Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1175  —  776. mál.
Texti felldur brott.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 (vigtun sjávarafla).

Flm.: Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem slæm veðurskilyrði, bilun í hafnarvog, eða aðrar óvæntar uppákomur valda því að ómögulegt eða afar erfitt er að vega afla á hafnarvog í löndunarhöfn, getur Fiskistofa í einstökum tilvikum veitt undanþágu frá vigtun á hafnarvog í löndunarhöfn og leyft vigtun með öðrum hætti.
     b.      2. og 4. mgr. falla brott.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Vigtarmaður skal taka upp myndskeið af vigtun í góðum myndgæðum þar sem greina má allan afla sem hvílir á vog og þyngd vegins afla. Vigtarmaður skal miðla myndskeiði samstundis eða eins fljótt og auðið er til Fiskistofu.
                 Ráðherra skal með reglugerð kveða á um leyfilegt íshlutfall við vigtun einstakra tegunda. Vigtarmaður hefur eftirlit með því hvort íshlutfall sé í samræmi við skráðar upplýsingar.

2. gr.

    Í stað orðanna „sbr. 2. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: sbr. 4. málsl. 1. mgr. 6. gr.

3. gr.

    3. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    1.–5. og 7. mgr. 17. gr. laganna falla brott.

5. gr.

    Í stað orðanna „Áminningar, sviptingar veiðileyfa og afturkallanir vigtunarleyfa“ í 19. gr. laganna kemur: Áminningar og sviptingar veiðileyfa.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu 2.–5. gr. ekki öðlast gildi fyrr en þremur árum eftir gildistöku laga þessara. Vigtunarleyfi sem gefin eru út á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, falla ekki niður við gildistöku laga þessara en koma þó ekki til endurnýjunar að gildistíma loknum og falla niður þremur árum eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar til að tryggja að vigtun sjávarafla verði framkvæmd af óháðum aðilum á sem nákvæmastan hátt. Tilgangur frumvarpsins er einnig að efla eftirlit með vigtun svo að koma megi í veg fyrir alvarleg frávik.
    Lagt er til að heimild Fiskistofu til að veita leyfi til endurvigtunar og heimavigtunar verði felld brott sem og allar undanþágur frá meginreglunni um að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun, þó að undanskilinni undanþágu sem fram kemur í 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. Gerð er tillaga um að orðalagi þeirrar undanþágu verði breytt til að tryggja að slíkar undanþágur verði einungis veittar þegar nauðsyn krefur og aðeins í einstökum tilvikum.
    Þá er lagt til að komið verði á myndavélaeftirliti með vigtun afla. Ör tækniþróun undanfarinna ára hefur leitt til þess að slíkt eftirlit er hægt að stunda án mikillar fyrirhafnar. Myndavélaeftirlit veitir eftirlitsaðilum mun betri yfirsýn yfir framkvæmd vigtunar á hafnarvogum. Þannig geta eftirlitsaðilar sannreynt hvort vigtun hafi farið fram með þeim hætti sem lög kveða á um án þess að fram þurfi að fara ítarlegt eftirlit á vigtunarstað. Þá berast gögn úr myndavélaeftirliti samstundis og því hægt að grípa til aðgerða mun fyrr.
    Það skiptir miklu máli að rétt sé staðið að vigtun sjávarafla. Vigtun sjávarafla skiptir sköpum þegar tryggja á að skipverjar fái sanngjarnt kaup og að réttar upplýsingar um veiðar skili sér til stjórnvalda sem sinna rannsóknum á og eftirliti með fiskstofnum þjóðarinnar. Mikilvægt er að réttar upplýsingar um veiddan sjávarafla og söluverð komi fram í bókhaldi fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Komið hefur í ljós að verulegir vankantar eru á löggjöf um vigtun sjávarafla. Algengt er að fyrirtæki sæki um og fái leyfi til endurvigtunar. Þau geta þá vegið sjávarafla á eigin starfsstöð án eftirlits. Um þessar mundir hafa 84 aðilar leyfi til endurvigtunar og 17 aðilar leyfi til heimavigtunar. Í raun eru leyfi þessi svo mörg að endurvigtun er ekki lengur undantekning heldur meginregla. Sjálfsagt er að vega afla að nýju þegar hann kemur í starfsstöð en sú vigtun á ekki að vera grundvöllur stjórnvalda til að fylgjast með sjávarauðlindum og nýtingu þeirra eða sá grundvöllur sem launagreiðslur sjómanna byggjast á. Það á að vera meginregla að óháðir eftirlitsaðilar annist þá vigtun og skrái. Þannig verður hægt að tryggja samræmdar aðferðir til að gaumgæfa eins nákvæmlega og kostur er hversu mikið er veitt hverju sinni.
