Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1114  —  647. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (rafræn meðmæli o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „Fljótsdalshérað“, „Borgarfjarðarhreppur“, „Seyðisfjarðarkaupstaður“ og „Djúpvogshreppur “ falla brott.
     b.      Á eftir orðinu „og“ kemur: Múlaþing

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 30. gr. laganna:
     a.      Orðið „skriflega“ fellur brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður svohljóðandi: Tilkynningin getur verði undirrituð eigin hendi eða með rafrænni undirskrift.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Orðið ,,skrifleg“ tvívegis í 1. mgr. og einu sinni í 2. mgr. fellur brott.
     b.      4. og 5. mgr. orðast svo:
                      Yfirlýsing frambjóðenda um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á framboðslista getur verið undirrituð eigin hendi eða með rafrænni undirskrift. Söfnun meðmæla um stuðning við framboðslista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök framboðslisti er boðinn fram getur farið fram skriflega eða rafrænt. Þjóðskrá Íslands er heimilt, að beiðni yfirkjörstjórnar, að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalistum við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær. Jafnframt skal Þjóðskrá Íslands veita yfirkjörstjórnum rafrænan aðgang að listunum.
                      Ráðherra setur, að fenginni umsögn landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna, reglugerð um tilkynningar skv. 30. gr., um söfnun meðmæla og yfirlýsinga þeirra sem á framboðslista eru skv. 1., 2. og 4. mgr. og um umsóknir um listabókstaf og söfnun meðmæla vegna þeirra skv. 38. gr. Reglugerðin skal meðal annars kveða á um form og viðmót, söfnun, meðferð persónuupplýsinga og um varðveislu og eyðingu yfirlýsinga og tilkynninga og tegund rafrænnar auðkenningar þegar það á við.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Orðin ,,skriflegt“ og ,,skriflega“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      4. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Í stað 1.–3. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr. bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu þau sækja um listabókstaf til ráðuneytisins eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda þar sem mælt er með heiti samtakanna og listabókstaf. Yfirlýsingin skal dagsett og greina nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Söfnun meðmæla og umsókn um listabókstaf getur farið fram skriflega eða rafrænt. Þjóðskrá Íslands er heimilt, að beiðni ráðuneytisins, að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalista við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær og að því loknu afhenda ráðuneytinu þær upplýsingar.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      Orðið „skrifleg“ í 1. málsl. fellur brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Skal yfirkjörstjórn tilkynnt um umboðsmenn með sannanlegum hætti.

7. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á 58. gr. laganna:
     a.      Orðin: „starfsmenn hans“ í a-lið 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna ,,16 fjórum“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 10 tveimur.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Eftirfarandi ákvæði gilda við kosningar til Alþingis 2021:
     a.      Sýslumenn skulu, hver í sínu umdæmi, í samráði við sóttvarnayfirvöld, skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna þeirra sem ekki geta sótt kjörfund á kjördag eða greitt atkvæði á þeim stað sem regluleg utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram sökum þess að þeir eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19-farsóttarinnar. Skal sýslumaður auglýsa hvar og hvenær slík atkvæðagreiðsla fer fram en hún má þó ekki hefjast fyrr en fimm dögum fyrir kjördag.
     b.      Kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördag sökum þess að hann er í einangrun vegna COVID-19-farsóttarinnar er heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað. Beiðni þar um skal berast hlutaðeigandi sýslumanni, ásamt staðfestingu heilbrigðisyfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun fram yfir kjördag, eigi síðar en kl. 10 á kjördag, sé kjósandi staddur í því kjördæmi sem hann á kosningarrétt í, annars eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag. Sama á við um þann sem er í sóttkví af sömu ástæðu og er ókleift að greiða atkvæði utan dvalarstaðar. Skal þá kjósandi gera grein fyrir hvers vegna honum sé ókleift að greiða atkvæði utan dvalarstaðar. Synja má um atkvæðagreiðslu telji sóttvarnayfirvöld að henni verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun er endanleg.
