Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1358  —  775. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020 (framlenging úrræða o.fl.).

Frá félags- og barnamálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

1. gr.

    Í stað orðanna „þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar“ í 5. mgr. 52. gr. laganna kemur: við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. október 2021“ í 2. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögunum kemur: 1. febrúar 2022.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Innan fjögurra vikna frá gildistöku þessa ákvæðis skal Vinnumálastofnun greiða þeim atvinnuleitanda sem hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma sérstakan 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2021. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.
    Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið tryggður hlutfallslega á umræddum tíma skal Vinnumálastofnun greiða honum hlutfallslegan styrk skv. 1. mgr. í samræmi við það tryggingahlutfall sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á fyrrnefndu tímabili miðuðust við. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.

II. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020.

4. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní“ í 1. gr. laganna kemur: 31. desember.

5. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. september 2021“ í 1. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna kemur: 31. mars 2022.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Áfram ríkir nokkur óvissa á innlendum vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Í ljósi þess eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem ætlað er að bregðast við þeim áhrifum sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft á vinnumarkaðinn. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020, sem ætlað er að bregðast við þeim áhrifum sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft á starfsemi íþróttafélaga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið er lagt fram í ljósi þess að útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla frekari útbreiðslu hennar hafa þegar haft veruleg áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt og er þeim breytingum sem lagt er til að verði á lögum um atvinnuleysistryggingar ætlað, líkt og fyrri aðgerðum stjórnvalda, að draga úr tjóni vegna veirunnar og tryggja að neikvæð áhrif hennar á atvinnulíf og efnahag heimilanna verði sem minnst. Hið sama á við um þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Er þannig talið nauðsynlegt að framlengja það tímabil sem unnt verður að sækja um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli fyrrnefndra laga í því skyni að koma áfram til móts við íþróttafélögin eftir því sem þörf krefur og minnka þannig líkur á að fjárhagsvandi standi í vegi fyrir því að þau geti hafið óbreytta starfsemi að nýju þegar faraldrinum lýkur.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lögð til framlenging þess úrræðis sem mælt er fyrir um í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögum um atvinnuleysistryggingar í tengslum við rétt atvinnuleitenda, sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins, til tekjutengdra atvinnuleysistrygginga í allt að sex mánuði. Ljóst þykir að þau úrræði sem stjórnvöld hafa gripið til fram til þessa vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa nýst illa þeim einstaklingum sem voru án atvinnu í upphafi faraldursins og voru enn að fá greiddar atvinnuleysisbætur 1. maí 2021 þar sem þeir hafa átt í erfiðleikum með að fá tækifæri á vinnumarkaði að nýju meðan á faraldrinum hefur staðið, sbr. 3. gr. Er því jafnframt lagt til að við lög um atvinnuleysistryggingar bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt verði fyrir um að Vinnumálastofnun skuli greiða umræddum hópi atvinnuleitenda sérstakan 100.000 kr. styrk miðað við að viðkomandi atvinnuleitandi hafi að fullu verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tilteknu tímabili.
    Einnig eru lagðar til ákveðnar orðalagsbreytingar á 5. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þannig að skýrt verði kveðið á um í lögunum að þeir sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa stundað nám samhliða þátttöku á vinnumarkaði geti lokið þeirri námsönn sem þegar er hafin við starfslok eða þegar þeir missa starf sitt að hluta í stað þess að þeir þurfi að hætta námi til að geta nýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Er gert ráð fyrir að þetta eigi við óháð því hvenær viðkomandi einstaklingar ákveða að sækja um atvinnuleysistryggingar og nýta þannig rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
    Þá er lagt til að framlengt verði það tímabil sem íþróttafélög geta sótt um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við Vinnumálastofnun. Jafnframt var efni frumvarpsins kynnt Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins sem og á fundi hjá ráðherranefnd um ríkisfjármál. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar óvissu sem enn ríkir hér á landi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og þeirra áhrifa sem veiran hefur enn á samfélagið allt, þ.m.t. vinnumarkaðinn, gafst ekki svigrúm til hefðbundins samráðs.

