarar greinar.

Um 7. gr.

    Í B-lið 67. gr. laganna er mælt fyrir um fjárhæð sjómannaafsláttar. Hér er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð um 4,8% frá 1. janúar 2008 sem komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2008. Þessi hækkun er í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008 um áætlaða tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs m.v. mælingu hennar í desember 2007.

Um 8. gr.

    Í a- og b-lið eru lagðar til hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta um 3,2% í samræmi við áætlaða meðalhækkun á vísitölu neysluverðs og skerðingarmarka um liðlega 8% í samræmi við meðalhækkun launavísitölu miðað við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008.
    Í c-lið er lagt til að tilvísun til laga um almannatryggingar verði uppfærð, en einnig er lögð til breyting á skilyrðum fyrir greiðslu barnabóta vegna barna sem ekki eru heimilisföst hér á landi. Með breytingunum er gert ráð fyrir að heimild 7. mgr. A-liðar 68. gr. til að greiða barnabætur verði gerði rýmri þannig að hún samræmist betur skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, um réttindi ríkisborgara í aðildarríkjunum til greiðslu barnabóta vegna barna búsettra í öðru EES-ríki sem þeir hafa á framfæri sínu. Samkvæmt núgildandi ákvæði 1. málsl. 7. mgr. A-liðar 68. gr. er heimilt að ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi, enda séu bæði framfærandi og barnið tryggð á grundvelli 9. gr. b eða 9. gr. c laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. núgildandi 13. og 14. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Lagt er til að bætt sé við ákvæðið þannig að ákvarða megi barnabætur með börnum til framfæranda sem skattskyldur er á Íslandi skv. 1. gr., óháð því hvort barnið sé búsett á Íslandi. Auk þess er gildissvið ákvæðisins aukið að því leyti að það tekur einnig til þeirra sem tryggðir eru á grundvelli 12. gr. laga um almannatryggingar (áður 9. gr. a). Markmiðið með þessari breytingu er að ákvæðið taki til þeirra sem ekki eru skattskyldir skv. 1. gr., en eru þó partur af íslenska almannatryggingakerfinu. Þannig mun ákvæðið t.a.m. taka til allra þeirra sem bera takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. tekjuskattslaga, ef þeir eru ekki undanþegnir því að borga tryggingagjald. Að lokum er lögð til sú breyting að einungis framfærandi þurfi að vera tryggður á grundvelli laga um almannatryggingar, en ekki framfærandi og barn eins og krafa er um samkvæmt núgildandi ákvæði.
    Í d-lið er mælt fyrir um það að þeir sem telja sig eiga rétt á barnabótum með börnum sem ekki hafa heimilisfesti á Íslandi, sæki um það til skattstjóra. Með umsókn þurfa að fylgja nauðsynlegar upplýsingar um fjölskylduhagi, t.a.m. upplýsingar um tekjur framfærenda ásamt upplýsingum um barnabætur sem kunna að vera greiddar með barni í því landi þar sem það hefur heimilisfesti.
    Í e-lið er lögð til hækkun á eignarviðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008.

Um 9. gr.

    Eins og fram kemur í athugasemdum við a-lið í 4. gr. frumvarpsins er eigendum samlaga og samtaka sem skattskyld eru skv. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. heimil skattfrjáls úttekt af höfuðstól með sambærilegum hætti og gildir um sameignarfélög. Vísað er til umfjöllunar um 4. gr. varðandi nánari athugasemdir með þessari grein.

Um 10. gr.

