Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 716  —  191. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (einföldun samruna- og skiptingarreglna o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson og Þóru Hjaltested frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Skúla Jónsson, Bryndísi Gunnlaugsdóttur og Aðalstein Hákonarson frá ríkisskattstjóra, Vilhjálm Egilsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jónas Rafn Tómasson frá KPMG og Pétur Stein Guðmundsson frá Deloitte. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Deloitte, KPMG, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar annars vegar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og hins vegar á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Í 1. gr. þess er lagt til að ákveðið skilyrði 59. gr. hlutafélagalaga verði afnumið. Umrædd lagagrein heimilar hlutafélagi að fara tímabundið og við ákveðnar aðstæður, sem vikið er að í 2.–4. tölul. 57. gr. og 58. gr., með eignarhald á eigin hlutum yfir lögbundnum mörkum sem eru sett miðað við 10% af hlutafé. Samkvæmt gildandi rétti ber félaginu að koma eignarhaldinu í lögbundið horf „þegar unnt er að gera það án tjóns fyrir félagið og“ í síðasta lagi þremur árum eftir öflun þeirra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tilvitnað orðalag falli brott sem þýðir að fresturinn verður ekki matskenndur heldur miðast við ákveðið tímamark. Breytingin er lögð til með hliðsjón af EES-samningnum en hliðstætt skilyrði er ekki að finna í lögum um einkahlutafélög.
    Í annan stað eru lagðar til breytingar á grundvelli tilskipunar 2009/109/EB sem hafa að markmiði að létta stjórnsýslulegar byrðar sem hvíla á hlutafélögum og einkahlutafélögum í tilviki samruna eða skiptingar.
    Lögð er til sú breyting í a- og b-lið 3. gr. frumvarpsins að félagsstjórnir samrunafélaga verði undanþegnar skyldu til að semja greinargerð um samrunaáætlunina, eins og tilskilið er í 121. gr. hlutafélagalaga, þegar hluthafar eru því allir samþykkir. Hluthöfum verði jafnframt heimilt að taka þess háttar ákvörðun utan hluthafafundar ef þeir kjósa enda færi þeir á hana sönnur en verði ákvörðun tekin á hluthafafundi ber að senda hlutafélagaskrá fundargerðina. Samsvarandi breytingar eru lagðar til í a- og b-lið 8. gr. frumvarpsins sem varðar einkahlutafélög.
    Í c-lið 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. málsl. 2. mgr. 121. gr. laganna en lagagreinin mælir fyrir um að endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur sem skal fylgja greinargerð félagsstjórnar sé miðaður við uppgjörsdag. Í frumvarpsgreininni er lagt til að ekki þurfi að miða við uppgjörsdag ef hluthafar samþykkja allir að falla frá milliuppgjöri og það sama eigi við ef sérreglur gilda um félög skráð á markaði. Þá megi uppgjörsdagur ekki vera meira en sex mánuðum fyrir undirritun samrunaáætlunar, sbr. d-lið 3. gr. frumvarpsins. Samsvarandi breytingar eru lagðar til í c- og d-lið 8. gr. frumvarpsins sem varðar einkahlutafélög.
    Í a-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að félagsstjórn skuli á hluthafafundi þar sem ákvörðun um samruna er tekin upplýsa um atvik sem hafa verulega þýðingu frá því að samrunaáætlun var undirrituð og fram að fundinum nema hluthafar samþykki annað samhljóða.
    Í b-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að tilgreind samrunagögn séu lögð fram til skoðunar fyrir hluthafa á skrifstofu samrunafélags og látin einstökum hluthöfum í té án endurgjalds verði viðkomandi félagi heimilt að birta skjölin á vef félagsins eða öðrum viðurkenndum vef.
    Í c-lið 4. gr. frumvarpsins er lögð til breyting sem tengist þeim breytingum sem lagðar eru til í c- og d-lið 3. gr. Í henni felst að efnahags- og rekstrarreikning fyrir liðinn hluta yfirstandandi reikningsárs áður en upphafsefnahagsreikningur, sem getið er í 2. mgr. 121. gr., er gerður fyrir yfirtökufélagið er aðeins skylt „eftir því sem við á“ að leggja fram til skoðunar á skrifstofu félags, láta hluthöfum í té eða birta.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. málsl. 2. mgr. 133. gr. laganna sem nú mælir fyrir um að við skiptingu félags skuli í greinargerð félagsstjórnar greint sérstaklega frá samningu sérfræðiskýrslu á grundvelli 6., 7. og 8. gr. hlutafélagalaganna vegna greiðslu í öðru en reiðufé til hluthafa félagsins sem skipt er, svo og að skýrslan verði send hlutafélagaskrá. Frumvarpsgreinin mælir fyrir um að orðin „eftir því sem við á“ komi á eftir orðinu sérfræðiskýrslu en benda má á nú þegar er í upphafsmálslið 2. mgr. 133. gr. laganna mælt fyrir um að umrædd ákvæði hlutafélagalaganna skuli gilda um skiptingu eftir því sem við á. Samsvarandi breyting er lögð til í 10. gr. frumvarpsins.
    Loks er í 6. og 11. gr. frumvarpsins lagt til að bætt verði við refsiákvæði er lýtur að brotum á upplýsingagjöf á fundi um samruna.