    Ein algengasta aðferðin við undanskot afla er þegar íshlutfall er skráð hærra en það er í raun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu kom m.a. fram að dæmi væru um verulegt misræmi milli íshlutfalls í afla þegar veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa sinnt eftirliti með hlutfalli íss og borið saman við vegið meðalíshlutfall sem leyfishafar endurvigtunar hafa gefið upp til aflaskráningar. Með því að nema úr gildi leyfi til endurvigtunar er von flutningsmanna sú að verulega dragi úr slíkum frávikstilvikum. Jafnframt er lagt til að ráðherra kveði á um hámark leyfilegs íshlutfalls við vigtun einstakra tegunda með reglugerð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til þrjár breytingar á 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Í henni er fjallað um vigtunarskyldu, þ.e. skyldu til að vega allan afla á hafnarvog í löndunarhöfn, fyrirkomulag vigtunar og undanþágur frá almennri vigtunarskyldu.
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til breytt orðalag 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. þar sem fjallað er um tímabundnar undanþágur frá meginreglu um að allur afli skuli veginn á hafnarvog við löndun. Skerpt er á orðalagi um hvaða tilvik geti réttlætt undanþágu frá meginreglu og áréttað að heimildinni megi aðeins beita í einstökum tilvikum. Því geti Fiskistofa ekki veitt leyfi til langs tíma á grundvelli heimildarinnar. Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að skapa svigrúm þegar óvæntar aðstæður, líkt og bilanir eða óhagstæð veðurskilyrði, gera það að verkum að ómögulegt eða afar erfitt er að vega afla á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun. Ætla má að Fiskistofa geti þá hagað undanþágu eftir þörfum þannig að hún geti tekið til þess hvort afli skuli veginn þegar við löndun, hvort afli skuli veginn á hafnarvog, eða hvort afli skuli veginn í löndunarhöfn. Eftir sem áður er ljóst af orðalagi ákvæðisins að slíkar undanþágur skuli aðeins veita ef nauðsyn krefur, svo sem til að forðast að afli spillist eða til að gæta öryggis.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott 2. mgr. 6. gr. þar sem kveðið er á um að Fiskistofu sé heimilt að veita einstökum aðilum leyfi til að vigta afla annars staðar en á hafnarvog. Eins og sakir standa eru veitt tvenns konar leyfi á grundvelli málsgreinarinnar; annars vegar heimavigtunarleyfi, sem fjallað er um í 1. málsl. 2. mgr., og hins vegar endurvigtunarleyfi sem fjallað er um í 3. málsl. 2. mgr. Verði greinin felld brott getur Fiskistofa aðeins veitt tímabundna undanþágu frá vigtun á hafnarvog á grundvelli 4. málsl. 1. mgr. 6. gr., sem fjallað er um hér að framan. Margir hafa gagnrýnt hversu oft leyfi eru veitt til endurvigtunar og hversu mikið misræmi er milli vigtunar á hafnarvog og endurvigtunar. Verði heimild til endurvigtunar felld brott geta þeir sem hafa slíkt leyfi nú eftir sem áður nýtt eigin vigt í ýmsum tilgangi, en þá verður sú vigtun sem framkvæmd er á hafnarvog hin opinbera vigtun og myndar grundvöll aflamagns, skiptaverðs og annarra mikilvægra og afleiddra þátta.
    Einnig er í b-lið lagt til að felld verði brott 4. mgr. 6. gr. enda þykir sú heimild sem þar er veitt, þ.e. undanþága frá löndun í viðurkenndri höfn, barn síns tíma. Skip eru betur búin en áður og hringinn í kringum landið er þétt net viðurkenndra hafna.
    Í c-lið 1. gr. er lagt til að við 6. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar.
    Í fyrri málsgrein er mælt fyrir um skyldu til að taka upp myndskeið af vigtun og miðla því til Fiskistofu. Þegar er fjallað um rafræn vöktunarkerfi löndunarhafna og aðgang Fiskistofu að þeim í 8. gr. laganna, en hvergi er í þeim gerð krafa um að ávallt skuli taka upp myndskeið af vigtun. Mikilvægt er að tryggja að til sé lagaheimild sem kveður ekki aðeins á um rétt stjórnvalda til að mynda vigtun svo að tryggja megi að hún fari fram í samræmi við ákvæði laga heldur jafnframt á um skyldu stjórnvalda til að taka upp vigtun. Því er gerð tillaga um að lögð verði sú skylda á vigtarmann að taka upp og miðla myndskeiði af vigtun. Sú skylda er ekki íþyngjandi í nútímasamfélagi þar sem nánast allir hafa aðgang að myndavél í farsíma sem getur tekið upp og miðlað slíkum myndskeiðum. Því getur bilun í rafrænum vöktunarbúnaði hafna ekki leyst vigtarmann undan þeirri skyldu að mynda vigtun.
    Í seinni málsgrein er fjallað um íshlutfall við vigtun. Lagt er til að ráðherra kveði á um leyfilegt íshlutfall tiltekinna tegunda með reglugerð. Þá er lögð sú skylda á vigtarmann að hafa eftirlit með því hvort íshlutfall sé í samræmi við skráðar upplýsingar. Fiskistofa hefur ekki burði til að fylgjast með því hvort íshlutfall sé rétt skráð við löndun og því er nærtækast að leggja þá skyldu á vigtarmann sem er ávallt viðstaddur.