     c.      Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréfið og því skal kjörstjóri veita honum aðstoð við það án þess að nokkur annar sjái.
     d.      Ákvæði XII. kafla gilda um atkvæðagreiðsluna eftir því sem við á.
     e.      Ráðherra skal í reglugerð kveða á um form og efni umsókna sem og undirbúning, fyrirkomulag og framkvæmd kosninga samkvæmt ákvæði þessu.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að unnt verði að safna meðmælum með framboðum til kosninga til Alþingis rafrænt sem og meðmælum vegna úthlutunar listabókstafs. Jafnframt að unnt sé rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst bjóða sig fram geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að unnt verði að bregðast við því ástandi sem kann hugsanlega að ríkja vegna COVID-19-farsóttarinnar þegar kosningar fara fram á hausti komandi þannig að þeim sem kunna að vera í sóttkví eða einangrun á kjördag verði gert kleift að kjósa.
    Þá er í þriðja lagi kveðið á um nauðsynlegar lagfæringar á tilvísun til heitis sveitarfélaga í Norðausturkjördæmis vegna sameiningar sveitarfélaga þar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Hingað til hefur söfnun meðmælenda með framboðum til kosninga til Alþingis farið fram skriflega, þ.e. á pappír. Þannig hafa undirskriftalistar gengið á milli manna sem rita nafn sitt, kennitölu og heimilisfang á listana og lýsa því þá yfir að þeir styðji tiltekinn framboðslista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram. Sama framkvæmd hefur verið viðhöfð við söfnun meðmælenda með forsetaframbjóðendum. Við forsetakosningarnar síðastliðið sumar þótti slík framkvæmd ekki ásættanleg í ljósi þess ástands sem ríkti í samfélaginu vegna COVID-19-farsóttarinnar. Var því, í samstafi dómsmálaráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands, skoðað hvort unnt væri að safna meðmælendum rafrænt. Var niðurstaðan sú að verkefnið væri vel framkvæmanlegt á þeim stutta tíma sem þá var til stefnu. Var lögum um framboð og kjör forseta Íslands breytt og heimild veitt þar til rafrænnar söfnunar meðmæla. Tókst framkvæmdin vel í alla staði og var 87,5 % meðmæla rafræn.
    Í ljósi þeirrar óvissu sem enn ríkir vegna COVID-19-farsóttarinnar og þess hversu mikil ánægja var með að unnt væri að safna meðmælum rafrænt við forsetakosningarnar síðastliðið sumar er mikilvægt að mögulegt verði að safna meðmælendum með framboðum til kosninga til Alþingis rafrænt. Þá þykir einnig af sömu ástæðum nauðsynlegt að skráning meðmælenda vegna úthlutunar listabókstafs til nýrra stjórnmálasamtaka geti verið rafræn. Þá er einnig rétt að bjóða upp á að unnt sé rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst taka sæti á framboðslista geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð. Er þetta einnig í samræmi við þá stafrænu þróun sem á sér stað í samfélaginu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til eftirtaldar meginbreytingar. Í fyrsta lagi breytingar sem lúta að heimildum til að safna meðmælum rafrænt og að tilkynningar megi senda undirritaðar með rafrænni undirskrift. Þannig er lagt til að 32. gr. laganna verði breytt þannig að heimilt verði að safna meðmælum með framboðslista stjórnmálasamtaka rafrænt og að 38. gr. laganna verði breytt þannig að meðmælasöfnun vegna úthlutunar listabókstafs geti verið rafræn sem og umsókn um listabókstaf. Einnig að unnt verði að rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst taka sæti á framboðslista geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um að taka sæti á framboðslista. Í þessu samband þarf að gera nokkrar breytingar á fleiri ákvæðum í VII. kafla laganna um framboð, svo sem að fella niður skilyrði um að tilkynningar og meðmæli skuli vera skrifleg.
