Ferill 1095. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1628  —  1095. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

Frá innviðaráðherra.



1. gr.

Markmið og gildissvið.

    Markmið laga þessara er að:
     a.      tryggja skilvirka og hagkvæma úrlausn verkefna vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ,
     b.      hlúa að íbúum Grindavíkurbæjar og stuðla að farsæld þeirra til framtíðar,
     c.      stuðla að öflugu atvinnulífi í Grindavíkurbæ,
     d.      Grindavíkurbær verði öruggt samfélag með trausta innviði og þjónustu sem miðar að þörfum samfélagsins.
    Lög þessi gilda um hlutverk, verkefni og heimildir framkvæmdanefndar, sbr. 2. gr., eftir því sem nánar greinir í ákvæðum laga þessara.

2. gr.

Skipan og hlutverk framkvæmdanefndar.

    Ráðherra skal skipa framkvæmdanefnd til að fara með þau verkefni sem nefndinni eru falin skv. 3. og 4. gr. og hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar vegna þeirra úrlausnarefna sem tengjast jarðhræringum í sveitarfélaginu, í samvinnu við Grindavíkurbæ, önnur stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi aðila.
    Í framkvæmdanefnd skulu þrír eiga sæti, tveir tilnefndir af ráðherra og einn af ráðherra menntamála. Ráðherra tilnefnir formann nefndarinnar auk þess að ákveða laun nefndarmanna og önnur starfskjör.
    Framkvæmdanefndin er sjálfstætt stjórnvald sem heyrir undir ráðherra og skal í störfum sínum taka mið af stefnu og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar vegna málefna Grindavíkurbæjar.
    Ákvæði stjórnsýslulaga gilda ekki um undirbúning og töku ákvarðana ráðherra um skipun framkvæmdanefndar.

3. gr.

Verkefni framkvæmdanefndar.

    Framkvæmdanefnd fer með stjórn, skipulagningu og framkvæmd eftirgreindra verkefna:
     a.      Starfrækslu þjónustuteyma sem samþætta þjónustu fyrir íbúa Grindavíkurbæjar, m.a. þegar kemur að skóla- og frístundastarfi, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðningi á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála. Verkefni þjónustuteyma eru m.a. að vinna tillögur og áætlanir um stuðning við íbúana og eiga samráð við móttökusveitarfélög, stjórnvöld og aðra aðila um þjónustu við þá.
     b.      Töku ákvarðana um rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir íbúa Grindavíkurbæjar og starfrækslu hennar eftir atvikum.
     c.      Gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
     d.      Yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða til að tryggja virkni, rekstur og afhendingaröryggi innviða, eftir því sem við á og fellur undir ábyrgðarsvið Grindavíkurbæjar.
     e.      Könnun á jarðvegi.
     f.      Yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða á götum, stígum og opnum svæðum sem Grindavíkurbær er ábyrgur fyrir.
     g.      Yfirumsjón með vernd lausafjármuna í Grindavíkurbæ eftir því sem við á, að mati framkvæmdanefndarinnar.
     h.      Framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.
     i.      Upplýsingamiðlun til íbúa Grindavíkurbæjar og hagaðila um stöðu mála og framgang verkefna sem nefndin sinnir.
    Ráðherra getur í samráði við Grindavíkurbæ falið framkvæmdanefnd að samhæfa aðgerðir vegna annarra ótalinna verkefna, sbr. a–i-lið 1. mgr., sem tengjast jarðhræringum í sveitarfélaginu, í samráði við forsætisráðherra og að fengnu samþykki þess eða þeirra ráðherra sem fara með það málefnasvið sem viðkomandi verkefni heyrir undir.
    Ráðherra er heimilt að fela nefndinni að vinna að gagnasöfnun og rannsóknum einstakra samfélagslegra atriða sem leiða af afleiðingum jarðhræringanna í Grindavíkurbæ í samvinnu við önnur stjórnvöld og aðra aðila, þ.m.t. Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélag.

4. gr.

Heimild sveitarstjórnar til að fela framkvæmdanefnd verkefni.

    Sveitarstjórn Grindavíkurbæjar er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela framkvæmdanefnd ábyrgð á lögbundnum og ólögbundnum verkefnum sveitarfélagsins að hluta til eða í heild, að undanskildum þeim verkefnum sem mælt er fyrir um í 58. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Fer framkvæmdanefnd þá með sömu ábyrgð, hlutverk og valdheimildir og sveitarstjórn hafði á grundvelli viðkomandi laga og sveitarstjórnarlaga.
    Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 1. mgr. er háð samþykki þess eða þeirra ráðherra sem fara með þau málefnasvið sem viðkomandi verkefni heyra undir.
    Fulltrúar sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar eiga sama rétt samkvæmt sveitarstjórnarlögum á aðgangi að gögnum og upplýsingum um verkefni sem sveitarstjórn felur framkvæmdanefndinni á grundvelli 1. mgr. og þeir hefðu ella haft að óbreyttu.

5. gr.

Framkvæmd verkefna.

    Framkvæmdanefnd er heimilt að gera samninga við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar, önnur stjórnvöld og einkaaðila um framkvæmd verkefna sem falla undir verksvið nefndarinnar. Þá er nefndinni heimilt að ráða sér starfsfólk vegna framkvæmdar verkefna og á skrifstofu nefndarinnar.
    Ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga, sem og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar gilda um stjórnsýslu sem aðilar skv. 1. mgr. taka að sér.
    Verkefni framkvæmdanefndar sem fela í sér stjórnvaldsákvörðun hafa ekki áhrif á kæruheimild til æðra stjórnvalds vegna viðkomandi ákvörðunar samkvæmt þeim lögum sem gilda um það efni.
    Framkvæmdanefndin getur ákveðið að fela einstökum nefndarmönnum, starfsfólki nefndarinnar eða öðrum sem nefndin hefur falið framkvæmd verkefna skv. 1. mgr. fullnaðarafgreiðslu mála í því skyni að stuðla að skilvirkni og hraðari málsmeðferð. Nefndin skal hafa eftirlit með afgreiðslu mála skv. 1. málsl. og kalla eftir reglulegum skýrslum um ákvarðanir sem teknar eru á þeim grundvelli. Þessi málsgrein hefur þó ekki áhrif á almennar heimildir starfsfólks skv. 1. mgr. til töku ákvarðana sem varða dagleg verkefni nefndarinnar og teljast leiða af stöðuumboði þeirra.
    Beiðni um endurupptöku mála sem aðili hefur fullnaðarafgreitt skv. 4. mgr. skal beint til framkvæmdanefndar. Sá aðili sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu máls skv. 4. mgr. getur ávallt óskað eftir því að framkvæmdanefnd taki ákvörðun í málinu.


6. gr.

Heimild til að kalla eftir gögnum.

    Framkvæmdanefnd á rétt á að fá afhent úr hendi Grindavíkurbæjar og annarra stjórnvalda gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar þykja vegna starfa nefndarinnar.

    Framkvæmdanefnd, Grindavíkurbær og önnur stjórnvöld hafa heimild til að miðla sín á milli upplýsingum og gögnum eftir því sem nauðsynlegt þykir vegna framkvæmdar laga þessara og ákvarðana á grundvelli þeirra.


7. gr.

Aðgerðaáætlanir.

    Framkvæmdanefnd skal, í samráði við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar, vinna að aðgerðaáætlunum til styttri og lengri tíma vegna þeirra verkefna sem falla undir hana þar sem m.a. skal fjallað um aðgerðir, áætlaðan kostnað og kostnaðarskiptingu ríkisins og sveitarfélagsins og eftir atvikum einkaaðila, sbr. 8. gr. Aðgerðaáætlanir nefndarinnar skulu taka mið af stöðu og þróun jarðhræringa á hverjum tíma.
    Aðgerðaáætlanir nefndarinnar skulu m.a. taka til eftirfarandi verkefna:
     a.      Verkefna sem tengjast skóla- og frístundastarfi, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðningi á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála.
     b.      Viðhalds, viðbúnaðar, bráðaviðgerða og annarra framkvæmda vegna innviða og jarðvegs.
     c.      Endurreisnar og uppbyggingar samfélagslegra verðmæta sveitarfélagsins.

8. gr.

Kostnaður.

    Laun nefndarmanna og skrifstofukostnaður framkvæmdanefndar greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. húsnæðiskostnaður, kostnaður vegna sérfræðiráðgjafar og starfsfólks á skrifstofu nefndarinnar.
    Framkvæmdanefnd skal leggja fram tillögur fyrir ráðherra um fjármögnun verkefna á grundvelli aðgerðaáætlana skv. 7. gr., þ.m.t. um kostnaðarskiptingu á milli sveitarfélagsins og ríkisins vegna verkefna nefndarinnar og eftir atvikum einkaaðila.
    Tillaga framkvæmdanefndar um kostnaðarskiptingu skv. 2. mgr. skal m.a. taka mið af afstöðu sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar, fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvar ábyrgð á viðkomandi verkefni lá áður en verkefni var falið nefndinni.
    Aðgerðaáætlanir skv. 7. gr., þ.m.t. kostnaðarskiptingu á milli sveitarfélagsins og ríkisins, öðlast gildi með samþykki ráðherra og er sveitarfélagið bundið af samþykktri aðgerðaáætlun ráðherra.
    Framkvæmdarnefnd er ekki heimilt að vinna að þeim verkefnum sem henni eru falin á grundvelli laga þessara nema fjármögnun hafi verið tryggð, svo sem í fjárlögum, fjáraukalögum, í gegnum almenna varasjóð eða með öðrum hætti.

9. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um starfshætti framkvæmdanefndar, nánari útfærslu á framkvæmd verkefna, hvaða verkefni eru falin nefndinni til samhæfingar skv. 2. mgr. 3. gr., form og efni aðgerðaáætlana skv. 8. gr., svo og samráð og samstarf hennar við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar og önnur stjórnvöld og einkaaðila, eftir því sem við á. Í reglugerð má einnig kveða á um reglur sem gilda um skipan nefndarinnar eins og tilnefningu nýrra nefndarmanna í framkvæmdanefnd á starfstíma hennar, svo sem vegna forfalla stjórnarmanna eða sambærilegra atvika eða aðstæðna.

10. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2024 og falla úr gildi 15 dögum eftir almennar sveitarstjórnarkosningar 2026.
    Þrátt fyrir 1. mgr. er ráðherra frá samþykkt laganna heimilt að skipa nefndarmenn skv. 2. gr. og nefndinni er heimilt að hefja undirbúning að flutningi verkefna.

11. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Þrátt fyrir 2. mgr. 43. gr. er kjörgengi í nefndum, ráðum og stjórnum Grindavíkurbæjar ekki háð því að kjörinn fulltrúi hafi skráð lögheimili í sveitarfélaginu fram að sveitarstjórnarkosningum 2026.
     2.      Kosningalög, nr. 112/2021: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Þrátt fyrir a-lið 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 6. gr. er kjörgengi í sveitarstjórn Grindavíkurbæjar ekki háð því að kjörinn fulltrúi hafi skráð lögheimili í sveitarfélaginu fram að sveitarstjórnarkosningum 2026.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í innviðaráðuneytinu. Það miðar að því að lögfesta nauðsynlegar heimildir til að unnt verði að skipa tímabundna framkvæmdanefnd til að fara með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða og hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar vegna þeirra margvíslegu úrlausnarefna í sveitarfélaginu sem tengjast yfirstandandi jarðhræringum á svæðinu. Frumvarpið miðar einnig að því að tryggja skilvirka samvinnu við sveitarstjórn, önnur stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi. Með því er ætlunin að tryggja hagkvæma og skilvirka stjórn og úrlausn viðkomandi verkefna vegna náttúruhamfara á svæðinu. Þá er það einnig markmið frumvarpsins að hlúð verði að íbúum og stuðlað að farsæld þeirra til framtíðar, stuðlað verði að því að öflugt atvinnulíf geti áfram dafnað í Grindavík og þar verði öruggt samfélag með trausta innviði og þjónustu sem miðar að þörfum samfélagsins. Markmið frumvarpsins styður þá grundvallarnálgun stjórnvalda í málefnum Grindavíkurbæjar að samfélag geti aftur dafnað í bænum. Nánar er fjallað um þau viðfangsefni sem framkvæmdanefnd er ætlað að sinna í 3. kafla.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Yfirlit yfir atburðarás undanfarinna mánaða.
    Frumvarp þetta er lagt fram í tilefni af náttúruhamförum í sveitarfélaginu Grindavíkurbæ, þ.e. jarðhræringum og eldsumbrotum, sem ekki sér fyrir endann á. Upphaf atburðarásarinnar má rekja til landriss norðvestan við fjallið Þorbjörn, nærri Bláa lóninu, sem virðist hafa hafist 27. október 2023 og benti til aukins þrýstings vegna kvikuinnskots á dýpi. Hinn 10. nóvember 2023 var hættustigi almannavarna lýst yfir vegna ákafrar jarðskjálftahrinu við Sundhnúkagíga, norðan Grindavíkur. Að kvöldi þess sama dags ákvað lögreglustjórinn á Suðurnesjum, í samráði við almannavarnir, að rýma Grindavíkurbæ og samhliða lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi. Ástæða ákvörðunarinnar var skýr merki um myndun kvikugangs sem talið var mögulegt að gæti náð til Grindavíkur. Voru þá um 1.120 heimili skráð í Grindavík, samtals um 3.730 íbúar. Meðan á neyðarstigið stóð var íbúum óheimilt að vera í bænum nema samkvæmt ákvörðun lögregluyfirvalda og í fylgd með björgunarsveitarmönnum. Síðan þá hefur almannavarnastig í Grindavíkurbæ ýmist verið á neyðar- eða hættustigi.
    Eldgos hófst nánast fyrirvaralaust í Sundhnúkagígaröðinni 18. desember 2023 en stóð stutt yfir og olli ekki tjóni á mannvirkjum. Í framhaldi af því tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hraða vinnu við gerð varnargarðs rétt vestan við Grindavík til að verja íbúabyggð. Gerð þess varnargarðs var ekki lokið þegar eldgos hófst nálægt íbúabyggð, rétt sunnan Hagafells, að morgni 14. janúar 2024. Sá hluti varnargarðsins sem þá var kominn í hálfa hæð þykir þó ótvírætt hafa spornað gegn því að hraun flæddi óheft inn í bæinn. Gossprunga opnaðist rétt austan varnargarðsins og streymdi hraun inn að íbúabyggð austast í bænum og brunnu þrjú íbúðarhús af þeim sökum áður en hraunstraumurinn stöðvaðist.
    Þá hófst eldgos 8. febrúar 2024 við Sundhnúka og stóð yfir í tæpa tvo sólarhringa. Gosið olli töluverðu tjóni þar sem hraun rann yfir stofnlögn HS Veitna sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til Fitja í Reykjanesbæ. Fjórða gosið í Sundhnúkagígaröðinni hófst 16. mars 2024 og stóð enn yfir þegar frumvarp þetta var samið. Núverandi staða er sú að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram þrátt fyrir yfirstandandi eldgos. Hætta er á að þróunin verði sú að núverandi gos aukist verulega eða til komi nýir atburðir svipaðir þeim sem hafa orðið með kvikuhlaupi og hugsanlegu eldgosi. Á meðan hafa almannavarnir og aðrir hagaðilar unnið að fjölda verkefna í Grindavík, bæði tengdum fyrirbyggjandi aðgerðum og vegna afleiðinga þeirra jarðhræringa sem þegar hafa orðið á svæðinu.

2.2. Nauðsyn lagasetningar.
    Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa valdið miklu tjóni í Grindavíkurbæ, þ.m.t. á húseignum og innviðum. Tjónamat á húseignum er þegar hafið og þótt því sé ekki lokið liggur fyrir að verulegar skemmdir hafa orðið á hluta íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í bænum, þar af hefur orðið altjón á fjölmörgum eignum. Einnig eru nær allir innviðir í Grindavíkurbæ laskaðir og/eða óstarfhæfir, og/eða í hættu á að verða fyrir frekari skemmdum, m.a. gatnakerfi, lagnir fyrir rafmagn, kalt og heitt vatn og fráveitukerfi, auk fjarskiptakerfa. Á meðan óvíst er hvenær jarðhræringarnar verða yfirstaðnar er afar vandasamt og varhugavert að ráðast í bráðabirgðaviðgerðir og viðhald á innviðum og endurreisn. Engu að síður er unnið að því að auka öryggi í bæjarfélaginu svo að dvöl og atvinnustarfsemi geti orðið möguleg í fyllingu tímans. Þá er brýnt að styðja við stjórnsýslu sveitarfélagsins við þessar aðstæður, en hún tekst nú á við fordæmalaust verkefni sem ekki snýr síst að íbúum og grunnþörfum þeirra, þjónustu við börn og aldraða og húsnæðismálum, svo fátt eitt sé nefnt. Frá 10. nóvember hefur allri starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins verið sinnt frá Reykjavík og engin hefðbundin þjónusta verið í boði fyrir íbúa og fyrirtæki í bænum.
    Um er að ræða eitt umfangsmesta verkefni vegna náttúruhamfara sem stjórnvöld hafa tekist á við. Á undanförnum mánuðum hefur embætti ríkislögreglustjóra annast tiltekin nauðsynleg verkefni í þágu samfélagsins í Grindavík með það að markmiði að draga úr verulegu eignatjóni og afleiðingum hamfaranna. Aðkoma embættisins að verkefnunum hefur m.a. grundvallast á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, og neyðarrétti. Kostnaður vegna framangreindra verkefna til að vernda öryggi íbúa, atvinnustarfsemi og innviði bæjarins og mótvægisaðgerðir hleypur nú þegar á milljörðum króna.
    Meðal verkefna sem sprottin eru af þessum atburðum má nefna ýmis verkefni tengd sprunguviðgerðum, framkvæmd takmarkana, svo og margvíslegar viðgerðir, eftirlit og umsýslu varðandi húseignir og fylgifé, vatns- og rafmagnskerfi og raflagnir, fráveitukerfi, varnargarða, fjarskiptavirki og ljósleiðara. Þá má nefna verðmætabjörgun, aðstoð við rekstur fyrirtækja, jarðkönnun og öryggi jarðvegs, samgöngumál, lagnatengingar út fyrir bæjarmörkin, m.a. að Svartsengi, og ýmsa aðra endurreisn í samfélaginu. Ábyrgð fjölmargra þessara verkefna liggur þvert á hlutverk ólíkra starfseininga ríkis og sveitarfélaga ásamt eftir atvikum fyrirtækja í einkaeigu, sem krefst samstarfs og samhæfingar ólíkra aðila.
    Fyrir liggur að um viðvarandi ástand til einhvers tíma er að ræða vegna jarðhræringanna. Á þessum tímapunkti þykir því rétt að þau tilteknu verkefni sem embætti ríkislögreglustjóra hefur sinnt á framangreindum grundvelli og tilgreind eru nánar í 3. gr. frumvarpsins, verði færð yfir til framkvæmdanefndarinnar, frá og með gildistöku laga þessara, verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Atvinnurekstur og búseta í Grindavík kallar á að rekstraröryggi og afhendingaröryggi mikilvægra innviða sé tryggt, hvort sem það er gert með mótvægisaðgerðum, viðgerðum eða uppbyggingu varaleiða eða öðrum leiðum.
    Sérstaklega mikilvægt er að huga að félagslegum þáttum vegna atburðanna sem nú eiga sér stað. Vitað er að náttúruhamfarir hafa neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Þá getur áfallastreita vegna hamfara á barnsaldri haft áhrif á menntunarstig, atvinnuþátttöku og örorku á fullorðinsárum. Með því að koma daglegu lífi í skorður eftir náttúruhamfarir, sérstaklega skólagöngu barna, ásamt félagslegum stuðningi við börn og fjölskyldur er hægt að draga úr einkennum áfallastreitu. Því er mikilvægt, bæði til skemmri og lengri tíma, að huga að félagslegum þáttum vegna atburðanna sem nú eiga sér stað þar sem lögð er áhersla á að koma á stöðugleika og veita þjónustu við hæfi. Stöðugleiki fæst ekki nema með samþættum aðgerðum þvert á sveitarfélög og ríki þar sem lögð er áhersla á tryggt húsnæði og atvinnu fjölskyldna, skólagöngu barna og félagslegan stuðning við fjölskyldur.
    Í ljósi þess að um ný og tilfallandi verkefni er að ræða, sem eru sum hver lítt eða ekki skilgreind í lögum, er mikilvægt að það liggi skýrt fyrir hvar ábyrgð á ýmsum verkefnum mun liggja framvegis með tilliti til sviðsábyrgðar, svo sem verkefnum er snúa að jarðkönnun og sprungufyllingum. Talið er mikilvægt að eyða öllum vafa og veita lagaheimild fyrir því að færa verkefni til einnar stjórnsýslueiningar. Einnig er mikilvægt að fela einum aðila samhæfingu verkefna.
    Þá er ljóst að verkefnin sem hér hafa verið rakin varða verulega þjóðhagslega hagsmuni, bæði beina fjárhagslega hagsmuni og samfélagslega. Afar mikilvægt er að hugað sé að íbúum Grindavíkurbæjar og félagslegum réttindum þeirra vegna þeirra náttúruhamfara sem enn standa yfir. Einnig er ljóst að þörf er á aðkomu ríkissjóðs að þeim verkefnum sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir og því er nauðsynlegt að huga að því hvernig best verður gætt að sjónarmiðum um ábyrga fjármálastjórn vegna ákvarðana sem varða opinbera fjármuni, sbr. m.a. markmið laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Með færslu verkefna í sérstaka stjórnsýslueiningu er ákvarðanataka og ábyrgð skýrari og verkefni og framkvæmdir markvissari og hagkvæmari frekar en ef verkefnum verður áfram sinnt á grundvelli almennra laga sem taka ekki til þeirra nánast fordæmalausu aðstæðna sem nú eru uppi.
    Með vísan til framangreinds er lagt til í frumvarpinu að innviðaráðherra komi á fót sérstakri framkvæmdanefnd til að fara með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða vegna þeirra margvíslegu úrlausnarefna í Grindavíkurbæ sem tengjast yfirstandandi jarðhræringum á svæðinu í samvinnu við sveitarstjórn, önnur stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi aðila. Með því er ætlunin að tryggja hagkvæma og skilvirka stjórn og úrlausn viðkomandi verkefna. Þá er nefndinni ætlað að styðja við íbúa Grindavíkur, bæði þá sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu og þá sem flytja eða hafa flutt lögheimili frá sveitarfélaginu vegna ýmissa félagslegra málefna með starfrækslu þjónustuteyma. Auk þess muni slík framkvæmdanefnd gera sveitarstjórn og öðrum stjórnvöldum betur kleift að sinna lögbundnum kjarnaverkefnum sínum.

