Ferill 1081. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1579  —  1081. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007 (fyrningarfrestur).

Flm.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Krafa einstaklings um skaðabætur vegna tjóns sem stjórnvald eða annar opinber aðili ber ábyrgð á fyrnist þó á tíu árum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Frá þeirri meginreglu eru ákveðnar undantekningar, svo sem tuttugu ára fyrningarfrestur innláns eða verðmæta, tíu ára fyrningarfrestur peningalána, tíu ára fyrningarfrestur skuldabréfa, tíu ára fyrningarfrestur eftirlauna, framfærslueyris og meðlags og loks tíu ára fyrningarfrestur kröfu um skaðabætur vegna líkamstjóns. Með frumvarpi þessu er lögð til ein undantekning til viðbótar. Samkvæmt 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda fyrnast skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ber ábyrgð á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Lagt er til að sá frestur verði lengdur í tíu ár ef krafa um skaðabætur er krafa vegna tjóns sem stjórnvald eða annar opinber aðili ber ábyrgð á.
    Rök hníga til þess að lengja sérstaklega fyrningarfrest vegna skaðabótakrafna einstaklinga á hendur stjórnvöldum, vegna þess hve mikill aðstöðumunur er, eðli málsins samkvæmt, milli aðila í slíkum málum. Fjölmörg dæmi eru um að brotið sé á fólki af hálfu aðila sem eru handhafar opinbers valds án þess að upp komist um brotin fyrr en löngu síðar. Má þar nefna meðferðina á drengjunum í Breiðuvík og meðferð á börnum sem dvöldu á vöggustofum á síðustu öld. Einnig má nefna tjón sem fólk verður fyrir vegna opinberrar framkvæmdar sem síðar kemur í ljós að var ekki í samræmi við lög eða jafnvel andstæð lögum. Þá er oft erfitt fyrir einstaklinga að átta sig á því að opinber aðili hafi brotið gegn réttindum þeirra vegna þess að sú staðreynd að aðilinn er handhafi opinbers valds villir oft fyrir og klæðir athafnir opinbera aðilans í búning lögmætis. Helsta röksemdin gegn því að lengja fyrningarfresti er sú að tómlæti þurfi að hafa afleiðingar og að fólk þurfi ekki að lifa í óvissu með afleiðingar gjörða sinna um ókomna tíð. Þær röksemdir missa marks gagnvart ríkinu. Ríki eru það stór að umfangi að yfirleitt er talinn óþarfi fyrir ríki að grípa til hinna ýmsu ráðstafana til að fyrirbyggja tjón, svo sem að vátryggja fjárhagslega hagsmuni sína. Það ætti ekki að vera hinu opinbera þungur baggi þótt fyrningarfrestur skaðabótakrafna á hendur þess verði lengdur. Þetta sjónarmið má jafnframt heimfæra á sveitarfélög og aðra opinbera aðila.
    Vegna þess mikla aðstöðumunar sem er á milli hins opinbera og einstaklinga er því lagt til að fyrningarfrestur skaðabótakrafna einstaklinga sem stjórnvald eða annar opinber aðili ber ábyrgð á verði tíu ár. Þess ber að geta að í gildistíð eldri laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905, fyrndust allar skaðabótakröfur á tíu árum, og verður ekki séð að sá fyrningarfrestur hafi verið svo íþyngjandi að tilefni hafi verið til að stytta hann. Ef litið er til skýringa við frumvarp það er varð að gildandi lögum um fyrningu kröfuréttinda virðist sem svo að meginástæðan fyrir því að stytta fyrningarfrest skaðabótakrafna hafi verið sú að fyrningarfresturinn hafi verið ívið lengri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Frumvarp það tók svo breytingum í meðförum þingsins sem leiddi til þess að bætt var inn málsgrein um að skaðabætur vegna líkamstjóns skyldu fyrnast á tíu árum. Um þá breytingu sagði Atli Gíslason, þingmaður og nefndarmaður velferðarnefndar: „Það voru atriði í upphafi sem ég var ósáttur við, þ.e. að fyrningartími á skaðabótakröfum, einkum í vinnuslysum, yrði færður úr tíu árum í fjögur. Rök mín voru þau að oft er erfitt að sannreyna tjón í vinnuslysum, sérstaklega í alvarlegri slysunum, og tíminn naumur.“ Það er margt sameiginlegt með þeim rökum sem lágu að baki undantekningunni um tíu ára fyrningarfrest skaðabóta vegna líkamstjóns og þeim sjónarmiðum sem búa að baki þessu frumvarpi. Einstaklingar sem verða fyrir tjóni af hálfu stjórnvalda eiga oft erfitt með að sannreyna tjón sitt, oft vegna þess að mikið af þeim gögnum sem afla þarf eru í höndum stjórnvalda, sem tefja gjarnan afhendingu þeirra og styðja sig við fjöldann allan af afsökunum á borð við fjárskort, manneklu og mistök við skrásetningu gagna. Þá er fjárskortur oft ástæða þess að fólk leitar ekki réttar síns gagnvart stjórnvöldum. Með því að lengja fyrningarfrest má veita tjónþola, sem í mörgum tilfellum býr við fjárhagslegt óöryggi vegna þess fjárhagslega tjóns sem stjórnvöld hafa valdið honum, aukið svigrúm til að öðlast fjárhagslegt öryggi að nýju, sem verður þá grundvöllur fyrir því að tjónþoli telji sig geta greitt fyrir málskostnað sem fylgir því að höfða dómsmál gegn ríkinu.
    Í hinum fullkomna heimi þyrfti ekki að setja lög sem vernda almenning gegn ólögmætum athöfnum stjórnvalda, en því miður er það veruleikinn að á bak við hvert stjórnvald er venjulegt fólk. Fólk gerir mistök, líka opinberir starfsmenn, og þau mistök ber að bæta.

Um 1. gr.

    Lagt er til að við 1. mgr. 9. gr. bætist nýr málsliður sem kveði á um tíu ára fyrningarfrest skaðabótakrafna vegna tjóns sem einstaklingur verður fyrir og stjórnvöld eða aðrir opinberir aðilar bera ábyrgð á. Málsliðurinn vísar í hver beri ábyrgð og er það til að taka af allan vafa um að lengri fyrningarfrestur taki til tjóns sem stjórnvöld valda ekki með beinum hætti, en bera ábyrgð á, svo sem á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, samábyrgðar eða annarra slíkra reglna um afleidda ábyrgð á tjóni. Verður því lengri fyrningarfrestinum einnig beitt í þeim tilvikum þar sem stjórnvald eða annar opinber aðili hefur framselt vald eða fengið einkaaðilum að framkvæma opinbera þjónustu. Þá er í ákvæðinu fjallað um stjórnvald eða annan opinberan aðila. Með skírskotun í aðra opinbera aðila eru tekin af öll tvímæli um að ákvæðið nái til allra handhafa ríkisvalds, þ.e. stjórnvalda, handhafa löggjafarvalds og handhafa dómsvalds. Þá tekur hugtakið „annar opinber aðili“ af öll tvímæli um að ákvæðið gildi einnig um opinber hlutafélög, opinbera sjóði og aðra aðila sem eru stofnaðir með lögum og eru í eigu eða undir stjórn ríkisins, eða sveitarfélaga, en teljast þó ekki til stjórnvalda í hefðbundnum skilningi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Lengri fyrningarfrestur skv. 1. gr. mun því taka til allra skaðabótakrafna sem falla undir ákvæðið og stofnast eftir gildistöku laganna.