Ferill 1089. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2077  —  1089. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um endurmat útgjalda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðuneytið innleitt endurmat útgjalda samkvæmt skilgreiningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD)? Ef svo er, hvenær var það gert og hvaða árangri hefur það skilað?

    Ríkisstjórnin ákvað árið 2018 að hefja innleiðingu á nýju verklagi um reglulegt endurmat útgjalda ríkisins og var slíkt verklag boðað í fjárlagafrumvarpi ársins 2019, auk þess sem fjallað var um það í fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Innleiðing á aðferðafræðinni er í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað undanfarin ár með gildistöku laga um opinber fjármál en um er að ræða skilgreint ferli með það að markmiði að ná fram hagræðingu sem flæðir inn í áætlana- og fjárlagagerð ríkisins. Verklagið felur í sér kerfisbundna greiningu á viðvarandi útgjöldum til tiltekinna verkefna, málaflokka eða málefnasviða í því skyni að greina skilvirkni og árangur og þá undirliggjandi þætti sem valda því að útgjöld hafa þróast með tilteknum hætti.
    Verklagið er ekki síst mikilvægt tæki fyrir ríkisstjórnina til að forgangsraða fjármunum og veita þeim í verkefni sem eru hagkvæm og skila auknum ávinningi fyrir þjóðarbúið. Frá því að innleiðing á verkefninu hófst hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem ber ábyrgð á verkefninu og leiðir vinnuna, í samvinnu við fagráðuneyti ráðist í kerfisbundna greiningu og endurmat á útgjöldum til tiltekinna verkefna, málaflokka eða málefnasviða. Um stöðuna á einstökum verkefnum vísast í svar fjármála- og efnahagsráðherra við sams konar fyrirspurn á þskj. 1796, 1090. mál.
    Eins og stendur er ekkert verkefni í vinnslu sem snýr að endurmati útgjalda til einstakra verkefna, málaflokka eða málefnasviða forsætisráðuneytisins. Burt séð frá tiltekinni aðferðafræði á þessu sviði eru útgjöld til málefna sem ráðuneytið ber ábyrgð á sífellt til endurskoðunar. Þannig má nefna að jafnréttismál hafa fengið aukið vægi og auknum fjármunum hefur verið veitt til málaflokksins á undanförnum árum í takt við pólitískar áherslur ráðherra og ríkisstjórnar.