    Í öðru lagi felur breytingin í sér að setja bráðabirgðaákvæði sem einungis er ætlað að gilda í afmarkaðan tíma eða til 1. janúar 2022 þar sem kveðið er á um heimild þeirra sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19-farsóttarinnar til að greiða atkvæði utan kjörfundar.
    Þá er jafnframt lagt til að frestur til að skila inn umsókn um að kjósandi geti kosið í heimahúsi verði styttur og í stað þess að viðkomandi þurfi að sækja um slíkt fjórum dögum fyrir kjördag er lagt til að unnt sé að sækja um það þar til tveimur dögum fyrir kjördag.
    Loks er lögð til breyting á 6. gr. laganna þar sem gerð er grein fyrir kjördæmaskiptingu en sveitarfélögin Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Djúpvogshreppur hafa nú verið sameinuð í sveitarfélagið Múlaþing.
    Í 4. mgr. 32. gr. laga um kosningar til Alþingis er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um form tilkynninga um framboð, söfnun stuðningsyfirlýsinga, meðferð þeirra og eyðingu. Ákvæðið kom inn í lögin árið 2018 en reglugerðin hefur ekki verið sett. Þá segir í 5. mgr. sömu greinar að ráðherra geti enn fremur, að fengnum tillögum yfirkjörstjórnar, sett í reglugerð fyrirmæli um að stuðningsyfirlýsingum skuli safnað rafrænt á eyðublöðum eða viðmóti sem Þjóðskrá Íslands lætur í té. Í ákvæðinu segir jafnframt að í reglugerðinni skuli setja nánari fyrirmæli um að einnig sé hægt að veita meðmæli á annan hátt en rafrænt og um aðgang að upplýsingum hjá Þjóðskrá Íslands til þess að athuga hvort meðmælandi sé kosningarbær. Ráðherra er því einungis heimilt að setja í reglugerð að söfnun meðmælenda við framboð til Alþingis geti verið rafræn en reglugerðarheimildin nær ekki til þess að söfnun undirskrifta vegna úthlutunar listabókstafs geti verið rafræn og hvorki til þess að unnt sé rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð né að þeir sem hyggist taka sæti á framboðslista geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð. Þá er ekki vikið að rafrænni auðkenningu þeirra sem skrá sig inn, meðferð persónuupplýsinga eða varðveislu og eyðingu upplýsinga. Í frumvarpinu er því lagt til að 4. og 5. mgr. 32. gr. laganna falli brott og í stað þeirra komi ný reglugerðarheimild sem kveði með nákvæmari hætti á um hvernig rafræn söfnun meðmæla og undirskrifta fari fram.
    Í frumvarpinu er einnig brugðist við þeirri þörf að unnt sé að safna meðmælum með framboðum til kosninga til Alþingis rafrænt og að söfnun meðmæla vegna úthlutunar listabókstafs geti einnig verið rafræn. Þá er jafnframt lagt til að unnt verði að rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst taka sæti á framboðslista geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð.
    Breytingin felur þannig í sér heimild til rafrænnar söfnunar meðmæla vegna framboða og úthlutunar listabókstafa en gert er ráð fyrir að nánari útfærslu á söfnuninni í reglugerð. Einnig felst í breytingunni að undirskrift geti verið rafræn í þeim tilvikum sem frambjóðandi lýsir yfir vilja sínum til að taka sæti á framboðslista og einnig þegar framboð er tilkynnt til yfirkjörstjórnar. Fullgild rafræn undirskrift hefur sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift, sbr. lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019.
