Ferill 1124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2088  —  1124. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.


     1.      Hver er staðan á vinnu við stafræna endurgerð íslensks prentmáls, sbr. þingsályktun nr. 20/148?
    Í skýrslu forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis 2018 frá 150. löggjafarþingi segir: „Starfshópur var skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra 10. september 2018 og falið það verkefni að gera tillögur til ráðherra á grundvelli þingsályktunarinnar um kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls sem verði aðgengileg til lestrar á nettengdum búnaði. Starfshópurinn skilaði skýrslu með niðurstöðum og tillögum í nóvember 2018.“
    Helstu niðurstöður starfshópsins voru að ef miða ætti við að gera allar frumsamdar og þýddar bækur á íslensku sem skráðar væru í bókasafnskerfið Gegni og væru frá tímabilinu 1850–2015, alls 88 þúsund rit, aðgengilegar á stafrænu formi væri hagkvæmast að vinna verkið á sex árum með þremur vinnslustöðvum. Áætlaður kostnaður við verkið miðað við nóvember 2018 var 647 millj. kr. í upphafi og árlegur rekstrarkostnaður var upp á 41 millj. kr. Þetta kostnaðarmat hefur ekki verið uppfært.

     2.      Hefur verið unnið að því að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem starfshópur ráðherra skilaði á 150. löggjafarþingi (þskj. 95) á grunni þingsályktunarinnar?
    Í nóvember 2020 voru uppi áform um að skipa starfshóp með hagsmunaaðilum sem tilnefndu í hópinn. Tilnefningar bárust og lágu fyrir 18. maí 2021 en hópurinn var ekki skipaður þar sem ákveðið var þess í stað að skoða málið í innanhúshópi í ráðuneytinu. Í júlí 2022 var aftur lagt til að skipa starfshóp í samræmi við fyrrgreinda skýrslu. Tilefni þess voru samskipti ráðuneytisins við rétthafasamtökin Myndstef, Hagþenki og Blaðamannafélag Íslands vegna ágreinings samtakanna við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn vegna notkunar safnsins á efni á tímarit.is án samþykkis allra rétthafa. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um skipun nýs starfshóps.

     3.      Hvaða fjármunir, ef einhverjir, hafa verið eyrnamerktir verkefninu?
    Ekki hefur sérstaklega verið gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið í núgildandi fjármálaáætlun.

     4.      Er undirbúningur hafinn að því að semja við höfundarréttarhafa og hagaðila um stafræna endurgerð ritverka?
    Þar sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls hefur ekki verið hafist handa við að semja við höfundarréttarhafa vegna þess. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn á hins vegar í viðræðum við rétthafasamtök vegna slíkra mála sem tengjast tímarit.is eins og sakir standa. Ótímabært er að segja til um hver niðurstaðan verður úr þeim viðræðum en hægt verður að hafa hana til hliðsjónar þegar samið verður við rétthafa um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.