Ferill 909. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2080  —  909. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um framkvæmd opinberra skipta dánarbúa.


     1.      Eftir hvaða reglum starfa skiptastjórar dánarbúa við framkvæmd opinberra skipta og hvar er þær að finna?
    Reglur um störf skiptastjóra dánarbúa er að finna í V.–X. kafla laga, nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Skipaður skiptastjóri telst opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir starfanum og ber ábyrgð á tjóni sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum, sbr. 48. gr. laganna.

     2.      Hver eru launakjör skiptastjóra og hvernig eru þau ákvörðuð?
    Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 20/1991 á skiptastjóri rétt til þóknunar fyrir störf sín sem greiðist af búinu eða þeim sem ábyrgst hefur greiðslu skiptakostnaðar skv. 41. gr. laganna. Launakjörin eru ákveðin með tilliti til vinnuframlags hans, sem er viss fjárhæð fyrir hverja vinnustund, og miða lögskýringargögn við að þóknunin skuli standa í eðlilegu samræmi við vinnuframlag skiptastjórans.
    Þegar sýslumaður hefur beðið um opinber skipti, eins og honum ber að gera við tilteknar aðstæður samkvæmt reglum 37. gr. laga nr. 20/1991, greiðist skiptakostnaður úr ríkissjóði ef eignir búsins hrökkva ekki fyrir kostnaðinum. Skiptastjóri sendir þá reikning ásamt tímaskýrslu til samþykktar hjá þeim sýslumanni sem óskaði skiptanna. Sýslumenn yfirfara reikninga og tímaskýrslur og gera eftir atvikum athugasemdir sem hafa leitt til lækkunar reikninga í einhverjum tilvikum.

     3.      Hvaða aðkomu hefur skiptastjóri að ákvörðunum um verðmat á eignum dánarbús?
    Samkvæmt 54. gr. laga nr. 20/1991 þarf skiptastjóri annaðhvort að afla mats á verðmæti eigna samkvæmt ákvæðum 17.–23. gr. laganna eða að erfingjar og skiptastjóri fallist á fyrirliggjandi verðmat. Ákvæði 17.–23. gr. laganna taka til mats sem skiptastjóri krefst á eignum bús og nýtur hann þá þeirrar stöðu sem erfingjum er þar veitt. Komi upp ágreiningur um matið sem skiptastjóri hefur aflað skv. 17.–23. gr. laganna skal hann leitast við að jafna þann ágreining. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. laganna.

