Ferill 934. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1381  —  934. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 (nemendur með alþjóðlega vernd).

Frá mennta- og barnamálaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     1.      Við 1. tölul. 1. mgr. bætist: eða nemendur sem hafa hlotið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
     2.      Í stað orðanna „láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna“ í 2. mgr. kemur: námslána og/eða styrkja úr Menntasjóði námsmanna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og barnamálaráðuneytinu og felur í sér afmarkaðar breytingar á 2. gr. laga um námsstyrki, nr. 79/2003, þar sem fjallað er um rétt til námsstyrkja. Meginmarkmið frumvarpsins er að nemendur sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái sama rétt til námsstyrkja og íslenskir ríkisborgarar og erlendir ríkisborgarar sem eiga rétt til slíks styrks samkvæmt samningum við önnur ríki.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjöldi einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi hefur aukist á undanförnum árum. Í takt við þá þróun hefur markmið og stefna stjórnvalda verið að tryggja farsæla móttöku þessa hóps og inngildingu þeirra í samfélagið. Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er fjallað um að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu og að styðja verði sérstaklega við börn af erlendum uppruna í skólakerfinu. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025, nr. 29/152 (þskj. 1364 – 592. mál), sem var samþykkt á Alþingi 16. júní 2022, er áhersla lögð á að flóttafólk fái nauðsynlega aðstoð til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, til náms eða á öðrum sviðum.
    Einn liður í aðstoð til virkrar þátttöku flóttafólks í samfélaginu eru samningar ríkisins við sveitarfélög um svonefnda samræmda móttöku flóttafólks. Nú þegar hafa verið gerðir samningar við allnokkur sveitarfélög, þar á meðal sveitarfélög á landsbyggðinni, og hafa börn og ungmenni sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sest þar að og munu gera það áfram í auknum mæli. Í sumum þessara sveitarfélaga eru staðhættir þannig að fjarlægðir milli lögheimilis, fjölskyldu og skóla eru umtalsverðar.
    Markmið laga um námsstyrki, nr. 79/2003, er að jafna fjárhagslegan aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum og háskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum eða efnaleysi torveldar þeim nám. Í lögunum felst að nemendur, sem ekki eiga rétt til láns eða styrks úr Menntasjóði námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu og búa fjarri fjölskyldu vegna náms, geta átt rétt á námsstyrk. Skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna er réttur til námsstyrkja takmarkaður við nemendur sem eru íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar sem eiga rétt til námsstyrks samkvæmt samningi íslenska ríkisins við önnur ríki. Hefur nemendum sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða því verið synjað um námsstyrk þrátt fyrir að uppfylla önnur skilyrði fyrir styrkveitingu, svo sem varðandi fjarlægð frá lögheimili, fjölskyldu og skóla.
    Frumvarpi þessu er ætlað að rýmka umrædd skilyrði þannig að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti öðlast rétt til námsstyrks uppfylli þeir skilyrði laganna að öðru leyti. Þetta er í samræmi við markmið stjórnvalda um inngildingu flóttafólks og á sér samsvörun í annars konar ívilnunum til þessa hóps hvað varðar nám, til að mynda í ákvæði 1.5.5 í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2023–2024 sem fjallar um réttindi flóttamanna. Þá styður frumvarpið við fræðsluskyldu stjórnvalda gagnvart þessum hópi, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og stuðlar að því að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar í auknum mæli líkt og nánar er fjallað um í kafla 4.
