Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 411  —  246. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um fræðslu félaga- og hagsmunasamtaka í leik- og grunnskólum.


     1.      Hvaða reglur gilda um heimsóknir og fræðslu félaga- og hagsmunasamtaka í leik- og grunnskólum landsins?
    Samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 90/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, bera skólastjórar m.a. ábyrgð á stjórnun og starfsemi skólanna gagnvart rekstraraðila og veita þeim faglega forystu. Í því felst m.a. að taka ákvarðanir um hvaða heimsóknir og fræðsla eru heimilaðar í hverjum skóla. Sveitarfélög geta líka ákveðið að setja sér verklagsreglur um framkvæmd og fyrirkomulag heimsókna og fræðslu utanaðkomandi aðila og samtaka. Í þeim tilvikum sem slíkar verklagsreglur eru settar skulu þær vera kynntar meðal nemenda, starfsfólks skóla og foreldra, og gerðar aðgengilegar, svo sem með birtingu þeirra í skólanámskrá og á vefsvæði skólans.
    Hér þarf einnig að hafa til hliðsjónar þau sjónarmið sem aðalnámskrá grunnskóla kveður á um, til að mynda um tengsl skóla og nærsamfélags og m.a. mikilvægi þess að skólar byggi upp virk tengsl við nærsamfélag sitt og stuðli þannig að jákvæðum samskiptum og samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. Þetta er mikilvægt til að auka fjölbreytni í námi, t.d. í valgreinum á unglingastigi og til þess að tengja nám nemenda veruleikanum í nærumhverfi þeirra svo það verði merkingarbærara. Þessi tenging snýr t.d. að umhverfi, menningu, listum, íþróttum, félags- og tómstundastarfi og atvinnulífi. Jafnframt er í sameiginlegum hluta aðalnámskráa skólastiganna þriggja, kafla 2.1.3, m.a. áréttað að lýðræðis- og mannréttindamenntun gerir ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla engu síður en samstarfi í skólanum. Þannig þarf að gera ráð fyrir virku samstarfi m.a. við grenndarsamfélag innan sveitarfélags eða hverfis en slíkt samstarf er einnig einn af lykilþáttum sjálfbærni.

     2.      Samræmist það aðalnámskrá grunnskóla að aðrir en kennarar taki að sér fræðslu í grunnskólum, t.d. hagsmunasamtök? Hvaða kröfur eru gerðar um kennsluréttindi aðila utan kennara skólanna sem taka að sér fræðslu í grunnskólum?
    Til að sinna kennslu í grunnskóla samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er meginreglan sú að einstaklingar þurfa að hafa starfsheitið kennari, sbr. lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, sem staðfestir að viðkomandi búi yfir þeirri hæfni sem gerð er krafa um.
    Samkvæmt 18. gr. laganna er í sérstökum tilvikum skólastjórnendum heimilt að ráða án auglýsingar kennara í grunn- og framhaldsskólum til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sérfræðinga, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis, enda sé afleysingu ætlað að standa skemur en 12 mánuði. Skólastjórnendum er einnig heimilt að ráða án auglýsingar kennara til kennslustarfa sem eiga að standa tvo mánuði eða skemur sem og til tímabundinna starfa í minna en 1/ 3 hluta starfs og sérfræðinga eða kennara til kennslu sem nemur að hámarki 240 mínútum á viku.
    Þegar um er að ræða tilfallandi fræðslu á vegum annarra en starfsfólks grunnskóla, t.d. með tilfallandi heimsóknum í skóla, þá er ekki gerð krafa um sérstaka hæfni af hálfu þeirra fræðsluaðila samkvæmt lögum, reglum og aðalnámskrá. Það kemur því í hlut skólastjóra að meta hvort viðkomandi fræðsluaðilar séu til þess bærir að veita fræðslu til nemenda og hvort fræðslan samræmist aðalnámskrá og eftir atvikum verklagsreglum skóla og sveitarfélags.

