Ferill 644. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1050  —  644. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga).

Frá heilbrigðisráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Orðin „að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda“ í 3. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sjúkratryggingastofnun ber að upplýsa framangreinda aðila um fyrirhugaða upplýsingaöflun skv. 3. mgr. eins og hægt er hverju sinni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er lagt fram vegna nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2018. Þau öðluðust gildi 15. júlí 2018 og féllu þar með úr gildi lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með síðari breytingum. Með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga var lögfest hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga eins og hún hefur verið löguð að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reglugerðin kom til framkvæmda innan Evrópusambandsins 25. maí 2018 og leysti af hólmi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.
    Frumvarp þetta er unnið í tengslum við frumvarp dómsmálaráðuneytisins er varð að lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá var settur á fót samráðshópur allra ráðuneyta sem hafði það hlutverk að fara yfir ákvæði sérlaga sem varða vinnslu persónuupplýsinga í samvinnu við þær stofnanir sem starfa á grundvelli hlutaðeigandi laga í því skyni að meta hvaða breytingar kunna að vera nauðsynlegar vegna hinna nýju persónuverndarreglna. Yfirferð samráðshópsins leiddi í ljós að í tengslum við innleiðingu gerðarinnar þyrfti að gera efnislegar breytingar á ákvæðum ýmissa laga. Með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga voru aðeins gerðar lágmarksbreytingar á hinum ýmsu lögum sem nauðsynlegar þóttu vegna beinna tilvísana til eldri laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í kjölfar vinnslu frumvarps þess er varð að lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, var gert ráð fyrir að hvert og eitt ráðuneyti myndi ráðast í frekari efnislega endurskoðun á ákvæðum laga sem falla undir málefnasvið viðkomandi ráðuneytis. Undir málefnasvið heilbrigðisráðherra falla ýmis lög sem varða mikilvæg réttindi og skyldur almennra borgara þar sem vinna þarf með persónuupplýsingar um einstaklinga. Oft er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða, svo sem upplýsingar um heilsufar. Það er mikilvægt að vinnsla slíkra upplýsinga sé vönduð og í samræmi við lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og því er þetta frumvarp lagt fram.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt viðkomandi lögum samræmist ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps þessa þykir ekki gefa sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar þar sem um er að ræða breytingar á ákvæði laga í því skyni að tryggja að þau gangi ekki gegn ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var samið í heilbrigðisráðuneytinu í samráði við Sjúkratryggingar Íslands. Áform um gerð frumvarpsins voru kynnt öðrum ráðuneytum.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta hefur ekki í för með sér breytingar í tengslum við þá þjónustu sem Sjúkratryggingastofnun er ætlað að veita heldur gerir frumvarpið ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á ákvæðum laga til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli viðkomandi laga samræmist ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ekki er talið að frumvarpið muni hafa áhrif á almannahagsmuni eða helstu hagsmunaaðila.
Hér er einungis verið að leggja til breytingar á ákvæðum til samræmis við lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar frá gildandi rétti og því ekki tilefni til að ætla að það stuðli að mismunun á grundvelli kynjanna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á tekjur eða útgjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 34. gr. laga um sjúkratryggingar er kveðið á um heimild Sjúkratryggingastofnunar til að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjenda hjá skattyfirvöldum og greiðslur til umsækjenda hjá Tryggingastofnun ríkisins, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis, þegar það á við, með rafrænum hætti eða á annan hátt. Í gildandi lögum er kveðið á um að skilyrði fyrir framangreindri heimild Sjúkratryggingastofnunar sé að umsækjandi hafi veitt skriflegt samþykki fyrir öflun upplýsinganna.
    Hér er gert ráð fyrir að skilyrðið um að fyrir liggi skriflegt samþykki framangreindra aðila til að Sjúkratryggingastofnun sé heimilt að afla upplýsinga um tekjur verði fellt brott úr 3. mgr. 34. gr. laganna. Er það gert þar sem þær upplýsingar sem hér um ræðir eru nauðsynlegar til að Sjúkratryggingastofnun sé unnt að meta hvort einstaklingur eigi rétt til greiðslna frá stofnuninni og ákvarða fjárhæð þeirra og því má ætla að krafa um samþykki viðkomandi fyrir öflun upplýsinganna hafi ekki þýðingu í þessu sambandi. Því er gert ráð fyrir að Sjúkratryggingastofnun verði áfram heimilt að afla þeirra upplýsinga sem kveðið er á um í ákvæðinu enda eingöngu um nauðsynlegar upplýsingar að ræða til að unnt sé að meta hvort umsækjandi um greiðslur uppfylli skilyrði laganna og eftir atvikum hversu háum greiðslum hann eigi rétt á.
    Lagt er til að við ákvæðið bætist ný málsgrein, sem verði 6. mgr., þar sem kveðið er á um að upplýsingaöflun sjúkratryggingastofnunar samkvæmt ákvæðinu sé tilkynnt til hlutaðeigandi aðila áður en hún á sér stað eins og hægt er. Er þannig gert ráð fyrir að slíkar upplýsingar séu veittar skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert til þess að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum.
    Þá ber að nefna að krafa um umrætt samþykki þykir eðli málsins samkvæmt ekki samrýmast ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og þykir því nauðsynlegt að fella þá kröfu brott.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.