    Þá þarf skýr lagaheimild að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að bregðast við ástandi eins og kom upp að morgni kjördags í forsetakosningunum síðastliðið sumar þegar í ljós kom að fjöldi fólks sem ætlaði að greiða atkvæði á kjördag var kominn í sóttkví samkvæmt ákvörðun yfirvalda vegna COVID-19-farsóttarinnar. Af sóttkvínni leiddi að þessum kjósendum var hvorki heimilt að sækja kjörfund á kjördegi né greiða atkvæði utan kjörfundar með hefðbundnum hætti. Eftir samráð dómsmálaráðuneytisins við yfirkjörstjórnir, embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og sóttvarnaryfirvöld var ákveðið að gera þeim, sem svo væri ástatt um að vera í sóttkví vegna ráðstafana sóttvarnaryfirvalda, kleift að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Var um að ræða kosningu utan kjörfundar sem fór fram fyrir utan við kjörstað sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu og nutu kjósendur aðstoðar kjörstjóra við að greiða atkvæði. Var þannig gætt ákvæða kosningalaga um kosningu utan kjörfundar sem og skilyrðum sóttvarna vegna þeirra sem voru í sóttkví samkvæmt ákvörðun yfirvalda vegna COVID-19.
    Þau tilvik geta óhjákvæmilega komið upp að íslenskir ríkisborgarar sem kosningarrétt eiga samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og staddir eru erlendis hafi ekki tækifæri til að nýta kosningarrétt sinn vegna aðgerða stjórnvalda í þeim löndum vegna COVID-19-farsóttarinnar, svo sem vegna útgöngubanns. Til þess að bregðast við aðstæðum sem þessum verður annað hvort að gefa viðkomandi kost á að greiða atkvæði rafrænt eða heimila póstkosningu. Athugun á þessum möguleikum hefur leitt í ljós að ekki er enn tímabært að fara í svo mikla breytingu að gera atkvæðagreiðslu utan kjörfundar rafræna en slík breyting fæli í raun í sér algjöra breytingu á því fyrirkomulag sem tíðast við kosningu utan kjörfundar og er enn sem komið er ekki tímabær. Þá er ekki sennilegt að póstkosning geti komið til móts við kjósendur í þessum tilvikum þar sem slík kosning þarf allnokkurn undirbúning, svo sem að senda kjörgögn til viðkomandi o.s.frv., en þær aðgerðir stjórnvalda sem verið er að bregðast við eiga sér oft stuttan aðdraganda. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að brugðist sé við fyrrgreindum aðstæðum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 33. og 34. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er fjallað um kosningarrétt og kjörgengi. Í frumvarpi þessu er lagt til að unnt verði að senda nauðsynlegar tilkynningar um framboð til Alþingis rafrænt sem og að söfnun meðmæla vegna framboðslista og úthlutun listabókstafs verði rafræn. Jafnframt verður áfram unnt að senda tilkynningar og safna meðmælum á þann hátt sem verið hefur, þ.e. á pappír. Með frumvarpinu er aðgangur að meðmælasöfnun og sending tilkynninga gerð auðveldari og aðgengilegri. Þá er jafnframt í frumvarpinu lagt til að þeir sem ekki geta neytt kosningarréttar á hefðbundinn hátt sökum einangrunar eða sóttkvíar af völdum COVID-19 fái tækifæri til að neyta þessa réttar. Með frumvarpinu hefur þannig verið gætt að réttinum til að bjóða sig fram í kosningum til Alþingis sem og að kjósandi geti neytt kosningarréttar síns þrátt fyrir að geta ekki farið á almennan kjörstað í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar kröfur.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í dómsmálaráðuneytinu en við samningu þess var haft samráð við Þjóðskrá Íslands, sýslumannsembætti landsins, Verkefnastofu um stafrænt Ísland, formenn yfirkjörstjórna, Landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið.
    Þá var frumvarpið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 25. febrúar til 8. mars 2021 (mál S-61/2021). Ein umsögn barst um frumvarpið, frá Sýslumannafélagi Íslands. Laut hún að því að taka þyrfti tillit til ýtrustu sóttvarna þeirra sem kunna að þurfa að fara inn á dvalarstað þess sem er í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 og óskar eftir að nýta kosningarrétt sinn. Tekið hefur verið tillit til þessarar athugasemdar og er í umfjöllun um ákvæði til bráðabirgða hér að neðan tekið fram að við kosningu á dvalarstað sé gætt að því að sóttvarnarbúnaður sé til staðar og að heilbrigðisyfirvöld veiti þar aðstoð sína.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið stuðlar að öflugri og öruggri rafrænni þjónustu við frambjóðendur til Alþingis, stjórnmálaflokka, yfirkjörstjórnir og þá sem vilja mæla bæði með framboðum til Alþingis og úthlutun listabókstafs. Í frumvarpinu er jafnframt brugðist við því ástandi sem kann hugsanlega að ríkja vegna COVID-19-farsóttarinnar þegar kosningar fara fram á hausti komandi þannig að þeim sem kunna að vera í sóttkví eða einangrun á kjördag verði gert kleift að kjósa.
    Sú rafræna þjónusta sem felst í frumvarpinu hefur í för með sér aukna skilvirkni fyrir frambjóðendur, stjórnmálaflokka, yfirkjörstjórnir og þá kjósendur sem mæla vilja með frambjóðendum og úthlutun listabókstafa auk þess sem aðgengi kjósenda að því að mæla með framboði og úthlutun listabókstafs verður mun aðgengilegra. Rafræn meðmælendaskrá gerir vinnu yfirkjörstjórna við yfirferð meðmælendalista bæði fljótvirkari og skilvirkari.
    Frumvarpið hefur þau kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð að breyta þarf núverandi meðmælenda- og undirskriftakerfi Þjóðskrár Íslands. Verkefnastofa um stafrænt Ísland hefur unnið grófa kostnaðargreiningu á verkefninu sem hljóðar upp á 15,8–23,7 millj. kr. Verkefnastofan mun fjármagna 75% af heildarkostnaðinum er tengist viðmótshluta Ísland.is sem er áætlaður á bilinu 9,5–14 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að þær 6,3–9,7 millj. kr. sem út af standa fjármagnist af sameiginlegum kosningalið Stjórnarráðsins sem vistaður er hjá dómsmálaráðuneytinu en kostnaður sem til fellur varðandi meðmælenda- og undirskriftakerfið mun nýtast í fleiri kosningum.
    Með frumvarpinu er brugðist við því að ef enn gætir áhrifa COVID-19 á þeim tíma sem kosningar til Alþingis fara fram verði utankjörfundarstöðum fjölgað og opnað fyrir möguleika á heimakosningum. Með sama hætti er gert ráð fyrir því að kostnaður sem við það kann að myndast fjármagnist af sameiginlegum kosningalið Stjórnarráðsins.
    Efni frumvarpsins hefur ekki fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög þar sem þau bera ekki kostnað af þeirri þjónustu sem fjallað er um í frumvarpinu. Þá fellur kostnaður vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu ekki á sveitarfélög.
    Frumvarpið hefur ekki sérstök áhrif á stöðu kynjanna. Efni frumvarpsins auðveldar aðgang allra sem njóta vilja stafrænnar þjónustu við undirbúning kosninga óháð kyni. Þá verður samkvæmt frumvarpinu öllum þeim sem ekki verður kleift að greiða atkvæði sökum einangrunar eða sóttkvíar af völdum COVID-19 heimilt að greiða atkvæði. Ekki verður séð að það hafi sérstök áhrif á kynjajafnrétti.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Sveitarfélögin Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Djúpavogshreppur hafa verið sameinuð í sveitarfélagið Múlaþing, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1037/2020. Því er lagt til að heiti þessara sveitarfélaga verði felld brott í upptalningu sveitarfélag í Norðausturkjördæmi í 6. gr. laganna og í stað þeirra komi heiti hins nýja sveitarfélags, Múlaþing.

Um 2. gr.

    Lagt er til að orðið „skriflega“ í 1. mgr. 30. gr. laganna verði fellt brott þannig að unnt verði að tilkynna framboð til yfirkjörstjórnar bæði á hefðbundinn hátt, þannig að tilkynningin sé undirrituð eigin hendi, en einnig með rafrænni undirskrift og send rafrænt til yfirkjörstjórnar.