2.3. Samhengi frumvarpsins við önnur þingmál og aðgerðir.
    Frumvarp þetta er eitt af mörgum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem tengjast viðbrögðum við náttúruhamförum í Grindavík. Eftirfarandi er yfirlit yfir önnur frumvörp sem sprottin eru af þessum atburðum og lögð hafa verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi, og eru ýmist orðin að lögum eða eru til meðferðar:
          Lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, nr. 84/2023.
          Lög um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023.
          Lög um breytingu á lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 9/2024 (framlenging).
          Lög um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023.
          Lög um breytingu á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 5/2024 (framlenging gildistíma stuðningsúrræðis).
          Lög um breytingu á lögum um almennar íbúðir og lögum um húsnæðismál, nr. 114/2023 (almennar íbúðir vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ).
          Lög um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (fasteignaskattur í Grindavíkurbæ).
          Lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík, nr. 16/2024.
    Stuðnings- og viðbragðsaðgerðir að því er varðar framfærslu hafa nánar tiltekið verið fólgnar m.a. í greiðslum úr ríkissjóði til að vernda afkomu fólks sem getur ekki sinnt störfum sínum í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfaranna, með því að tryggja launagreiðslur upp að ákveðnu hámarki, sbr. lög nr. 87/2023. Gildistími þessa úrræðis er til 30. júní 2024.
    Vegna húsnæðismála Grindvíkinga var fyrst komið á fót sértækum húsnæðisstuðningi til að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem þurft hafa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkur vegna umræddra atburða, sbr. lög nr. 94/2023. Við rýmingu Grindavíkurbæjar var jafnframt gripið til ýmissa skammtímaúrræða til að hýsa bæjarbúa en frá þeim tíma hefur verið unnið að varanlegri lausnum á þeim húsnæðisvanda sem við blasir. Má þar nefna kaup leigufélaganna Bríetar og Bjargs á íbúðum til útleigu til Grindvíkinga og sérstakt leigutorg. Þá voru gerðar breytingar á lögum til að liðka fyrir kaupum á almennum íbúðum fyrir tekjulægri íbúa m.a. með auknum stofnfjárframlögum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sbr. lög nr. 114/2023.
    Einnig var lögfest heimild fyrir Grindavíkurbæ til að lækka eða fella niður álagðan fasteignaskatt sveitarfélagsins á árinu 2024. Var í því samhengi einkum horft til þess að íbúðarhúsnæði muni ekki nýtast eigendum til búsetu á yfirstandandi ári ef fram heldur sem horfir. Hið sama á í meginatriðum einnig við um atvinnuhúsnæði. Samhliða var lögum breytt á þann hátt að tiltekin framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélagsins tækju ekki breytingum þrátt fyrir þá stöðu sem nú er uppi. Þar var einkum horft til framlaga til sveitarfélagsins sem tengjast nemendafjölda í grunnskólum, auk framlaga sem hefðu annars dregist saman vegna niðurfellingar fasteignaskatts.
    Með lögum nr. 16/2024, sem tóku gildi 1. mars sl., var stofnað eignaumsýslufélagið Þórkatla sem hefur það hlutverk að annast kaup á íbúðarhúsnæði innan þéttbýlismarka Grindavíkurbæjar. Markmið laganna er að verja fjárhag og velferð íbúanna í ljósi óvissuástandsins með því að gefa einstaklingum í bæjarfélaginu kost á að losna undan þeirri áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum.
    Þá hafa innviðaráðuneytið og sveitarstjórn Grindavíkurbæjar gert með sér samkomulag um stuðning við stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli VII. kafla sveitarstjórnarlaga og mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veita sveitarfélaginu styrk að fengnum umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Frumvarp þetta kemur til viðbótar þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til eða standa fyrir dyrum í því skyni að m.a. tryggja hagsmuni og öryggi íbúa Grindavíkurbæjar. Með frumvarpinu er lagt til að veitt verði lagaheimild til að færa hin ýmsu verkefni, sem tengjast úrvinnslu afleiðinga af umræddum náttúruhamförum í Grindavíkurbæ, til sérstakrar framkvæmdanefndar í því skyni að auka til muna skilvirkni og samhæfingu við úrlausn þess vanda sem við blasir og er án fordæma.

2.4. Samspil við ákvæði sveitarstjórnalaga o.fl.
    Í frumvarpinu er ráðgert að framkvæmdanefnd starfi náið með sveitarstjórn og öðrum stjórnvöldum við framkvæmd þeirra verkefna sem henni eru falin. Með frumvarpinu er ekki ráðgert að framkvæmdanefnd komi í stað sveitarstjórnar, þó að nefndinni verði falin afmörkuð verkefni sem annars myndu heyra undir sveitarfélagið. Í frumvarpinu er gengið út frá því að sveitarstjórn Grindavíkurbæjar starfi náið með nefndinni að einstökum verkefnum þegar það á við. Sveitarstjórn mun áfram starfa á grundvelli sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn sveitarfélagsins. Hún ber áfram ábyrgð á lögbundnum verkefnum sínum og einnig ólögbundnum verkefnum sem hún starfrækir á grundvelli 7. gr. sveitarstjórnarlaga og óskráðra meginreglna sveitarstjórnarréttar, nema að því leyti sem framkvæmdanefnd hefur sérstaklega verið falin slík verkefni á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Sveitarstjórn fer t.d. enn með ábyrgð á verkefnum samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, lögum um leikskóla, nr. 90/2008, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og skipulagslögum, nr. 123/2010. Þá hefur sveitarstjórn áfram fjárstjórnarvald, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga, nema að því leyti að samþykkt tillaga framkvæmdanefndar um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélagsins vegna þeirra verkefna sem nefndinni verða falin er bindandi fyrir sveitarfélagið. Er þó gert ráð fyrir að afstaða sveitarstjórnar hafi mikið vægi við gerð tillögu um slíka kostnaðarskiptingu, sbr. 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Þá mun sveitarstjórn áfram bera ábyrgð á starfsmannamálum og skuldbindingum sveitarfélagsins, svo sem lífeyrisskuldbindingum. Þó er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að framkvæmdanefnd geti gert samkomulag við Grindavíkurbæ um framkvæmd verkefna, sbr. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að taka fram að framkvæmdanefnd, sem sett verður á fót samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, er ekki ætlað að fara með hlutverk fjárhaldsstjórnar sem heimilt er að skipa yfir sveitarfélag vegna greiðsluþrots þess skv. 86. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Þá er nefndinni ekki ætlað að vera framkvæmdastjórn kunnáttumanna sem ráðherra getur skipað til að taka yfir verkefni sveitarstjórnar ef hún verður óstarfhæf vegna neyðarástands, svo sem af völdum náttúruhamfara, sbr. 131. gr. sveitarstjórnarlaga. Þessi úrræði sveitarstjórnarlaga stefna að öðrum og eðlisólíkum markmiðum en ákvæði frumvarpsins, auk þess sem verkefni framkvæmdanefndar og sveitarstjórnar munu einungis skarast að hluta. Því myndi skipun fjárhaldsstjórnar eða framkvæmdastjórnar kunnáttumanna yfir sveitarfélag með heimild í ákvæðum sveitarstjórnarlaga ekki geta komið í stað framkvæmdanefndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins sem hefur ólíkt og sérhæfðara hlutverk í ljósi markmiða frumvarpsins.