     4.      Hvernig er eftirliti með störfum skiptastjóra háttað? Annast sérstök stjórnsýslustofnun eða nefnd slíkt eftirlit ásamt upplýsingagjöf til erfingja? Ef ekki, hyggst ráðherra leggja til breytingar á því fyrirkomulagi?
    Samkvæmt 47. gr. laga nr. 20/1991 er eftirlit með störfum skiptastjóra annars vegar í höndum erfingja og annarra þeirra sem hafa uppi kröfur á hendur búinu og hins vegar héraðsdómarans sem skipaði hann. Erfingjum og öðrum þeim sem hafa uppi kröfur á hendur búinu er heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómara. Berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um aðfinnslur um skiptastjóra ber honum að bregðast við og kveðja skiptastjóra á sinn fund. Héraðsdómara er jafnframt heimilt að kveðja fleiri á sinn fund af slíku tilefni.
    Telji héraðsdómari aðfinnslur um skiptastjóra á rökum reistar getur hann gefið honum kost á að bæta úr innan tiltekins frests. Verði skiptastjóri ekki við því eða ef framferði hans í starfi hefur annars verið slíkt að ekki verði talið réttmætt að gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum skal héraðsdómari víkja honum úr starfi þegar í stað með úrskurði skv. 2. mgr. 47. gr. laganna. Héraðsdómari skal með sama hætti víkja skiptastjóra úr starfi ef hann setur ekki tryggingu skv. 5. mgr. 46. gr. innan tilskilins frests eða fullnægir ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 46. gr. Fallist héraðsdómari ekki á að víkja skiptastjóra úr starfi getur sá sem hafði uppi aðfinnslur um störf hans krafist úrskurðar héraðsdómara um hvort skiptastjóranum verði vikið frá. Með sama hætti getur sá sem á kröfu á hendur búinu og telur skiptastjóra ekki fullnægja skilyrðum 2. mgr. 46. gr. krafist þess að héraðsdómari kveði á um það með úrskurði hvort skiptastjóra verði vikið frá af þeim sökum, sbr. 3. mgr. 47. gr. laganna.
    Eftir því sem þörf krefur gefur skiptastjóri skýrslur til yfirvalda um fjármuni búsins og rekstur þess, t.d. með því að telja fram til skatts. Hafi skiptum ekki verið lokið innan sex mánaða frá því að búið var tekið til opinberra skipta skal skiptastjóri enn fremur gera yfirlit yfir efnahag og rekstur búsins, en upp frá því um hver áramót og mitt hvert ár þar til skiptum er lokið. Bæði erfingjar og hver sá sem hefur lýst kröfu í búið en hefur ekki fengið efndir hennar geta krafist þess að fá að sjá reikninga búsins. Komi fram krafa þess efnis, eða skiptastjóri metur sérstaka ástæðu til, getur hann sömuleiðis á kostnað búsins falið löggiltum endurskoðanda að gera reikninga búsins eða endurskoða þá, sbr. 49. gr. laganna. Þegar opinberum skiptum lýkur ekki skv. 72.–74. gr. laganna, lýstar kröfur á hendur búinu hafa eftir atvikum verið efndar og eignum þess hefur verið komið í verð að öðru leyti en því sem leiðir af fyrirmælum 75. og 76. gr., ber skiptastjóra að gera frumvarp til úthlutunar úr búinu. Í frumvarpinu skal m.a. tilgreina eignir búsins og verðmæti þeirra, sbr. 77. gr. laganna. Í kjölfarið ber skiptastjóra að boða erfingja, umboðsmenn þeirra, lögráðamenn eða málsvara, til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar. Erfingjar geta krafist aðgangs að gögnum um reikningshald búsins á skiptafundi og haft uppi mótmæli á fundinum gegn frumvarpinu, sbr. 78. gr. Fallist skiptastjórinn ekki á framkomin mótmæli og skiptastjóra tekst ekki að jafna ágreininginn ber honum skv. 79. gr. laganna að beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. laganna.
    Rétt þykir að vekja athygli á því að skv. 8. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, hafa bæði sýslumenn og ríkisskattstjóri ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna við lok opinberra skipta. Sýslumönnum ber að yfirfara erfðafjárskýrsluna og frumvarp skiptastjórans til úthlutunar úr búinu og meta hvort eignir og skuldir hafi verið taldar réttilega fram. Yfirferðin tekur þó ekki til þóknunar skiptastjórans, enda er skiptakostnaður ekki frádráttarbær frá skattstofni erfðafjárskatts. Að lokinni yfirferð tekur sýslumaður ákvörðun um álagningu erfðafjárskatts og sendir erfðafjárskýrsluna í kjölfarið til ríkisskattstjóra sem yfirfer hana á ný.
    Sýslumenn sinna upplýsingagjöf til erfingja samkvæmt ákvæðum laga nr. 20/1991. Upplýsingar eru m.a. veittar við tilkynningu andláts, á vefsíðu sýslumanna og þegar erfingjar leita til sýslumanna. Sýslumenn veita upplýsingar þeim sem til þeirra leita, þar á meðal leiðbeiningar um réttinn til að beina aðfinnslum til héraðsdómara vegna starfa skiptastjóra, og það þótt dánarbú hafi verið tekið til opinberra skipta. Að auki geta aðilar aflað leiðbeininga hjá dómstólunum.
    Eins og lýst hefur verið hér að framan er eftirlit með störfum skiptastjóra ekki í höndum sérstakrar stjórnsýslustofnunar eða nefndar. Þá sinna sýslumenn upplýsingagjöf til erfingja. Hjá dómstólunum eru haldnar skrár um kröfur um opinber skipti og ágreiningsmál sem rekin eru vegna opinberra skipta, sbr. 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 136/1992 um dánarskrár, gerðabækur og málaskrár vegna skipta á dánarbúum o.fl., en að auki munu héraðsdómstólarnir skrá og halda sérstaklega utan um tímalengd opinberra skipta og viðhafa það verklag að fylgja skiptunum eftir hafi þeim ekki verið lokið innan 12 mánaða. Framkvæmdin hingað til hefur ekki gefið tilefni til breytinga á þessu fyrirkomulagi. Tekið skal fram að dómstólasýslan hefur til skoðunar að setja samræmdar reglur um skipan skiptastjóra. Ráðherra telur rétt að afla frekari upplýsinga frá dómstólasýslunni um eftirlit með skiptastjórum. Að fengnum frekari upplýsingum verður unnt að taka ákvörðun um hvort nauðsyn sé á breyttu fyrirkomulagi.

