Ferill 932. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1379  —  932. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um gerð viðauka við almenna eigendastefnu fyrir öll fyrirtæki í eigu ríkisins.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og öðrum ráðherrum sem eru í forsvari fyrir fyrirtæki í eigu ríkisins að semja viðauka við almenna eigendastefnu fyrir hvert fyrirtæki sem er í meirihlutaeigu ríkisins. Viðaukarnir skulu m.a. fjalla um grundvöll eignarhalds ríkisins á viðkomandi fyrirtæki, markmið með eignarhaldi, hlutverk fyrirtækisins, takmarkanir á hlutverki fyrirtækisins, arðgreiðslustefnu, skipulag eigendahlutverksins, meginreglur eigendastefnu, stjórnarhætti, kröfur og árangursviðmið.
    Fjármála- og efnahagsráðherra skal vinna viðauka við almenna eigendastefnu í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra og stjórnir ríkisfyrirtækja. Vinnu við viðaukana skal lokið fyrir aðalfund hvers félags á árinu 2025.

Greinargerð.

    Öllum fyrirtækjum á Íslandi sem eru að meiri hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins ber að fylgja almennri eigendastefnu ríkisins, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út í september 2021, en fyrsta útgáfa almennu eigendastefnunnar leit dagsins ljós árið 2012. Einnig gaf fjármála- og efnahagsráðuneytið út almenna eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki árið 2009, með uppfærðri útgáfu árið 2017. Báðar eigendastefnur ná til grunnþátta í rekstri fyrirtækja og fjármálafyrirtækja, en snerta með engu móti atriði sem snúa sérstaklega að þessum fyrirtækjum. Stjórnir fyrirtækjanna þurfa því af og til að taka ákvarðanir um atriði sem sannarlega ættu heima í sértækri eigendastefnu. Undantekningin er Isavia ohf., en viðauki við almenna eigendastefnu var gefinn út í september 2021.
    Þingsályktunartillögu þessari er ætlað að gera fjármála- og efnahagsráðherra, eða þeim ráðherra sem fer með forsvar fyrir hönd ríkisins, skylt að hefja sem fyrst vinnu við viðauka við almenna eigendastefnu fyrir hvert félag í eigu ríkisins, sem fjalla á ítarlegan máta um atriði sem ekki eiga heima í almennri eigendastefnu. Meðal þess sem viðauki við almenna eigendastefnu myndi skýra væri ástæða eignarhalds ríkisins á viðkomandi fyrirtæki og markmið með eignarhaldinu, hvert hlutverk viðkomandi fyrirtækis er og ekki síður hvaða hlutverki viðkomandi fyrirtæki á ekki að gegna.
    Með samningu viðauka við almenna eigendastefnu fá stjórnendur ríkisfyrirtækjanna skýran ramma utan um starfsemina og skýrari og opinskárri samskipti við eigendur fyrirtækjanna. Í rekstri fyrirtækja þurfa ákveðin atriði að njóta leyndar, einnig í rekstri ríkisfyrirtækja, en viðauki við almenna eigendastefnu mun auka gagnsæi í rekstri þeirra eftir fremsta megni, fjölmiðlum, öðrum fyrirtækjum og almenningi til heilla.

Fyrirtæki í eigu ríkisins að meiri hluta eða öllu leyti.
    Samkvæmt ársskýrslu ríkisfyrirtækja 2022 myndi þingsályktunartillaga þessi ná til eftirfarandi fyrirtækja:

Ríkisfyrirtækin Eignarhlutur Fyrirsvar
Auðkenni ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Betri samgöngur ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Farice ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. 54% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
I ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Ríkisútvarpið ohf. 100% Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Vaðlaheiðargöng hf. 93% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Landsnet hf. 93% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Landsvirkjun 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Orkubú Vestfjarða ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Rarik ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Landsbankinn hf. 98% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins 100% Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
Sparisjóður Austurlands hf. 50% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Happdrætti Háskóla Íslands 100% Háskóli Íslands
Íslandspóstur ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Íslenskar orkurannsóknir 100% Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Landskerfi bókasafna hf. 51% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Matís ohf. 100% Matvælaráðuneytið
Neyðarlínan ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Öryggisfjarskipti ehf. 75% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Vigdísarholt ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Eignarhlutir ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Fasteignir Háskóla Íslands ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Leigufélagið Bríet 100% Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Lindarhvoll ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Nýr Landspítali ohf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Sítus ehf. 54% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Tæknigarður ehf. 100% Háskóli Íslands
Vísindagarðar Háskóla Íslands 95% Háskóli Íslands
Vísindagarðurinn ehf. 52% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Icelandic Trademark Holding ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Keilir Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs 51% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Rannsókna- og háskólanet Íslands hf. 86% Háskóli Íslands
Tæknisetur 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. 100% Fjármála- og efnahagsráðuneytið