Ferill 757. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1508  —  757. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um HIV.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær greindist fyrsta tilvik HIV-smits á Íslandi? Hversu mörg tilvik greindust frá þeim tímapunkti til ársins 2000 og hversu mörg létust af völdum sýkingarinnar? Svör óskast greind eftir kyni og ári.

    Fyrsta tilfelli HIV á Íslandi greindist árið 1983. Frá árinu 1983 til ársins 2000 greindust 143 einstaklingar hér á landi með HIV, þar af 113 karlmenn og 30 konur (sjá töflu 1).

Tafla 1. Fjöldi greininga á HIV/alnæmi árin 1983–2000 eftir kyni.

Ár Fjöldi tilfella alls Karlar Konur
1983 1 1 0
1984 0 0 0
1985 16 15 1
1986 13 11 2
1987 5 4 1
1988 13 10 3
1989 6 5 1
1990 5 5 0
1991 10 8 2
1992 11 10 1
1993 3 2 1
1994 8 6 2
1995 7 5 2
1996 6 4 2
1997 9 8 1
1998 8 5 3
1999 12 7 5
2000 10 7 3
Samtals 143 113 30

    Sóttvarnalæknir hélt skrá yfir fjölda HIV-tilfella á Íslandi á árunum áður en smitsjúkdómaskrá var formlega sett á laggirnar með gildistöku sóttvarnalaga, nr. 19/1997, hinn 1. janúar 1998. Tölur frá 1983 til 1997 voru færðar afturvirkt í smitsjúkdómaskrá með tilkomu nýju sóttvarnalaganna, nr. 19/1997. Vera kann að ósamræmi sé í upplýsingum á tímabilinu 1983–1997 í mismunandi heimildum og gæti það verið upp á eitt tilfelli einhver árin á fyrrgreindu tímabili.
    Í ljósi þess að tölur um HIV-tilfelli voru settar inn afturvirkt fyrir tíma smitsjúkdómaskrár þarf að setja sama fyrirvara við tölur um andlát þar sem alnæmisveirusjúkdómur er undirliggjandi dánarorsök, þ.e. að ósamræmi sé í heimildum á tímabilinu 1983–1997, ásamt því að kóðar skila engu í dánarmeinaskrá fyrr en árið 1990. Fyrir þann tíma skráði sóttvarnalæknir andlát, án kyngreiningar, þar sem alnæmisveirusjúkdómurinn var undirliggjandi dánarorsök: Eitt andlát árið 1985, tvö andlát árið 1987 og tvö andlát árið 1988.
    Í töflu 2 má sjá fjölda látinna í dánarmeinaskrá þar sem alnæmisveirusjúkdómur er undirliggjandi dánarorsök árin 1990–2000. Innan sviga er getið þess fjölda sem átti lögheimili á Íslandi við andlát til samræmis við skilyrði í opinberum dánartölum. Ef engin tala er í sviga var lögheimili allra á Íslandi.

Tafla 2. Fjöldi látinna í dánarmeinaskrá þar sem alnæmisveirusjúkdómur er undirliggjandi dánarorsök (ICD-9 kóðar 279.5 eða 279.6; 042–044; ICD-10 kóðar B20–B24).
Dánarár Karlar Konur Alls
1990 4 1 5
1991 1 0 1
1992 2 (1) 0 2 (1)
1993 7 (5) 1 8 (6)
1994 4 0 4
1995 4 (3) 0 4 (3)
1996 2 (1) 0 2 (1)
1997 1 0 1
1998 0 0 0
1999 1 0 1
2000 1 0 1