     5.      Telur ráðherra forsvaranlegt að eftirlit með störfum skiptastjóra sé í höndum erfingja? Ef svo er, hvers vegna? Ef ekki, hyggst ráðherra leggja til sérstakar breytingar vegna þess?
    Eins og fyrr greinir er eftirlit með störfum skiptastjóra ekki aðeins í höndum erfingja heldur jafnframt héraðsdómarans sem skipaði skiptastjórann og annarra þeirra sem hafa uppi kröfur á hendur búinu. Að auki fara sýslumenn með ákveðið eftirlitshlutverk við lok opinberra skipta og álagningu erfðafjárskatts. Þá telst skipaður skiptastjóri opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir starfanum og ber ábyrgð á tjóni sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum, sbr. 48. gr. laganna.
    Þegar erfingjar hafa hagsmuni af framvindu opinberra skipta hlýtur að fara best á því að þeir gæti eigin hagsmuna. Það má nefna að skiptastjóri er, eins og fyrr greinir, opinber sýslunarmaður við rækslu starfans og skv. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 20/1991 ber honum að gæta bersýnilegra hagsmuna erfingja eða kröfuhafa sem ekki sækja skiptafund eða hafa ekki gefið sig fram. Hefur fyrirkomulagið hingað til ekki gefið tilefni til breytinga.

     6.      Hyggst ráðherra framkvæma úttekt á störfum skiptastjóra?
    Stjórn dómstólasýslunnar hefur haft til skoðunar hvort þörf sé á sérstakri úttekt á störfum skiptastjóra en ekki tekið afstöðu til þess að svo stöddu. Að mati ráðherra er rétt að afstaða dómstólasýslunnar liggi fyrir áður en tekin er ákvörðun um það efni.

     7.      Eru til gögn, samantektir eða upplýsingar um matsvirði fasteigna dánarbúa samanborið við raunvirði þeirra samkvæmt markaðsverði?
    Slík gögn eða samantektir eru ekki til staðar. Séu fasteignir metnar til peningaverðs að beiðni skiptastjóra skv. 17.–23. gr. laganna heldur sýslumaður eftir frumriti eignaskrár þar sem matsverðs eigna er getið eftir því sem hefur verið krafist, sbr. 21. gr. laganna. Gögnin eru til staðar í málaskrám sýslumanna en sérstakar samantektir á matsvirði og raunvirði liggja ekki fyrir. Þá ber jafnframt að nefna að skiptastjóra ber að tilkynna héraðsdómara skriflega þegar skiptum lýkur og með þeirri tilkynningu skal fylgja úthlutunargerð skiptastjóra, sbr. 2. mgr. 80. gr. laganna, þar sem fram koma m.a. upplýsingar um verðmæti eigna. Gögnin liggja því bæði í málaskrám sýslumanna og dómstóla.

     8.      Hver eru réttindi erfingja, önnur en að höfða dómsmál, ef uppi er óánægja með störf skiptastjóra?
    Erfingjum eða öðrum þeim sem hafa uppi kröfur á hendur búinu er heimilt að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómara. Berist héraðsdómara með öðrum hætti vitneskja um aðfinnslur um skiptastjóra ber honum að bregðast við og kveðja skiptastjóra á sinn fund, sbr. 1. mgr. 47. gr. Fallist héraðsdómarinn ekki á að víkja skiptastjóra úr starfi getur sá sem hafði uppi aðfinnslur um störf hans krafist úrskurðar héraðsdómara um það efni, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Samkvæmt framangreindu þurfa erfingjar því ekki að höfða dómsmál til að lýsa yfir óánægju með störf skiptastjóra. Auk framangreinds geta erfingjar kvartað við skiptastjórann sjálfan og kvartað yfir störfum hans til Lögmannafélags Íslands sem fer með eftirlit með lögmönnum en almennt eru skiptastjórar starfandi lögmenn.

     9.      Telur ráðherra tímabært að breyta því fyrirkomulagi að ekki sé unnt að áfrýja ákvörðun héraðsdómara um skiptastjóra, sbr. 5. mgr. 46. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl., nr. 20/1991?
    Samkvæmt 6. mgr. 46. gr. laga nr. 20/1991 verður ákvörðun héraðsdómara um skipun manns í starf skiptastjóra ekki skotið til æðra dóms. Ráðherra telur rétt að bíða úttektar dómstólasýslunnar á störfum skiptastjóra áður en slík ákvörðun yrði tekin.