     3.      Er allt kennsluefni sem notað er í leik- og grunnskólum, svo sem bækur, veggspjöld og annað efni af því tagi, yfirfarið og samþykkt af Menntamálastofnun? Við hvaða reglur og viðmið styðst stofnunin við mat á gæðum kennsluefnis og hvort kennsluefni sé við hæfi barna?
    Samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er mennta- og barnamálaráðuneyti skylt að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Í umboði ráðherra annast Menntamálastofnun þá skyldu en eitt verkefna stofnunarinnar er að sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. laga um Menntamálastofnun, nr. 91/2015. Í verkefninu felast umtalsverðar skyldur bæði hvað varðar gerð námsefnis og þjónustu við skóla. Stofnunin birtir gátlista fyrir námsefnishöfunda með viðmiðum og ábendingum um helstu atriði sem æskilegt er að höfundar námsefnis, ritstjórar og aðrir sem að námsefnisgerð koma, hafi í huga við samningu og frágang efnis. Gátlistinn tekur til kennslufræðilegra og faglegra atriða, kennsluleiðbeininga, til sérkennslu og kennslu nemenda með annað móðurmál, um frágang texta og uppsetningu prentaðs máls, um frágang rafræns efnis, stafsetningu og greinarmerki. Allt námsefni sem stofnunin gefur út grundvallast á þessum gæðaviðmiðum um námsefni.
    Val á námsefni er í höndum skóla og kennara, ekki Menntamálastofnunar, í samræmi við þær megináherslur sem aðalnámskrá kveður á um með það að markmiði að nemendur nái þeirri hæfni sem að er stefnt. Það er kennara að tryggja að það námsefni sem þeir nota, sé það ekki útgefið af Menntamálastofnun, sé í samræmi við gildandi lög og aðalnámskrár á hverjum tíma, að það höfði til nemenda, sé áhugavekjandi, efni skýrt og skipulega sett fram og taki mið af því sem nemendur hafa áður tileinkað sér. Þá á námsefni einnig að taka mið af grunnþáttum almennrar menntunar, svo sem heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, og mismuna ekki nemendum eða nemendahópum, svo sem vegna kynferðis, kynhneigðar, búsetu, uppruna og félagslegrar stöðu.

     4.      Er foreldrum leik- og grunnskólabarna gefinn kostur á að kynna sér fræðsluefni sem lagt er fyrir nemendur leik- og grunnskóla, þ.m.t. frá félaga- og hagsmunasamtökum, áður en kennsla hefst? Ber börnum í leik- og grunnskólum skylda til að sækja fræðslu félaga- eða hagsmunasamtaka sem fer fram innan skóla?
    Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla skal nám í grunnskóla m.a. taka mið af þroska, hæfileikum, getu og áhugasviði hvers og eins nemanda. Skipulag skólastarfs og kennslu á að byggja á þessum þáttum sem gerir kröfur um að kennarar m.a. hafi bæði nemanda og foreldra hans með í ráðum um þau markmið sem stefnt skal að hverju sinni. Samkvæmt lögum um grunnskóla ber foreldrum m.a. að fylgjast með námsframvindu barna sinna í samvinnu við kennara. Í því felst m.a. að kennarar kynna foreldrum það námsefni sem gert er ráð fyrir að vinna með til að ná markmiðum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Ráðuneytið lítur svo á að sömu sjónarmið eigi að gilda um aðgang og upplýsingar til foreldra um námsefni sem notað er til kennslu annars vegar og fræðsluefni sem notað er af félaga- og hagsmunasamtökum hins vegar.
    Jafnframt lítur ráðuneytið svo á að nemendum beri skylda til að sækja fræðslu sem fer fram bæði innan og utan hefðbundins skóladags þegar um hana er mælt fyrir í samþykktri starfsáætlun og skólanámskrá skóla og er þannig hluti af skipulagðri fræðslu skólans. Á leikskólastigi er ekki um skyldunám að ræða og því ber leikskólabörnum ekki skylda til að sækja þá fræðslu sem fyrirspurn þessi varðar.

     5.      Hvaða félaga- og hagsmunasamtök hafa fengið heimild til að heimsækja og fræða börn í leik- og grunnskólum? Hefur verið gerð krafa um að fulltrúar slíkra samtaka hafi kennsluréttindi?
    Upplýsingar þess efnis liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu enda fellur það í hlut skóla og sveitarfélaga að setja sér verklagsreglur um slíkar heimsóknir og fræðslu. Vísað er til umfjöllunar í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar um þær kröfur sem gerðar eru um kennsluréttindi aðila utan kennara skólanna sem taka að sér fræðslu.