    Við umfjöllun nefndarinnar lýsti ríkisskattstjóri verulegum áhyggjum af því sem fram kemur í c-lið, d-lið 3. gr. og c-lið 4. gr. annars vegar og a-lið 4. gr. frumvarpsins hins vegar. Fulltrúar embættisins bentu á að það fengi illa samræmst meginreglunni um að hluthafafundur sé æðsta vald í málefnum félagsins að heimila hluthöfum að taka ákvarðanir utan fundar. Einnig lýstu þeir áhyggjum ef hluthafar gætu samþykkt samhljóða að falla frá því að skila inn sameiginlegum efnahags- og rekstrarreikningi með hliðsjón af hagsmunum kröfuhafa sem samrunareglum hlutafélagalaga og reglum um skiptingu er ætlað að standa vörð um. Heimildin væri ekki til þess fallin að létta stjórnsýslubyrðum af félögum þar sem gerð slíkra gagna væri eðlilegur þáttur í samrunaferli og hefðu þýðingu fyrir eftirlit ríkisskattstjóra. Sama var sagt um þá tillögu frumvarpsins sem ætlað er að undanþiggja félagsstjórn skyldu til að upplýsa hluthafa um verulegar breytingar sem eiga sér stað frá því að samrunaáætlun er undirrituð og fram að fundinum ef hluthafar samþykkja samhljóða. Bent var á að flestar þeirra tillagna sem birtast í framangreindum ákvæðum væri ekki skylt að innleiða samkvæmt tilskipun 2009/109/EB. Fulltrúar KPMG bentu við meðferð málsins á tiltekinn óskýrleika í c- og d-lið 3. gr. og hliðstæðum ákvæðum í c- og d-lið 8. gr.
    Með hliðsjón af athugasemdum ríkisskattstjóra lagði efnahags- og viðskiptaráðuneyti til við nefndina að ákvæðum frumvarpsins yrði breytt með eftirfarandi hætti:
    Lögð verði til sú breyting á a-lið 3. gr. frumvarpsins að skýrt komi fram að allir hluthafar félagsins, ekki aðeins þeir sem sækja hluthafafund, skuli samþykkja samhljóða á fundinum að ekki þurfi greinargerð stjórnar um samrunaáætlun. Ekki verði með öðrum orðum gert ráð fyrir samþykki hluthafa utan hluthafafundar. Þá verði bætt við að senda skuli hlutafélagaskrá endurskoðaðan sameiginlegan efnahags- og rekstrarreikning.
    Í b-lið 3. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að félagsstjórnir skuli ætíð annast um að saminn sé endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur þrátt fyrir að fallið sé frá samningu greinargerðar en gildandi 121. gr. hlutafélagalaga gerir ráð fyrir að reikningurinn fylgi greinargerð stjórnarinnar.
    Þá er bætt við í c-lið 3. gr. frumvarpsins í samræmi við skyldu í tilskipuninni að tilgreind félög sem gefið hafa út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 1. mgr. 87. gr. a, sbr. og 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um ársreikninga, og ber að semja árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins verði heimilt að falla frá samningu endurskoðaðs sameiginlegs efnahags- og rekstrarreiknings ef allir hluthafar félagsins samþykkja það samhljóða á hluthafafundi og að því gefnu að þau hafi skilað inn milliuppgjöri og gert það aðgengilegt öllum hluthöfum. Tillagan gerir ráð fyrir að hlutafélagaskrá verði sent afrit af fundargerð hluthafafundarins þar sem þetta er samþykkt.
    Samsvarandi breytingar og lagðar eru til á 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til við 8. gr. þess en síðarnefnda greinin varðar einkahlutafélög. Af þessum breytingum leiðir einnig að 2. og 7. gr. verða felldar brott af tæknilegum ástæðum.
    Enn fremur leggur ráðuneytið til við nefndina að felld verði brott heimild hluthafa til að víkja til hliðar skyldu félagsstjórnar til að upplýsa um atvik sem hafa verulega þýðingu frá því að samrunaáætlun var undirrituð og fram að hluthafafundi eins og lagt er til í a-lið 4. gr. frumvarpsins. Samsvarandi breyting er lögð til á 9. gr. frumvarpsins. Ráðuneytið leggur einnig til að við umræddar frumvarpsgreinar verði aukið ákvæði sem ætlað er að laga 124. gr. hlutafélagalaga og 99. gr. einkahlutafélagalaga að þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu á 121. og 122. gr. hlutafélagalaga og 96. og 97. gr. einkahlutafélagalaga.
    Í tillögum ráðuneytisins eru auk þessa gerðar tillögur um endurskoðun á ákvæðum í hlutafélagalögum og einkahlutafélagalögum varðandi skýrslu óháðra, sérfróðra matsmanna um samrunaáætlun sem verði til samræmis við framangreindar breytingar varðandi skýrslu stjórnar um áætlunina. Þar er gert ráð fyrir að ákvörðun um að gera ekki kröfu um skýrslu matsmanna sé gerð á hluthafafundi og því bætt við að senda skuli hlutafélagaskrá afrit af fundargerð fundarins ásamt endurskoðuðum sameiginlegum efnahags- og rekstrarreikningi fyrir félögin.
    Nefndin áréttar að lokum að af þeim breytingum sem lagðar eru til við 3. og 8. gr. frumvarpsins leiðir að félagsstjórn skuli ætíð láta útbúa endurskoðaðan sameiginlegan efnahags- og rekstrarreikning þrátt fyrir að hluthafar samþykki einróma að ekki skuli samin greinargerð stjórnar. Eina undantekningin frá því varðar félög er falla undir 87. gr. a laga nr. 3/2006, um ársreikninga, þar sem umræddum félögum er skylt að gera milliuppgjör sem aðgengileg eru hluthöfum. Undantekningin leiðir af framangreindri Evróputilskipun sem aðildarríkjunum er skylt að lögleiða að þessu leyti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lilja Mósesdóttir styður álitið með fyrirvara.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir og Magnús Orri Schram voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Margrét Tryggvadóttir áheyrnarfulltrúi styður álitið.

Alþingi, 18. janúar 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Skúli Helgason.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Birkir Jón Jónsson.



Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.