Um 3. gr.

    Lagt er til að yfirlýsing frambjóðenda skv. 1. mgr. 32. gr. laganna geti verið hvort sem er undirrituð eigin hendi eða með rafrænni undirskrift.
    Þá er lögð til sú breyting að 4. mgr., sem fjallar um heimild til að setja reglugerð, falli niður og ný 4. mgr. taki gildi. Reglugerðarheimildin verður færð yfir í 5. mgr. Nýja ákvæðið heimilar að söfnun meðmæla vegna framboða, sbr. 1. og 2. mgr. 32. gr. laganna, geti hvort sem er farið fram með hefðbundnum hætti, þ.e. undirritun á pappír, eða rafrænt. Hingað til hefur söfnun meðmælenda með framboðum til kosninga til Alþingis eingöngu farið fram skriflega, þ.e. á pappír. Þannig hafa undirskriftalistar gengið á milli manna sem rita nafn sitt, kennitölu og heimilisfang á listana og lýsa því þá yfir að þeir mæli með tilteknum framboðslista. Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir í samfélaginu vegna COVID-19-farsóttarinnar og þess að það er tæknilega framkvæmanlegt að söfnunin sé rafræn er lagt til að söfnun meðmæla geti bæði verið skrifleg og rafræn. Var sú leið farin við kosningar til forseta Íslands síðastliðið sumar. Tókst sú framkvæmd vel í alla staði og var 87,5 % meðmæla rafræn. Heimild til rafrænnar söfnunar meðmæla snýst annars vegar um tæknilega útfærslu til að tryggja aukinn aðgang almennings að meðmælalistum og hins vegar um að hafa skýr skilyrði um auðkenningu þess er mælir með. Mikilvægt er að tryggja jafnvægi á milli beggja þessara þátta. Til að tryggja fullnægjandi öryggi við skráninguna skal nota örugga rafræna auðkenningu en nánari ákvæði um auðkenningu skal setja í reglugerð, sbr. c-lið 3. gr.
    Þjóðskrá Íslands hefur nú heimild til þess, að beiðni yfirkjörstjórna, að samkeyra meðmælendalista framboða við þjóðskrá að fullnægðum heimildum laga sem um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gilda hverju sinni, sbr. 4. mgr. 34. gr. laganna. Þykir betur fara á því að færa þessa heimild í 4. mgr. 32. gr. laganna þar sem gerð er grein fyrir því hvernig söfnun meðmælenda skal fara fram.
    Heimild Þjóðskrár Íslands til samkeyrslunnar er óbreytt frá því sem nú er en þó þykir rétt að taka fram að Þjóðskrá Íslands sé heimil samkeyrsla upplýsinganna í því skyni að kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær. Tilgangur samkeyrslu meðmælendalista framboðsaðila við þjóðskrá er að ganga úr skugga um að viðkomandi einstaklingur sé til sem og að hann sé kosningarbær með tilliti til aldurs, ríkisfangs og kjördæmis. Þá er lagt til að kveðið sé á um að Þjóðskrá Íslands sé heimilt að veita yfirkjörstjórnum rafrænan aðgang að listunum. Er það nauðsynlegt þegar um rafræna söfnun meðmæla er að ræða.
    Lagt er til að núverandi 5. mgr. falli niður en í stað hennar komi ný 5. mgr. sem kveður á um að ráðherra skuli að fenginni umsögn landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna setja reglugerð um tilkynningar til yfirkjörstjórna skv. 1. mgr. 30. gr., söfnun meðmæla um stuðning við framboðslista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er boðinn fram, sem og yfirlýsingar þeirra sem á framboðslista eru skv. 32. gr. og um umsóknir um listabókstaf og söfnun meðmæla vegna þeirra skv. 38. gr. Reglugerðin skal kveða á um form og viðmót, söfnun, meðferð persónuupplýsinga og um varðveislu og eyðingu yfirlýsinga og tilkynninga og tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda þegar það á við. Með því er átt við hvaða sannvottunaraðferð meðmælendur skulu nota til að skrá meðmæli rafrænt.

Um 4. gr.

    Lagt er til að orðin „skriflegt“ og „skriflega“ í 2. mgr. 34. gr. laganna verði felld brott. Er breytingin í samræmi við 2. og 3. gr. frumvarpsins en í 3. gr. er lagt til að yfirlýsing frambjóðenda, sbr. 1. mgr. 32. gr. laganna, geti verið hvort sem er undirrituð eigin hendi eða með rafrænni undirskrift.
    Lagt er til að heimild Þjóðskrár Íslands til að samkeyra meðmælendalista framboðsaðila við þjóðskrá sé nú í 32. gr. laganna, sjá umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins. Því er lagt til að ákvæði 4. mgr. falli brott.

Um 5. gr.

    Lagt er til að unnt verði að safna meðmælum vegna umsóknar um listabókstaf með rafrænum hætti á sama hátt og heimilt er að safna meðmælendum við framboðslista. Þykir fara betur á því að fella á brot ákvæði 1., 2. og 3. málsl. 38. gr. laganna og í stað þeirra koma fimm nýir málsliðir sem heimila það að söfnun meðmæla vegna úthlutunar listabókstafs geti farið fram skriflega eða rafrænt. Er orðalag lagfært en skilyrði um 300 meðmælendur er óbreytt sem og það að geta skuli um dagsetningu yfirlýsingarinnar auk nafns, kennitölu og heimilisfangs meðmælandans. Núgildandi 4.–7. málsl. eru óbreyttir efnislega en verða 6.–9. málsl. greinarinnar.
    Þá er tekið fram að Þjóðskrá Íslands sé heimilt að beiðni ráðuneytisins að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalista við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær og að því loknu afhenda ráðuneytinu þær upplýsingar.

Um 6. gr.

    Lagt er til að orðið „skrifleg“ í 39. gr. laganna verði fellt niður. Í breytingunni felst að ekki er lengur gerð krafa um að tilkynningin sé rituð eigin hendi en hún verður eftir sem áður að vera send yfirkjörstjórn með sannanlegum hætti. Í framkvæmd hefur það tíðkast að tilkynningar um umboðsmenn hafi verið sendar viðkomandi yfirkjörstjórn í tölvupósti. Með ákvæðinu er ekki ætlunin að hrófla við því fyrirkomulagi sem hefur verið heldur mun frekar að auka festu í framkvæmdinni og tryggja að tilkynningin sé send með sannanlegum hætti.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að frestur til að sækja um að greiða atkvæði í heimahúsi verði styttur úr fjórum dögum í tvo daga. Jafnframt er tímasetningu þess hvenær fresturinn rennur út breytt til samræmis við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins þannig að miðað verði við kl. 10.00 árdegis. Er þetta gert í þeim tilgangi að hafa meira samræmi milli hinnar hefðbundnu heimakosningar og þess að greiða atkvæði í heimahúsi vegna þess að viðkomandi kjósandi er í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 að ákvörðun yfirvalda.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að sett verði sérstakt ákvæði sem geri fólki kleift að greiða atkvæði komi upp þær aðstæður að það sé annað hvort í sóttkví eða einangrun samkvæmt ákvörðun yfirvalda vegna COVID-19-farsóttarinnar. Með ákvæðinu er brugðist við því ef enn gætir áhrifa COVID-19 á þeim tíma sem kosningar til Alþingis fara fram. Ákvæðinu er þannig einungis ætlað að gilda við kosningar til Alþingis árið 2021 og á eingöngu við í þeim tilvikum þegar kjósandi getur ekki greitt atkvæði með hefðbundnum hætti, hvort sem um er að ræða atkvæðagreiðslu á kjörstað eða á almennum utankjörfundarstað.
