Ferill 766. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1404  —  766. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um heilsugæsluna á Akureyri.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig miðar vinnu við þarfagreiningu fyrir útboð á rekstri heilsugæslunnar á Akureyri?

    Nýverið var formlega tekin í notkun ný og sérútbúin 1.800 fermetra heilsugæslustöð í Sunnuhlíð á Akureyri sem leysir af hólmi eldra húsnæði í Hafnarstræti. Framkvæmdir við nýja stöð byggðust á þarfagreiningu og húsrýmisáætlun Framkvæmdasýslu ríkisins frá því í byrjun árs 2020. Í þeirri greiningu var gert ráð fyrir því að á Akureyri yrðu tvær heilsugæslustöðvar og að því er unnið. Þegar greiningin var gerð voru íbúar á svæði heilsugæslunnar 21.400. Í aðalskipulagi bæjarins er gert ráð fyrir um 15% fjölgun íbúa til ársins 2030. Í forsendunum var einnig vísað til þess að auk skráðra íbúa leituðu nemendur í framhaldsskólum og Háskólanum á Akureyri til heilsugæslunnar ásamt ferðamönnum og erlendu vinnuafli.
    Auglýst var eftir hentugu húsnæði undir suðurstöðina en þegar það skilaði ekki árangri lagði Akureyrarbær til lóð við Þingvallastræti. Tvisvar hefur verið ráðist í forval fyrir alútboð þeirrar framkvæmdar en án árangurs. Verið er að skoða næstu skref og eiga þar samvinnu Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, heilbrigðisráðuneyti og Akureyrarbær.
    Heilbrigðisstofnun Norðurlands sinnir allri heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Norðurlands. Ekki liggur fyrir ákvörðun ráðherra um að einkaaðila verði gefinn kostur á að sinna slíkri þjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.
    Öflun húsnæðis fyrir nýja heilsugæslustöð á Akureyri er óháð því hver muni sinna þjónustunni. Ef ákvörðun yrði tekin um að fela einkaaðila rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar með útboði og á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands væri það sjálfstætt ákvörðunar- og úrlausnarefni sem myndi m.a. kalla á frekari greiningu og aðra forvinnu til að ná markmiðum útboðs. Engin slík ákvörðun hefur verið tekin og þar af leiðandi hefur engin vinna þar að lútandi farið fram.