Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 702  —  440. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um alþjóðlegar skuldbindingar og frumvarpsgerð.


     1.      Hvaða verklagsreglur gilda við frumvarpsgerð í ráðuneytinu þegar ákvarðað er hvað eigi að koma fram í þeim kafla greinargerðar stjórnarfrumvarps er fjallar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar?
    Í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis gáfu út árið 2007 er að finna verklagsreglur fyrir frumvarpsgerð í Stjórnarráðinu. Áréttað er í handbókinni að sú þjóðréttarlega skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að gæta að samræmi laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Hafi farið fram mat á þeim við samningu frumvarps sé rétt að geta þess í athugasemdum með frumvarpinu.
    Til viðbótar hefur samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 24. febrúar 2023 um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna að geyma reglur um undirbúning og meðferð frumvarpa. Í 8. gr. samþykktarinnar er kveðið á um að í greinargerð með frumvarpi skuli fjalla um samræmi þess við alþjóðlegar skuldbindingar gefi frumvarpið tilefni til slíks mats.
    Þegar lagafrumvarpi er ætlað að innleiða EES-gerð eða aðra alþjóðlega skuldbindingu er slík skuldbinding eðlilega í forgrunni frumvarpsvinnunnar. Ef frumvarp felur í sér innleiðingu á EES-gerð eða heimild til slíkrar innleiðingar skal tekið fram í greinargerð með frumvarpinu hvaða leiðir hafi verið færar til innleiðingar á gerðinni og hvers vegna sú leið sem lögð er til hafi orðið fyrir valinu. Varði frumvarpið fleiri atriði en innleiðingu gerðar skal í greinargerð tilgreina sérstaklega hvaða greinar frumvarpsins eru til innleiðingar auk þess sem rökstyðja ber hvers vegna talið var nauðsynlegt að víkja frá meginreglu um hrein innleiðingarfrumvörp.
    Fleiri atriði um frágang lagafrumvarpa um EES-mál eru áréttuð í reglum forsætisnefndar Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Tekið er fram að í greinargerð skuli geta þess hvort fumvarp uppfylli lágmarkskröfur á grundvelli viðkomandi ESB-gerðar og annarra skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum og að hvaða marki frumvarp hafi að geyma frávik frá upphaflegu ESB-gerðinni. Sérstaklega skuli tilgreint ef gengið er lengra en lágmarksákvæði viðkomandi gerðar kveður á um og skuli rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun. Tilgreina beri sérstaklega ef svigrúm er til staðar við innleiðingu.

     2.      Hvernig metur ráðuneytið það hvort tilefni sé til þess að skoða tiltekinn alþjóðasamning í þeirri vinnu og þá hvort tilefni sé til þess að minnast á niðurstöður þeirrar skoðunar í greinargerð frumvarps?
    Það fer eftir efni þess lagafrumvarps sem er í vinnslu til hvaða alþjóðasamninga taka þurfi tillit hverju sinni. Framangreindar verklagsreglur fela í sér að taka þarf tillit til alþjóðlegra skuldbindinga við gerð lagafrumvarpa þegar það á við. Samráð við hagsmunaaðila við frumvarpasmíði, sem að meginstefnu til fer fram í gegnum samráðsgátt stjórnvalda, kann enn fremur að gefa tilefni til endurskoðunar á því hvort og að hvaða marki horft sé til alþjóðasamninga við frágang frumvarps í ráðuneytinu. Loks kveður 66. gr. laga um opinber fjármál á um að mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa skuli metin. Þar undir falla m.a. fjárhagsleg áhrif, áhrif á jafnrétti og áhrif á umhverfi og loftslag. Matið skal birt sem hluti af greinargerð með frumvarpi, líkt og segir í samþykkt ríkisstjórnarinnar sem fyrr er getið.

     3.      Hvernig er vinnulag ráðuneytisins varðandi hvort og þá hvernig það skoðar samræmi frumvarpa sinna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lagt er til að verði lögfestur á kjörtímabilinu, sbr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Vísað er í svar við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Sambærilegt verklag er viðhaft varðandi gerð lagafrumvarpa sem varða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.