    Lagt er fyrir sýslumenn að þeir, hver í sínu umdæmi, í samráði við sóttvarnaryfirvöld skipuleggi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sérstökum stað og með sérstökum hætti fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði á kjörstað á kjördag eða greitt atkvæði utan kjörfundar á almennum utankjörfundarstað sökum þess að þeir eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19-farsóttarinnar. Skal sýslumaður auglýsa hvar og hvenær slík atkvæðagreiðsla fer fram en hún má þó ekki hefjast fyrr en fimm dögum fyrir kjördag.
    Undir þetta falla þau tilvik þegar einstaklingur er settur í sóttkví skömmu fyrir kjördag og verður í sóttkví á kjördag. Hann getur því ekki greitt atkvæði á kjördag eins og venja er þar sem hann má ekki fara á kjörstað og hann má heldur ekki greiða atkvæði utan kjörfundar á venjulegum utankjörfundarstað. Þessum einstaklingi er þá gert kleift að greiða atkvæði utan kjörfundar á sérstökum stað hvort sem er á kjördag eða fyrir kjördag.
    Kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördag sökum þess að hann er í einangrun er heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað. Hér er um það að ræða að kjósandi er smitaður af COVID-19 og er settur í einangrun, samkvæmt ákvörðun yfirvalda, á ákveðnum dvalarstað sem hann má ekki yfirgefa. Honum er þannig ókleift að greiða atkvæði utan kjörfundar á sérstökum utankjörfundarstað þar sem honum er ekki heimilt að yfirgefa dvalarstað sinn. Kjósandanum er þá heimilt að greiða atkvæði á sínum dvalarstað. Þegar um er að ræða kjósanda sem er í sóttkví vegna COVID-19 og hefur ekki tök á að koma sér á sérstakan utankjörfundarstað er viðkomandi kjósanda heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað. Skal hann gera grein fyrir hvers vegna honum er ókleift að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstað en sem dæmi um það má nefna þegar kjósandi hefur ekki bifreið til umráða til að koma sér á slíkan stað.
    Um undantekningarákvæði er að ræða frá þeirri meginreglu að sá sem er sóttkví mæti á sérstakan utankjörfundarstað.
    Beiðni um kosningu á dvalarstað skal berast viðkomandi sýslumanni, ásamt staðfestingu heilbrigðisyfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun fram á kjördag, eigi síðar en kl. 10 á kjördag, sé kjósandi staddur í því kjördæmi sem hann á kosningarrétt í, annars eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag. Ástæða þessa er sú að ekki er unnt að tryggja að atkvæði sem greitt er t.d. í Norðvesturkjördæmi af kjósanda sem er á kjörskrá í Suðurkjördæmi berist í tímalega til viðkomandi kjörstjórnar, berist umsókn þar um t.d. daginn fyrir kjördag. Mikilvægt er þeir sem sýslumaður tilnefnir sem kjörstjóra séu vel í stakk búnir til að sjá um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Í þeim tilvikum sem kjörstjóri eða aðrir trúnaðarmenn þurfa að fara á dvalarstað kjósanda er rétt að gæta að því að þeir hafi kunnáttu og yfir að ráða búnaði sem tryggi sóttvarnir og öryggi viðkomandi og heilbrigðisyfirvöld veiti eftir föngum aðstoð við að koma því í kring. Séu atvik þannig að sóttvarnayfirvöld telja að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu er sýslumanni heimilt að hafna beiðni um atkvæðagreiðslu. Sú ákvörðun er endanleg.
    Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréfið og því skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess án þess að nokkur annar sjái.
    Þá er kveðið á um það að ákvæði XII. kafla laganna gildi um atkvæðagreiðsluna eftir því sem við eigi.
    Loks er kveðið á um að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um form og efni umsókna sem og undirbúning, fyrirkomulag og framkvæmd kosninganna.

Um 9. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.