2.5. Alþjóðleg reynsla.
    Við mat á þeirri leið sem lögð er til í frumvarpi þessu til að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru upp í Grindavíkurbæ var m.a. horft til reynslu Nýja-Sjálands vegna jarðskjálfta sem áttu sér stað á Canterbury-svæðinu og til alþjóðlegra rannsókna vegna viðbragða við náttúruhamförum. Eftir stóran jarðskjálfta í september árið 2010 á Nýja-Sjálandi var sú leið upphaflega farin að sett var á laggirnar með lögum sérstök nefnd, sem í sátu framkvæmdastjórar sveitarfélaga á svæðinu ásamt fulltrúum stjórnvalda. Nefndin hafði það hlutverk að ráðleggja yfirvöldum og annast samhæfingu verkefna. Þá var gert ráð fyrir að sveitarfélög myndu leiða endurreisn á svæðinu á grundvelli almennra laga um almannavarnir. Þetta fyrirkomulag þótti ekki vera nægilega skilvirkt, óvissa var um ákvörðunartöku og ljóst þótti að þörf væri á viðameiri aðstoð ríkisaðila vegna uppbyggingarinnar. Eftir að annar jarðskjálfti reið yfir svæðið í febrúar 2011 var fyrirkomulagið endurskoðað og ný lög voru sett þar sem komið var á laggirnar sjálfstæðu stjórnvaldi með skýr markmið og sterkt umboð til að taka ákvarðanir. Stjórnvaldinu var settur ákveðinn líftími og mælt var fyrir um í lögunum að leita skyldi eftir samráði við sveitarfélög á svæðinu vegna ákvarðana hins nýja stjórnvalds.
    Í skýrslu nýsjálenska forsætisráðuneytisins sem gefin var út árið 2017 er rakinn lærdómur af viðbrögðum stjórnvalda vegna jarðskjálftanna. Í skýrslunni er því haldið fram að alþjóðleg reynsla sýni fram á að endurreisn og uppbygging samfélags eftir náttúruhamfarir sé ávallt flókin og taki mjög langan tíma sem sjaldnast sé í samræmi við væntingar íbúa. Mikilvægt sé þó að læra af reynslunni og þeim áskorunum sem samfélagið hafi þurft að kljást við. Þá eru raktar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við endurreisn samfélagsins á Canterbury-svæðinu, lagt mat á hvernig til tókst auk þess sem þar er að finna ábendingar um það sem betur hefði mátt fara.
    Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að hafa leiðandi stjórnvald fyrir uppbyggingarstarf til að auka skilvirkni og draga úr óvissu um ábyrgð. Þá er bent á gildi þess að hafa sértæka löggjöf sem gerir kleift að flýta fyrir ákvörðunartöku og framkvæmdum í endurreisnarferlinu. Því er haldið fram að alþjóðleg reynsla hafi sýnt fram á að til þess að tryggja skilvirkt uppbyggingarstarf sem sátt ríki um þurfi að finna jafnvægi á milli þess að hafa miðstýrt stjórnvald, sem hefur nauðsynlegt ákvörðunarvald, og að koma á fót vettvangi, sem mælt er fyrir um í lögum eða reglum, þar sem íbúum er veittur möguleiki á að hafa áhrif á ákvörðunartöku. Þá er bent á að alþjóðlegar stofnanir, þ.m.t. Sameinuðu þjóðirnar, hafi lagt mikla áherslu á að tryggt sé að íbúar hafi aðkomu að ákvörðunarferli við endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir.
    Í niðurstöðuhluta skýrslunnar segir jafnframt að þann lærdóm megi draga af reynslu stjórnvalda við löggjafarvinnu vegna endurreisnar Canterbury-svæðisins að:
     1.      huga þurfi sérstaklega að umboði og ákvörðunarvaldi þeirra aðila sem hafa samráðshlutverk á grundvelli slíkra laga,
     2.      skýrt sé kveðið á um markmið lagasetningar og sérstaklega valdheimildir aðila þannig að ekkert svigrúm verði til túlkunar slíkra ákvæða.
    Þótt þær aðstæður sem nú eru uppi á Reykjanesskaga séu ekki að öllu leyti sambærilegar fyrrgreindum aðstæðum á Nýja-Sjálandi, t.d. er lagaumhverfið afar mismunandi og á Nýja-Sjálandi náðu náttúruhamfarirnar yfir mörg sveitarfélög, eru ýmis atriði sem rétt þykir að líta til við gerð þessa frumvarps. Til að mynda er stefnt að því með frumvarpinu að koma á sjálfstæðu stjórnvaldi, eða framkvæmdanefnd, sem hefur skýrar valdheimildir til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndin eigi ríkt samráð við sveitarstjórn við gerð aðgerðaáætlana sem ákvarðanir nefndarinnar munu byggjast á, eins og nánar er lýst í skýringum við 7. gr. frumvarpsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og áður var rakið er í frumvarpinu lögð til heimild til að skipa tímabundna framkvæmdanefnd til að fara með ábyrgð tiltekinna verkefna sem fjallað er um í frumvarpinu, fara með samhæfingu verkefna sem ráðherra felur nefndinni og hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar vegna þeirra margvíslegu úrlausnarefna í sveitarfélaginu sem tengjast yfirstandandi jarðhræringum á svæðinu, í samvinnu við sveitarstjórn, önnur stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi. Með því er ætlunin að tryggja hagkvæma og skilvirka stjórn og úrlausn viðkomandi verkefna.
    Með vísan til umfjöllunar í 2. kafla er talið að markmiðum þessum verði ekki náð á grundvelli gildandi laga, t.d. sveitarstjórnarlaga eða laga um almannavarnir. Þrátt fyrir framangreint felur frumvarpið ekki í sér að framkvæmdanefndin komi almennt í stað sveitarstjórnar eða annarra stjórnvalda. Hins vegar er ráðgert að nefndin starfi náið með sveitarstjórn og öðrum stjórnvöldum að einstökum verkefnum sem falla innan eða skarast við verksvið hvers um sig. Þá er ætlunin að nefndin komi til með að styðja við sveitarstjórn og önnur stjórnvöld og auðvelda þeim að sinna lögbundnum kjarnahlutverkum sínum, sbr. kafla 2.3.
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdanefnd beri ábyrgð á verkefnum sem henni verður falið að sinna verði frumvarpið óbreytt að lögum, en í því felst m.a. að nefndin fari með stjórn, skipulagningu og framkvæmd slíkra verkefna. Um er að ræða verkefni sem tengjast afleiðingum jarðhræringa og eldsumbrota í sveitarfélaginu, sem rétt þykir að færa á eina hendi með vísan til þeirra sjónarmiða sem áður voru rakin. Almennt er um að ræða ýmis ný og tilfallandi verkefni sem tengjast gagngert afleiðingum náttúruhamfaranna og er ýmist óvíst hvar skuli fyrir komið í stjórnkerfinu með tilliti til sviðsábyrgðar, eða verkefni sem eru umfangsmikil, langvarandi og af því tagi að talið er rétt að fela þau sérstökum aðila. Hér má nefna verkefni sem snúa að því að hlúa að íbúum Grindavíkurbæjar en m.a. er lagt til að framkvæmdanefnd starfræki þjónustuteymi sem er ætlað að bjóða íbúum Grindavíkurbæjar, sem á þurfa að halda, viðtöl til að veita upplýsingar og ráðleggja um fjölbreytt félagsleg málefni. Þá er um að ræða verkefni sem snúa að innviðum, jarðvegi og öryggi í bænum.
    Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að ráðherra geti falið nefndinni að fara með samhæfingu tiltekinna aðgerða og verkefna í Grindavíkurbæ en um getur verið að ræða verkefni sem þegar eru í höndum annarra stjórnvalda. Er það gert með samþykki viðkomandi stjórnvalda sem munu áfram bera ábyrgð á viðkomandi verkefnum í samræmi við lög en nefndinni er fengið sérstakt samhæfingarhlutverk, t.d. við að móta og gera tillögu að stefnu vegna ákveðins verkefnis fyrir Grindavíkurbæ.
    Auk þess er finna ákvæði sem mæla fyrir um kostnað og framkvæmd verkefna nefndarinnar, heimildir nefndarinnar til að kalla eftir upplýsingum o.fl.
    Um skipan framkvæmdanefndar, verkefni og starfsemi hennar og önnur ákvæði frumvarpsins má að öðru leyti vísa til skýringa við einstakar greinar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ákvæði frumvarpsins eru talin samræmast ákvæðum stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra skuldbindinga.
    Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga en þar kemur fram að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, auk þess sem tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Í sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga felst að sveitarfélög hafa tiltekið sjálfstæði innan stjórnsýslukerfisins og önnur stjórnvöld geta ekki haft afskipti af þeim án lagaheimildar. Réttur löggjafans til að setja lög er varða sveitarfélög er aftur á móti rúmur og ber sveitarfélögum að fara eftir þeim lögum sem Alþingi setur. Það hefur verið álit fræðimanna sem rannsakað hafa sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga, ásamt því að vera almenn réttarframkvæmd frá því að ákvæðið var fyrst lögfest í stjórnarskrá árið 1874, að sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga takmarki ekki heimildir löggjafans til að kveða á um skipan sveitarfélaga eða verkefni þeirra, sjá m.a. Trausta Fannar Valsson: „Sjálfstjórn sveitarfélaga.“ Tímarit lögfræðinga, 3. hefti 2007, bls. 241–265. Í sjálfstjórn sveitarfélaga felst því að sveitarfélög hafa rétt til að ráða málefnum sínum sjálf innan þess svigrúms sem löggjafinn setur. Þá hefur ekki verið litið svo á að ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar eða jafnræðisregla hennar takmarki heimild löggjafans til að mæla fyrir um verkefnaskipan hjá einstaka sveitarfélagi. Ríkisvaldinu hefur t.d. verið talið heimilt að standa að framkvæmdum sem koma einstökum sveitarfélögum vel, opinberum fjármunum varið til sérstakrar styrkingar einstaka sveitarfélaga. Heimilt hefur verið talið að kveða á um í lögum að flytja opinbera starfsemi til tiltekinna sveitarfélaga eða að tiltekin opinber starfsemi skuli vera í tilteknu sveitarfélagi. Ráðstafanir af þessum toga hafa talist vera hluti af valdi löggjafans til að skipuleggja starfsemi sína eða ná fram opinberri stefnu, sjá t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 34/2018 frá 14. maí 2019. Eins og rakið er helgast ákvæði frumvarpsins af málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og verður því ekki séð að frumvarpið fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða 78. gr. hennar þótt það varði eitt sveitarfélag.
    Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um að stjórn tiltekinna verkefna sem varða íbúa Grindavíkur verði færð til sérstakrar nefndar sem verður sjálfstætt stjórnvald en sum verkefnin eru þess eðlis að þau kunna að snúa að lögbundnum verkefnum Grindavíkurbæjar. Í ljósi þessa rúma réttar sem löggjafinn hefur til að mæla fyrir um skipan og stjórn verkefna sem falin eru sveitarfélögum er ekki talið að vafið leiki á um að löggjafanum sé heimilt að færa tiltekin verkefni sveitarfélags eða sveitarfélaga til annarra stjórnvalda. Þá verður ekki séð að frumvarpið fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða 78. gr. hennar þótt það varði eingöngu eitt sveitarfélag enda ljóst að ákvæði þess helgast af málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, eins og efni ákvæða þess og umfjöllun í greinargerð þessari bera með sér. Þá er með ákvæðum frumvarpsins ekki gengið lengra en nauðsynlegt þykir til að ná markmiðum þess.
    Þá er mælt fyrir um það í frumvarpinu að sveitarfélagið geti ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að færa ábyrgð lögbundinna verkefna til framkvæmdanefndarinnar. Tilfærsla á verkefnum Grindavíkurbæjar verður því háð ákvörðun sveitarstjórnar og er sveitarstjórn með þeim hætti falin sjálfstjórn til að ákvarða, ásamt innviðaráðherra og öðrum stjórnvöldum eftir atvikum, hvaða fyrirkomulag verður á stjórn og ábyrgð lögbundinna verkefna sveitarfélagsins, öðrum en þeim sem eru sérstaklega talin upp í 3. gr. frumvarpsins. Sambærilegt dæmi er að finna í 96. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem sveitarfélögum er veitt heimild að fela öðrum sveitarfélögum að taka við ábyrgð lögbundinna verkefna sinna. Dæmi eru um að sveitarfélög hafi falið öðrum sveitarfélögum nánast öll verkefni sín. Hefur það verið talið heimilt en þó jafnframt ljóst að ákveðin verkefni verða ekki færð til annarra stjórnvalda. Er þá fyrst og fremst horft til verkefna sem talin eru upp í 58. gr. sveitarstjórnarlaga sem mælir fyrir um að eingöngu sveitarstjórn geti tekið þær ákvarðanir sem fjallað er um í ákvæðinu, til að mynda staðfestingu ársreiknings, fjárhagsáætlun o.fl. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarstjórn geti falið nefndinni lögbundin verkefni sín með ákvörðun í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins en áréttað er að sveitarstjórn sé ekki heimilt að fela nefndinni þau verkefni sem mælt er fyrir um í 58. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Þá er rétt að geta þess að ráðherra sveitarstjórnarmála staðfestir breytingar á samþykktum um stjórn sveitarfélaga og hefur hann því eftirlitshlutverk með því að slíkar breytingar séu í samræmi við lög. Þar af leiðandi getur ekki komið til þess að sveitarfélagið færi nefndinni öll sín verkefni þannig að ekkert standi eftir og verður því ekki séð að ákvæði frumvarpsins séu í ósamræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar að þessu leyti.

