Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2174  —  684. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Sveinbjarnardóttur um fátækt barna.


     1.      Er hafin vinna í ráðuneytinu til að bregðast við niðurstöðum skýrslu um fátækt barna í Evrópu sem Barnaheill gáfu út haustið 2021? Hyggst ráðherra setja af stað vinnu við að skilgreina fátækt meðal barna?
    Samkvæmt skýrslu sem Evrópuhópur Barnaheilla gaf út haustið 2021 eiga 12,7% barna á Íslandi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun hér á landi. Í skýrslunni kemur fram að af þeim 14 löndum sem þar var fjallað um sé fátækt meðal barna eingöngu minni í Danmörku. Í nýrri skýrslu hópsins sem kom út 7. mars 2023 kom fram að um 10.000 börn eða 13,1% barna búi við fátækt á Íslandi.
    Í niðurstöðum skýrslu um þróun lífskjara og fátæktar barna á árunum 2004–2016 sem Kolbeinn Stefánsson (2019) vann fyrir Velferðarvakt þáverandi félags- og barnamálaráðuneytis kemur fram að þegar á heildina er litið eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Í nýlegri skýrslu UNICEF á Íslandi, sem styrkt var af ríkisstjórninni, var efnislegur skortur barna hér á landi greindur í samstarfi við Hagstofu Íslands. Í þeirri skýrslu, líkt og í skýrslu Barnaheilla, kom fram að tíðni efnislegs skorts meðal barna hér á landi sé einhver sú minnsta í Evrópu.
    Það er jákvætt að Ísland sé í fararbroddi ríkja hvað varðar að börn líði ekki skort. Á sama tíma er mikilvægt að komið sé í veg fyrir að slíkur skortur sé til staðar yfir höfuð hér á landi. Stjórnvöld hafa undanfarin ár unnið margþætta vinnu við að styrkja innviði stuðnings sem veita þarf börnum, m.a. vegna efnislegs skorts. Meðal annars hefur félagsleg umgjörð barna og fjölskyldna þeirra verið endurskoðuð með snemmtækan stuðning, samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir ríkis og sveitarfélaga að leiðarljósi. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, eru grundvöllur yfirstandandi endurskoðunar á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Þeim er ætlað að ná til allrar þjónustu sem er veitt í þágu barna innan skólakerfisins, frístundaheimila, heilbrigðiskerfisins og sveitarfélaga sem og hjá lögreglu og fangelsisyfirvöldum, þegar það á við.
    Með lögunum eru lagðar skyldur á þjónustuveitendur að bregðast við með tilteknum hætti ef vísbendingar koma upp um að þörfum barns sé ekki mætt. Viðbrögðin eru samræmd og miða að því að leiðbeina fjölskyldum og beina þeim inn í stuðningskerfið sem lögin fela í sér. Þar sem skólar landsins eru vettvangur þar sem öll börn koma saman þarf að tryggja gott samstarf velferðarþjónustu og skóla í baráttunni gegn fátækt barna og í innleiðingu farsældarlaganna. Þar eru tækifærin til að teygja sig til barna, efla þau og styrkja, og veita þeim nauðsynlegan stuðning.

     2.      Er hafin vinna við að móta opinbera stefnu eða áætlun um að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi?
    Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, og þingsályktun um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er sú skylda lögð á stjórnvöld að móta heildstæða stefnu um málefni barna. Mun sú stefnumótun ná utan um alla málaflokka er varða farsæld barna á Íslandi og er efnislegur skortur barna þar ekki undanskilinn.
    Samhliða er unnið að sérstöku mælaborði um farsæld barna sem mun halda utan um helstu mælikvarða um velferð og farsæld barna á Íslandi. Þar er fylgst með mælikvörðum er varpa ljósi á líðan og stöðu barna á Íslandi og er sérstök vídd í mælaborðinu helguð mælikvörðum um efnislega stöðu barna.

     3.      Hyggst ráðherra grípa til sérstakra aðgerða í þágu barna í ljósi þess að Ísland er eina norræna landið þar sem börn eiga frekar á hættu að búa við fátækt en fullorðnir?
    Stuðningur við barnafjölskyldur er óvíða meiri en á Íslandi þegar allt er með talið, til að mynda stuðningur vegna húsnæðis, leikskóla o.fl. Af OECD-ríkjunum verja þannig einungis Svíþjóð, Lúxemborg og Danmörk meiru en Íslendingar í stuðning við barnafjölskyldur. Þrátt fyrir þetta er það samfélagslegt verkefni að útrýma fátækt barna sem vinna þarf í þverpólitískri sátt og í víðtæku samráði við alla hagaðila, þar á meðal raddir barnanna sjálfra.
    Skýrslur UNICEF og Barnaheilla hafa báðar bent til þess að skortur á sviði tómstunda sé einn helsti þátturinn í efnislegum skorti barna á Íslandi. Áður hafa komið fram sambærilegar vísbendingar en fyrir liggur að skortur á sviði tómstunda jókst í kjölfar efnahagshrunsins, var 8% 2009 en var um 17% árið 2018.
    Meðal annars á grundvelli þessara upplýsinga var ákveðið að einblína sérstaklega á íþrótta- og tómstundaþátttöku barna sem viðbrögð við heimsfaraldri COVID-19. Farið var í umfangsmiklar aðgerðir til að tryggja börnum á tekjulægri heimilum aðgengi að íþróttum og tómstundum með sérstökum tekjutengdum styrkjum.
    Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áfram unnið að því að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu.