Ferill 692. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1401  —  692. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Sigríði Ágústsdóttur um áfengis- og vímuefnavanda eldri borgara.


     1.      Liggja fyrir gögn um tíðni áfengis- og vímuefnavanda meðal eldri borgara? Ef svo er ekki, hefur ráðherra kannað möguleika og kosti þess að gera úttekt á áfengis- og vímuefnavanda meðal eldri borgara?
    Embætti landlæknis fylgist með tilteknum áhrifaþáttum heilsu m.a. með því að leggja fyrir á fimm ára fresti rannsóknina Heilsa og líðan á Íslandi. Einnig er fylgst með áhrifaþáttum heilsu í gegnum mánaðarlegar kannanir, svokallaða lýðheilsuvakt. Þar er spurt um áfengisdrykkju og ölvunardrykkju. Hér má sjá niðurstöður um hversu stórt hlutfall þeirra sem eru 65 ára eða eldri og svöruðu könnuninni hefur drukkið fimm eða fleiri áfenga drykki einu sinni eða oftar á síðustu 30 dögum.

Hlutfall fullorðinna sem hefur drukkið fimm eða fleiri áfenga drykki einu sinni eða oftar síðustu 30 daga
Ár 2018 2019 2020 2021 2022
65 ára + 28,0% 24,2% 21,4% 24,4% 24,0%

     2.      Hvaða úrræði eru til staðar fyrir eldri borgara með áfengis- eða vímuefnavanda, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni?
    Eldri borgarar með áfengis- eða vímuefnavanda hafa aðgang, til jafns við aðra, að þeim meðferðarúrræðum sem í boði eru á Íslandi, þ.m.t. úrræðum á vegum SÁÁ, Samhjálpar og Krýsuvíkursamtakanna. Á vegum SÁÁ er sérstök meðferðarleið í boði fyrir karla 55 ára og eldri en konur á þessum aldri fara í meðferð með öðrum konum. Þá veita Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri nauðsynlega bráðameðferð við áfengis- eða vímuefnavanda. Fer það eftir alvarleika og einkennum hvort sú meðferð sé eingöngu veitt á bráðamóttöku eða þörf sé á innlögn á gjörgæslu, lyflækningadeild eða geðdeild. Á geðsviði Landspítala er starfrækt fíknigeðdeild sem veitir fólki með fíkni- og geðvanda heilbrigðisþjónustu óháð aldri. Þá er starfandi fíkniráðgjafi á Heilbrigðisstofnun Austurlands að hluta í geðheilsuteymi stofnunarinnar sem eldra fólk getur bókað viðtöl hjá.

     3.      Hvaða úrræði eru til staðar fyrir íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða?
    Þegar einstaklingur flytur inn á hjúkrunarheimili er viðkomandi í flestum tilvikum kominn með töluverða færniskerðingu og/eða andlega skerðingu og þarf aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs. Sértæk úrræði vegna fíknivanda fyrir íbúa hjúkrunarheimila eru takmörkuð en sótt hefur verið um heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa hjúkrunarheimila hjá fíknigeðdeild Landspítala sem veitir heildræna meðferð við fíknivanda og geðvanda.
    Hjúkrunarheimili reyna af öllum mætti að veita einstaklingum með áfengis- eða vímuefnavanda viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Oftast eru geðhjúkrunarfræðingar og geðlæknar fengnir til að setja upp meðferðaráætlun einstaklings með tilliti til fíknivandans en sérhæfð fíknimeðferð er alla jafna ekki veitt innan hjúkrunarheimila.