5. Samráð.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti, sveitarstjórn Grindavíkurbæjar og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þá voru drög frumvarpsins kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga en í ljósi þess að efni þess varðar eingöngu eitt sveitarfélag var kostnaðarmat ekki sent sambandinu til sérstakrar umsagnar, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga. Í umsögn sambandsins segir að ekki séu gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins svo fremi það sé unnið í góðu samstarfi við Grindavíkurbæ. Þá gerir sambandið ekki athugasemdir við að vera nefnt í 3. mgr. 3. gr. sem samstarfsaðili við gagnaöflun. Vegna tilvísunar í greinargerð til þess að framkvæmdanefndin geti lagt til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði nýttur til að fjármagna ákveðin verkefni ítrekar sambandið þá afstöðu sem margoft hafi komið fram að Jöfnunarsjóður sé ekki hamfarasjóður og því óeðlilegt að hann standi straum af auknum kostnaði sem falli til hjá Grindavíkurbæ eða öðrum sveitarfélögum vegna stöðunnar.
    Í ljósi aðstæðna var talið nauðsynlegt að víkja frá ákvæðum samþykktar ríkisstjórnarinnar 24. febrúar 2023 um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, hvað varðar frekara samráð um efni frumvarpsins. Áform um lagasetninguna og drög að lagafrumvarpi hafa því ekki verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Gengið er út frá því að kostnaður vegna þóknunar nefndarmanna og skrifstofu- og húsnæðiskostnaður nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Áætlað er að árlegur kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda, starfsaðstöðu, rekstrar og aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar nemi um 150 millj. kr. á ári. Miðast það við að í framkvæmdanefnd verða þrír aðilar í fullu starfi og tvö stöðugildi því til viðbótar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nefndin leggi til hver aðkoma ríkissjóðs, Grindavíkurbæjar eða annarra aðila að fjármögnun verkefna nefndarinnar skuli vera og ber ráðherra að staðfesta aðgerðaáætlanir nefndarinnar og tillögur að fjármögnun. Í ljósi þess hve mikil óvissa ríkir um hugsanleg verkefni nefndarinnar er gert ráð fyrir að ráðherra staðfesti aðgerðaráætlanir nefndarinnar og að fjármögnun verkefna sé tryggð. Það leiðir af ákvæðum frumvarpsins að nefndinni er ekki heimilt að sinna verkefni nema ráðherra hafi staðfest að fjárheimild sé til staðar vegna rækslu þeirra. Það kann að vera með heimild í fjárlögum, fjáraukalögum eða í gegnum almennan varasjóð en einnig er gert ráð fyrir að nefndin geti lagt til að horft verði til þess að fjármögnun verði með öðrum hætti en beinni aðkomu ríkissjóðs, t.d. með alþjóðlegum styrkjum vegna hamfara, styrkjum samkvæmt opinberum áætlunum, t.d. byggðaáætlun, samgönguáætlun, matvælastefnu o.s.frv., eða framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Nefndin mun með öðrum orðum ekki vinna þau verkefni sem henni eru falin með frumvarpinu fyrr en ráðherra hefur staðfest aðgerðaráætlun nefndarinnar og fjármögnun verkefna.
    Ljóst er að verkefni framkvæmdanefndar mun varða verulega þjóðhagslega hagsmuni. Fyrir liggur bráðabirgðagreining ráðgjafafyrirtækisins Deloitte um m.a. þjóðhagslegan kostnað vegna jarðhræringanna. Greiningin er unnin með þeim fyrirvörum að ekki hafi verið farið ítarlega yfir alla þá þætti sem kunna að skipta máli varðandi efnið þar sem skammur tímarammi hafi verið á verkefninu. Í greiningunni kemur fram að áætlaður beinn þjóðhagslegur kostnaður felist að stórum hluta í skuldbindingum ríkissjóðs vegna kaupa fasteignafélagsins Þórkötlu á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ en einnig er um að ræða skemmdir á innviðum í bænum, kostnað vegna varnargarða, kostnað vegna jarðkönnunar á sprungum og holrýmum og áfallinn kostnað almannavarna. Samanlagður beinn kostnaður, byggður á þeim upplýsingum sem lágu fyrir við vinnu verkefnisins, er um 90 milljarðar kr., þar af 70 milljarðar kr. vegna Þórkötlu, en án áætlana um skemmdir á atvinnuhúsnæði eða kostnað við viðgerðir við sprungur og holrými. Byggt á samtölum við sérfræðinga áætlar Deloitte að sá kostnaður gæti mögulega verið á bilinu 5–10 milljarðar kr. Þá kemur fram að rannsóknir sýni fram á að óáþreifanlegur samfélagslegur kostnaður geti verið jafnmikill eða meiri en beinn fjárhagslegur kostnaður.
    Rétt er að benda á að lunginn af kostnaði vegna framkvæmda og annarra verkefna í Grindavíkurbæ mun falla til óháð því hvort verkefnin verða falin framkvæmdanefnd eða ekki. Því er ekki unnt að líta á slíkan kostnað sem afleiðingu af samþykkt þessa frumvarps. Hins vegar mun tilkoma nefndarinnar hafa í för með sér skilvirkari og hagkvæmari úrvinnslu þessara verkefna og draga úr kostnaði og tjóni almennt.
    Þá mun tilkoma framkvæmdanefndar m.a. hafa í för með sér að verkefnaálagi verður létt af öðrum aðilum, einkum almannavörnum, og því sparast kostnaður á þeim vettvangi. Mögulega myndi starfsfólk hjá Grindavíkurbæ og almannavörnum, t.d. starfsmenn sem ráðnir hafa verið sérstaklega vegna aukins álags af völdum atburða í Grindavík, geta flust tímabundið yfir til framkvæmdanefndar eftir því sem haganlegt þykir.
    Í frumvarpinu er ekki kveðið sérstaklega á um gjaldtöku eða aðrar fjármögnunarleiðir vegna kostnaðar af starfsemi framkvæmdanefndar.
    Áhrif frumvarpsins á jafnrétti hafa ekki verið greind en ætla má að áhrif þeirra verkefna sem framkvæmdanefndinni verða falin séu talsvert ólík eftir kynjum. Mikilvægt er að höfð séu í huga kynja- og jafnréttissjónarmið við áætlanagerð og töku ákvarðana um einstök verkefni sem farið verður í á grunni þessarar lagasetningar, verði frumvarpið samþykkt, í samræmi við 30 gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Þá er mikilvægt að afla frekari gagna og greina áhrif á jafnrétti kynjanna. Í greiningu á lýðfræði og atvinnulífi í Grindavík, sem Byggðastofnun vann að beiðni innviðaráðuneytisins í framhaldi af rýmingu bæjarins, kemur fram að sjávarútvegur er langstærsta einstaka atvinnugreinin í Grindavík og stóð undir 35% atvinnutekna í byggðarlaginu. Næst á eftir kemur opinber þjónusta með 16,5% atvinnutekna. Íbúum Grindavíkur hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og hafa kynjahlutföll skekkst nokkuð. Þannig eru karlar 52,9% íbúa en konur 47,1%. Ekki er hægt að draga nema almennar ályktanir af þessari greiningu um stöðu kynjanna, en þó má slá því föstu að ólaunuð störf lendi í meira mæli á konum en körlum. Til að mynda er líklegt að skerðing á skóla- og frístundastarfi og þjónustu við eldra fólk og aðra viðkvæma hópa hafi meiri áhrif á konur en karla í formi ólaunaðra umönnunarstarfa. Þá eru vísbendingar um ólíka afstöðu kynjanna og upplifun af öryggi í tengslum við umræðu um áform um búsetu eftir jarðhræringarnar. Vonir standa til að með því að útbúa fasta umgjörð um verkefni tengd Grindavík, eins og gera á með framkvæmdanefndinni, verði betur hægt að huga að kynja- og jafnréttissjónarmiðum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin hefur að geyma markmiðsákvæði frumvarpsins. Rétt er að taka fram að með vísun til íbúa Grindavíkurbæjar í þessu ákvæði sem og öðrum í frumvarpi þessu er átt bæði við þá íbúa í bænum sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu og þá íbúa sem flutt hafa lögheimili sitt vegna náttúruhamfaranna.
    Þá er gildissvið frumvarpsins afmarkað við hlutverk, verkefni og heimildir framkvæmdanefndar eftir því sem nánar greinir í ákvæðum þess.
    Þess ber að geta að þótt ákvæði frumvarpsins séu sett til að bregðast við afleiðingum náttúruhamfara sem jafna má til neyðarástands takmarkast gildissvið ákvæða frumvarpsins ekki við að tiltekið almannavarnastig sé í gildi.

Um 2. gr.

