Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 757  —  198. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning
við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson, Hellen Gunnarsdóttur, Friðriku Harðardóttur og Margréti Magnúsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Einari Steingrímssyni, Rannís – Rannsóknarmiðstöð Íslands, Vísindanefnd Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að Rannsókna- og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir. Nafni Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo að hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna. Jafnframt verði fagráði Innviðasjóðs komið á laggirnar. Einnig er lagt til að skipuð verði ein sameiginleg stjórn um Rannsókna- og Innviðasjóð. Að lokum kveður frumvarpið á um að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð og formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs verði ekki jafnframt formaður stjórnar Rannsóknasjóðs.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heiti Tækjasjóðs verði breytt í Innviðasjóð og verður hlutverk hans að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Hann mun veita styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram athugasemdir um smæð sjóðsins sem og mikla þörf fyrir uppbyggingu innviða. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur rétt að með víðtækara hlutverki sé eðlilegt að stefnt verði að því að sjóðurinn stækki. Nefndin bendir á að í fjárfestingaáætlun 2013–2015 er gert ráð fyrir stækkun helstu opinberu samkeppnissjóðanna, þ.e. Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Markáætlunar, en Tækjasjóður er þar undanþeginn. Í norrænu og öðru evrópsku rannsóknarstarfi er einnig lögð áhersla á uppbyggingu rannsóknarinnviða og framtíðarskipulag. Það er álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að marka stefnu um uppbyggingu og skipulag rannsóknarinnviða ásamt því að fjalla um alþjóðlegt samstarf á því sviði.
    Í frumvarpinu er lagt til að starfandi verði þrír sjóðir, Rannsóknasjóður, Innviðasjóður og Markáætlun á sviði vísinda og tækni. Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja betri samfellu milli þeirra sjóða sem styrkja vísindarannsóknir. Nefndin vill í þessu sambandi árétta mikilvægi þess að úthlutanir úr vísindasjóðum séu trúverðugar og byggðar á samkeppnisgrundvelli.
    Í frumvarpinu er lagt til að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt lagastoð, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að sérstakri stjórn verði falið að fara með málefni Markáætlunar. Fram kemur í 2. mgr. nýrrar 9. gr. laganna samkvæmt frumvarpinu að Vísinda- og tækniráði verði falið að marka áherslur nýrrar Markáætlunar. Stjórn Markáætlunar setur reglur varðandi umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs. Nefndin beinir því til Vísinda- og tækniráðs að hafa samkeppnissjónarmið að leiðarljósi þegar hún markar áherslur nýrrar Markáætlunar.
    Markáætlun er mikilvæg leið fyrir stjórnvöld til að leggja nýjar áherslur og byggja upp árangursríkt samstarf á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Til að árétta vítt hlutverk Markáætlunar leggur nefndin til þær breytingar að áætlunin muni einnig ná til nýsköpunar.
    Fram kemur í nýrri 10. gr. laganna samkvæmt frumvarpinu að niðurstöður rannsókna sem kostaðar eru með styrkjum úr sjóðum er falla undir lögin skuli birtar í opnum aðgangi og vera tiltækar nema samið sé um annað. Um nýmæli er að ræða. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2010–2012, Byggt á styrkum stoðum, er fjallað um mikilvægi þess að tryggja opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna sem styrktar eru af opinberu fé. Opinn aðgangur að vísindagreinum felur í sér að birtar greinar séu aðgengilegar á rafrænu formi án endurgjalds fyrir notendur sem stuðlar að skilvirkari miðlun rannsóknaniðurstaðna og þar með nýtingu þeirra og möguleikum á aukinni verðmætasköpun. Nefndin bendir á að á fundi Vísinda- og tækniráðs hinn 25. júní 2010 samþykkti Vísinda- og tækniráð að undirrita Berlínaryfirlýsinguna um opinn aðgang, en um er að ræða alþjóðlegan sáttmála um opinn aðgang sem hefur það að markmiði að stuðla að eflingu vísinda og nýsköpunar. Hinn 12. september sl. undirritaði Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn yfirlýsinguna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „og tækni“ hvarvetna í b–d-lið 5. gr. og 6. gr. komi: tækni og nýsköpunar.

Alþingi, 18. desember 2012.

Björgvin G. Sigurðsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
frsm.
Skúli Helgason.

Þráinn Bertelsson.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Tryggvi Þór Herbertsson.
Siv Friðleifsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.