Ferill 857. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1816  —  857. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um aðgengi hreyfihamlaðra að almenningssamgöngum á landsbyggðinni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra tryggja að gerð verði krafa um aðgengi hreyfihamlaðra að hópbifreiðum, sem gegna hlutverki almenningssamgangna, í útboði Vegagerðarinnar á rekstri almenningssamgangna á landsbyggðinni? Ef svo er, hvernig?

    Í bréfi sínu til Vegagerðarinnar 30. desember 2019 fór samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þess á leit við Vegagerðina að hún tæki að sér framkvæmd á stefnu ríkisins í almenningssamgöngum milli byggða eins og hún birtist í tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Landshlutasamtök sveitarfélaga höfðu haft verkefnið með höndum síðan árið 2012.
    Útboð Vegagerðarinnar á almenningssamgöngum hefur nú verið birt á útboðsvef Ríkiskaupa. Í grófum dráttum má segja að Vegagerðin beri ábyrgð á meginleiðum almenningssamgangna, þ.e. leiðum sem segja má að tengi saman sveitarfélög á landinu og höfuðborgarsvæðið við aðra landshluta. Aðrar almenningssamgöngur eru á vegum sveitarfélaga eftir því sem þau ákveða hvert um sig. Biðstöðvar og samgöngumiðstöðvar eru á vegum sveitarfélaga. Um þær gilda lög um mannvirki eftir því sem ástæða er til.
    Útboði Vegagerðarinnar er skipt upp í fjóra útboðshluta eftir landsvæðum. Í hverjum hluta er gerð krafa um að að lágmarki verði einn vagn með lyftu fyrir hjólastól til reiðu. Gerð er krafa um að þessir vagnar verði komnir i notkun í síðasta lagi 1. janúar 2022, einu ári eftir að útboðið tekur gildi. Því verða fjórir vagnar með lyftubúnaði fyrir hjólastóla komnir í notkun í síðasta lagi eftir rúmt ár.
    Gert er ráð fyrir að þeir sem hyggjast nota þjónustu þessara sérútbúnu vagna tilkynni það með 24 klst. fyrirvara. Með þeim hætti yrði tryggt að sérútbúinn vagn verði til taks þar sem hans verður þörf hverju sinni. Þannig yrði tryggt að sá vagn yrði hluti af þeirri áætlun sem starfrækt væri.
    Í tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 er það gert að markmiði að gerð verði greining á leiðum til þess að tryggja að aðgengi fatlaðs fólks og hreyfihamlaðs að almenningssamgöngum milli byggða verði eins og best verði á kosið.