    Í greininni er fjallað stofnun og skipan framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Hlutverk nefndarinnar er að fara með þau verkefni sem fjallað er um í 3. og 4. gr. frumvarpsins. Þá er einnig gert ráð fyrir að nefndin hafi heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar vegna þeirra úrlausnarefna sem tengjast jarðhræringum.
    Í framkvæmdanefnd skulu þrír eiga sæti, tveir tilnefndir af innviðaráðherra og einn af ráðherra menntamála. Ráðherra sveitarstjórnarmála tilnefnir formann nefndarinnar. Gert er ráð fyrir því að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð, sbr. 10. gr., þar sem mælt verði nánar fyrir um skipan nefndarinnar og hvernig tilnefning í nefndina fer fram ef þörf krefur. Þá er rétt að árétta að um skipan nefndarinnar gildir 28. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sem mælir fyrir um að við skipan í nefndir á vegum ríkisins skuli gæta að því að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Auk þess verður ekki séð að hlutlægar ástæður gætu verið fyrir því að það sé ekki mögulegt, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna.
    Í ákvæðinu kemur einnig fram að framkvæmdanefnd sé sjálfstætt stjórnvald en skuli þó taka mið af stefnu og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar vegna málefna Grindavíkurbæjar. Af þessu leiðir að framkvæmdanefndin er fjölskipað stjórnvald sem tekur sameiginlega stjórnvaldsákvarðanir, sbr. þó 4. mgr. 5. gr.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um þau sérstöku verkefni sem verða falin nefndinni. Um er að ræða verkefni sem almannavarnir og önnur stjórnvöld sinna nú. Í ákvæðinu felst að nefndin taki alfarið yfir stjórn, skipulagningu og framkvæmd þeirra verkefna sem talin eru upp út starfstíma nefndarinnar.
    Rétt er að taka sérstaklega fram að yfirfærsla verkefnanna til framkvæmdanefndar á grundvelli 3. gr. haggar ekki hlutverki stjórnvalda eða almannavarna samkvæmt lögum um almannavarnir og öðrum lögum, eftir því sem við á. Það á til að mynda við ef atburður verður sem leiðir til þess að nauðsynlegt er að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða eða bráðaviðgerða til að varna tjóni.
    Í a-lið 1. mgr. er mælt fyrir um að framkvæmdanefndin skuli starfrækja sérstök þjónustuteymi vegna ýmissar félagslegrar þjónustu sem rakin er í ákvæðinu. Til að bregðast við þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi í Grindavíkurbæ er lagt til að sett verði á fót þjónustuteymi sem styður íbúa Grindavíkur, bæði þá sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu og þá sem flytja eða hafa flutt lögheimili frá sveitarfélaginu. Þjónustuteyminu er ætlað að bjóða íbúum Grindavíkur, sem á þurfa að halda, viðtöl til að veita þeim upplýsingar og ráðleggja um fjölbreytt félagsleg málefni. Hér er m.a. átt við húsnæði, atvinnu, fjárhag einstaklinga og fjölskyldna, skóla- og frístundastarf fyrir börn og ungmenni, heilsufarslegan og félagslegan stuðning við einstaklinga og fjölskyldur. Þá er þjónustuteyminu ætlað, m.a. fyrir hönd íbúa, að eiga samskipti við sveitarfélög þar sem þeir hafa komið sér fyrir. Þjónustuteymið gæti í samstarfi við viðeigandi aðila gert einstaklingsáætlanir um þjónustu. Þjónustuteymið ynni jafnframt í nánum tengslum við samhæfingarhóp Stjórnarráðsins um félagsleg málefni þar sem fer fram stefnumótun og áætlanagerð í stærra samhengi þvert á stofnanir og sveitarfélög til að verða við félagslegum þörfum Grindvíkinga. Gert er ráð fyrir að framkvæmdanefnd útfæri nánar skipan, staðsetningu og verkefni þjónustuteymisins auk þess sem ráðherra geti mælt nánar fyrir um slík atriði í reglugerð, sbr. 9 gr.
    Í b-lið 1. mgr. er gert ráð fyrir að framkvæmdanefndin taki ákvörðun um hvort ástæða sé til að starfrækja þjónustumiðstöð fyrir íbúa Grindavíkurbæjar. Á grundvelli 14. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, stofnaði ríkislögreglustjóri tímabundna þjónustumiðstöð við upphaf jarðhræringanna. Gert er ráð fyrir að tímabundnum rekstri þeirrar þjónustumiðstöðvar verði hætt og þau verkefni sem ekki verður lokið verði færð yfir til þjónustumiðstöðvar framkvæmdanefndarinnar telji nefndin tilefni til þess að starfrækja þjónustumiðstöð.
    Í c-lið 1. mgr. er mælt fyrir um að framkvæmdanefndin skuli framkvæma áhættumat fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að áhættumatið verði unnið samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði við áhættustýringu. Í verkefninu felst m.a. að framkvæmdanefndin eigi samstarf við atvinnurekendur varðandi öryggismál fyrirtækja, á grundvelli áhættumatsins, og komi því til leiðar að tekið verði tillit til áhættumatsins þegar kemur að starfsemi innan þéttbýlis í Grindavíkurbæ.
    Í d-lið 1. mgr. kemur fram að framkvæmdanefndin fari með yfirumsjón nauðsynlegra viðgerða til að tryggja virkni, rekstur og afhendingaröryggi innviða, eftir því sem við á og tilheyrir ábyrgðarsviði Grindavíkurbæjar. Með ákvæðinu er einkum átt við ákveðna grunninnviði sveitarfélagsins, að því leyti sem sveitarfélagið ber ábyrgð á þeim, þ.e. gatnakerfi, fjarskipti, raforku- og hitaveitukerfi, vatnsveitu og fráveitu. Með innviðum samkvæmt ákvæðinu er ekki átt við rekstur og daglegt viðhald á fasteignum sveitarfélagsins, svo sem skóla, íþróttahúsi, menningarhúsi, höfn o.s.frv., en Grindavíkurbær gæti hins vegar falið nefndinni á grundvelli 4. gr. frumvarpsins slíkt hlutverk. Þá er ekki gert ráð fyrir því að nefndin taki við viðhaldi og viðgerðum á varnargörðum í sveitarfélaginu en um það gilda lög um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, nr. 84/2024.
    Í þeim tilvikum sem rekstur og/eða eignarhald innviða er í höndum einkaaðila þá tekur nefndin m.a. við því hlutverki að eiga samstarf og samskipti við viðkomandi einkaaðila vegna þeirra innviða sem um ræðir. Mikilvægt er að samræma aðgerðir þar sem reynir á aðkomu opinberra aðila og einkaaðila og tryggja að hlutaðeigandi starfi saman á grundvelli laga þessara, nái frumvarpið fram að ganga, og aðgerðaráætlana. Lykilviðfangsefnið er að tryggja virkni þessara innviða og að þeir fái nauðsynlegt viðhald, m.a. með bráðaviðgerðum og mótvægisaðgerðum.
    Þá er rétt er að nefna að með ákvæðinu er gert ráð fyrir að nefndin taki við ábyrgð á mörgum verkefnum sem nú falla undir umhverfis- og skipulagssvið Grindavíkurbæjar en áréttað er að nefndin geti samið við Grindavíkurbæ um framkvæmd verkefna, sbr. 5. gr. frumvarpsins, m.a. um starfsmenn. Eðlilegt verður að telja að nefndin líti til staðarþekkingar og reynslu starfsmanna Grindavíkurbæjar við þessar aðstæður.
    Í e-lið 1. mgr. er kveðið á um að framkvæmdanefndin taki yfir verkefni varðandi könnun á jarðvegi/jarðskoðun. Um er að ræða verkefni sem almannavarnir/embætti ríkislögreglustjóra hóf, en gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin taki yfir verkefnið eins og það stendur við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum. Þau gögn og þær niðurstöður sem liggja fyrir verði afhent framkvæmdanefndinni sem taki síðan ákvarðanir um framhaldið á grundvelli ákvæða frumvarpsins.
    Í f-lið 1. mgr. kemur fram að framkvæmdanefndin fari með yfirumsjón nauðsynlegra viðgerða á götum, stígum og opnum svæðum sem Grindavíkurbær er ábyrgur fyrir. Í þessu felst m.a. að taka ákvarðanir um umfang viðgerða sem rétt þykir að ráðast í, m.a. miðað við stöðu jarðhræringa. Þá felst í þessu verkefni einnig að annast lokanir á svæðum sem jarðskoðun hefur leitt í ljós að eru ekki örugg og gera álagsprófanir á götum og opnum svæðum. Fram að þessu hefur almannavarnarkerfið m.a. annast ákveðnar bráðabirgðaviðgerðir, viðgerðir vegna rýmingarleiða, daglegar öryggisskoðanir, snjómokstur o.fl. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þessi verkefni færist yfir til framkvæmdanefndarinnar, frá og með gildistöku laganna, en um er að ræða verkefni sem annars væru á ábyrgð sveitarfélagsins.
    Í g-lið 1. mgr. er vísað til þess að framkvæmdanefndin fari með yfirumsjón með vernd lausafjármuna, eftir því sem við á að mati nefndarinnar. Á grundvelli þessa ákvæðis er m.a. gert ráð fyrir að framkvæmdanefndin taki yfir leigu á búslóðageymslum. Að öðru leyti er ljóst að það er almennt ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga eða stjórnvalda að huga að lausafjármunum íbúa til lengri tíma.
    Í h-lið 1. mgr. er gert ráð fyrir að framkvæmdanefndin annist framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavík á grundvelli ákvarðana lögreglu og í samvinnu við lögreglu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdanefndin taki yfir framkvæmd aðgangsstýringarinnar, en í því felst m.a. að sjá um mönnun svokallaðra „lokunarpósta“ og leigja búnað, bíla, fjarskiptabúnað og öryggisbúnað.
    Með i-lið 1. mgr. er framkvæmdanefndinni falið að annast upplýsingamiðlun til íbúa Grindavíkurbæjar og hagaðila varðandi stöðu mála og framgang verkefna sem nefndin sinnir.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti falið nefndinni að fara með samhæfingu aðgerða og annarra verkefna en þeirra sem fram koma í 1. mgr. Örðugt er að tilgreina öll þau verkefni sem rétt er að framkvæmdanefnd hafi með höndum og er því gert ráð fyrir að ráðherra geti í samráði við Grindavíkurbæ og forsætisráðherra forsætisráðuneytisins og að fengnu samþykki viðkomandi fagráðherra, ef því er að skipta, falið nefndinni að fara með samhæfingu tiltekinna verkefna og aðgerða í Grindavíkurbæ. Í þessu felst ekki að nefndin taki við ábyrgð slíkra verkefna en nefndin mun geta unnið að þeim í samvinnu við hlutaðeigandi stjórnvöld. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði mælt fyrir um þau verkefni sem ráðherra felur nefndinni að hafa samhæfingarhlutverk í, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ráðherra geti falið nefndinni að afla gagna og rannsaka ýmis samfélagsleg málefni sem leiða má af jarðhræringunum í Grindavík. Hér getur t.d. fallið undir gagnaöflun og rannsóknir á sértækum afleiðingum atburðanna á börn, aldraða, kyn, atvinnugreinar, byggðaþróun o.s.frv. Er ákvæðið liður í því að stjórnvöld geti haft heildaryfirsýn yfir afleiðingar af jarðhræringunum í Grindavík. Gert er ráð fyrir að nefndin geti unnið að þessum málefnum í samvinnu við önnur stjórnvöld og gæti nefndin t.d. á grundvelli 5. gr. gert samkomulag við Byggðastofnun eða Samband íslenska sveitarfélaga um ákveðnar rannsóknir sem tengjast jarðhræringunum.
    Einnig má nefna að til að tryggja að enginn vafi leiki á um starfssvið nefndarinnar vegna þeirra verkefna sem kveðið er á um í greininni er gert ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð mælt nánar fyrir um framkvæmd verkefna, sjá nánar skýringar við 9. gr.


Um 4. gr.