6. Mat á áhrifum.
    Kostnaður vegna þeirra breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, hvað varðar þá framlengingu á því tímabili sem unnt er að nýta lengingu á tekjutengdu bótatímabili innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði, er áætlaður um 840–880 millj. kr. Ætla má að þessar breytingar muni helst hafa áhrif á þá atvinnuleitendur sem fá tímabundin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði á komandi mánuðum, áður en þeir hafa fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði, þar sem þeir geta þá átt möguleika á að nýta rétt sinn til slíkra bóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins þurfi þeir þess að nýju eftir að tímabundinni þátttöku á vinnumarkaði lýkur. Í því sambandi má nefna að í mars 2021 skiptist hlutfall þeirra sem fengu greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur þannig að konur voru 42% og karlar 58%. Að því gefnu að konur og karlar nýti áfram rétt sinn samkvæmt ákvæðinu í sambærilegum hlutföllum og áður, eftir lögfestingu frumvarpsins, má ætla að þessar tilteknu breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að verði á lögum um atvinnuleysistryggingar muni almennt hafa meiri áhrif á karla en konur.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að kostnaður í tengslum við sérstakan styrk til tiltekins hóps atvinnuleitenda, sbr. 3. gr. frumvarpsins, verði um 260 millj. kr. en í því sambandi er miðað við að greiddur verði styrkur til um 3.600 atvinnuleitenda. Gert er ráð fyrir að þessi aðgerð styðji við þann hóp sem tryggður er innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur verið án atvinnu frá því áður en áhrifa kórónuveirufaraldursins tók að gæta á vinnumarkaði, en þessi hópur hefur sem dæmi ekki notið lengingar á tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta. Í því sambandi má nefna að 1. maí 2021 skiptist hlutfall þeirra sem höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur þannig að 57% þeirra voru karlar og 43% konur. Gera má því ráð fyrir að greiðsla umrædds styrks til þessa tiltekna hóps muni almennt hafa meiri áhrif á karla en konur verði frumvarpið að lögum.
    Þá er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs verði óverulegur, enda gert ráð fyrir að íþróttastarf geti farið fram með hefðbundnum hætti á seinni hluta árs í samræmi við áætlun stjórnvalda um afléttingu sóttvarnaráðstafana. Komi til þess að herða þurfi sóttvarnaráðstafanir að nýju má þó ætla að kostnaður vegna þessa úrræðis verði um 126 millj. kr. á mánuði, verði sóttvarnaráðstafanir með sama hætti og í janúar á þessu ári, eða um 756 millj. kr. yfir sex mánaða tímabil. Við vinnslu frumvarps þess er varð að framangreindum lögum var gert ráð fyrir að heildarkostnaður myndi nema um 500 millj. kr. Var þá gengið út frá þeim forsendum að unnt yrði að sækja um greiðslur vegna launamanna en jafnframt var gert ráð fyrir að um óverulegar greiðslur yrði að ræða vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2021 þar sem íþróttastarf myndi ekki sæta miklum takmörkunum á því tímabili. Í meðförum þingsins voru gerðar breytingar á efni frumvarpsins og íþróttafélögum einnig gert kleift að sækja um greiðslur vegna verktakagreiðslna. Var þá áætlað að sjálfstætt starfandi einstaklingar væru meira en 50% af heildarstarfsmönnum innan íþróttahreyfingarinnar. Í meðförum fjárlaganefndar var fjárhæð vegna þessa úrræðis hækkuð um 470 millj. kr. til að mæta kostnaði vegna verktakagreiðslna. Heildarfjárheimild til launa og verktakagreiðslna nemur því 970 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2021.
    Í frumvarpi því er varð að lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs kemur meðal annars fram að frumvarpinu sé ætlað að taka til íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og sé gert að fella tímabundið niður starfsemi á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í skilningi frumvarpsins. Gert sé ráð fyrir að með íþróttafélagi sé átt við lögaðila innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þ.m.t. einstakar deildir sem starfi á vegum viðkomandi lögaðila. Því megi ætla að frumvarpið nái til um 33 sérsambanda, 25 héraðssambanda/íþróttabandalaga og um 408 íþrótta- og ungmennafélaga. Þar sem í frumvarpi því sem hér um ræðir er einungis gert ráð fyrir að lengt verði það tímabil sem íþróttafélögum verði unnt að sækja um greiðslur á grundvelli laganna til Vinnumálastofnunar má ætla að áhrif breytinganna komi til með að gæta hjá framangreindum aðilum komi til þess að herða þurfi sóttvarnaráðstafanir að nýju.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 5. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að hinum tryggða skuli ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.
    Hér er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um að hinum tryggða skuli ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga verði kveðið á um að hinum tryggða skuli ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að skýrt verði kveðið á um í lögunum að þeir sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sem hafa stundað nám samhliða þátttöku á vinnumarkaði þegar þeir missa starf sitt, geti lokið þeirri námsönn sem þegar er hafin við starfslok í stað þess að þeir þurfi að hætta námi til að geta nýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Er þannig gert ráð fyrir að þetta eigi við óháð því hvenær viðkomandi einstaklingar ákveða að sækja um atvinnuleysistryggingar og nýta þannig rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er því ekki um efnisbreytingu að ræða frá gildandi lögum.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum.
    Í ákvæði til bráðabirgða XVIII í framangreindum lögum er kveðið á um að þrátt fyrir 1. mgr. 32. gr. laganna skuli sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla þeirra öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. laganna fyrir 1. júní 2020. Jafnframt er kveðið á um að hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta.
    Hér er lagt til að ónýttur réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði falli ekki niður fyrr en 1. febrúar 2022. Er þetta lagt til þar sem nauðsynlegt þykir að framlengja gildistíma úrræðisins þannig að þeir atvinnuleitendur sem fá tímabundin tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði á komandi mánuðum, áður en þeir hafa fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði, geti áfram átt möguleika á að nýta rétt sinn til slíkra bóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins þurfi þeir að nýju að nýta rétt sinn innan kerfisins eftir að tímabundinni þátttöku á vinnumarkaði lýkur. Líkt og að framan greinir er þó ekki gert ráð fyrir að unnt verði að nýta rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði 1. febrúar 2022 eða síðar.

