Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 220  —  4. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur, Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Kristínu Rannveigu Snorradóttur frá umhverfisráðuneyti og Gunnlaugu Einarsdóttur frá Umhverfisstofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Skógrækt ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Náttúrufræðistofnun Íslands, Félag heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Sorpu bs., Samtökum atvinnulífsins, Úrvinnslusjóði og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/ 2006/EB um flutning úrgangs. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs sem ætlað er að koma í veg fyrir ólöglegan flutning á úrgangi auk þess að stuðla að aukinni umhverfisvernd og öruggri meðhöndlun og eyðingu spilliefna og annars hættulegs úrgangs. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að bannað verði að flytja tiltekinn úrgang milli tiltekinna landa til förgunar og endurnýtingar. Lagt er til að Umhverfisstofnun fái gjaldtökuheimild vegna umsýslu við tilkynningar og eftirlit, lagastoð fyrir tilkynningarskyldu verði styrkt og reglur um upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar verði hertar og útfærðar.
    Meginmarkmið reglugerðarinnar er að vernda umhverfið og tryggja að úrgangur sé meðhöndlaður á réttan hátt. Í því skyni leggur hún þá skyldu á aðildarríki að samræma reglur um flutning úrgangs og er frumvarpinu ætlað að veita lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar í heild. Verður það gert með reglugerð þar sem EB-reglugerðin er þýdd og tekin upp í heild.
    Nefndin ræddi nokkuð þær reglugerðarheimildir sem kveðið er á um enda er gert ráð fyrir að þónokkrar upplýsingar séu einungis í reglugerð. Til að mynda er í b-lið 3. gr. (13. gr.) frumvarpsins kveðið á um að bannað sé að flytja tilteknar tegundir úrgangs milli tiltekinna landa. Í ákvæðinu er þó ekki tiltekið um hvaða lönd og úrgang er að ræða enda gert ráð fyrir að þessi atriði verði tilgreind í reglugerð. Nefndin áréttar að lagatexti skuli vera skýr en telur þó jafnframt að það skilyrði sé uppfyllt hér enda er gert ráð fyrir að reglugerð verði lögunum til fyllingar líkt og á við um gildandi lög. Þá áréttar nefndin að í viðauka við EB-reglugerðina er tæmandi upptalning á úrgangstegundunum og löndunum. Breytingar á efni viðaukans verður þá gerð með breytingu á reglugerð þeirri sem verður lögunum til fyllingar.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að eðlilegt væri að ákvarðanir Umhverfisstofnunar um hvort um vöru eða úrgang væri að ræða væru kæranlegar en þær munu skv. 3. mgr. b-liðar 3. gr. frumvarpsins ekki sæta endurskoðun æðra stjórnvalds. Nefndin áréttar þá meginreglu stjórnsýsluréttar að ákvarðanir stjórnvalda séu kæranlegar og leggur því til breytingu á þessu. Nefndin telur þó veigamikil rök lúta að því að ákvarðanir Umhverfisstofnunar fái gildi meðan kæra sé til meðferðar enda eru þær grundvöllur þess að hægt sé að grípa til nauðsynlegra ráðstafana og stöðva farm. Nefndin leggur því til að kæra á ákvörðun stofnunarinnar fresti ekki réttaráhrifum hennar.
    Þá voru nefndinni kynnt þau sjónarmið að þar sem Umhverfisstofnun er tilgreindur eftirlitsaðili með úrgangi skv. d-lið 3. gr. (15. gr.) frumvarpsins gæti eftirlit stofnunarinnar skarast við eftirlit heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna sem taka á móti úrgangi og undirbúa hann til flutnings. Nefndin fékk þær upplýsingar frá ráðuneyti og Umhverfisstofnun að eftirlitið sem mælt er fyrir um í frumvarpinu falli vel að þeim verkefnum sem stofnunin sinnir nú þegar og að það væri ekki sambærilegt því eftirliti sem sinnt er hjá sveitarfélögunum. Því telur nefndin skýrt að ekki verði um skörun að ræða og áréttar jafnframt að nánar verður kveðið á um eftirlit og sýnatöku í reglugerð.
    Nefndinni voru jafnframt kynnt þau sjónarmið að skýring hugtaksins „framleiðandi úrgangs“ væri of rúm þar sem tiltekið er að um sé að ræða aðila sem veldur því að úrgangur myndast. Nefndin áréttar að þótt orðskýringin sé almenn sé gildissvið laganna afmarkað við meðhöndlun úrgangs. Það hugtak er svo nánar skilgreint í lögunum og telur nefndin því um skýrt afmarkaða merkingu að ræða.
    Kveðið er á um greiðslu kostnaðar vegna ólöglegs flutnings og við að taka úrgang til baka í g-lið og h-lið 3. gr. (18. og 19. gr.). Ekki virðist þó skilgreint nægilega hver sé tilkynnandi og telur nefndin hættu á misskilningi hvað þetta varðar. Nefndin áréttar að ákvæði sem þessi skuli vera skýr og leggur því til að bætt verði við frumvarpið skilgreiningu á tilkynnanda í samræmi við 2. gr. reglugerðarinnar.
    Gerðar voru athugasemdir við kostnaðarmat frumvarpsins þar sem miðað er við að 20–30 farmar úrgangs séu fluttir úr landi á ári. Umsagnaraðili benti réttilega á að farmafjöldinn væri órökstuddur og ekki réttur. Nefndin fékk þær upplýsingar að fjárhæðir kostnaðarmatsins væru réttar en hins vegar væri villa í texta þess. Þannig miðar það við að á ári séu gerðar 20–30 tilkynningar og fékkst sá fjöldi staðfestur hjá Umhverfisstofnun. Stofnunin benti jafnframt á að fjöldi farma væri hins vegar meiri enda getur hver tilkynning gilt um fleiri en einn farm sé úrgangur í honum af sömu tegund.
    Nefndin leggur til þá breytingu að við frumvarpið bætist ákvæði sem aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af reglugerðinni sem frumvarpinu er ætlað að innleiða. Í skýrslu utanríkismálanefndar Alþingis frá 8. október 2008 segir að frá árinu 2000 hafi verið gert ráð fyrir því að sá háttur sé hafður á að utanríkisráðherra leggi tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi vegna EES-gerða sem kalli á lagabreytingar. Þær breytingar séu síðan lagðar fram í formi frumvarps af fagráðherra samhliða því sem EES-þingsályktunartillagan sé lögð fyrir þingið eða í framhaldi af samþykkt hennar. Eitthvað hefur þó borið á því að lagt sé til að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt með frumvarpsákvæði en slíkt verður til þess að þingið fær ekki gerðina sjálfa birta í þingskjali. Þó svo að nefndin leggi hér til þá breytingu að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt með frumvarpsgrein áréttar hún mikilvægi þess að samræma framkvæmd þess hvernig ríkisstjórninni er veitt heimild til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og aflétta þannig stjórnskipulegum fyrirvara af EES-gerðum sem kalla á lagabreytingar hér á landi.
    Að lokum leggur nefndin til breytingar til leiðréttingar á texta og vísunum milli greina.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Vigdís Hauksdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júlí 2009.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Birgir Ármannsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Kristján Þór Júlíusson.