    Í ljósi þeirra óvissu sem uppi er um framvindu atburða og afleiðingar jarðhræringanna í Grindavíkurbæ þykir rétt að mæla fyrir um þá heimild sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að færa ábyrgð á lögbundnum verkefnum sveitarfélagsins til framkvæmdanefndarinnar, að fengnu samþykki viðkomandi fagráðuneyta, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Breyting á samþykkt um stjórn sveitarfélaga fer fram á grundvelli 9. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, en þörf er á staðfestingu innviðaráðherra á slíkri breytingu til að hún hljóti gildi, auk þess sem birta ber slíka breytingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þá er ástæða til að nefna að í sveitarstjórnarlögum er almennt gert ráð fyrir því að breyting á samþykkt um stjórn sveitarfélags þarfnist tveggja umræðna í sveitarstjórn, sbr. 18. gr. laganna.
    Í ákvæðinu er áréttað að ákveði sveitarstjórn að fela framkvæmdanefnd að taka við lögbundnum verkefnum sveitarstjórnar hafi nefndin sömu ábyrgð, hlutverk og valdheimildir og sveitarstjórn hafði. Í því felast allar valdheimildir til ákvarðanatöku og annarra athafna, þar á meðal til vinnslu persónuupplýsinga. Í því felst einnig að framkvæmdanefndin taki við hlutverki sveitarfélagsins sem aðili að samstarfssamningum þess við önnur sveitarfélög á málefnasviði verkefnisins sem nefndinni verði falið á grundvelli ákvæðisins, þ.m.t. aðild Grindavíkurbæjar að byggðasamlögum. Þá geti framkvæmdanefndin leitað eftir samvinnu við annað eða önnur sveitarfélög vegna þeirra verkefna sem sveitarstjórn felur henni á grundvelli IX. kafla sveitarstjórnarlaga.
    Heimild sveitarstjórnar til að fela nefndinni lögbundin og ólögbundin verkefni er mjög rúm og á hún við um öll lögbundin og ólögbundin verkefni sveitarfélagsins. Dæmi um verkefni sem Grindavíkurbær gæti falið framkvæmdanefnd eru verkefni fastanefnda, þ.m.t. fræðslunefndar og félagsmálanefndar, á grundvelli laga um leikskóla, nr. 90/2008, laga um grunnskóla, nr. 91/2008, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Einnig má hér nefna verkefni skipulagsnefnda og byggingafulltrúa þegar kemur að ákvörðunum varðandi viðgerðir, niðurrif og endurgerð innviða eða annarra mannvirkja skv. 8. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, og 6. og 7. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Í ákvæðinu er þó sérstaklega tiltekið að sveitarfélaginu er ekki heimilt að fela nefndinni hlutverk sitt sem ákveðið er 58. gr. sveitarstjórnarlaga en þar kemur fram að einvörðungu sveitarstjórn getur tekið ákvarðanir um málefni sem varða m.a. staðfestingu ársreiknings, fjárhagsáætlanir, álagningu skatta og gjalda o.fl.
    Þá er sveitarfélögum almennt heimilt að taka að sér verkefni sem varða íbúa þess og ekki eru falin öðrum til úrlausnar að lögum eða sem mælt er fyrir um í lögum með öðrum hætti, sbr. m.a. 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga. Slík verkefni þurfa einnig að uppfylla óskráðar meginreglur sveitarstjórnarréttar um heimildir sveitarfélaga til að starfrækja verkefni sem ekki er mælt fyrir um í lögum, sjá nánar álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 24. janúar 2020 í máli nr. SRN18030116. Eins komið hefur fram gerir ákvæðið ráð fyrir því að sveitarstjórn geti falið nefndinni verkefni sem ekki er mælt fyrir um í lögum en í því felst að leggja þarf mat á hvort sveitarfélaginu sé almennt heimilt að starfrækja verkefnið áður en sveitarstjórn getur falið nefndinni viðkomandi verkefni.
    Þá er að lokum gert ráð fyrir því að kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar hafi á grundvelli sveitarstjórnarlaga aðgang að gögnum vegna verkefna sem sveitarstjórn hefur falið nefndinni að sjá um. Kveðið er á um rétt kjörinna fulltrúa til aðgangs að gögnum í 28. gr. sveitarstjórnarlaga og gert er ráð fyrir að litið verði til þeirrar greinar við túlkun á rétti kjörinna fulltrúa til aðgangs að gögnum sem liggja hjá framkvæmdanefndinni. Er sérstaklega horft til þeirra lögskýringarsjónarmiða við 28. gr. sveitarstjórnarlaga að þótt réttur sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum og upplýsingum úr stjórnsýslu sveitarfélags sé rúmur geti hann eðli máls samkvæmt ekki verið óheftur. Það er t.d. talið mikilvægt að upplýsingaréttinum sé ekki beitt þannig að hann hafi takmarkandi áhrif á daglega stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélagsins við íbúana. Sömu sjónarmið munu eiga við í þessu tilviki, þ.e. að upplýsingaréttinum verði ekki beitt þannig að hann hafi takmarkandi áhrif á starfsemi nefndarinnar.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um heimildir framkvæmdarnefndar til að gera samninga við ýmsa aðila um framkvæmd verkefna og heimildir nefndarinnar til að ráða sér starfsfólk. Verði frumvarpið samþykkt verður framkvæmdanefnd falin stjórn tiltekinna verkefna sem sveitarstjórn Grindavíkurbæjar, almannavarnir og önnur stjórnvöld sinna nú og ljóst er að umræddir aðilar munu sinna áfram að einhverju leyti. Frumvarpið veitir nefndinni hins vegar ekki boðvald yfir starfsmönnum Grindavíkurbæjar eða annarra stjórnvalda með beinum hætti heldur er gert ráð fyrir að nefndin hafi svigrúm til að semja við önnur stjórnvöld, þ.m.t. sveitarstjórn Grindavíkurbæjar, eða einkaaðila um framkvæmd verkefna. Jafnframt getur nefndin tekið ákvörðun um að ráða sér starfsfólk vegna framkvæmdar verkefna og starfsfólk á skrifstofu nefndarinnar. Gerður er greinarmunur á starfsmönnum nefndarinnar sem vinna að framkvæmd verkefna nefndarinnar og þeim starfsmönnum sem nefndin kann að ráða á skrifstofu sína. Munurinn snýr að því að kostnaður vegna starfsmanna á skrifstofu nefndarinnar skal greiddur af ríkissjóði, sbr. 8. gr., en kostnaður vegna starfsmanna sem vinna að framkvæmd aðgerða byggist á tillögum nefndarinnar um fjármögnun verkefna og kostnaðarskiptingu ríkisins og sveitarstjórnar í aðgerðaáætlun nefndarinnar, sbr. 7. og 8. gr.
    Í 2. og 3. mgr. er mælt fyrir um að almennar stjórnsýslureglur, stjórnsýslulög og upplýsingalög skuli gilda um stjórnsýslu nefndarinnar en í þessu felst að ef framkvæmdanefnd gerir samninga við aðra aðila um framkvæmd verkefna sem fela í sér stjórnsýslu þá færast grundvallarreglur stjórnsýsluréttar yfir á viðkomandi aðila. Auk þess er gert ráð fyrir að tilfærsla verkefna til framkvæmdanefndar eigi ekki að hafa áhrif á kærurétt borgaranna þegar kemur að stjórnvaldsákvörðunum. Tilgangur málsgreinanna er að tryggja að réttarstaða borgaranna verði ekki lakari við það að framkvæmdanefnd feli öðrum að sinna þeim verkefnum sem hún ber ábyrgð á.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um heimild nefndarinnar til að fela einstökum nefndarmönnum, starfsfólki nefndarinnar eða öðrum þar til bærum aðilum fullnaðarafgreiðslu mála. Eins og áður hefur verið rakið er framkvæmdanefnd fjölskipað stjórnvald og getur því eingöngu tekið stjórnvaldsákvarðanir í sameiningu. Kann því að koma til þess að nefndin telji skilvirkara að ákveðin verkefni eða ákvarðanir verði falin einstökum nefndarmanni eða tilteknum starfsmönnum. Á það sérstaklega við ef til þess kemur að sveitarfélagið nýti sér heimild 5. gr. frumvarpsins og ákveður að fela nefndinni lögbundin verkefni sín í meiri mæli en kveðið er á um í 3. gr.
    Samkvæmt almennum reglum íslensks stjórnsýsluréttar hefur að jafnaði verið talið heimilt að framselja ákvörðunarvald yfirmanns eða yfirstjórnar til undirmanna eða þeirra sem lægra eru settir innan sama stjórnvalds. Til slíks innra valdframsals þarf því alla jafna ekki sérstaka lagaheimild. Á þessu eru þó ýmsar veigamiklar takmarkanir sem bæði kunna að leiða af lögum og eðli þeirra ákvarðana sem um ræðir. Um almenn sjónarmið að þessu leyti vísast til álits setts umboðsmanns Alþingis frá 8. maí 2009 í máli nr. 5408/2008 og Páls Hreinssonar: Stjórnsýsluréttur. Málsmeðferð. Reykjavík, 2013, bls. 232 og áfram. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að enginn vafi leiki á því að nefndinni sé heimilt að framselja vald sitt til einstakra nefndarmanna, starfsfólks nefndarinnar eða annara aðila sem sinna verkefnum fyrir hennar hönd. Ákvæðið á sér að einhverju leyti fyrirmynd í 42. gr. sveitarstjórnarlaga en sá munur er þó á að í þessu ákvæði er ekki gert ráð fyrir að mælt sé sérstaklega fyrir um opinbert framsal nefndarinnar. Þá er skilyrði 42. gr. sveitarstjórnarlaga, sem mælir fyrir um að ekki megi fela starfsmanni að taka ákvarðanir sem varða verulegan fjárhag sveitarfélagsins, ekki í þessu ákvæði. Getur framkvæmdanefnd því falið þeim aðilum sem taldir eru upp í ákvæðinu að taka ákvarðanir sem varða verulega fjármuni í því skyni að tryggja skilvirkni og hraða málsmeðferð. Rétt er þó að árétta að heimild í fjárlögum þarf að liggja fyrir vegna allra ákvarðana og aðgerða nefndarinnar, sbr. 5. mgr. 9. gr. frumvarpsins, og á það að sjálfsögðu einnig við um þá sem hafa hlotið heimild til fullnaðarafgreiðslu mála á grundvelli ákvæðisins.
    Í 5. mgr. er kveðið á um hvert skuli beina beiðni um endurupptöku máls skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eða á grundvelli ólögfestra reglna um endurupptöku ef nefndin hefur framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu málsins.

Um 6. gr.

    Ákvæðið geymir fyrirmæli um heimild framkvæmdanefndar til að afla nauðsynlegra upplýsinga frá stjórnvöldum eftir því sem þörf krefur vegna framkvæmdar ákvæða frumvarpsins, upplýsingamiðlunar o.fl. Talin er þörf á því að tryggja nefndinni, nái frumvarpið fram að ganga, aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem hún þarf til að rækja lögbundið hlutverk sitt. Ef nefndin hefur ekki slíka lagaheimild er hætt við að hún rekist fljótt á veggi vegna þagnarskyldu. Ávallt er þó gerð krafa um nauðsyn og þar með skýran tilgang og meðalhóf, og því ekki um óhefta heimild að ræða. Dæmi er um að stjórnvöldum séu fengnar lagaheimildir af þessu tagi, sjá t.d. 19. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005.


Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er lögð sú skylda á hendur framkvæmdanefndar að vinna að aðgerðaáætlunum til styttri og lengri tíma vegna þeirra verkefna sem munu falla undir hana. Í aðgerðaáætlun ber að gera grein fyrir þeim aðgerðum sem nefndin telur nauðsynlegt að ráðast í og þá skal lagt upp með að nefndin taki saman áætlaðan kostnað við aðgerðir. Ekki er fjallað frekar um form áætlana en ráðherra getur ef þörf krefur mælt nánar fyrir um hvernig aðgerðaáætlanir skulu úr garði gerðar í reglugerð, sbr. 9. gr. Er þó gert ráð fyrir farið verði reglulega yfir stöðu verkefna samkvæmt aðgerðaáætlunum og mælikvarða um árangur. Jafnframt er mikilvægt að árétta að framkvæmdanefndinni ber að vinna slíkar áætlanir í samræmi við stefnu og ákvarðanir ríkisstjórnar, sbr. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins, og að þær skuli taka mið af stöðu og þróun jarðhræringa á hverjum tíma. Verður það því lagt í hendur nefndarinnar að meta forsvaranleika og forgang aðgerða.
    Í ákvæðinu er nánar tiltekið hvaða verkefni nefndinni ber að vinna aðgerðaáætlanir um, en ekki er um tæmandi talningu að ræða. Því getur nefndin ákveðið að vinna áætlanir um önnur verkefni en talin eru upp í ákvæðinu, að því leyti sem þau snúa að starfssviði hennar. Ekki er gert ráð fyrir að fyrirframsamþykkt aðgerðaáætlana sé forsenda þess að framkvæmdanefndin taki við ábyrgð þeirra verkefna sem tilgreind eru í 3. gr. frumvarpsins en yfirfærsla þeirra verkefna mun eiga sér stað við gildistöku laganna, verði frumvarpið samþykkt. Framkvæmdanefndinni ber hins vegar að leggja mat á stöðu verkefnanna og gera aðgerðáætlun um þær aðgerðir sem lagt er til að ráðist verði í.
    Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að hafa skuli samráð við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar við gerð áætlana. Í því felst bæði að nefndin geti kallað eftir tillögum sveitarstjórnar og að sveitarstjórn geti kom á framfæri sínum sjónarmiðum við gerð áætlana. Einnig ætti nefndin að eiga samráð við sveitarstjórn um útfærslu tillagna en rétt er að skýrt komi fram, sbr. þau sjónarmið sem rakin eru í kafla 2.5 að í slíku samráði felst ekki að framkvæmdanefnd sé bundin af tillögum sveitarstjórnar. Ef sú staða kæmi upp að framkvæmdanefnd teldi ekki tilefni til að leggja til aðgerðir í samræmi við tillögur sveitarstjórnar væri rétt að geta þess sérstaklega í viðkomandi aðgerðaáætlun.

