Ferill 918. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1597  —  918. mál.
1. minni hluti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti telur afar mikilvægt að stjórnvöld aðstoði heimili landsins sem um þessar mundir glíma við himinháa greiðslubyrði óverðtryggðra lána eða sífellt hækkandi höfuðstól verðtryggðra lána. Í tengslum við gerð kjarasamninga fyrr í vor hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp um sérstakan vaxtastuðning. Það úrræði sem frumvarpið leggur til nær þó ekki markmiði sínu, nema að litlu leyti.
    Vaxtabætur eru í eðli sínu tilfærsla frá stjórnvöldum til bankakerfisins. Því hærri sem vaxtabæturnar eru, því meira rukka bankarnir. Almenningur fær sjaldan að njóta góðs af hækkun þeirra. Sú aðgerð sem frumvarp þetta fjallar um er aðeins nýjasta dæmið.
    Í frumvarpinu er lagt til að greiddur verði sérstakur vaxtastuðningur sem getur að hámarki verið 150.000 kr. í tilfelli einstaklinga, 200.000 kr. í tilfelli einstæðra foreldra og 250.000 kr. í tilfelli hjóna og sambýlisfólks. Gallinn í þessu úrræði er þó ekki fjárhæð stuðningsins, heldur fyrirkomulagið. Boðað er að vaxtastuðningnum skuli ráðstafað inn á höfuðstól þess húsnæðisláns sem ber hæstar eftirstöðvar hjá viðkomandi, nema ef þess er óskað að stuðningnum verði varið til jafnrar lækkunar á afborgunum tiltekins láns út árið 2024.
    Markmið aðgerðarinnar missir algjörlega marks ef greiða á vaxtastuðninginn beint inn á höfuðstól lána. Það hefur lítil sem engin áhrif á fjárhag fólks sem glímir við aðkallandi greiðsluvanda. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarpið má finna dæmi um hve lítil áhrif slík ráðstöfun hefði, en þar segir: „Til að setja það í samhengi við 10% ársvexti sem er nálægt því sem nú á við um flest lánaform myndi slík niðurgreiðsla á höfuðstól aðeins lækka vaxtabyrði um 1.250–2.083 kr. á mánuði.“ Fyrsti minni hluti vill einnig taka undir ábendingu Hagsmunasamtaka heimilanna um mikilvægi þess að ekki verði tekin uppgreiðslugjöld af ráðstöfun sérstaks vaxtastuðnings inn á höfuðstól húsnæðislána.
    Ráðstöfun til jöfnunar afborgana er öllu skárri, en getur þó ekki skilað meiru en sem nemur lækkun á greiðslubyrði um 41.667 kr. á mánuði, á seinni helmingi þessa árs. Fyrsti minni hluti telur að betur færi ef fólk fengi sérstakan vaxtastuðning greiddan beint inn á bankareikning. Slík tilhögun myndi veita fólki í aðkallandi greiðsluvanda meira svigrúm en sú tilhögun sem frumvarpið boðar. Þannig hefði fólk ráðrúm til að losa sig undan þeim skuldum sem bera hærri vexti, svo sem yfirdráttarlán. Uppgreiðsla yfirdráttar um 250.000 kr. skilar margföldum ávinningi samanborið við niðurgreiðslu höfuðstóls húsnæðisláns um sömu fjárhæð.
    Fyrsti minni hluti gerir ekki athugasemd við þann þátt frumvarpsins sem snýr að barnabótum en leggur til breytingartillögu við b-lið 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um sérstakan vaxtastuðning. Fyrsti minni hluti leggur til að sérstökum vaxtastuðningi verði ráðstafað beint til fólks í formi eingreiðslu.
    Með vísan til framangreinds leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. málsl. 5. tölul. b-liðar 1. gr. orðist svo: Ákvörðun um ráðstöfun er bindandi en ef ekkert er valið skal sérstakur vaxtastuðningur greiddur út í formi eingreiðslu.


Alþingi, 29. apríl 2024.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.