Ferill 1040. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2188  —  1040. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um endurvinnslu vara sem innihalda litín.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er endurvinnsluferill rafrettuhylkja og annarra vara sem innihalda litín? Er unnið að því að ákveða slíkan feril ef hann er ekki til?

    Hvort tveggja raf- og rafeindatæki og rafhlöður og rafgeymar eru vöruflokkar sem falla undir lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, og eru því í framlengdri framleiðendaábyrgð, sem Úrvinnslusjóður fer með framkvæmd á. Rafrettur sem innihalda rafhlöðu af einhverju tagi falla því undir framlengda framleiðendaábyrgð hvort tveggja á grundvelli þess að vera raf- og rafeindatæki og þess að þær innihalda rafhlöðu. Úrvinnslugjald er lagt á þessa vöruflokka við innflutning og standa tekjur af gjaldinu straum af kostnaði við meðhöndlun þeirra að notkun lokinni. Í IV. og VII. kafla laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, eru sérákvæði um rafhlöður og rafgeyma og raf- og rafeindatækjaúrgang, m.a. um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á þessum vörum og skyldur þeirra að tryggja söfnun og meðhöndlun viðkomandi úrgangs.
    Rafrettur falla í flokk lítilla raf- og rafeindatækja (ekkert ytra mál er yfir 50 sm) og ber notendum að skila þeim að líftíma loknum í sama feril og öðrum litlum raf- og rafeindatækjum. Af litín-rafhlöðum getur stafað íkveikju- og sprengihætta, einkum ef rafhlaða skaddast. Til að draga úr þessari hættu við meðhöndlun er mikilvægt að notendur fjarlægi rafhlöður úr rafrettum áður en þeim er skilað, ef það er mögulegt, og skili rafhlöðunum í sama feril og öðrum rafhlöðum og rafgeymum. Hægt er að skila raf- og rafeindatækjum til meðhöndlunar endurgjaldslaust til þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs og söfnunarstöðva sveitarfélaga, auk þess sem stærri verslunum sem selja raf- og rafeindatæki (sölusvæði a.m.k. 400 m2) er skylt að taka á móti litlum raf- og rafeindatækjum. Jafnframt er þeim sem selja og dreifa rafhlöðum og rafgeymum skylt að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum á sölu- eða dreifingarstað gjaldfrjálst og tryggja viðeigandi ráðstöfun. Líkt og önnur raf- og rafeindatæki sem sett eru á markað eiga rafrettur að vera merktar með sérstöku tákni (yfirstrikaðri sorptunnu) sem gefur notendum til kynna að raf- og rafeindatækjaúrgangi sé safnað sérstaklega og hann eigi ekki að blandast öðrum úrgangi. Rafhlöður og rafgeyma ber að merkja með sama tákni. Umhverfisstofnun fer með lögbundið eftirlit með framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja, rafhlaðna og rafgeyma og eftirlit með að seljendur rafhlaðna og rafgeyma taki við notuðum slíkum vörum á sölu- eða dreifingarstað. Úrvinnslusjóður hefur upplýst ráðuneytið um að hann hafi óskað eftir því við Umhverfisstofnun að áhersla verði lögð á eftirlit með rafrettum við framangreint eftirlit á þessu ári.
    Samkvæmt upplýsingum frá Úrvinnslusjóði er raf- og rafeindatækjaúrgangur sem safnast, þ.m.t. lítil raf- og rafeindatæki, sendur utan til endurvinnslu. Mikilvægur hluti af meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs er að fjarlægja úr tækjunum rafhlöður og rafgeyma, hafi það ekki verið gert áður en þeim var skilað til meðhöndlunar. Meðhöndlun lítilla raf- og rafeindatækja frá Íslandi fer öll fram innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki eru aðgengilegar upplýsingar um söfnun og endurvinnslu á rafrettum einum og sér, heldur eru þær inni í tölum sem til eru yfir söfnun og endurvinnslu lítilla raf- og rafeindatækja. Árið 2021 var hlutfall lítilla raf- og rafeindatækja sem söfnuðust 21% af samsvarandi tækjum sem sett voru á markað. Áætlað endurvinnsluhlutfall þeirra tækja sem send voru utan til meðhöndlunar var 68% og áætlað endurnýtingarhlutfall 95%. Þrjú fyrirtæki tóku við litlum raf- og rafeindatækjum frá Íslandi árið 2021 til endurvinnslu og annarrar endurnýtingar, þ.e. Hringrás (28 kg, allt hátalarar úr viði sem endurvinnsluaðilar erlendis taka ekki við), Jacomij Electronics í Hollandi (532 kg) og Stena Recycling í Svíþjóð (245 kg). Aukin endurvinnsla á raf- og rafeindatækjum stuðlar að virku hringrásarhagkerfi og betri nýtingu auðlinda. Þess vegna er mikilvægt að notendur skili öllum raf- og rafeindatækjum til meðhöndlunar. Af söfnunarhlutfalli lítilla raf- og rafeindatækja má ráða að tækifæri eru til að auka þessa söfnun. Til samanburðar var heildarsöfnunarhlutfall allra flokka raf- og rafeindatækja árið 2021 heldur hærra, eða um 34%. Í aðgerðaáætlun sem fylgir stefnu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um meðhöndlun úrgangs 2021–2032 er að finna aðgerð sem hefur það að markmiði að auka söfnun til endurvinnslu á raf- og rafeindatækjaúrgangi og rafhlöðu- og rafgeymaúrgangi (aðgerð 18). Úrvinnslusjóður fer með ábyrgð á framkvæmd aðgerðarinnar.
    Rafhlöður og rafgeymar sem innihalda litín eru mikið notuð sem aflgjafar í raf- og rafeindatækjum, t.d. í farsímum, spjaldtölvum, fartölvum, snjallúrum og rafmagnsverkfærum. Jafnframt er þessi tegund rafhlaðna og rafgeyma algeng í rafknúnum hlaupahjólum, reiðhjólum, bifreiðum og öðrum sambærilegum tækjum. Eins og áður segir eru rafhlöður og rafgeymar í framlengdri framleiðendaábyrgð og þeim má skila til viðeigandi meðhöndlunar án endurgjalds að notkun lokinni. Samkvæmt Úrvinnslusjóði eru rafhlöður og rafgeymar sem safnast send til aðila sem meðhöndla spilliefni þar sem þau eru flokkuð, meðhöndluð og komið til endurvinnslu, annarrar endurnýtingar eða förgunar, eftir atvikum. Í þeim tilfellum þegar notanda er mögulegt að fjarlægja rafhlöðu eða rafgeymi úr raf- og rafeindatæki getur aflgjafinn farið í þann farveg. Ef rafhlaða er hins vegar brædd við rafrettu af hendi framleiðanda, eins og mun vera í einhverjum tilfellum, og ekki mögulegt að fjarlægja hana má gera ráð fyrir að tækið ásamt rafhlöðunni fari til brennslu. Söfnunarhlutfall rafhlaðna sem settar voru á markað á Íslandi árið 2021 var 36%, samkvæmt gögnum Úrvinnslusjóðs. Rafhlöður sem innihéldu litín voru sendar utan til endurvinnslu og annarrar endurnýtingar hjá Van Peperzeel í Hollandi (110 kg), SANM í Frakklandi (1.100 kg) og Stena Recycling í Svíþjóð (242 kg).
    Þess má að lokum geta að fyrirséð er að kröfur sem gerðar eru til framleiðenda, innflytjenda, Úrvinnslusjóðs og meðhöndlunaraðila aukist á næstu árum varðandi endurvinnslu raf- og rafeindatækja, rafhlaðna og rafgeyma, þ.m.t. er varðar rafhlöður og rafgeyma sem innihalda litín. Evrópusambandið hefur síðastliðin ár unnið að setningu nýrra reglna um rafhlöður og rafgeyma og við það horft til alls lífsferils þessara vara, þ.e. allt frá hönnun þeirra og að þeim tíma er notkun þeirra lýkur. Meðal þess sem búast má við að nýjar reglur feli í sér er aukin upplýsingagjöf til notenda, skilyrði um að auðveldara verði fyrir notendur að fjarlægja rafhlöður og rafgeyma úr raf- og rafeindatækjum og krafa um lágmarksendurnýtingu á litíni til nota í nýjar rafhlöður og rafgeyma. Markmiðið er m.a. að styrkja sérstaklega endurvinnsluiðnað fyrir litín í sambandinu. Þegar sambandið hefur sett reglurnar má gera ráð fyrir að Ísland innleiði þær í kjölfarið, á grundvelli EES-samningsins.