    Í frumvarpinu er lagt til að réttur til námsstyrkja eigi bæði við um einstaklinga sem fá alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Algengt er að þessir hópar njóti sömu réttinda og má m.a. nefna að samræmd móttaka flóttafólks nær til þeirra sem fengið hafa alþjóðlega vernd sem og þeirra sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að nemendur sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eigi rétt á námsstyrkjum, að öðrum skilyrðum laganna uppfyllum, líkt og aðrir nemendur sem taldir eru upp í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki, nr. 79/2003. Jafnframt er lögð til minni háttar orðalagsbreyting sem endurspeglar breytingar sem urðu á lagaumhverfi námslána við setningu laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, kemur fram að öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Réttur til námsaðstoðar er nátengdur réttinum til að njóta almennrar menntunar líkt og kveðið er á um í stjórnarskránni. Þá kemur einnig fram í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
    Í alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem fullgiltur var á Íslandi 22. ágúst 1979, sbr. auglýsingu nr. 10/1979, kemur m.a. fram viðurkenning á rétti sérhvers manns til menntunar og framhaldsmenntun gerð aðgengileg með öllum tilhlýðilegum ráðum, sbr. 13. gr. samningsins.
    Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, er kveðið á um rétt barna til menntunar, þar á meðal að veita öllum börnum kost á að njóta framhaldsmenntunar og fjárhagslegrar aðstoðar fyrir þau sem hennar þurfa og skal sá réttur ná fram að ganga án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. gr. og 1. mgr. 28. gr. samningsins.
    Í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem fullgiltur var á Íslandi 30. nóvember 1955, sbr. auglýsingu nr. 74/1955, kemur m.a. fram að veita beri flóttamönnum eins góða aðstöðu og mögulegt er og aldrei lakari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður, að því er snertir menntun og einkum að því er varðar aðgang að námi, kostnað og námsstyrki, sbr. 2. mgr. 22. gr. samningsins. Í frumvarpinu felst bætt réttarstaða flóttafólks og jöfnun stöðu þess og annarra útlendinga þegar kemur að námsstyrkjum. Stuðlar það að betra samræmi íslenskra laga við framangreind ákvæði stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasamninga.

5. Samráð.
    Efnistök frumvarpsins eru afmörkuð og taka til úthlutunarreglna námsstyrkja sem heyra undir málefnasvið mennta- og barnamálaráðherra. Námsstyrkir eru greiddir út af Menntasjóði námsmanna sem lýtur yfirstjórn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Tillögur frumvarpsins voru kynntar framkvæmdahópi vegna komu flóttafólks til landsins, sem er samráðsvettvangur leiddur af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Í framkvæmdahópnum sitja fulltrúar frá opinberum stofnunum, ráðuneytum og Rauða krossinum á Íslandi.
    Áform um lagsetninguna voru kynnt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-263/2023) en engar umsagnir bárust.
    Drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 23. febrúar 2024 (mál nr. S-53/2024) og var frestur til umsagna veittur til 8. mars 2024 en engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar hagsmuni barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra með auknu aðgengi barna og ungmenna sem hafa fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Því er ætlað að auka aðgengi þessa hóps að námsstyrkjum og þar með stuðla að bættu aðgengi að menntun og inngildingu. Samþykkt frumvarpsins hefur í för með sér jákvæð áhrif á réttindi barna og stuðlar að því að íslensk stjórnvöld uppfylli í auknum mæli skyldur sínar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 og nánar er fjallað um í 4. kafla. Gert er ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins auki skýrleika og hafi því jákvæð áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Fjárhagsleg áhrif frumvarpsins eru minni háttar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að fjölgi í hópi þeirra sem gætu átt rétt til námsstyrkja um 20–30 einstaklinga. Fjárhæð námsstyrkja er ákveðin með hliðsjón af heildarfjárhæð sem veitt er til verkefnisins á fjárlögum og er ekki gert ráð fyrir að sú fjárhæð hækki vegna breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna þar sem fjallað er um skilyrði þess að nemendur njóti réttar til námsstyrkja.
    Í 1. tölul. er lagt til að við upptalningu á tveimur hópum í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna bætist tveir hópar. Annars vegar nemendur sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á grundvelli 45. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Hins vegar er átt við nemendur sem hafa hlotið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
    Í 2. tölul. eru lagðar til orðalagsbreytingar sem endurspegla setningu laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, en með þeim voru lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, felld úr gildi. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi efnisleg áhrif á framkvæmd við veitingu námsstyrkja.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.