Um 2.–5. gr.

    Lagðar eru til breytingar á ýmsum lagaákvæðum þar sem fjallað er um leyfi til vigtunar og lagt er til að felld verði brott, sbr. 1. gr. frumvarps þessa.

Um 6. gr.

    Miðað er við að lögin öðlist þegar gildi við samþykkt þeirra, en áréttað er í 3. málsl. 6. gr. að þau leyfi sem Fiskistofa hefur veitt á grundvelli 6. gr., sem lagt er til að breytt verði, haldi gildi sínu þar til þau renna út. Samkvæmt núgildandi reglugerð eru leyfi til heimavigtunar veitt til allt að tveggja ára en leyfi til endurvigtunar til allt að þriggja ára. Loks er áréttað að öll leyfi til vigtunar sem veitt hafi verið á grundvelli 6. gr. fyrir gildistöku laganna skuli falla úr gildi þremur árum eftir gildistöku þeirra. Eins og áður segir eru leyfi ekki veitt til lengri tíma en þriggja ára en rétt þykir að taka af allan vafa í þessum efnum ef svo vill til að leyfi hafi ekki verið tímabundin þrátt fyrir áðurnefndan tímafrest í reglugerð um vigtun sjávarafla. Þá er lagt til að 2.–5. gr. frumvarpsins öðlist gildi þremur árum eftir gildistöku laganna enda fjalla þau um vigtunarleyfi sem falla ekki úr gildi þegar við gildistöku.