Ferill 918. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1591  —  918. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ÖBÍ réttindasamtökum, Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtökum atvinnulífsins og Landssamtökum lífeyrissjóða.
    Nefndinni bárust sjö umsagnir ásamt tveimur minnisblöðum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Frumvarp þetta felur í sér tvenns konar breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Annars vegar er lagt til að barnabætur hækki og dregið verði úr tekjuskerðingum, með það að markmiði að fleiri foreldrar njóti stuðningsins. Hins vegar er lagt til að á árinu 2024 verði sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán ákvarðaður og greiddur inn á höfuðstól lána eða til að lækka afborganir lána. Þessar breytingar má rekja til stuðnings ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði í mars 2024.

Umfjöllun.
    Fram kom þegar mælt var fyrir frumvarpinu og í umsögn sem nefndinni barst frá Skattinum að gert væri ráð fyrir því að lögin kæmu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda í lok maí. Meiri hlutinn hefur lagt þetta til grundvallar við vinnslu málsins og telur brýnt að málið nái skjótt fram að ganga.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust komu fram ábendingar um framkvæmd við greiðslu vaxtastuðningsins. Bentu umsagnaraðilar á að greiðsla stuðningsins til einstaklinga sem kjósa að ráðstafa honum inn á afborganir yrði flókið ferli og gæta þyrfti sérstaklega að villuhættum. Meiri hlutinn beinir því til þeirra stjórnvalda sem fara með framkvæmd laganna að huga að framangreindu þegar þeim verður framfylgt.

Breytingartillögur.
    Nefndinni bárust tvö minnisblöð frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, dags. 23. og 24. apríl, sem varða breytingartillögur við b-lið 1. gr. frumvarpsins til að veita skýrari leiðsögn um framkvæmd við ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings. Meiri hlutinn tekur undir þær breytingar og gerir að sínum.

1. tölul. b-liðar 1. gr.
    Í fyrra minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er lögð til breyting á orðalagi 1. tölul. b-liðar 1. gr. þannig að enginn vafi leiki á því að það er stofn til útreiknings stuðningsins sem skal vera 23% af vaxtagjöldum ársins 2023 en ekki stuðningurinn sjálfur fyrir skerðingar. Jafnframt sé það skýrt að hámarksfjárhæðir ákvæðisins eiga við um stuðning að loknum skerðingum.

5. tölul. b-liðar 1. gr.
    Í fyrra minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að sú staða kunni að koma upp að aðili, sem valið hefur að sérstakur vaxtastuðningur skuli koma til lækkunar á afborgunum húsnæðisláns, endurfjármagni eða greiði lánið upp eftir að stuðningur er hafinn en áður en honum er lokið. Því leggur ráðuneytið til að við þær aðstæður skuli sú fjárhæð sérstaks vaxtarstuðnings sem þá stendur eftir greiðast inn á það lán sem sætir uppgreiðslu eða endurfjármögnun og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds.

7. tölul. b-liðar 1. gr.
    Jafnframt kemur fram í fyrra minnisblaði ráðuneytisins að nauðsynlegt sé að það komi skýrt fram í ákvæðinu sjálfu að réttur til sérstaks vaxtastuðnings fellur niður í lok ársins 2024. Þannig er ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings bundin við árið 2024, þ.e. frumákvörðun við álagningu 2024 skv. 98. gr. laganna, breytingar vegna kæru á þeirri álagningu skv. 99. gr. og eftir atvikum leiðréttingar skv. 2. mgr. 101. gr. allt innan ársins 2024.

Tímamörk.
    Loks koma fram í minnisblöðum ráðuneytisins tillögur til breytinga á tímamörkum. Lagt er til í fyrra minnisblaðinu að við 6. tölul. b-liðar 1. gr. bætist nýr málsliður þess efnis að Fjársýslunni verði á tímabilinu 1.–31. desember 2024 sendar upplýsingar að lokinni kærumeðferð skv. 1. mgr. 99. gr. tekjuskattslaga og leiðréttingum skv. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.
    Þá er í seinna minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar fallist á ábendingar sem fram komu í umsögnum Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu um að frestur lánveitanda til að ráðstafa greiðslum inn á höfuðstól verði rýmkaður. Er því lagt til að miðað verði við að Fjársýslan greiði sérstakan vaxtastuðning og miðli upplýsingum, annars vegar á tímabilinu 1.–15. ágúst til lánveitanda sem ráðstafar greiðslum beint inn á lán og hins vegar á tímabilinu 16.–31. ágúst vegna afborgana, sbr. 2. málsl. 6. tölul. b-liðar 1. gr. í stað innan fimm virkra daga frá móttöku.
    Um nánari skýringar á breytingartillögum vísast til minnisblaða ráðuneytisins. Þá leggur meiri hlutinn til minni háttar orðalagsbreytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.     
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Jóhann Friðrik Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 29. apríl 2024.

Teitur Björn Einarsson,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir,
frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson.
Diljá Mist Einarsdóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson.