Ferill 784. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1889  —  784. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um skráningu raunverulegra eigenda.


     1.      Hvers vegna eru lögaðilar, sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir, undanþegnir skráningu raunverulegra eigenda samkvæmt lögum nr. 82/2019, en ekki lögaðilar sem hafa ófjárhagslegan tilgang, svo sem almannaheillasamtök, foreldrafélög, áhugamannafélög o.s.frv.?
    Með lögum nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, voru innleidd ákvæði 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, eins og henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018. Í framangreindum ákvæðum 30. og 31. gr. er að finna reglur um skráningu raunverulegs eiganda viðskiptafyrirtækja og annarra lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, eins og raunverulegur eigandi er skilgreindur í tilskipuninni. Tekur gildissvið laga nr. 82/2019, sbr. 2. gr. laganna, mið af framangreindum ákvæðum tilskipunarinnar.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 82/2019 er markmið laganna að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur aðila skv. 2. gr. svo að unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 82/2019 gilda lögin um lögaðila sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, sem og erlenda fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila sem eiga viðskipti hér á landi, sbr. 5. gr. laganna. Þannig falla almenn félög og félagasamtök undir gildissvið laganna þegar viðkomandi aðilar hafa fengið útgefna kennitölu og verið skráðir í fyrirtækjaskrá samkvæmt lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá.
    Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 82/2019 gilda lögin ekki um stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga né heldur um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir. Hvað varðar lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði, samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir, þá er framangreint ákvæði í samræmi við skilgreiningu á hugtakinu „raunverulegur eigandi“ í ákvæði a-liðar 13. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en þar segir að framangreindir aðilar falli ekki undir skilgreininguna.
    Með ákvæði 13. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018 eru innleidd ákvæði 6. tölul. 3. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 þar sem finna má skilgreiningu á hugtakinu „raunverulegur eigandi“. Í framangreindu ákvæði segir m.a. að þegar um viðskiptafyrirtæki sé að ræða þá teljist raunverulegur eigandi vera einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild á nægilegu hlutfalli hlutabréfa eða atkvæðisrétti eða eignarhlut í þeirri einingu, þ.m.t. gegnum handhafahlutabréf eða stjórnun eftir öðrum leiðum, nema um sé að ræða fyrirtæki sem skráð er á skipulögðum verðbréfamarkaði sem fellur undir upplýsingakröfur í samræmi við löggjöf ESB eða jafngilda alþjóðlega staðla sem tryggja nægjanlegt gagnsæi hvað varðar upplýsingar um eignarhald.
    Þær upplýsingakröfur sem birtast í tilskipunum ESB og taka til lögaðila sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. ákvæði laga um kauphallir, tryggja þannig með nægjanlegum hætti gagnsæi hvað varðar upplýsingar um eignarhald viðkomandi lögaðila og því falla þeir lögaðilar sem skráðir eru á skipulegum markaði í samræmi við lög um kauphallir ekki undir ákvæði laga nr. 82/2019.

     2.      Hefur ráðherra áform um að beita sér fyrir lagabreytingu í þessu efni?

    Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á gildissviði laga nr. 82/2019. Sem áður segir tekur gildissviðið mið af ákvæðum 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849 og skilgreiningu tilskipunarinnar á hugtakinu „raunverulegur eigandi“, sbr. 13. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018, eins og nánar er fjallað um í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.