    Í a-lið er lögð til sú orðalagsbreyting í 3. tölul. að tekið verði upp hugtakið „varanlegir rekstrarfjármunir“ í stað „lausafé“ sem er í samræmi við IV. kafla laga um ársreikninga, sbr. einnig ákvæði 33. gr. laga um tekjuskatt.
    Í b-lið greinarinnar er gerð tillaga um orðalagsbreytingar í 5. tölul., sem einnig er í samræmi við orðalag í lögum um ársreikninga. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 5. tölul. um að hlutabréf skuli teljast til eignar á nafnverði er óbreytt og skiptir ekki máli hvort hlutabréfin eru á skráðum markaði eða ekki og þess vegna án tillits til þess hvernig þau eru metin í reikningsskilum fyrirtækja. Hér er um að ræða eignarhluta í félögum sem teljast til fastafjármuna. Verðbreytingar þeirra á markaði hafa því ekki áhrif á tekjuskattsstofn þeirra. Lagt er til að lokaákvæðið í málsgreininni um mat á erlendum hlutabréfum verði 2. málsl. greinarinnar og nái einnig til hlutabréfa í íslenskum hlutafélögum og einkahlutafélögum sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum. Skv. 34. gr. laga um ársreikninga skuli peningalegar eignir og skuldir efnahagsreiknings umreiknaðar miðað við lokagengi reikningsársins, sbr. og 6. tölul. greinarinnar, en aðrir liðir efnahagsreiknings, þ.m.t. eignarhlutar í félögum, skulu metnir á lokagengi viðskiptadagsins. Slíkir eignarhlutar taka því ekki gengisbreytingum heldur eru færðir til eignar með óbreyttri krónufjárhæð milli ára.
    Orðalagsbreytingin í 3. málsl. 1. mgr. 5. tölul. að taka upp orðalagið „Áhættufjármuni og langtímakröfur, þ.m.t. hvers konar fjármálagerninga“ í stað „Skuldabréf og önnur slík verðbréf “ er í samræmi við IV. kafla laga um ársreikninga, þar sem þessar eignir eru felldar undir fastafjármuni ef þær eru ætlaðar í eigu fyrirtækisins í meira en eitt ár. Enn fremur er þá komið inn í lög um tekjuskatt ákvæði um mat hvers konar fjármálagerninga eins og þeir eru skilgreindir í 3. mgr. 36. gr. laga um ársreikninga. Bein ákvæði hafa ekki verið í skattalögunum en fjármálagerningar hafa verið taldir falla undir „önnur slík verðbréf“. Almenna reglan er að þessar eignir séu metnar á kostnaðarverði að viðbættum áföllnum vöxtum, verðbótum og gengisbreytingum og hækkunin jafnframt færist til skattskyldra tekna. Ef framangreindar eignir sem flokkast undir fastafjármuni eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði skulu þær teljast til eignar á markaðsverði í lok reikningsárs og breyting milli ára færist til tekna. Ef framangreindar eignir teljast til veltufjármuna sem skammtímakröfur verða þær ekki taldar fram til eignar á markaðsverði þótt skráðar séu á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. 4. mgr. um skammtímakröfur, og verðhækkun þeirra skattlögð fyrst við sölu þeirra. Er það í samræmi við mat þessara eigna samkvæmt lögum um ársreikninga. Er þetta breyting því að í lögum um tekjuskatt er ekki gerður greinarmunur á mati skráðra skuldabréfa eftir því hvort eignirnar flokkist í reikningsskilum undir fastafjármuni eða veltufjármuni.
    Gerð er tillaga um að ákvæði um mat óefnislegra eigna verði fært inn í greinina en bein ákvæði hafa ekki verið í lögum um tekjuskatt.
    Í 2. mgr. 5. tölul. er orðalagsbreytingin „Skammtímakröfur“ í stað „Útistandandi kröfur“ í samræmi við IV. kafla laga um ársreikninga. Að öðru leyti er ákvæðið óbreytt.

Um 11. gr.

    Þessi breyting er til samræmingar við breytingu á 59. gr. laganna, sbr. 5. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Markmiðið með þessari breytingu sem hér er lögð til er að auka svigrúm fjármálaráðherra til að flytja einstök verkefna milli skattumdæma, m.a. í því skyni að nýta mannafla skattkerfisins með sem virkustum hætti á hverjum tíma.

Um 13. gr.

    Í heiti VIII. kafla gildandi laga um tekjuskatt er gefið til kynna að kaflinn fjalli að einhverju leyti um yfirskattanefnd. Kaflinn fjallar hins vegar ekki að neinu leyti um yfirskattanefnd og því er lögð til breyting á kaflaheitinu.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku. Miðað er við að ákvæði 1., 2., 3., 4., 5., 8., 9. og 10. gr. öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2008. Þó skulu ákvæði 6. og 7. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2008 og við álagningu tekjuskatts á árinu 2009 vegna tekna og eigna á árinu 2008.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt. Flestar þeirra eru minni háttar og snúa að samræmingu á orðalagi og hugtakanotkun við önnur lög, auk nokkurra leiðréttinga. Tvær breytingar er þó vert að nefna sérstaklega. Í fyrsta lagi er lagt til að ýmsar viðmiðunarfjárhæðir tekjuskattslaganna, þ.e. fjárhæðir vegna sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta, hækki í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008 og hefur þegar verið tekið tillit til tekju- og útgjaldaáhrifa þeirra breytinga í frumvarpinu. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á reglum um greiðslur barnabóta með börnum sem eru heimilisföst í einhverju EES-ríki, í aðildarríki EFTA eða í Færeyjum í því skyni að tryggja betur að íslenskar reglur um rétt til barnabóta samrýmist þeim reglugerðum ESB sem EES-ríkin, þ.m.t. Ísland, þurfa að framfylgja. Áhrif þessa á útgjöld ríkissjóðs vegna barnabóta eru talin óveruleg. Ekki er ástæða til þess að ætla að aðrar tillögur frumvarpsins leiði til teljandi útgjalda við framkvæmd þeirra í skattkerfinu verði þær að lögum.