Ferill 906. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2039  —  906. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um vildarpunkta.


     1.      Teljast vildarpunktar, sem þingmenn eða ráðherrar geta skráð fyrir sig persónulega vegna flugferða sem eru greiddar af hinu opinbera, sem hlunnindi? Ef svo er, hvernig á að gera grein fyrir þeim hlunnindum?
    Í reglum um greiðslur ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins frá árinu 2020 kemur fram að fríðindi og hvers kyns vildarkjör sem aflað er við greiðslu á farmiða skulu eingöngu koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða. Í reglunum er því ekki gert ráð fyrir að ferðalangur njóti hlunninda í tengslum við ferðalög á vegum hins opinbera.
    Almennt gildir að hlunnindi í formi söfnunar á vildarpunktum eru ekki sérstaklega tilgreind í skattmati fyrir tekjuárið 2023. Punktasöfnun eða afslættir í gegnum svokölluð tryggðarkerfi, hvort sem er vegna flugferða eða annarra kaupa á vörum eða þjónustu, mynda ekki skattskyldu svo fremi að þeir séu ekki umfram það sem eðlilegt megi telja.

     2.      Telur ráðherra að opinberir aðilar sem kaupa flugferðir ættu að geta skráð vildarpunkta fyrir viðkomandi stofnun?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvernig eru vildarkjör metin þegar hið opinbera kaupir flugferðir með tilliti til hagkvæmni í ferðavali?
    Vildarkjör eru ekki forsenda slíks mats þar sem hagkvæmni í ferðavali miðast við kostnað vinnuveitanda en ekki ávinning ferðalangs. Við val á flugferðum á almennt að horfa til hagkvæmasta kostsins með tilliti til lágmörkunar á ferðatíma og kostnaði.