Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1185  —  597. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um styrki og samstarfssamninga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða fyrirtæki og félagasamtök hafa notið styrks frá ráðuneytinu, undirstofnunum þess eða sjóðum á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess eða gert samstarfssamning við þessa aðila frá 1. janúar 2017 þar til nú, þar sem samanlögð upphæð styrks eða fjárhæð í samstarfssamningi var 10 millj. kr. eða hærri? Svar óskast sundurliðað eftir árum, eftir því hvers eðlis styrkur eða samstarfssamningur var og eftir því hversu oft styrkur eða samstarfssamningur var endurnýjaður.

    Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur á tímabilinu 2017–2023 greitt árlegt sameiginlegt framlag til BSRB, BHM og KÍ vegna fjárveitinga til HASLA, Hagrannsóknastofnunar samtaka launafólks í almannaþjónustu, að fjárhæð 10 millj. kr. Jafnframt hefur ráðuneytið greitt framlag til hagdeildar ASÍ sem nemur 30 millj. kr árlega á umræddu tímabili. Samtals nema þessar greiðslur því 280 millj. kr. á umræddu sjö ára tímabili. Þessi styrkir hafa verið veittir til efnahagsrannsókna á vegum þessara stéttarfélaga frá árinu 2003 í kjölfar þess að Þjóðhagsstofnun var lögð niður og voru áður á málefnasviði forsætisráðuneytisins en voru færðir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið með breyttri framsetningu fjárlaga árið 2017. Á þessu tímabili hefur ráðuneytið einnig veitt Háskóla Íslands styrk vegna rannsókna í lögfræði og hagfræði í norðurslóðarétti að upphæð 20 millj. kr árið 2017 og 10 millj. kr árið 2019, samtals 30 millj. kr.
    Undirstofnanir fjármála- og efnahagsráðuneytis; Bankasýsla ríkisins, Fjársýslan, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Ríkiskaup, Skatturinn, Umbra og yfirskattanefnd hafa ekki veitt styrki eða gert samstarfssamninga, þar sem samanlögð upphæð var yfir 10 millj. kr., á umræddu tímabili.