Ferill 968. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1586  —  968. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og Birni Leví Gunnarssyni um skrifleg svör ráðherra við fyrirspurnum frá alþingismönnum.


     1.      Hvert er ferlið í ráðuneytinu þegar fyrirspurn skv. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis berst frá alþingismanni sem óskar skriflegs svars? Hvernig er það skráð í skjalavistunarkerfi ráðuneytisins?
    Strax og fyrirspurn berst ráðuneytinu er hún skráð í málaskrá. Skjalastjóri sendir fyrirspurnina til þess skrifstofustjóra sem er ábyrgur fyrir því málefnasviði sem fyrirspurnin beinist að. Skrifstofustjóri felur sérfræðingi eða eftir atvikum sérfræðingum að vinna svarið sem að því loknu sendir það aftur til skrifstofustjóra. Telji skrifstofustjóri svarið tilbúið sendir hann svarið til yfirlesturs til ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanna ráðherra, og ráðherra. Þegar samþykki ráðherra liggur fyrir fer fram lokafrágangur svarsins og ritari ráðherra sendir það Alþingi með formlegu bréfi. Hlutaðeigandi skrifstofustjóri er ávallt skráður ábyrgðarmaður fyrirspurnar í málaskrá og sérfræðingar sem koma að vinnslu þess eru skráðir á málið sem starfsmenn. Ef ljóst er að ekki tekst að svara fyrirspurn innan þeirra tímamarka sem Alþingi setur, þ.e. 15 virkra daga, sendir ritari ráðherra formlegt erindi til þingsins með beiðni um frest.

     2.      Hversu langur tími leið að jafnaði undanfarin þrjú ár frá því að fyrirspurn var útbýtt þar til ráðuneytið sendi forseta Alþingis skriflegt svar? Svar óskast sundurliðað eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
    Upplýsingar um þann tíma sem tekur að svara fyrirspurn byggjast á því hvaða dag fyrirspurnin er birt á vef Alþingis og hvaða dag svar ráðuneytisins er birt þar. Taldir eru virkir dagar þannig að helgar og opinberir frídagar dragast frá. Þetta er til samræmis við reglur þingsins um svarfrest sem miðast við 15 virka daga. Vert er að hafa í huga að svör ráðuneytisins til Alþingis birtast ekki alltaf samdægurs á vef þingsins. Ekki er óalgengt að einn til tveir dagar líði á milli og í einhverjum tilvikum líður lengri tími frá því að ráðuneytið sendir Alþingi svar þar til það er birt.
    Á 151. löggjafarþingi liðu að jafnaði 29 dagar frá því að fyrirspurn birtist á vef Alþingis þar til að svar ráðuneytisins var birt. Fyrirspurnir voru 48 talsins.
    Á 152. löggjafarþingi liðu að jafnaði 34,3 dagar frá því að fyrirspurn birtist á vef Alþingis þar til að svar ráðuneytisins var birt. Fyrirspurnir voru 60 talsins.
    Á 153. löggjafarþingi liðu að jafnaði 47,7 dagar frá því að fyrirspurn birtist á vef Alþingis þar til að svar ráðuneytisins var birt. Fyrirspurnir voru 108 talsins.
    Í fylgiskjali eru birtar sundurliðaðar upplýsingar eftir löggjafarþingum þar sem fram kemur hve langan tíma tók að svara einstökum fyrirspurnum og hve langan tíma það tók að jafnaði, sundurgreint eftir fyrirspyrjendum.

     3.      Hvaða aðilar í ráðuneytinu sjá um vinnslu skriflegra svara, frágang þeirra, yfirlestur og sendingu til forseta Alþingis? Hversu langan tíma tók hvert þessara skrefa að jafnaði undanfarin þrjú ár? Svar óskast sundurliðað eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar koma skrifstofustjórar, sérfræðingar ráðuneytisins, ráðuneytisstjóri, aðstoðarmenn og ráðherra að vinnslu svara við fyrirspurnum frá þingmönnum Alþingis. Mjög stór hluti fyrirspurna kallar á upplýsingar frá einhverri eða einhverjum stofnunum ráðuneytisins og jafnvel frá þeim öllum. Í þeim tilvikum er áhersla lögð á að þeir sem koma að vinnslu svars sendi upplýsingabeiðni til hlutaðeigandi stofnunar eða stofnana eins fljótt og kostur er, með hæfilegum tímamörkum miðað við svarfrest Alþingis. Stundum kalla þessar upplýsingabeiðnir á mikla vinnu innan hlutaðeigandi stofnana og jafnvel aðkomu ýmissa sérfræðinga innan hverrar þeirrar. Þegar ráðuneytinu hafa borist nauðsynlegar upplýsingar frá stofnununum þarf að leggja mat á og vinna úr þeim svörum, upplýsingum eða gögnum, huga að samræmi og framsetningu og færa í það form sem áskilið er fyrir svör við skriflegum fyrirspurnum alþingismanna.
    Ekki er haldið tímabókhald í ráðuneytinu sem gerir kleift að telja og sundurgreina fjölda vinnustunda þeirra aðila innan ráðuneytisins sem koma að vinnslu einstakra svara við fyrirspurnum frá alþingismönnum, og þar með ekki heldur við einstaka verkþætti/skref.



Fylgiskjal.


Svartími einstakra fyrirspurna, sundurgreint eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
         
www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1586-f_I.pdf