Um 3. gr.

    Ljóst þykir að þau úrræði sem stjórnvöld hafa gripið til fram til þessa vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa nýst illa þeim einstaklingum sem voru án atvinnu í upphafi faraldursins og voru enn að fá greiddar atvinnuleysisbætur 1. maí 2021 þar sem möguleikar þeirra til að komast að nýju inn á vinnumarkaðinn minnkuðu enn frekar eftir að áhrifa faraldursins fór að gæta hér á landi. Í því sambandi má nefna að lenging tekjutengda bótatímabilsins innan atvinnuleysistryggingakerfisins hefur ekki náð til þessara einstaklinga.
    Í ljósi framangreinds er hér lagt til að við lög um atvinnuleysistryggingar bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að innan fjögurra vikna frá gildistöku ákvæðisins skuli Vinnumálastofnun greiða þeim atvinnuleitanda sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna á umræddum tíma sérstakan 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2021. Með 14 mánaða samfelldu tímabili er átt við að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur óslitið í 14 mánuði hinn 1. maí 2021 og er því ekki átt við þau tilvik þegar um er að ræða atvinnuleitanda sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 14 mánuði á umræddu tímabili með hléum, enda þá ekki um óslitið tímabil að ræða.
    Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið tryggður hlutfallslega á umræddum tíma er lagt til að Vinnumálastofnun skuli greiða honum hlutfallslegan styrk skv. 1. mgr. í samræmi við það tryggingahlutfall sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á fyrrnefndu tímabili miðuðust við. Sem dæmi má nefna að hafi atvinnuleitandi fengið greiddan ½ hluta grunnatvinnuleysisbóta í 14 mánuði samfellt hinn 1. maí 2021 er gert ráð fyrir að hann fái greiddan ½ hluta af fjárhæð umrædds styrks eða 50.000 kr.
    Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að biðtími eftir atvinnuleysisbótum skuli teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.

Um 4. og 5. gr.

    Í 1. gr. laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs er kveðið á um að lögin gildi um tímabundnar greiðslur vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 en er gert að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Hér er lagt til að framangreint tímabil verði lengt þannig að unnt verði að sækja um greiðslur á grundvelli laganna til og með 31. desember 2021. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að íþróttastarf geti farið fram með hefðbundnum hætti seinni hluta árs 2021 í samræmi við áætlun stjórnvalda um afléttingu sóttvarnaráðstafana þykir mikilvægt að framlengja umrætt tímabil þannig að úrræðið standi íþróttafélögum áfram til boða komi til þess að herða þurfi sóttvarnaráðstafanir að nýju.
    Til samræmis við framangreindar breytingar er jafnframt gert ráð fyrir að umsóknir um greiðslur samkvæmt lögunum skuli berast Vinnumálastofnun fyrir 31. mars 2022 í stað 30. september 2021 líkt og gildandi lög gera ráð fyrir, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.