Um 8. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um kostnað nefndarinnar. Tekið er sérstaklega fram að kostnaður vegna launa nefndarmanna og skrifstofuhalds verði greiddur af ríkissjóði, þ.m.t. húsnæðiskostnaður og kostnaður vegna sérfræðiráðgjafar. Einnig greiðir ríkissjóður kostnað vegna starfsfólks sem nefndin kann að ráða til starfa á skrifstofuna, sjá einnig skýringar við 5. gr.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að framkvæmdanefnd skuli leggja fram tillögur um fjármögnum verkefna fyrir ráðherra á grundvelli aðgerðaáætlana sem nefndin vinni á grundvelli 7. gr. Í tillögum nefndarinnar skal einnig lögð til kostnaðarskipting á milli sveitarfélagsins og ríkisins og eftir atvikum einkaaðila vegna þeirra verkefna sem getið er í viðkomandi aðgerðaáætlun. Fyrir liggur að verkefni nefndarinnar munu varða sveitarfélagið Grindavíkurbæ og íbúa þess og í einhverjum tilvikum verður um að ræða lögbundin verkefni sveitarfélagsins. Það leiðir því af hlutverki og stöðu sveitarfélagsins að eðlilegt er að það taki þátt í fjármögnun verkefna nefndarinnar. Fjárhagsstaða Grindavíkurbæjar hefur hins vegar tekið miklum breytingum vegna náttúruhamfara og hefur það eðli málsins samkvæmt haft áhrif á tekjustofna sveitarfélagsins. Það liggur því ljóst fyrir að þörf er á aðkomu ríkissjóðs til að sinna þeim risastóru verkefnum sem sveitarfélagið stendur nú frammi fyrir. Til að skera úr um alla óvissu um fjármögnun verkefna er lagt til, eins og fyrr sagði, að framkvæmdanefnd leggi fram tillögu um hvernig kostnaðarskiptingu verkefna skuli háttað milli ríkisins og sveitarfélagsins. Þá er gert ráð fyrir að nefndin leggi jafnvel til að fjármögnun geti verið með öðrum hætti en með beinni aðkomu ríkissjóðs, t.d. með því að horfa til alþjóðlegra styrkja vegna hamfara, styrkja úr opinberum áætlunum, t.d. byggðaáætlun, samgönguáætlun, matvælastefnu o.s.frv., eða framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þá er einnig gert ráð fyrir að nefndin verði í samskiptum við einkaaðila um aðkomu þeirra að verkefnum nefndarinnar.
    Í 3. mgr. kemur fram að nefndin skuli við gerð tillögu að kostnaðarskiptingu m.a. taka mið af afstöðu sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar, fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvar ábyrgð á viðkomandi verkefni lá áður en verkefni var falið nefndinni. Í þessu felst að nefndin skuli eiga ríkt samráð við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar við gerð tillögu að kostnaðarskiptingu og að sjónarmið sveitarstjórnar skuli skipta veigamestu máli við gerð slíkrar tillögu. Þó ber nefndinni einnig að líta til þess hvort verkefnið sé lögbundið verkefni sveitarfélagsins, en eðlilegt verður að telja að sveitarfélagið taki ríkari þátt í fjármögnum slíkra verkefna. Þá ber nefndinni að horfa til fjárhagsstöðu Grindavíkurbæjar við mat á þátttöku sveitarfélagsins í fjármögnun verkefna. Ljóst er að horfur í rekstri bæjarins eru mjög neikvæðar vegna náttúruhamfaranna og ekki er því gert ráð fyrir að fjárhagsleg aðkoma Grindavíkurbæjar verði meiri en sveitarfélagið ræður við og þarf nefndin að horfa til þess í tillögugerð sinni. Í þessu samhengi er rétt að nefna að nefndinni er jafnframt veitt heimild til að kalla eftir gögnum frá Grindavíkurbæ, sbr. 6. gr., og ætti nefndin því að geta verið með góða yfirsýn yfir stöðu og horfur fjármála hjá sveitarfélaginu.
    Skv. 4. mgr. öðlast aðgerðaáætlanir framkvæmdanefndar gildi eftir samþykki ráðherra og verður Grindavíkurbær þá bundinn af samþykktri aðgerðaáætlun, þ.m.t. þeirri kostnaðarskiptingu sem þar er lögð til. Eins og rakið er að framan ber nefndinni að eiga ríkt samráð við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar við gerð kostnaðaráætlana, sbr. 7. gr. Í ljósi þess að nauðsynlegt er talið að veita framkvæmdanefnd skýrt umboð til aðgerða og að auka skilvirkni við ákvörðunartöku, sbr. m.a. sjónarmið sem rakin eru í kafla 2.5 er talið rétt að ráðherra geti með samþykki sínu á aðgerðaáætlun bundið sveitarfélagið við þá kostnaðarskiptingu sem lögð er til í áætluninni. Verður þá uppi sú staða að ríkið mun eiga lögvarða kröfu á hendur sveitarfélaginu um hlut þess í fjármögnum verkefna. Er þetta lagt til í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að skiptar skoðanir um kostnaðarskiptingu tefji framgang verkefna. Í þessu felst jafnframt að ráðherra verður ekki bundinn af tillögu framkvæmdanefndar um aðgerðaáætlun eða kostnaðarskiptingu ríkisins og Grindavíkurbæjar og getur hann þar af leiðandi gert þær breytingar á tillögu nefndarinnar sem hann telur nauðsynlegar til að aðgerðaáætlunin nái þeim markmiðum sem að var stefnt með frumvarpinu. Hins vegar ber ráðherra, sbr. skýringar við 3. mgr. ákvæðisins, að horfa til sjónarmiða sveitarstjórnar Grindavíkurbæjar vegna tillagna um kostnaðarskiptingu og er því gert ráð fyrir að það muni heyra til undantekninga að ráðherra samþykki tillögu um kostnaðarskiptingu í andstöðu við vilja sveitarstjórnarinnar. Rétt er að nefna að tillaga nefndarinnar að kostnaðarskiptingu, þar sem fjallað er um aðkomu einkaaðila að verkefnum nefndarinnar, bindur ekki einkaaðila heldur fer um aðkomu og ábyrgð þeirra eftir þeim almennu reglum sem um verkefnið gilda.
    Í ljósi þess hve mikil óvissa ríkir um verkefni nefndarinnar er í 5. mgr. sérstaklega kveðið á um að nefndinni sé ekki heimilt að sinna verkefni nema fjármögnun sé tryggð. Í þessu felst að ráðherra ber að ganga úr skugga um að fjárheimild sé til staðar áður en hann samþykkir aðgerðaáætlun. Er þar átt við heimild í fjárlögum, fjáraukalögum, í gegnum almenna varasjóði eða með öðrum hætti, sjá nánar skýringar við 2. mgr. ákvæðisins. Þrátt fyrir framangreint er ekki gert ráð fyrir að fyrirframsamþykkt fjármögnun sé forsenda þess að framkvæmdanefndin taki við þeim verkefnum sem tilgreind eru í 3. gr. frumvarpsins en yfirfærsla þeirra verkefna mun eiga sér stað við gildistöku fyrirhugaðra laga, nái frumvarpið fram að ganga. Gert er ráð fyrir að framkvæmdanefndin leggi mat á stöðu verkefnanna, geri aðgerðáætlun um þær aðgerðir sem lagt er til að ráðist verði í og tryggi í kjölfarið fjármögnun þeirra.


Um 9. gr.

    Í ákvæðinu er að finna reglugerðarheimild sem lýtur m.a. að skipan og starfsháttum framkvæmdanefndar. Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð megi setja reglur um hvernig tilnefningu nýrra nefndarmanna í framkvæmdanefnd skuli háttað, svo sem vegna forfalla stjórnarmanna, skorts á hæfi eða getu til að rækja störf sín eða sambærilegra atvika eða aðstæðna. Þá er gert ráð fyrir að hægt verði að mæla fyrir um nánari útfærslu á framkvæmd verkefna sem talin eru upp í 1. mgr. 3. gr. svo að enginn vafi leiki á um starfssvið nefndarinnar. Þá ber að kveða á um þau verkefni sem ráðherra hefur falið nefndinni samhæfingarhlutverk á grundvelli 2. mgr. 3. gr. gr. Auk þess er hægt ef þörf krefur að mæla nánar fyrir um form og efni aðgerðaáætlana framkvæmdanefndar skv. 7. gr.

Um 10. gr.

    Í gildistökuákvæði frumvarpsins er lagt að lögin taki gildi 1. júní 2024. Er þetta lagt til svo að framkvæmdanefnd verði gefið hæfilegt svigrúm til að undirbúa móttöku verkefna.
    Þar sem töluverð óvissa ríkir um framvindu mála í Grindavík er rétt að framkvæmdanefnd sem ráðherra setur á fót á grundvelli ákvæða frumvarpsins verði markaður hæfilega langur starfstími til að hún hafi nægt svigrúm til að ná utan um verkefnin og koma þeim í traustan farveg. Því er lagt til að ákvæði frumvarpsins falli úr gildi 15 dögum eftir sveitarstjórnarkosningar 2026, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem mælir fyrir um að ný sveitarstjórn taki við störfum 15 dögum eftir kjördag almennra sveitarstjórnarkosninga. Af fyrirhuguðu brottfalli laganna leiðir að lagagrundvöllur fyrir umboði framkvæmdanefndar mun líða undir lok og færast verkefni hennar þá sjálfkrafa aftur til sveitarstjórnar og annarra hlutaðeigandi stjórnvalda, eftir því sem við á. Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra geti tekið ákvörðun um að leggja framkvæmdanefndina niður eftir að ákveðið hefur verið að koma henni á fót.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að frá samþykkt laganna verði ráðherra heimilt að skipa nefndarmenn skv. 2. gr. og nefndinni verði heimilt að hefja undirbúning að flutningi verkefna.

Um 11. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að kjörgengi í bæjarstjórn Grindavíkurbæjar og nefnda, ráða og stjórna sveitarfélagsins sé ekki háð því að kjörinn fulltrúi sé með skráð lögheimili í sveitarfélaginu. Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í Grindavíkurbæ er talin ástæða til að víkja frá þessu skilyrði fram til sveitarstjórnarkosninga árið 2026 til að tryggja starfhæfi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.